Fyrsti innlendi ráðherrann

Heimastjórnin 1904 markaði meiri þáttaskil en sú stjórnkerfisbreyting í Danaveldi ein og sér gaf tilefni til að ætla, að verða mundi.  Ástæða þess var einfaldlega sá mannkostamaður af íslenzku bergi brotinn, sem til starfans valdist.  Hetjuljómi hefur leikið um manninn Hannes Hafstein, fyrsta ráðherrann með skrifstofu í gamla og íburðarlausa stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, í huga höfundar þessa vefpistils, síðan hann á æskuárum sínum réðist í að lesa viðamikið nýútkomið ævisögurit þessa manns, sem hann hafði kynnzt örlítið við að vera látinn læra nokkur kvæða hans utanbókar í barnaskóla.

Við lestur ágætrar yfirlitsgreinar nafna hans, Hólmsteins Gissurarsonar og frænda þessa höfundar um ættir Vatnsdælinga í A-Húnavatnssýslu, í Morgunblaðinu 13. desember 2022, rifjuðust upp kynnin af þessu glæsi- og gáfumenni.

Hannes Hafstein skildi vel, hvað þjóð hans þurfti mest á að halda, og með skáldlegu innsæi sínu hefur hann vafalaust skynjað, hvílíka ofurkrafta yrði hægt að beizla með þjóðinni, ef hún aðeins fengi þau tækifæri, sem dygðu til atvinnuuppbyggingar.  Tvennt þurfti til að virkja þessa krafta: erlent fjármagn (innlent var ekki til í teljandi mæli) og verktæknilega þekkingu. Hann lagði grunn að hvoru tveggja með því að laða erlent fjárfestingarfjármagn til landsins, og hann lagði grunn að verklegum framförum í landinu á sviði veitna, vega- og brúargerðar með því að skipa Jón Þorláksson, Landsverkfræðing, 1905. 

Jón Þorláksson fæddist á Vesturhólum í V-Húnavatnssýslu.  Hann var einn nánasti og eindregnasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein á Heimastjórnarárunum, 1904-1918.  Nú verður vitnað í téða grein Hannesar Hólmsteins:

  "Stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein":

"En það var eins og ný tíð gengi í garð árið 1904, þegar það gerðist hvort tveggja, að Íslendingar fengu heimastjórn og að nýr banki tók til starfa, Íslandsbanki, sem átti ásamt Landsbankanum eftir að fjármagna vélvæðingu fiskiskipaflotans. 

Fyrir einstaka tilviljun varð nú fyrsti íslenzki ráðherrann skáldið, sem hafði ort hvað bezt um framfaraþrá þjóðarinnar, Hannes Hafstein.  Í dag er þess minnzt, að 100 ár eru liðin frá láti hans.  Jafnvel heitir andstæðingar Hannesar viðurkenndu á sinni tíð, að hann væri ekki aðeins snjallt og rismikið skáld, heldur líka glæsimenni, sem væri geðfelldur í viðkynningu, vinmargur og vinsæll og kynni að koma virðulega fram fyrir Íslands hönd.  

Honum var hins vegar stundum brugðið um að hafa ekki aðra hugsjón en eigin frama.  Því fór þó fjarri.  Hannes stóð traustum fótum í íslenzkri stjórnmálaarfleifð og hafði til að bera sterka sannfæringu, þótt vissulega væri hún milduð af eðlislægri sáttfýsi og langri reynslu."

Vissulega var Hannes Hafstein hugsjónamaður og meginhugsjón hans var sú að bæta hag íslenzku þjóðarinnar með hjálp nútíma tækni og erlends fjármagns.  Þetta varð síðan meginþema framfarasinna hérlendis alla 20. öldina, og auðvitað mátti hann kljást við ýmiss konar dragbíta, en hann áorkaði samt viðamiklu verki í samstarfi við Landsverkfræðing sinn og marga aðra, sem sáu, hvað þurfti að gera og fundu út, hvernig ætti að gera það.  Ekki vantar heldur dragbíta á framfarir 21. aldarinnar, og þeir klæðast margir dulargervi landverndar og heimsendaspámennsku á grundvelli rangs mats á hlýnun andrúmslofts, eins og menn geta séð, ef þeir fletta upp á "Dr John Christy, director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Centre, ESSC". 

"Hannes Hafstein var umfram allt þjóðrækinn og frjálslyndur framfarasinni.  Í minningargrein sagði einn nánasti samstarfsmaður hans, Jón Þorláksson, forsætisráðherra:

"Grundvallarhugsun Hannesar Hafstein í sambandsmálinu hygg ég hafa verið þá, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni."" 

Þarna er vel að orði komizt, og Jón Þorláksson mátti trútt um vita hugarþel síns nána samverkamanns.  Þarna kemur vel fram, hversu raunsær og mikill raunhyggjumaður Hannes Hafstein var.  Hann notaði þó  skáldlega andagift sína til að vísa sér leið, en síðan raunsæið til að komast sem hraðast áfram og sem lengst.  Hann vildi ekki ganga svo langt í sjálfstæðismálinu, að Danir gæfu Íslendinga upp á bátinn.  Hann vildi einfaldlega nýta verkþekkingu þeirra og markaðsþekkingu til hagsbóta fyrir landslýð, á meðan honum yxi fiskur um hrygg í efnalegu tilliti.

  Þetta minnir dálítið á þróun virkjanatækninnar í landinu á 20. öldinni.  Fyrir utan virkjanir bæjarlækjanna var hönnun og verkstjórn að mestu í höndum fyrirtækja á Norðurlöndunum og annars staðar fram að og með Búrfellsvirkjun, en með henni urðu umskipti í verklegum efnum á þessu sviði, og verksmiðjan, sem hún knúði, ISAL í Straumsvík, markaði líka þáttaskil í tæknilegum efnum á iðnaðarsviðinu.

  Hannes Hafstein var tvímælalaust frumkvöðull í hópi stjórnmálamanna um þróun íslenzkra atvinnuvega inn í nútímann. Það, sem gerðist í þeim efnum á 20. öldinni, var afrek á evrópskan mælikvarða og þótt víðar væri leitað. 

"Hannes vildi, að Íslendingar væru vinir annarra þjóða, ekki sízt viðskiptavinir þeirra, en hann vildi ekki, að þeir væru þegnar þessara þjóða, heldur skyldu þeir ráða eigin málum, vera fullvalda þjóð.  En sú fullvalda þjóð gat ekki lifað á munnvatni og fjallagrösum, heldur þurfti hún erlent fjármagn til að nýta kosti lands og sjávar.  Haga varð því málum hyggilega, laða útlendinga að í stað þess að fæla þá frá."

Þetta er hverju orði sannara, og þetta varð pólitísk arfleifð þeirra baráttufélaganna, Hannesar Hafstein og Jóns Þorlákssonar.  Jón Þorláksson varð árið 1929 formaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá var stofnaður við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan tímann staðið vörð um þetta grundvallarstef í framfarasókn þjóðarinnar. Framfarasóknin tafðist mikið í Kreppunni miklu á 4. áratugi 20. aldarinnar, þegar Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur komu á haftabúskap, sem varði hér lengur en í nokkru öðru lýðræðisríki Evrópu, og þjóðin var ekki leyst úr viðjum viðskiptahaftanna fyrr en Viðreisnarstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins komst hér til valda 1959. 

Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, forveri vinstri grænna og Samfylkingar, börðust t.d. hatrammlega gegn Búrfellsvirkjun og ISAL á sinni tíð, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru þá í raun að framfylgja stefnu fyrsta ráðherrans og fyrsta formanns Sjálfstæðisflokksins. Nú hafa afturhaldsöflin tekið á sig aðra mynd, dulargervi, reynt að aðlaga sig aðstæðum. 

"Þessa hugsun um afstöðu Íslendinga til annarra þjóða má rekja allt til Snorra Sturlusonar [Reykholtshöfðingja], en hann samdi ræðu Einars Þveræings, sem átti að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, þá er Þórarinn Nefjólfsson bar Íslendingum boð Ólafs digra um, að þeir gerðust honum handgengnir.  Snorri lætur Einar segja, að víst sé þessi konungur góður, en hitt sé ljóst, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því Íslendingum bezt að hafa engan konung.  Íslendingar skuli hins vegar vera vinir Ólafs konungs og gefa honum gjafir.  Í Heimskringlu Snorra er eitt meginstefið, að öðru hverju komist til valda konungar, sem heyi stríð og leggi á þunga skatta landslýð til óþurftar."

Að játa konungi hollustu gat auk skattskyldunnar vafalítið leitt til herskyldu ungra Íslendinga, ef konungur framkvæmdi herútboð.  Þá var ákjósanlegra fyrir Íslendinga að geta valið sér flokk stríðandi fylkinga í Noregi, eins og Snorri gerði í átökum Skúla jarls og Hákonar gamla, en þar veðjaði Snorri á rangan hest, sem varð honum dýrkeypt.

Þormóður Kolbrúnarskáld gekk í lið Ólafs digra, varð hjá honum hirðskáld og féll með honum á Stiklastöðum 1030.  Þegar ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi konungsmanna, fylgdu hvítleitar trefjar með, sem líktust fitu. Skáldið brást við með því að lofa konung sínn með orðunum "og vel hefur konungur vor alið oss", og féll hann síðan dauður niður.  Skáldið brá sér hvorki við sár né dauða.  Þessi forni andi var með öllu horfinn í Kófsfárinu, sem hér geisaði 2020-2021, þar sem viðbrögð stjórnvalda urðu ríkissjóði hrottalega dýr og ollu meira heilsufarstjóni en veiran (SARS-CoV-2) sjálf. Eins og yfirvöld í kommúnistaríkinu Kína valda samfélagslegar lokanir gríðarlegu tjóni og gera heilsufarlega minna en nokkurt gagn, tefja aðeins framrás veirunnar, því að bóluefnin eru mjög gagnslítil og gera í sumum tilvikum illt verra.    

Það, sem lá í orðum Snorra í Reykholti var, að allt of áhættusamt væri fyrir Íslendinga að játast undir erlent vald, því að það gæti fyrr en síðar sölsað undir sig úrslitavald um íslenzk málefni.  Þetta á í hæsta máta við um það, ef innlendir glópar við einhverjar annarlegar aðstæður ná að véla landsmenn til að ganga í Evrópusambandið.  Auðlindir landsins yrðu þá þegar í uppnámi, og við yrðum færð aftur á reit, sem er handan Heimastjórnar. Öll hin mikla barátta yrði unnin fyrir gýg. 

"Í innanlandsmálum fylgdi Hannes Hafstein þeirri frjálslyndu stefnu, sem hann hafði kynnzt á námsárum sínum í Kaupmannahöfn.  Voru fyrri ráðherraár hans frá 1904-1909 eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar, eins og alkunna er.  Þjóðin brauzt úr fátækt í bjargálnir, fólk flykktist úr kotunum í þéttbýlið, innlendir kaupmenn leystu erlenda af hólmi, íslenzkir vélbátar og togarar drógu björg í bú, nýtt fjármagn skapaðist [við aukinn útflutning-innsk. BJo].  Ólíkt því, sem gerðist í mörgum öðrum Evrópulöndum á þeim árum, dró úr fólksflutningum vestur um haf.  Þetta var öld hinnar frjálsu samkeppni, en henni mátti lýsa með fleygum orðum Hannesar árið 1882:

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund

og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,

en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur

og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.  

Keppnislundin kallar einmitt oft og tíðum fram beztu hæfileika fólks til að ná árangri á tilteknu sviði, og samkeppni fyrirtækja leiðir iðulega til aukinnar framleiðni og vöru- eða þjónustuþróunar, hin bezt reknu eflast og hin lakari leggja upp laupana. Heilbrigð samkeppni er grundvöllur frjálsra samfélaga og frjálsra hagkerfa.  Með þeim hefur manninum tekizt að hámarka lífskjör sín, og þetta kerfi, sem stundum er kennt við auðhyggju (kapítalisma) Adams Smith, hefur leyst fleira fólk úr viðjum örbirgðar en nokkurt annað kerfi.  Líklegt er, að Hannesi Hafstein hafi verið ljóst, að þetta kerfi yrði fljótfarnasta leiðin fyrir Íslendinga til að ná öðrum þjóðum í lífskjörum. 

Á dögum Hannesar voru annars konar viðhorf líka uppi, sem afvegaleiddu fólk, og þó í enn meiri mæli síðar, þegar villutrúarmenn kommúnismans fóru að boða fagnaðarerindi kommúnismans, sem er reist á draumórum og efnahagslegum bábiljum.  Það hefur alltaf verið markaður fyrir hjátrú og hindurvitni.  

 

  

 


Bloggfærslur 23. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband