Smávirkjanir geta linað verkina núna

Nú strax virðist bráðvanta 100-200 MW aflgetu í íslenzka raforkukerfið.  Til að uppfylla óraunsæ loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar þarf ný 500 MW á tímabilinu 2022-2030.  Þá er eftir að uppfylla vaxandi raforkuþörf hagkefisins á þessu tímabili, sem gæti numið 1,5 TWh/ár eða 300 MW árið 2030, alls 3,5 TWh/ár eða 800 MW. Eftir 5 ár gætu fyrirsjáanlega hafa bætzt við um 200 MW eða fjórðungur þarfarinnar 3 árum seinna.  Fáum getur dulizt í hvers konar óefni stefnir, og hagvaxtarspár standa á brauðfótum með viðvarandi raforkuskort yfirvofandi. 

Afkomu almennings er ógnað, þegar orkudrifið samfélag fær ekki þá orku, sem það þarf.  Skynsamleg viðbrögð verkalýðshreyfingar eru ekki að heimta, að fyrirtækin í landinu taki af því, sem ekki er til, til að vega á móti verðbólgu gagnvart launþegum, því að slíkt framferði magnar aðeins verðbólgubálið, heldur að leggja lóð sín á skálar aukinnar verðmætasköpunar í landinu. Aukin verðmætasköpun fer nú á tímum ekki fram án aukinnar raforkunotkunar, þótt í mismiklum mæli sé í ISK/kWh reiknað.

Í þessari ólánlegu stöðu er eðlilegt að reyna að lina sársaukann með hraðari fjölgun smávirkjana inn á kerfið.  Það er t.d. hægt með því að draga úr kostnaði við undirbúninginn og spara um leið tíma, þótt tæknileg gæði og öryggi mannvirkjanna verði áfram að vera í fyrirrúmi. Þessi hugmynd hefur þegar náð inn á Alþingi, eins og Fréttablaðið gerði grein fyrir 27.01.2022:

"Vilja, að slakað verði á skilyrði um umhverfismat fyrir smávirkjanir".

Fréttin hófst þannig:

"Halla Signý Kristjánsdóttir og 4 aðrir þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja einfalda landeigendum að koma upp smávirkjunum.  Mikil umræða hefur verið um virkjanir og orkuskort í landinu undanfarið, og Halla vonast til þess, að þingsályktunartillagan, sem hún leggur nú fram í 3. skiptið, verði samþykkt í ljósi þess, að núverandi stjórn hafi lagt mikla áherzlu á orkumál."

Þessi þingsályktunartillaga og afdrif hennar getur orðið prófsteinn á vilja þingsins til að létta landsmönnum róðurinn á tímabili illvígs sjálfskaparvítis, sem þingheimur með aðgerðarleysi sínu á síðasta kjörtímabili hefur leitt yfir þjóðina. Þjóð, sem býr yfir ríkustu sjálfbæru orkulindum í Evrópu á hvern íbúa, engist nú af raforkuskorti.  Þetta er auðvitað merki um ófyrirgefanlega óstjórn á okkar tímum orkuskipta og ríkismarkmiða um minnkun á losun koltvíildis, sem sömu stjórnvöld hafa skuldbundið landið til á alþjóðavettvangi.  Það er ekki öll vitleysan eins. 

Sérstaklega verður horft til afstöðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, við afgreiðslu þessarar tillögu, en hann leitar nú logandi ljósi að fáanlegri orku undir leiðsögn orkumálastjóra, sem er þó með böggum hildar í leit að lausnum.

""Smávirkjanir eru mjög mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfið.  Ég kem að vestan, þar sem ekki er vanþörf á að huga að þessu", segir Halla, sem er úr Önundarfirði.  Þar eru 4 smávirkjanir, og Orkubú Vestfjarða hefur hagað málum þannig, að ef rafmagn fer af svæðinu, er hægt að loka af, þannig að smávirkjanirnar vinni fyrir fjörðinn.

Smávirkjanir eru af stærðinni 0,2 MW - 10,0 MW, en flestar [eru] undir 1,0 MW að stærð.  Fyrir [þær] þarf umhverfismat, sem fylgir nokkuð mikið umstang, tími og kostnaður."

Virkjanlegt afl lítilla (óvirkjaðra) vatnsorkulinda er umtalsvert, þegar allt er talið saman, eða líklega um 1000 MW.  Þær geta þannig saman hjálpað til við að mæta vaxandi afl- og orkuþörf á landsvísu, þótt þær séu rjúfanlegar frá landskerfinu og geti þá þjónað nærumhverfinu einvörðungu í bilunartilvikum.  Ef ráðherra beitir sér fyrir að fjarlægja "rauða dregilinn" að þessum virkjunum, fjarlægir "rauða límbandið" af undirbúningsferlinu, þ.e. einfaldar leyfisveitingaferlið og beitir sér fyrir því, að dreifiveiturnar tengi nýjar smávirkjanir snurðulaust og jafnharðan við dreifikerfið, þá gæti hér verið komin fljótvirkasta búbótin fyrir orkubúskap landsmanna. 

Í téðri frétt var getið um mat á aflgetu smárra virkjanakosta:

"Smávirkjanakostir hafa verið greindir á undanförnum árum.  Á Norðurlandi voru t.a.m. 500 kostir kortlagðir í sumar með samanlagt heildarafl upp á tæplega 830 MW [1,7 MW að jafnaði].  Fyrr á árinu 2021 voru 70 valkostir á Vesturlandi greindir með samanlagt afl upp á 59 MW [0,8 MW að jafnaði].  Auk þess eru margir kostir í boði á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem flestar smávirkjanir eru nú þegar.

Halla lítur til Noregs sem fyrirmyndar um, hvernig  [leyfisveitingaferli smávirkjana á Íslandi ætti að vera]. Þar í landi sjái sérstök stofnun, NVE [þetta er Orkustofnun Noregs-innsk. BJo], um leyfisveitingarnar og skilyrðin séu almenn."

Nú getur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra látið hendur standa fram úr ermum til að auðvelda land- og vatnsréttindaeigendum undirbúning smávirkjana til að flýta fyrir því, að tugir eða jafnvel hundruðir smávirkjana komist í gagnið og verði tengdar við næstu dreifiveitu á ódýran hátt og án tafa.  Þetta gæti orðið fljótvirkasta aðferðin til að bæta úr brýnum orkuvanda landsmanna, en þá verður að slá striki yfir það, sem flækjufætur kerfisins hafa sett upp sem hindranir fyrir áhugasöm virkjanafélög.

Það var eins og við manninn mælt, að hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson og félagi hans Ólafur Már Björnsson, augnlæknir, fengu birta grein eftir sig í Fréttablaðinu 27. janúar 2022, sem hét "Heilagur Vatnsfjörður", strax í kjölfar þess, að rafveitustjóri Orkubús Vestfjarða tjáði sig um það, að hann teldi núna einna vænlegast fyrir Vestfirðinga að reisa 20-30 MW vatnsaflsvirkjun í Vatnsfirði.  Tómas þessi hefur beitt sér með öfgafullum hætti undanfarin misseri gegn virkjanaáformum Vestfirðinga.  Nú fordæmir hann virkjanahugmynd rafveitustjórans án þess að hafa hugmynd um virkjunartilhögunina eða um áhrif hennar á umhverfið í Vatnsfirði eða á mannlífið á Vestfjörðum.  Þetta gerir öfgafulla virkjanaandstöðu þeirra félaganna algerlega ótraustverða. 

Það er kominn tími til að hætta að ljá eyra við illa ígrundaðri andstöðu við framfaramál Vestfirðinga.  Þeir eru bezt til þess fallnir að fjalla um þessi mál sjálfir, vega þau og meta, og fyllilega treystandi til þess án afskipta og hortugheita "besserwissera" úr fjarlægum sveitum.  

Dæmi um ofstækið í skrifum þeirra félaga um náttúruna getur að líta í téðri Fréttablaðsgrein.  Sem betur fer er það ekki í þeirra höndum, hvað framkvæmt verður á Vestfjörðum eða hvað fellt verður undir þjóðgarð þar.  Það er og verður málefni Vestfirðinga sjálfra, en ekki þröngsýnna lækna af höfuðborgarsvæðinu, sem setja velferð og lífsafkomu íbúanna á Vestfjörðum ekki í öndvegi, þegar hugmyndir koma fram um að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir Vestfjarða:

"Fossarnir í Vatnsfirði búa ekki aðeins yfir einstakri fegurð, heldur býr í þeim orka, sem gírug raforkufyrirtæki ásælast nú sem aldrei fyrr.  Virðast þau engu skeyta um, að árnar og fossarnir í Vatnsfirði eru friðaðir, auk þess sem friðlandið verður hjartað í Þjóðgarði á Vestfjörðum, sem átti að opna síðastliðið sumar og verður lyftistöng fyrir Vestfirði alla."

Vestfirðingar þurfa ekki á að halda hortugum fyrirmælum "besserwissera" úr fjarlægum sveitum um það, hvernig þeir nýta auðlindir á sínu landssvæði, enda er nóg komið af töfum og stöðvunum orkuframkvæmda í landinu.  

Frétt í Morgunblaðinu 28. janúar 2022 undir fyrirsögninni:

"Segir stöðuna í orkumálum vera slæma",

hófst þannig:

"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir stöðuna í orkumálum líta illa út, en Morgunblaðið greindi í gær frá greiningu Landsnets á afl- og orkuþörf, sem gefur til kynna viðvarandi orkuskort á næstu árum. 

"Um leið og ég frétti af þessu, þá kallaði ég á fulltrúa Orkustofnunar og Landsvirkjunar á minn fund og setti af stað vinnu til að bregðast við vandanum, þ.e.a.s. skammtímavandanum."" 

Það er athyglisvert, að upplýsingar um það, hvert margra ára aðgerðarleysi í virkjanamálum samhliða upphafi orkuskipta nútímans, hafa leitt yfir þjóðina, virðast ekki hafa náð inn á borð ráðuneytisstarfsmanna, og fer þá ekki á milli mála, að þar sofa menn á verðinum, og hrökkva svo upp af værum blundi, þegar raunveruleiki raforkuskortsins skellur á þjóðfélaginu.  Þetta er náttúrulega engan veginn boðleg stjórnsýsla, sem landsmenn búa við.

  Orkulöggjöf landsins er reyndar sniðin við frjálst markaðskerfi og treystir á (og tekur þar með allt of mikla áhættu fyrir þjóðarhag), að orkufyrirtækin sjái sér hag í því að koma í veg fyrir orkuskort með því að vera tilbúin með nýjar virkjanir í tæka tíð.  Þannig er ekki raunveruleikinn í íslenzku umhverfi, þar sem sérvitringar, sem hafa borið fyrir sig umhverfisvernd, en eru í raun umhverfissóðar, sem valda olíubruna til raforkuvinnslu fyrir vikið, hafa komizt upp með að þvælast fyrir hverju orkuöflunar- og -flutningsverkefninu á fætur öðru með þeim afleiðingum, að allt er nú komið í óefni.

Að kalla á fulltrúa téðrar ríkisstofnunar og téðs ríkisfyrirtækis til að bregðast við bráðavandanum minnir á haldleysi þess að fara í geitarhús að leita ullar.  Vonandi hefur þessi ráðherra þó haft rænu á að spyrja fulltrúa Orkustofnunar, hvers vegna hún sé ekki þegar búin að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

Nú eru góð ráð dýr.  Samhliða því að veita nú þegar leyfi fyrir verkhönnuðum virkjanakostum í nýtingarflokki Ramma 3 með lagasetningu, ef nauðsyn krefur, þarf strax að liðka fyrir og hvetja til smávatnsaflsvirkjana í landinu, en örvæntingin má ekki verða slík, að hlaupið verði til að reisa hér vindmylluskóga, jafnvel í grennd við byggð.  Ásýnd landsins mundi bíða mikinn hnekki við slíkt, og landið mundi tapa sérstöðu sinni sem land endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirkjum, sem falla vel að umhverfi sínu.

Það er ekkert vit í því að reisa vindmylluorkuver í vatnsorkulandi, þar sem ekkert borð er fyrir báru með aflgetuna.  Auk umhverfissjónarmiðanna er ástæðan sú, að ekki er unnt að reiða sig neitt á afl frá vindorkuverum, og þess vegna verður að reisa vatnsorkuver á móti vindmyllunum til að grípa inn, svo að ekki verði skammtíma aflþurrð í kerfinu.  Undir slíkum tvöföldum fjárfestingum er enginn fjárhagsgrundvöllur vegna lágs nýtingartíma. 

Þannig hefur raforka vindmylla minna verðgildi á markaðinum en forgangsorka vatnsafls- og jarðgufuaflsvera.  Það þýðir, að varla er annar markaður fyrir orku vindorkuveranna en markaður fyrir ótrygga orku, og fyrir hana fæst í mesta lagi  helmingsverð á við forgangsorkuna.  Við núverandi aðstæður dugar þetta ekki fyrir arðbæran rekstur vindorkuvera. 

 Varmaorka

 

 

 

 

   

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 22. febrúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband