5.2.2022 | 18:26
Tvær mikilvægar útflutningsgreinar í upphafi árs 2022
Sjávarútvegurinn nýtur velgengni á erlendum mörkuðum um þessar mundir, sem endurvarpast í hátt verð hér innanlands, t.d. er slægður þorskur nú á skrifandi stundu á tæplega 600 ISK/kg. Allt veltur á afkomu sjávarútvegsins í þorpum og kaupstöðum við strandlengju landsins, og hann gegnir lykilhlutverki fyrir hagsæld allrar þjóðarinnar. Það er áfram svo, að velgengni sjávarútvegs tryggi hagsæld þjóðarinnar, og vandræði þar og trosnandi eigið fé ógni velsæld hennar að sama skapi, þótt gjaldmiðillinn dansi ekki lengur eftir pípu sjávarútvegsins; svo er hinni stóru útflutningsgreininni, afurðum þungaiðnaðarins, fyrir að þakka.
Þróun íslenzka sjávarútvegsins á 21. öldinni hefur verið ánægjuleg og athyglisverð. Hann hefur nýtt aukna fjárfestingargetu sína í kjölfar fækkunar togara á Íslandsmiðum til tæknivæðingar á sjó úti og í landi, svo að greinin hefur reynzt vera samkeppnishæf erlendis, sem er algert lykilatriði fyrir grein, sem flytur út um 95 % framleiðslu sinnar. Greinin hefur líka í krafti vísindalegrar þróunar rutt braut bættri nýtingu hráefnisins, svo að hún er nú í stakkin búin til fullnýtingar hráefnisins. Það er afar virðingarvert og umhverfisvænt að taka þessa stefnu, og þetta mun reynast arðsöm fjárfesting, sem þegar veitir fjölbreytilegum hópi starfsfólks vinnu. Má kalla þetta einkenni íslenzks atvinnulífs, að grunnatvinnuvegirnir, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, mynda kjarnann í klösum fjölbreytilegrar starfsemi, sem oft nær að þróa sprota, sem framleiða bæði fyrir innlendan og erlendan markað. Þetta er heilbrigt og kvikt (dýnamískt) samfélag, eins og önnur fræg slík.
Það væri arfavitlaus hugdetta stjórnmálamanna að fara nú út í vanhugsaða og þarflausa tilraunastarfsemi með sjávarútveginn, sem reyndar hvergi hefur gefið góða raun. Því fjær sem stjórnmálamenn halda sig frá málefnum sjávarútvegsins, þeim mun betra. Þeir skópu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í góðu samstarfi við auðlindahagfræðinga o.fl. til að gera atvinnugreinina sjálfbæra, sem hún var fjarri því að vera, enda er þessi atvinnugrein víðast hvar stunduð með ósjálfbærum hætti, líffræðilega og/eða fjárhagslega.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, reifaði sjávarútveg nútímans í Morgunblaðsgrein á gamlaársdag 2021 og nefndi hana:
"Það veltur margt á íslenzkum sjávarúvegi".
Þar gerði hún m.a. nýlega skýrslu um sjávarútveginn að umtalsefni:
"Skýrsla, sem gerð var að beiðni sjávarútvegsráðherra um stöðu og horfur í íslenzkum sjávarútvegi og fiskeldi, var kynnt í vor. Ritstjóri er Sveinn Agnarsson, prófessor við Háskóla Íslands. Í henni kemur m.a. fram, að:
"Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi, og samvinna fyrirtækja í sjávarútvegi, vísindasamfélagsins og yfirvalda, hefur verið mikil og öflug." Þarna er ekkert ofsagt og benda má á, að Nýsköpunarverðlaun Íslands hafa á tímabilinu 2011-2020 6 sinnum komið í hlut fyrirtækja, sem með einum eða öðrum hætti tengjast sjávarútvegi."
Vafalaust hafa þau Sveinn og Heiðrún Lind traust gögn við höndina, sem sýna þetta svart á hvítu, því að djúpt er tekið í árinni. Það er stórmerkilegt, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi er nú orðin "uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi", og skákar þar með t.d. hefðbundnum iðnaði og stóriðnaði og landbúnaði, þar sem gríðarleg sjálfvirknivæðing og framleiðniaukning í krafti hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausna hefur átt sér stað undanfarna 3 áratugi.
Þessi þróun mála sýnir einfaldlega, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi hefur fundið fjölina sína í samfélaginu. Þessu jafnvægi mega óánægju- og öfundaröfl, sem lítt eru til nokkurs uppbyggilegs fallin, ekki ná að raska. Af því hlytist þjóðhagslegt tjón, reyndar efnahagsslys.
"En á hitt skal bent, að sjávarútvegur er ekki eingöngu skip á sjó og vinnsla í landi. Hann er margfalt umsvifameiri en svo, og það eru svo ótrúlega margir, sem reiða sig á sterkan sjávarútveg, sem er í efnum til að fjárfesta. Og einmitt þarna verða til mikil og arðbær tækifæri.
Vilji fólk sjá heildarsamhengið, þá ætti að blasa við, að hlúa beri að þeim sprotum, sem vaxa í kringum sjávarútveg á Íslandi. Sumir hafa náð miklum styrk og gert sig gildandi á erlendum markaði; aðrir eru að skjóta rótum. Hug- og handverki eru engin takmörk sett, og nú þegar nemur útflutningur þeirra tugmilljörðum króna á ári, og í þessum fyrirtækjum starfar vel menntað fólk í góðum og verðmætum störfum."
Ef farið verður í hægfara þjóðnýtingu á sjávarútvegi með einhvers konar innköllun veiðiheimilda, sem reyndar mundi væntanlega varða við eignarréttarákvæði Stjórnarskrár (nýtingarréttur er ein tegund eignarréttar), og veiðiheimildum endurúthlutað með kostnaðarsömum hætti fyrir útgerðirnar, þá blasir við, að sprotar sjávarútvegs verða fyrsta fórnarlambið og síðan minnka fjárfestingar í nýjum búnaði á sjó og á landi. Núverandi kerfi hefur vel gefizt, og stjórnmálamenn (þetta er þó alls ekki algilt) ættu að láta af löngun sinni til að hræra í atvinnuvegum, sem vel ganga.
Hin meginútflutningsgreinin, orkusækinn iðnaður, gengur líka vel um þessar mundir, enda skortur á vörum hans á heimsmarkaði vegna breyttra aðstæðna í Kína og "mengunartolla" inn á Innri markað ESB. LME-markaðsverð á hrááli er nú um 3000 USD/t, sem er tvöföldun verðs í upphafi Kófs, og fyrirtæki með sérhæfða gæðaframleiðslu á borð við ISAL hafa verið að fá allt að 1000 USD/t til viðbótar (premía) fyrir sína sívalninga.
Akkilesarhæll álveranna nú á tímum er koltvíildislosunin, þótt álið spari reyndar meiri losun koltvíildis á endingartíma sínum en nemur losuninni við framleiðsluna, ef það er t.d. notað til að létta farartæki. Í þróun er ný tækni rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem eru án kolefnisinnihalds. Þangað til sú tækni verður fjárhagslega fýsileg að teknu tilliti til kolefnisgjaldanna, sem Evrópusambandið (ESB) leggur á í sínu ETS-viðskiptakerfi, væri hægt að fara leið kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu, ef ESB hefði samþykkt slíkt sem staðlað mótvægi, því að Ísland nýtur sérstöðu nógs landrýmis fyrir skógrækt og uppgræðslu lands. Þrátt fyrir miklar umræður á COP-26 í Gljáskógum í vetur, fékkst ekki niðurstaða í málið.
Hins vegar hefur ISAL ákveðið að freista annarrar leiðar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og fjárhagsbyrði af kolefnisgjöldum ESB. Sú leið er tæknilegur og fjárhagslegur vonarpeningur enn, enda dýr m.v. skógræktina og krefst mikillar auðlindanotkunar á formi lands, vatns og rafmagns. Einhverjum gæti orðið að orði, að hér væri verið að skjóta spörfugl með kanónu, enda er ekki vitað til, að álver erlendis séu ginnkeypt fyrir þessu. Rio Tinto lítur reyndar á þetta sem "pilot plant" fyrir aðrar verksmiðjur sínar, en aðstæður eru þó misjafnar á hverjum stað.
Þann 6. janúar 2022 birti Sigtryggur Sigtryggsson baksviðsfrétt í Morgunblaðinu um þetta mál undir fyrirsögninni:
"Höfnin í Straumsvík stækkuð":
"Þessar framkvæmdir [við hafnargerð] tengjast áætlunum um stórauknar skipakomur í Straumsvík á komandi árum vegna innflutnings og niðurdælingar á kolefni í svonefndu Carbfix-verkefni.
Í fjárfestingaráætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2022 og langtímaáætlun er gert ráð fyrir fjármunum til hönnunar og undirbúnings uppbyggingar á hinu nýja hafnarsvæði í Straumsvík [norðan núverandi stórskipabryggju-innsk. BJo]. Stefnt er að því, að verklegar framkvæmdir á svæðinu geti hafizt ekki síðar en árið 2024 og svæðið verði tilbúið árið 2027. "Þetta er mjög spennandi verkefni, sem vinna þarf hratt og skipulega", segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri."
Vonandi er hafnarstjórinn með tryggingar í höndum um framtíðar viðskipti, þ.e. skip í flutningum á koltvíildi til Íslands og kannski vetni frá Íslandi, því að kynningar á viðskiptahugmyndum Carbfix bera sterkan keim af skýjaborgum. Opinberir aðilar verða að fá meira en loftkenndan fagurgala áður en farið er út í viðamiklar framkvæmdir.
Það hljómar ótrúlega, að traustir viðskiptaaðilar fari að leggja í mikinn kostnað við að draga CO2 út úr afsogi sínu, flytja það að hafnarbakka t.d. í norðanverðri Evrópu, kosta upp á siglingu nokkur þúsund km leið og að lokum aflestun skipstanka í Straumsvík og niðurdælingu í berg þar í grennd. Þetta hljómar ekki, eins og það sé lífvænleg viðskiptahugmynd. Þessu lýsir téður Sigtryggur þannig í fréttinni:
"Þetta stefnumótandi samstarf felur í sér, að á lóð Rio Tinto við álverið í Straumsvík verður komið upp fyrstu móttöku- og förgunarstöð í heimi fyrir CO2, svokallaðri Coda Terminal. Þangað verður koldíoxíð einnig flutt í fljótandi formi sjóleiðina frá iðjuverum í Norður-Evrópu og því breytt í stein með Carbfix-aðferðinni við Straumsvík."
Það má mikið vera, ef þessi hugarleikfimi á eftir að verða barn í brók, þ.e. arðvænleg viðskiptahugmynd. Fróðlegt væri að sjá áhættugreininguna fyrir þetta verkefni og úrvinnslu á þeim hindrunum, sem þar koma fram. Hversu hreint verður niðurdælt koltvíildi ? Er verið að menga jarðveginn í Straumsvík ? Umhverfisstofnun þarf að komast til botns í því, en rúmtak hvers tonns af CO2 í jarðveginum mun verða 10 m3 af steindum í basalti.
Verkefnið sýnir þó svart á hvítu, að Rio Tinto/ISAL er full alvara með að draga úr gróðurhúsaáhrifum á hvert framleitt áltonn. Rio Tinto er nú með í tilraunastöð sinni í Frakklandi (áður í eigu ríkisálfélagsins Pechiney) í gangi tilraunaker í einum kerskála, sem í eru eðalskaut (keramík), sem ekkert koltvíildi losa út í andrúmsloftið við rafgreininguna. Það verður hin endanlega lausn á þessu viðfangsefni. Sú tækni þarf nokkru meiri raforku á hvert framleitt áltonn en gamla Hall-Heroult-tæknin, og þá styrkist samkeppnisstaða landa með "græna" hagstæða raforku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)