5.12.2022 | 10:05
Skýrsla veldur vonbrigðum
Um efnivið skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka má segja, að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðzt hafi lítil mús. Þetta er skrifað í ljósi þess, að téð skýrsla var um 7 mánuði í smíðum, og miðað við það er afraksturinn afar rýr. Palladóma gætir í skýrslunni á borð við þekkingarskort Bankasýslunnar á viðfangsefninu, óþarflega lágt verð á hlutnum og ófullnægjandi upplýsingagjöf, en af andsvörum Bankasýslunnar við þessari gagnrýni virðist engin innistæða vera fyrir henni, og er henni vísað til föðurhúsanna. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson undirstrikar þetta mat.
Í umræðum um þessa sölu í kjölfar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur eftir-á-vizka verið mest áberandi. Hún er einskis virði, enda órökstudd í öllum tilvikum hér, en reist á afdönkuðum vinstri viðhorfum um, að alltaf tapi samfélagið á sölu ríkiseigna, þótt því sé í raun þveröfugt farið, því að þessir "aðgerðarlausu peningar" ríkisins verða settir í að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og settir "í vinnu" með innviðauppbyggingu. Einnig minnkar áhætta ríkissjóðs vegna vanhugsaðra aðgerða bankamanna. Allir ættu að vita, t.d. eftir fyrirsjáanlegt mrdISK 200 tap ríkissjóðs vegna ábyrgðar á gjörningum ríkisstarfsmanna í Íbúðalánasjóði, að affarasælast er, að þeir (embættismenn og stjórnmálamenn) haldi sig fjarri stjórnunarhlutverki í fjármálastofnunum, því að á þær bera þeir fæstir meira skynbragð en heimilisköttur.
Það skín í gegnum málflutning ríkisrekstrarsinna, að þeir ætluðu að koma klofbragði á þessa og framtíðar sölur hluts í bönkunum, eftir útkomu skýrslunnar. Þeir leituðu logandi ljósi að einhverju bitastæðu á borð við lögbrot, en slíkt fann Ríkisendurskoðun reyndar ekki. Hins vegar spurðu slagsíðu-fréttamenn á RÚV, sem eru í raun og veru fúskarar í blaðamannastétt, af því að þeim er um megn að fjalla hlutlægt um mál, ef þeir sjá möguleika á að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, ítrekað um, hvort sala hlutarins fæli í sér lögbrot.
Öll var framganga þeirra aukvunarverð, og aumust var framganga formanns Blaðamannafélagsins í Kastjósþætti með fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hún spann upp þvælu, sem átti að sýna hlustendum, að ráðherrann hefði viljað koma sér hjá að mæta bankabónusdrottningunni, sem nú vermir stól formanns Samfylkingar. Aumari spuna er vart hægt að hugsa sér, enda stóð ráðherrann daginn eftir í um 8 klst vörn fyrir þessa sölu á ríkiseigninni. Hið hlálega er, að hin eigingslega bankabónusdrottning Samfylkingar hélt því síðan fram, að ráðherrann hefði ekki "þorað" að mæta sér í umræddum Kastljósþætti. Það er langt síðan hlægilegra ofmat á eigin getu hefur sézt af hálfu Alþingismanns. Er líklegt, að það eigi sér sálfræðilega skýringu ?
Þá er ótalin orðsporsrýrnun Alþingis út af þessu máli. Þar er ekki átt við hefðbundið blaður þekkingarsnauðra þingmanna á viðkvæmu og viðamiklu máli, heldur um trúnaðarbrest Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) gagnvart forseta Alþingis og Ríkisendurskoðanda með því að senda skýrsluna til nokkurra blaðamanna, þ.á.m. á RÚV, á meðan trúnaður átti að ríkja um hana. Þetta var bæði siðlaust og afspyrnu heimskulegt athæfi, því að ekki verður séð, hvernig slíkur leki átti að gagnast aumum málstað stjórnarandstöðunnar. Það verður að gera gangskör að því að finna hinn seka, því að annars liggja of margir undir grun, og orðspor Alþingis sem traustverðrar stofnunar er í húfi. Hin seka eða seki verður að fá að finna til tevatnsins með viðeigandi hætti (fá aldrei aftur trúnaðargögn í hendur, gegna engum hlutverkum á vegum Alþingis, sem sagt hún (hann) verði sett í skammarkrókinn).
Í Staksteinum Morgunblaðsins 18. nóvember 2022 er vitnað í orð Haraldar Benediktssonar, Alþingismanns, sem varpa í raun ljósi á, hversu ómerkilegur málatilbúnaður og orðaskak stjórnarandstöðunnar er, enda ætlunin að kasta skít í tannhjól frekari sölu á hlut ríkisins í bönkum og að níða skóinn niður af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. "verður hann ekki að sæta ábyrgð ?". Aum er sú hegðun:
"Haraldur Benediktsson, varamaður í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, veitir athyglisverða innsýn í söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá sölu í samtali við mbl.is. Hann segir, að komast þurfi til botns í lekanum á skýrslunni, enda sé um að ræða "viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar. Og hann bætir við: "Skýrslan var í örfárra höndum, sem voru beðnir sérstaklega um trúnað með bréfi frá forseta þingsins." Þarf ekki að rannsaka, hver varð ekki við þeirri beiðni."
Auðvitað verður þingið með hjálp sérfræðinga að komast til botns í málinu, því að trúverðugleiki þingsins er í húfi. Sú eða sá, sem stóðst ekki freistinguna að taka forskot á sæluna við að þyrla upp moldviðri út af þessari sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka, ber að gjalda þess og getur ekki fengið að njóta slíks trúnaðar áfram.
"En Haraldur er líka í Fjárlaganefnd og segir, að þar hafi tilboðsleiðin, sem farin var við söluna, verið "rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir. Þetta voru allt saman atriði, sem voru rædd, og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina. Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar."
Þetta sýnir í hnotskurn, að túður Kristrúnar Frostadóttur o.fl. stjórnarandstæðinga um, að illa hafi verið staðið að kynningu og upplýsingagjöf til þingsins, stenzt ekki rýni. Mikill áhugi markaðarins á útboðinu bendir jafnfram til góðrar upplýsingagjafar til hans. Gagnrýniefni Ríkisendurskoðunar eru ýmist getgátur og eftir-á-speki eða hreinn sparðatíningur. Svo er að sjá, hvort skýrsla Seðlabankans verði eitthvað bitastæðari. Að drepa söluferlið í dróma með skipun rannsóknarnefndar þingsins er algerlega ástæðulaust og allt of seinvirkt og dýrt ferli. Hér hefur orðið stormur í vatnsglasi nokkurra athyglissjúkra þingmanna, sem gera sig seka um órökstuddan fullyrðingaflaum, og er bónusbankadrottning Samfylkingarinnar ekki barnanna bezt í þeim efnum.
"Hann bendir einnig á álit minni- og meirihluta og segir þau til vitnis um, að þessi mál hafi verið rædd í fjárlaganefnd og í greinargerð ráðherra. "Það gat komið niður á hæsta mögulega verði. Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag, hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman", segir hann. Getur verið, að aðrir hafi sofið á nefndarfundunum ?"
Það er ábyggilega óbeysnum skilningi fyrir að fara á útboðsmálum almennt hjá þeim innantómu vindhönum og -hænum, sem hæst hafa galað eftir þessa sölu, en þau eygðu áróðurstækifæri fyrir sig og gerðu óburðuga tilraun til að koma óorði á sölu ríkiseigna almennt. Þar er hvatinn ótvíræður. Hversu lítil skynsemi sem annars er í því fyrir ríkið að sitja á eignum í allt annarri starfsemi en ríkið fæst almennt við, reyndar með mjög umdeilanlegum árangri, þá skal útþensla og eignamyndun ríkisins varin fram í rauðan dauðann og öllum ráðum beitt til að setja skít í tannhjólin, jafnvel trúnaðarsvikum við forseta Alþingis. Þetta vinstra lið er bæði fákunnandi, frekt og siðlaust.
Við þetta tækifæri er vert að minnast þess, hvernig Íslandsbanki komst í hendur ríkisins. Hann var stofnaður upp úr þrotabúi Glitnis með stöðugleikaframlögum kröfuhafanna. Hverjir stóðu að þeim snilldargjörningi ? Voru það mannvitsbrekkur eða fjármálaspekingar á vinstri kanti stjórnmálanna, sem þó höfðu tækifæri til að láta ljós sitt skína á tíma vinstri stjórnarinnar 2009-2013, mesta niðurlægingartímabili lýðveldisins. Nei, þau reyndust duglaus með öllu og reyndar ónýt til allra verka. Það voru fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson og forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kreistu stöðugleikaframlögin undan nöglum kröfuhafanna. Nú telur sá fyrr nefndi vera fyllilega tímabært, að þetta fé fari að vinna fyrir íslenzka þjóð, en annað fé, fé af frjálsum fjármálamarkaði, leiti í staðinn inn í bankann sem hlutafé. Þessi þróun þarf að halda áfram, svo að hann verði öflugt almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)