Gjaldskrá dreifiveitna ríkisins þarfnast úrbóta

Það er ófært, að dreifiveitur, sem eru með einokunarleyfi, mismuni íbúum þéttbýlis og dreifbýlis á grundvelli mannfjölda á sama dreifiveitusvæði.  Ríkisveiturnar RARIK og Orkubú Vestfjarða gera þetta og miða við 200 manns, en HS Veitur láta ekki þessa ósvinnu líðast á sínum veitusvæðum í svipuðum mæli.  Úr ríkissjóði er varið fé til að jafna mikinn mun innan dreifiveitnanna, en samt munar um 1,7 ISK/kWh eða 33 % gjaldskrá orku á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður nú að gera gangskör að því að laga þetta í anda baksviðsgreinar Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

"Erfitt að byggja upp í dreifbýli".

Hún hófst þannig:

"Ef menn vilja hafa gjaldskrá RARIK áfram, eins og hún er, er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að byggja ekki upp í dreifbýli.  Í gjaldskránni felst þéttbýlisstefna, andstæðan við dreifbýlisstefnu.  Þetta er skoðun Gunnlaugs Karlssonar, framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna og stjórnarmanns í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði."

Í ljósi þess, að við blasir, að þessi dapurlega ályktun Gunnlaugs er rétt, lýsir það óviðunandi slappleika núverandi og fyrrverandi orkuráðherra og andvaraleysi Alþingis í varðstöðu þess um jafnrétti landsmanna og jöfn tækifæri, að enn skuli viðgangast stórfelld mismunun af hálfu ríkisfyrirtækja gagnvart íbúum landsins eftir því, hvort þeir eða atvinnustarfsemi þeirra er staðsett, þar sem búa fleiri eða færri en 200 manns. 

Það er auðvitað líka ótækt, að færsla dreifikerfa úr lofti í jörð samhliða þrífösun sveitanna bitni á kostnaði dreifbýlisins til hækkunar við rafmagnsnotkun.  Afnám loftlína dreifikerfanna er sjálfsögð ráðstöfun til að jafna afhendingaröryggi raforku við þéttbýli, og þrífösun sveitanna er sjálfsagt réttlætismál, um leið og það er hagsmunamál sveitanna. 

"Gunnlaugur segir, að óréttlætið í gjaldskrá RARIK einskorðist ekki við garðyrkjuna, heldur alla starfsemi í dreifbýli á starfssvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða og starfsemi, sem áhugi sé á að byggja þar upp. Hann bendir á, að mikill uppgangur sé í ferðaþjónustu um allt land og þörf á fjárfestingum í gistiplássi.  Gagnaver séu að byggjast upp og stækka sem og landeldi á laxi og tengd starfsemi.  Þá sé þörf á orkuskiptum í landinu.  Spyr hann, hvernig hægt sé að réttlæta það, að sá, sem hlaða vill rafmagnsbílinn sinn í Staðarskála þurfi að greiða hærra gjald en ef hann gerir það á Akureyri.  Fleira mætti nefna, kornþurrkun og bakarí eru dæmi, sem Gunnlaugur nefnir til viðbótar.  Með núverandi fyrirkomulagi sé meginhluti flatlendis Íslands útilokaður frá uppbyggingu af þessu tagi.  Öllu sé stefnt í þéttbýlið, sem ekki taki endalaust við." 

Ríkisdreifiveitur rafmagns ættu þegar í stað að hefja undirbúning að afnámi tvískiptingar gjaldskráa sinna fyrir afl og orku eftir fjölmenni á staðnum, þ.e. sameiningu almennrar  gjaldskrár fyrir afl og orku og síðan aðgreiningu eftir skerðingarheimild, tíma sólarhringsins og orkumagni í viðskiptum.  Ef heimtaug er yfir ákveðnum mörkum að stærð og lengd, sé jafnframt heimild til álagningar viðbótar stofngjalds. 

Ef tregða reynist hjá fyrirtækjum og/eða ráðuneyti orkumála að hefja þetta starf strax, grípi Alþingi inn með viðeigandi þingsályktun. Alþingi á ekki að láta þetta sleifarlag á sjálfsagðri umbót í sanngirnisátt viðgangast lengur. Hvað er grasrótarráðherrann í orkuráðuneytinu að dóla.  Grasrótardálæti hans var reyndar ekki fyrir að fara á deilunum um Orkupakka 3, sem hann tróð öfugum ofan í grasrótina í Sjálfstæðisflokkinum.  Orð og efndir fara ekki saman hjá þessum fallkandidati í formannskjöri á Landsfundi í nóvember 2022. 

Að lokum sagði í þessari þörfu baksviðsfrétt Morgunblaðsins:

"Vegna úreltrar skiptingar landsins í gjaldsvæði er engin starfsemi, sem þarf umtalsverða raforku, byggð upp, nema hægt sé að koma því við í þéttbýli, að sögn Gunnlaugs.  Þar eru ýmis vandkvæði vegna skipulags og íbúðabygginga. 

Gunnlaugur segir, að ráðamenn virðist ekki átta sig á afleiðingum þessarar gjaldskrárstefnu og kominn tími til, að þeir og fulltrúar í sveitarstjórnum setji sig inn í þessi mál og bregðist við.  Hann nefnir sem möguleika að skipuleggja græna iðngarða, eins og gert er í Noregi.  Það hefði þá kosti, að til væri skipulagt svæði, sem myndi gefa fyrirtækjum kost á að hefja uppbyggingu fyrr en ella. Eins þyrftu gjaldskrár rafmagns, hitaveitu og vatnsveitu að vera þær sömu, hvar sem iðngarðarnir væru staðsettir, og taka aðeins mið af raunkostnaði við að flytja orkuna [og vatnið] þangað. [Rekstrarkostnaðarmun, sem eru aðallega meiri orkutöp og dælukostnaður vatns, á einfaldlega að fella inn í sameiginlega gjaldskrá - innsk. BJo.]

Önnur lausn á málinu er að afnema sérleyfi RARIK og Orkubús Vestfjarða til að dreifa orku raforku í dreifbýli og gefa dreifinguna frjálsa, eins og raforkusalan sjálf er nú þegar."  

S.k. ráðamenn hafa fæstir skilning á afleiðingum ráðstafana sinna, tilskipana og reglugerða, fyrir atvinnulífið, enda eru þeir þá úr öðrum jarðvegi komnir.  Hér snýst málið hins vegar um það einfalda meginatriði, að ríkisvaldið og fyrirtæki ríkisins mismuni ekki íbúum landsins eftir búsetu.  Sama dreififyrirtæki á að vera óheimilt að beita mismunandi gjaldskrám eftir staðsetningu viðskiptavinar, sem getur ekki leitað annað um viðskipti. Ef fyrirtæki þrjózkast við að verða við þessu, á að svipta það einokunarleyfinu.    


Bloggfærslur 30. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband