19.2.2022 | 15:15
Köttur í kringum heitan graut
Viðbrögð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, gagnvart orkuvanda þjóðarinnar, sem í vetur veldur tugmilljarða ISK tekjutapi í hagkerfinu og mun draga úr hagvexti á þessu ári og næstu árum, eru ekki að öllu leyti uppörvandi fyrir þá, sem eldurinn brennur heitast á, þótt jákvæð tíðindi berist nú einnig.
Ráðherrann virðist að nokkru leyti koma af fjöllum sorglegt ástand orkumála landsins, og hið eina bitastæða, sem fyrir vorþinginu liggur af verkefnum frá honum, er að draga úr óþarfa skriffinnsku við endurnýjun og jafnvel aflaukningu virkjana og að auðvelda fólki á rafhitunarsvæðum að setja upp hjá sér varmadælu til húshitunar og spara þannig um 60 % raforku til húshitunar. Hvort tveggja er þó gott og blessað, en annars einkennast gjörðir ráðherrans af því að geta sagzt hafa brugðizt hratt við með nefndaskipunum til upplýsingaöflunar um mál, sem fullnægjandi þekking er á nú þegar í ráðuneytinu, hjá Orkustofnun og síðast en ekki sízt hjá Landsneti. Þó hefur nú frétzt af því, að Rammaáætlun 3 verði tekin á dagskrá vorþingsins, og er það gleðiefni, þótt mey skuli að morgni lofa. Það er vert að gefa gaum að því í þessu sambandi, að virkjanafyrirtækin hafa ekki séð sér hag í því enn að hefja framkvæmdir við öll verkefni í nýtingarflokki Rammaáætlunar 2. Ætla má, að nú væri enginn raforkuskortur í landinu, ef allur nýtingarflokkur Ramma 2 væri nú kominn í gagnið.
Í Markaði Fréttablaðsins 26.01.2022 birtist umfjöllun um orkuskortinn og frásögn af viðbrögðum téðs ráðherra undir fyrirsögninni:
"Ráðherra lítur mögulega skerðingu á raforku alvarlegum augum".
Sennilega á kaldhæðni Helga Vífils Júlíussonar þátt í þessari fyrirsögn, þannig að hann hæðist að máttleysislegum viðbrögðum ráðherrans. Umfjöllunin hófst þannig:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lítur tilkynningu Landsvirkjunar um, að mögulega verði dregið úr afhendingu raforku, alvarlegum augum. Um leið og ráðuneytið varð þess áskynja, voru fulltrúar Landsvirkjunar og Orkustofnunar kallaðir á fund, og í kjölfar þess var sett af stað vinna við að bregðast við vandanum."
Þetta hljómar eins og texti í fáránleikaleikhúsi. Allir landsmenn vita, að þegar á þessum tíma var í gangi skerðing á ótryggðri orku, af því að raforkukerfið hefur ekki undan þörfinni, og við því er lítið hægt að gera annað en að veita framkvæmdaaðilum framkvæmdaleyfi við fullhannaðar virkjanir í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3, þegar Alþingi hefur afgreitt hana. Landsvirkjun sótti 10. júní 2021 um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar. Orkustofnun svaraði meira en hálfu ári síðar með beiðni um meiri gögn. Kerfið heldur tafaleikjum sínum áfram. Þetta er stjórnsýsla án jarðsambands.
Einhverjir gætu misst neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því, sem ráðherrann lætur út úr sér:
""Staðan kom mér satt að segja á óvart. Um leið og ég varð þess áskynja, hvernig málin stæðu, þá leit ég það mjög alvarlegum augum. Fundaði ég þegar í stað með aðilum, sem lýst höfðu yfir áhyggjum vegna stöðunnar til skamms tíma, og er unnið að lausn málanna. Þá fundaði ég með Orkustofnun vegna stöðunnar, en stofnunin sendi í kjölfarið bréf á raforkufyrirtækin, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í vikunni", segir hann."
Þetta er lítið annað en sjálfshól ráðherra, sem kemur fram sem álfur út úr hól. Er eitthvert annað raunhæft ráð við orku- og aflskorti en að virkja ? Umrætt bréf Orkustofnunar er sennilega tilgangslausasta bréf sögunnar frá þeirri virðulegu stofnun hæfra stjórnenda, en þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng.
Áætlanir um orku- og aflþörf og framboð hins sama hafa frá árinu 2019 sýnt fram á yfirvofandi skort. Kófið olli frestun vandans til 2022. Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir málinu í forsíðufrétt og baksviðsfrétt 27. janúar 2022. Baksviðsfréttin bar skuggalega fyrirsögn:
"Frekari skerðingar á næstunni".
Föstudaginn 28. janúar 2022 bilaði tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli. Þann dag kom til stórfelldra skerðinga á raforku og heitavatnslaust varð hjá tugþúsundum manna. Kólnaði verulega í húsum vegna gats, sem kom á stofnlögn Veitna vegna yfirþrýstings. Talverðar truflanir urðu á afhendingu raforku í kjölfar bilunarinnar á Nesjavöllum, t.d. hjá Norðuráli. Þetta sýnir, að menn treysta á Guð og lukkuna, en hafa engin úrræði, þótt aðeins ein eining bili, í þessu tilviki tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli.
Það er endalaust hummað fram af sér að styrkja kerfið til að gera það þolið gagnvart einni bilun, og aflgetan er nú nýtt til hins ýtrasta. Þessir rekstrarhættir bjóða hættunni heim með óábyrgum hætti, og Orkustofnun virðist hvorki hafa faglega getu né áhuga á eða heimildir til að leggja mat á afhendingaröryggið og krefjast úrbóta af orkufyrirtækjunum. Naglafægjarar og baunateljarar virðast móta stefnuna og ráða ferðinni varðandi raforkukerfið. Afhendingaröryggið liggur þar óbætt hjá garði.
Téð baksviðsfrétt hófst þannig:
"Ef miðað er við venjubundna aukningu raforkunotkunar samkvæmt raforkuspá eru líkur á, að draga þurfi úr afhendingu skerðanlegrar orku í meðalvatnsári, ekki aðeins í lélegu vatnsári, strax á næsta ári. Staðan verður mun verri, ef áform um orkuskipti eða aukning á fyrirtækjamarkaði verður umfram spár. Í greiningu Landsnets kemur fram, að nauðsynlegt sé að bæta við afli með nýjum virkjunum og styrkja flutningskerfið."
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar voru september og nóvember úrkomusamir á Suð-Vesturlandi árið 2021, og meðalhitastig ársins var 0,2°C yfir meðallagi áranna 1991-2020 með tilheyrandi meiri jökulbráðnun. Það stendst því varla, að lág staða Þórisvatns stafi af sérlega lélegu ári fyrir vatnsbúskapinn, heldur stafar óvenju lág staða þar af einhverju öðru, og munar þar vafalaust mest um metálag á raforkukerfinu. Spár EFLU miða við meðalvatnsár, og kerfislíkan fyrirtækisins greindi þegar árið 2019 yfirvofandi skort í kerfinu. Kófið gaf gálgafrest, en nú árið 2022 er fyrirsjáanlegur orkuskortur skollinn á, og orkuyfirvöldin eru með allt á hælunum. Það er lakari frammistaða en þjóðin á að þurfa að búa við.
Áfram með téða baksviðsfrétt:
"Landsnet gerir reglulega greiningar á afl- og orkujöfnuði landsins. Í síðustu birtu greiningu, sem EFLA-verkfræðistofa gerði á árinu 2019, voru taldar líkur á aflskorti á árinu 2022 og enn frekar á árinu 2023. Aflskortur þýðir, að ekki er nægt afl tiltækt í virkjunum til að fullnægja aflþörf. Líkurnar á aflskorti aukast, ef litið er til kalds vetrardags, sem reikna má með, að komi á 10 ára fresti. Þetta hefur gengið eftir, eins og komið hefur fram í ákvörðunum Landsvirkjunar að undanförnu um að takmarka afhendingu á orku samkvæmt samningum um skerðanlega orku vegna lélegrar vatnsstöðu á Suðurhálendinu."
Orkustofnun og þáverandi atvinnuvegaráðuneyti mátti vera ljóst í síðasta lagi fyrir 3 árum, að í óefni stefndi með orkujöfnuð landsins og að þar af leiðandi væru loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar í uppnámi. Samt var setið með hendur í skauti og látið sem orkumálin væru í himnalagi og jafnvel enn bætt í loftslagsmarkmiðin. Um þetta er það aðeins að segja, að þetta er glórulaus stjórnsýsla, þar sem sýndarmennskan ræður ferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)