27.11.2022 | 10:05
Sitt sýnist hverjum um vindmyllur
Framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun reit grein í Morgunblaðið þann 3. nóvember 2022 og upplýsti þar lesendur blaðsins um, að "á dögunum" hefði Landsvirkjun sent Orkustofnun umsókn sína um virkjunarleyfi vinds með vindmylluþyrpingu, sem fyrirtækið nefnir Búrfellslund og á að verða 120 MW að uppsettu afli (á að gizka 30 vindmyllur). Það er ankannalegt, að þetta ríkisfyrirtæki skuli ríða á vaðið með þrýsting á yfirvöld orkumála um leyfi til að reisa og reka vindmylluþyrpingu á landinu áður en boðuð löggjöf um slík mannvirki lítur dagsins ljós.
Landsvirkjun beitir fyrir sig röksemdum um, að afl- og orkuskortur hrjái landsmenn nú þegar, sem er alveg rétt, og hann mun fara versnandi með hverju árinu, sem líður án nýrrar, áreiðanlegrar virkjunar, eins og Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá, inn á netið. Landsvirkjun segir þó ekki alla söguna í þessum efnum, því að mest knýjandi þáttur vandans er aflskorturinn, og það er ekki hægt að reiða sig á vindmylluþyrpingu til að standa undir toppálagi stofnkerfisins.
Að ríkisfyrirtækið skuli réttlæta hæsta fórnarkostnað á MWh á formi landspjalla í samanburði við þá kosti jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana, sem fyrirtækið hefur úr að spila, er óverjandi. Ríkisfyrirtækið bítur síðan hausinn af skömminni með því að setja virkjanakost með hæsta vinnslukostnað raforku í ISK/kWh á oddinn. Allt þetta brölt Landsvirkjunar er ógæfulegt, því að það rýrir orðspor þess sem vistvæns orkufyrirtækis og rýrir arðsemi þess eða veldur aukinni hækkunarþörf á heildsöluverði raforku til almenningsveitna.
Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, fékk birta grein eftir sig í Morgunblaðinu 3. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:
"Við þurfum vind fyrir orkuskiptin".
Þar fór hann m.a. nokkrum orðum um rafmagnsskortinn í landinu, sem er í sjálfum sér þungur áfellisdómur yfir orkuyfirvöldum og orkustefnu landsins. Orkustofnun sefur á 17 mánaða gamalli virkjunarumsókn Landsvirkunar vegna Hvammsvirkjunar, en þess verður ekki vart, að orkuráðherrann ýti við orkumálastýrunni, svo að hún vakni til raunveruleikans. Skyldu fundir hennar með ACER (Orkustofu ESB) nokkuð fjalla um afköst Orkustofnunar við afgreiðslu virkjanaleyfa á tíma, þegar Evrópa er í orkusvelti ?:
"Skortur á raforku er orðinn hamlandi þáttur fyrir eðlilega atvinnustarfsemi í landinu, jafnvel þótt þörfin vegna orkuskipta sé ekki tekin með í reikninginn. Skerða þurfti orkusölu til fjölmargra notenda síðasta vetur [2021-2022], þar sem ekki var til nægileg orka í samfélaginu til að uppfylla þarfir þeirra."
Vatnshæð Þórisvatns er nú um 3 m hærri en á sama tíma í fyrra, en samt undir meðaltali. Vatnshæð Hálslóns er svipuð og að meðaltali. Það er líklegt, að atvinnuvegirnir og fjarvarmaveiturnar losni við álagsskerðingar næsta vetur, en það er þó ekki öruggt, af því að það vantar aflgetu í kerfið. Það er villandi af Landsvirkjun að láta í það skína, að vindmylluþyrpingar séu lausn á þessari knöppu stöðu, einfaldlega af því að það er ekki á vísan að róa með aflgetu vindmylla. Það er ekki hægt að selja afl frá vindmylluþyrpingu fram í tímann, nema sem ótryggt afl með skerðingarheimild. Þess vegna er alvarlegt afl- og orkuástand í landinu núna engin röksemd fyrir yfirvöld til að þjófstarta vindmylluverkefnum. Yfirvöldin eiga hins vegar að hrista af sér slenið og greiða leið annarra umsókna um virkjanaleyfi.
Í lokin skrifaði Einar:
"Ef við ætlum að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti fyrir árið 2030, er okkur ekki til setunnar boðið. Í orkugeiranum verður að hugsa til langs tíma, enda er undirbúningur og bygging virkjana tímafrekt verkefni, sem talið er í árum. Ef allt gengur að óskum, verður í fyrsta lagi mögulegt að tengja Búrfellslund við raforkukerfið í árslok 2025."
Markmið íslenzkra yfirvalda um minnkun losunar koltvíildis hefur alla tíð skort raunsæi, og nú er nokkuð ljóst, að engri þjóð mun takast að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu 2015, og fáir taka þetta orðagjálfur stjórnmálamanna alvarlega lengur. Nú er viðfangsefni margra að lifa veturinn af með góðu eða illu, og margir grípa þá til óhollrar viðarkyndingar. Hérlendis ætti ríkisfyrirtæki ekki að ganga á undan með illu fordæmi um að spilla víðernum með miklum fórnarkostnaði í samanburði við ávinninginn með þeim rökum að ná þurfi loftslagsmarkmiðum, sem þegar eru komin í vaskinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)