Iðnaðarframleiðsla í kreppu

Nú hefur hryggjarstykkið í illa ígrundaðri orkustefnu Þýzkalands og þar með Evrópusambandsins (ESB) verið sprengt í sundur í bókstaflegri merkingu og verður líklega aldrei sett saman aftur, því að sjór mun flæða inn í lagnirnar og tæra þær.  Þar með er í vissum skilningi líftaugin á milli Rússlands og Þýzkalands brostin, en margir Þjóðverjar sáu hana bæði sem leið til að láta sár gróa eftir hildarleik og blóðugustu bardaga Síðari heimsstyrjaldarinnar á Austurvígstöðvum Þriðja ríkisins og illvirki á báða bóga, þar sem tilraun var gerð til að brjóta rússneska heimsveldið á bak aftur, og til eflingar viðskipta, sem væru báðum í hag. Rússneski björninn trúr útþensluhefð sinni undi hins vegar ekki því, að frelsisandi þjóðanna, sem brutust undan veldi hans við fall kommúnismans 1989-1991, fengi að blómstra. Nú er aftur barizt á banaspjótum í Úkraínu og hermdarverk framið úr kafbáti á botni Eystrasalts í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar.  Það mun draga dilk á eftir sér.  Sá, sem það framdi, lagði grunninn að átökum Austurs og Vesturs, sem lykta mun með falli annars eða beggja. Ragnarök eru í vændum. 

Nú reynir mjög á þolrif Evrópuþjóðanna vegna dýrtíðar, samdráttar hagkerfa og líklegu vaxandi atvinnuleysi, sem við þessar aðstæður getur leitt til gjaldþrots margra fyrirtækja og fjölskyldna. Ofan í þessa stöðu var afar athyglivert að heyra haft eftir kanzlara Þýzkalands, kratanum Olaf Scholz, að nú þætti þýzku ríkisstjórninni brýnt til varnar frelsi Evrópuríkjanna, að þýzki herinn yrði sá stærsti og bezt vopnum búni í Evrópu. Það hefur gerzt áður, en undir öðrum formerkjum, en alltaf er ógnin úr austri undirtónninn.  

Skyldi Litla-Napóleóni í Elysée-höllinni ekki hafa svelgzt á, þegar hann frétti þetta ?  Það er gefið í skyn, að Evrópumenn verði að taka á sig auknar hernaðarlegar byrðar, því að Bandaríkjamenn muni í náinni framtíð þurfa að einbeita sér að Kyrrahafinu og að aðstoða Taiwan-búa við varnir eyjarinnar.  Eftir þessa tímamótayfirlýsingu kanzlarans ætti hann að veita Græningjanum á stóli utanríkisráðherra og landvarnaráðherranum nauðsynlegan stuðning, svo að hinn vaxandi þýzki her veiti nú úkraínska hernum allan þann hernaðarstuðning, sem hann má og rúmast innan samþykkta NATO.  Sá stuðningur felur í sér öflugustu þungavopn Bundeswehr á borð við Leophard 2 bryndrekann og loftvarnakerfi. Vesturveldin hljóta líka að drífa í afhendingu Patriot-loftvarnakerfisins til Úkraínu. 

Þótt sverfi að Evrópuþjóðunum er það hátíð ein hjá því helvíti, sem Rússlandsstjórn og rússneski herinn hafa leitt yfir úkraínsku þjóðina. Þess vegna má ekki láta deigan síga í allra handa stuðningi við úkraínsku þjóðina, sem úthellir blóði sínu fyrir frelsi sitt og frelsi allrar Evrópu.

Iðnaðarframleiðsla dregst nú saman í Evrópu, og er þar bílaiðnaðurinn ekki undanskilinn.  Spurn eftir rafmagnsbílum í Evrópu hefur hríðfallið, af því að nú er rafmagnið á bílana dýrara en jarðefnaeldsneyti m.v. sömu akstursvegalengd.  Byggingariðnaðurinn er líka í lamasessi, og af þessum ástæðum hefur spurn eftir áli minnkað tímabundið og þar með álverð á LME-markaðinum í Lundúnum.  Það berast hins vegar engar fregnir af fyrirætlunum álveranna þriggja hérlendis um að draga saman seglin, enda er LME-verðið nú um 2100 USD/t Al og spáð hækkandi á næsta ári.  Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem einvörðungu framleiðir sérpantaða vöru (ekkert selt til endurbræðslu), fær hærra verð en skráð LME-verð. 

Þann 21. september 2022 skrifaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, atvinnulífsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

 "Af orkuskorti, álframleiðslu og kolefnisspori".

Hún endaði þannig:

"Evrópsk álframleiðsla nær ekki að standa undir helmingi af eftirspurn eftir áli í Evrópu.  Ísland og Noregur eru stærstu álframleiðendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, en alls er framleitt ál í 15 Evrópulöndum, þ.á.m. Þýzkalandi og Frakklandi.  Hér á landi búa álver við langtímasamninga, sem dregur úr sveiflum og áhættu bæði fyrir álver og innlend orkufyrirtæki. Hagstætt álverð hefur skilað viðsnúningi í rekstri íslenzkra álvera , og hafa orkufyrirtækin einnig notið góðs af því, en þau hafa skilað metafkomu síðustu misserin. 

Á síðasta ári [2021] voru útflutningstekjur íslenzks áliðnaðar um mrdISK 300 eða fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.  Þar af nam innlendur kostnaður álvera mrdISK 123, en áætla má, að um helmingur af því hafi farið í orkukaup.  Keyptar voru vörur og þjónusta fyrir mrdISK 35 af hundruðum innlendra fyrirtækja, laun og launatengd gjöld námu yfir mrdISK 20 til 1´500 starfsmanna, en alls eru bein og óbein störf um 5´000.  Þá námu opinber gjöld mrdISK 3,4 og styrkir til samfélagsmála yfir MISK 100.  E.t.v. er mest um vert, að losun á hvert framleitt tonn hér á landi er margfalt minni en í Kína, sem framleiðir yfir helming af öllu áli í heiminum.  Það munar um íslenzkan áliðnað."

Eftir því sem álframleiðsla á meginlandi Evrópu og í Bretlandi dregst saman vegna ósamkeppnishæfrar orkuvinnslu, eykst mikilvægi íslenzkrar álframleiðslu fyrir evrópskan markað.  Staða orkumála í Noregi er um þessar mundir óbjörguleg vegna þess, að raforkuframleiðendur hillast til að flytja raforkuna út um öfluga sæstrengi vegna svimandi hárrar verðlagningar á meginlandinu og Bretlandi.  Þar með fá verksmiðjur Noregs enga raforku utan langtímasamninga, og hefur það leitt til framleiðslusamdráttar, t.d. hjá Norsk Hydro.  Þessi staða mun halda áfram, þar til jafnvægi næst aftur á milli framboðs og eftirspurnar raforku, eða þar til Norðmenn taka orkumálin í eigin hendur og láta innlenda raforkukaupendur njóta forgangs umfram erlenda, en það er bannað í Orkupakka 3, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, minnti Norðmenn á það, þegar umræða fór fram um það í Stórþinginu. 

Núverandi staða raforkumálanna í Noregi gengur þvert á hefðbundna afstöðu norsku þjóðarinnar til orkulindanna, sem er sú, að þær séu í þjóðareign, og norska ríkið eigi að geta beitt fullveldisrétti sínum til að stjórna nýtingu þeirra.  Stjórnvöld Noregs hafa villzt af þeirri leið, sem mótuð var í upphafi, að miða raforkuverð frá virkjun við verðmæti vatnsins í miðlunarlónunum, sem er útreiknað eftir vatnsmagni og árstíma, þ.e. líkum á og kostnaði af völdum tæmingar að vori, ásamt hæfilegum hagnaði til að standa undir fjárfestingum.  Árið 1993 var vikið frá þessari þjóðlegu stefnu og stofnað dótturfélag Statnetts, þeirra Landsnets, sem átti að stjórna raforkukauphöll, þar sem heildsöluverðið réðist af framboði og eftirspurn.

Nú er Landsnet statt í þessum sporum, en Norðmenn gengu enn lengra og seldu téð dótturfyrirtæki Statnetts til fjölþjóðlegrar orkukauphallar, Nord Pool.  Síðan var rekinn endahnúturinn á valdaafsal norska ríkisins yfir orkulindunum með samþykki Stórþingsins 22. marz 2018 um innleiðingu ESB-orkulöggjafarinnar, sem gengur undir nafninu Orkupakki 3, og felur ACER-Orkustofu ESB, stjórnun millilandaviðskipta á raforku.  Þessi óheillaþróun hefur leitt til mikillar dýrtíðar í Noregi og kippt fótunum undan samkeppnisstöðu hluta norsks atvinnulífs.  

Hvers vegna í ósköpunum er Landsnet nú að feta þessa óheillabraut ?  Rafmagn er undirstaða afkomu almennings í landinu, og landsmenn þurfa nú sízt á að halda afætuvæðingu í þessum geira, sem gera mun rafmagn að viðfangsefni kaupahéðna, sem fá aðstöðu til að maka krókinn án nokkurra verðleika til verðmætasköpunar.  Steininn tekur úr, þegar allt þetta umstang er sett á laggirnar undir merkjum hagsmuna almennings.  Þetta kerfi er svikamylla, sem malar ekki gull, heldur hrifsar það úr sjóðum fyrirtækja og heimila.  Vítin eru til þess að varast þau.

 


Bloggfærslur 3. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband