20.12.2022 | 11:09
Ófullnægjandi stjórnsýsla
Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.
Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár. Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu.
Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni. Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta.
Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:
"Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".
Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast. Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.
Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.
Í téðum Staksteinum stóð m.a.:
"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."
Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur. Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ? Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki.
"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki. Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."
Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu. Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar. Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi. Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram. Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum. Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt.
Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim. Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti.
"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn. Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar. Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."
Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag. Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna.
Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ? Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum. Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós. Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)