Gjaldþrota kratísk hugmyndafræði á fjármálamarkaði

Um 20. október 2022 beindust sjónir manna að herfilegum kratískum fjármálagjörningum Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra 1998, og síðan töfrabrögðum Framsóknarmanna á borð við Guðmund Bjarnason, sem annar Framsóknarmaður seldi fjölmiðlum undir heitinu "allir græða".  Hér er auðvitað átt við Íbúðalánasjóð, sem um tíma var umsvifamikið ríkisapparat á fjármálamarkaði. 

Raunar eru persónur og leikendur aukaatriði í þessu máli.  Aðalatriðið er að draga þann lærdóm af því, að ríkisvaldið er ófært um að reka fjármálastarfsemi á heilbrigðan hátt á samkeppnismarkaði og ætti að draga sig að mestu út af þeim markaði, þótt fallast megi á til málamiðlunar að halda 35 % - 55 % eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, ef ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkir slíka þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði.  M.ö.o. á að selja Íslandsbanka allan, þegar aðstæður þykja heppilegar, enda hefur ríkissjóður hagnazt á þeim sölum, sem þegar hafa farið fram á hlutum í bankanum, og ríkissjóð bráðvantar fé til að fjárfesta í innviðum landsins, sem gefa meiri arðsemi en ríkisbankar að jafnaði. 

Íbúðalánasjóður kom í heiminn sem kosningaloforð, yfirboð, og er það afleit byrjun fyrir fjármálastofnun.  Stjórnendur og ráðgjafar þar á bæ litu stórt á sig, en voru raunverulega algerlega utan gátta um hlutverk og stöðu þessarar fjármálastofnunar ríkisins, eins og eftirfarandi bútur úr bréfi (alger steypa) Íbúðalánasjóðs til Ríkisendurskoðunar sýnir:

"Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu, og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans.  Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa.  Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán.  Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða.  Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki, sem sjóðnum er að lögum falið."

Stjórnendur sjóðsins reiddu ekki fjármálavitið í þverpokum, og þarna er óhönduglega farið með lögin.  Á markaði ber engum aðila skylda til þess að lögum að stjórna "langtímavaxtastigi" í landinu. Þarna á sér stað "skapandi lagatúlkun" á ábyrgð forstjóra Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana.  Bæði fjármálaþekkingu og lagaþekkingu var ábótavant hjá þessari ríkisstofnun, og það er dæmigert, þegar um gæluverkefni stjórnmálamanna er að ræða. Þeir eiga ekki að koma nálægt samkeppnisrekstri á neinu sviði í samfélaginu.   


Bloggfærslur 7. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband