Hvaða þýðingu hefur ACER-dómur lögmannsréttarins norska ?

Hérlendis hefur hlakkað í verjendum innleiðingar orkulöggjafar Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi með misviðeigandi hætti yfir dómi Borgarþings Lögmannsréttarins í máli samtakanna "Nei til EU", NtEU, gegn norska ríkinu.  Deilan snýst um, hvort Stórþinginu hafi verið heimilt í marz 2018 að ákveða að láta aðeins einfaldan meirihluta ráða úrslitum atkvæðagreiðslu um Orkupakka 3, OP3, eða hvort þinginu hafi borið samkvæmt Stjórnarskrá Noregs að viðhafa kröfu um aukinn meirihluta, sem jafngildir a.m.k. 75 % stuðningi a.m.k. 2/3 Stórþingsmanna, þ.e. a.m.k. 50 % stuðningi allra þingmannanna.

Morten Harper, lögfræðingur og leiðtogi greininga hjá NtEU, skrifaði um málið á vefsetur samtakanna 8. desember 2022, og þar sem sjónarmið hans og túlkun kunna að vekja áhuga sumra hérlendis, fer hér á eftir þýðing á fyrsta hluta af þremur í grein hans:

"Þann 7. desember [2022] var kveðinn upp dómur í ACER-málinu í Borgarþingi lögmannsrétti.  Í réttinum sátu 3 fagdómarar og 2 leikmenn, og dómurinn var samhljóða.  Tökum niðurstöðuna fyrst:

  "Ályktun Lögmannsréttarins er, að Stórþingið gat veitt heimild til staðfestingar á samþykkt nr 93/2017 frá EES-nefndinni samkvæmt aðferðinni, sem fyrirskrifuð er í Stjórnarskránni, gr. 26, lið 2.  Áfrýjun Nei til EU er þess vegna hafnað." (Dómsorð, s. 37.)

Þótt ríkið hafi hlotið meðbyr, þarf NtEU samt ekki greiða málskostnað ríkisins í þingréttinum og lögmannsréttinum. Lögmannsrétturinn rökstyður þetta með því, að málið hafi fjallað um "umdeild, óútkljáð og grundvallandi lagaspurningar, sem séu verulega samfélagslega áhugaverðar" (síða 38).

RÉTTURINN METUR FORMLEGT VALDAFRAMSAL

Lögmannsrétturinn tekur fram, að það, sem metið er í málinu, er valdaframsal til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi í Noregi; ekki umfang orkuregluverks, sem bindur Norðmenn sem þjóð (þjóðréttarlegar skuldbindingar). "Lögmannsrétturinn undirstrikar, að  framkvæmdin sé reist á strangri aðgreiningu á milli formlegs og raunverulegs valdaframsals ...", eins og segir í dóminum (s. 16), þar sem einnig stendur:

   "Spurningin um valdframsal til alþjóðlegra stofnana hefur á síðustu áratugum orðið raunhæfara viðfangsefni, ekki sízt vegna EES-samningsins, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. Þetta stendur einkum í sambandi við, að ESB-samvinnan hefur stöðugt færzt í átt til aukinnar samræmingar og stjórnunar með myndun ESB-stofnana með yfirþjóðlegt vald til ákvörðunartöku, sem hefur beina verkun í aðildarlöndunum.  Innan EES-samstarfsins hefur lausnin venjulega verið sú að veita ESA samsvarandi vald til ákvarðanatöku með verkun í EFTA-löndunum að því gefnu, að ákvarðanirnar endurspegli í heild sinni gjörninga ESB.  Um það eru samt dæmi, að vald hafi verið fært til ESB-stofnana.  Vísað er til umfjöllunarinnar í HR-2021-655-P, Greinargerð, atriði 3.3-3.8." (Síða 15.)

 Ennfremur skrifar rétturinn, að EES-samningurinn og norsk samþætting í orkumarkað ESB jafngildi verulegu valdframsali í raun:

"Þátttaka Noregs á Innri orkumarkaði ESB og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar á þessu sviði hefur mikla þýðingu fyrir stjórnun norskra orkumála.  Hún hefur t.d. áhrif bæði á afhendingaröryggið og verðmyndunina á rafmagni í Noregi.  Eins og með EES-samninginn sem slíkan felur þetta í raun í sér verulegt valdframsal.  Þessar áhrifaríku og umfangsmiklu þjóðréttarlegu skuldbindingar eru engu að síður í sjálfum sér án vafa innan samningsvaldsviðs samkvæmt Stjórnarskrá - lið 2, og eru ekki til úrskurðar í þessu máli.  Stjórnarskrárspurningin - lagaeftirlitið - í þessu máli á einungis við formlega valdið, sem var framselt við samþykki Stórþingsins 22. marz 2018, sbr lið 3.1 að ofan." (Síður 25-26.) 

 

UPPSÖFNUN: MARGT SMÁTT GERIR EITT STÓRT

 NtEU hélt því fram, með vísun til greinargerðar Hæstaréttar um 4. járnbrautarpakka ESB (marz 2021), að fullveldisframsalið í málinu verði að meta sem heild með öðru valdframsali á orkusviðinu.  Það spannar nokkrar reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar og 4. orkupakka ESB, sem að efni til var þekktur, þegar Stórþingið tók sína ACER-ákvörðun í marz 2018 (4. orkupakkinn var lagður fram sem tillaga Framkvæmdastjórnarinnar, hann var samþykktur í ESB 2019). Ríkið hefur hins vegar hafnað því að taka tillit til uppsöfnunar, þar sem safnað er saman nokkrum Stórþingssamþykktum til að meta, hversu áhrifaríkt valdframsalið hefur verið.  

NtEU fær að nokkru leyti stuðning við þetta sjónarmið.  Lögmannsrétturinn skrifar:

"Regla um uppsöfnun styður að hafa beri hliðsjón af  raunverulegri og skilvirkri minnihlutavernd. Ef tiltekið valdframsal er einvörðungu metið einangrað og ekki er höfð hliðsjón af fyrra valdframsali, mun í tímans rás - smámsaman - geta átt sér stað valdframsal, sem er langtum meira en lítt áhrifaríkt fyrir þjóðlífið.   (...)   Á grundvelli einróma greinargerðar Hæstaréttar og með tilliti til raunverulegrar og skilvirkrar minnihlutaverndar leggur Lögmannsrétturinn til grundvallar gerðum sínum, að reglan um uppsöfnun sé í gildi við mat. Að mati Lögmannsréttarins nær minnihlutaverndin lengra en bara til að hindra sniðgöngu."(Síða 19.) 

Ennfremur segir í dóminum:

 "Lögmannsrétturinn telur, að varðandi spurninguna um að heimila valdframsal til ESB/EES-stofnana á orkusviðinu verði að hafa í huga valdframsal, sem áður hafi farið fram á þessu sviði. Þar sem áður hefur ekki farið fram valdframsal á orkusviði, hvorki með sjálfum EES-samninginum eða seinni lagagjörðum fram að og með Orkumarkaðspakka 2, fjallar Lögmannsrétturinn ekki nánar um, hvaða sértækari kröfur verður að gera t.d. til málefnalegs og tímanlegs samhengis á milli valdframsala." (Síða 20.)

Hér verður réttinum reyndar á fingurbrjótur.  Það er rangt, að áður hafi ekki átt sér stað valdframsal á orkusviðinu.  Reglugerð (EB) 1228/2003 um viðskipti með rafmagn, sem var hluti af ESB-Orkumarkaðspakka 2 og var innleiddur í EES árið 2007, felur í sér bæði upplýsingaskyldu og og sektarheimild.  Í áliti sínu 8. desember 2004 komst Lagadeild Stórþingsins að þeirri niðurstöðu, að valdið til að sekta "með vafa" væri áhrifalítið (sjá frv. 4 S (2017-12018), síðu 28).

Lögmannsrétturinn styður ekki sjónarmið NtEU um, að einnig síðari tíma valdframsal skuli taka með í reikninginn:

"Að mati Lögmannsréttarins getur uppsöfnunarreglan aðeins virkað "aftur á bak í tíma". Þetta gildir óháð því, hversu sterk málefnaleg eða tímanleg tenging er við framtíðar framsal." (Síða 20.)

Rétturinn telur heldur ekki, að þær 4 reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar, sem eru viðbætur við Orkupakka 3 og voru teknar inn í EES-samninginn 2021, "réttarlega séð varpi ljósi á innihald og umfang valdsins, sem var framselt árið 2018" (síða 33). 

Samt stendur í dóminum, að "vald ESA til að taka ákvarðanir, sem varða RME [orkulandsreglara Noregs] sem óháð stjórnvald [var] aukið" (síða 32)."

Lögmannsrétturinn fellst að sumu leyti á rök NtEU, en það hefur alltaf verið ljóst, að til að snúa við ákvörðun Stórþingsins fyrir rétti í Noregi þyrfti hið pólitíska deilumál að vera hafið yfir lagalegan efa.  Samt verður nú þessi leið reynd til þrautar fyrir Hæstarétti Noregs. Þetta deilumál sýnir, hversu hæpið er að kveða á um það í stjórnarskrá, að þingið geti metið það sjálft, hvers konar kröfur eigi að gera um atkvæðagreiðslu þess, þ.e. hvort einfaldur meirihluti skuli duga eða regla um aukinn meirihluta viðhöfð.  Það hlýtur jafnan að vera freistandi í ágreiningsmálum, þegar einfaldur meirihluti þings vill framselja vald til erlendrar stofnunar, þar sem landið er ekki fullgildur aðili, að láta einfaldan meirihluta duga.  

Annar hluti af þremur þessarar greinar Mortens Harpers verður birtur í næsta pistli hér á vefsetrinu.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 29. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband