Örvænt um vitræna orkumálaumræðu

Framkvæmdastjóri félagsskapar, sem kallaður er Landvernd, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur gengið fram af mönnum fyrir sinn útúrborulega málflutning um íslenzkar virkjanir til raforkuvinnslu, einkum þær, sem enn hafa ekki komið til framkvæmda, en eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og nauðsynlegt er að færa af undirbúningsstigi yfir á framkvæmdastig eina af annarri á næsta aldarfjórðungi, ef hér á að verða hagvöxtur, næg atvinna og ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók. Svipaða sögu er að segja af baráttu hennar gegn 220 kV flutningslínum raforku.

Téð mannvitsbrekka sá sig knúna til að hella úr vizkuskálum sínum yfir landslýð 16.01.2022 af því tilefni, að forstjóri Landsvirkjunar hafði þá nýlega tjáð sig um virkjanaþörf fyrir orkuskipti Íslendinga.  Hún er um 50 % af núverandi orkugetu að hans mati, sem eru um 10 TWh/ár ný orkuvinnslugeta.  Á þessum og næsta áratugi verður vonandi hagvöxtur og íbúum landsins fjölgar, þannig að orkuþörfin mun vaxa umfram það, sem orkuskiptin útheimta, e.t.v. um 35 % á 20 árum, enda skapa orkuskiptin viðskiptatækifæri til útflutnings á "grænu" eldsneyti.   

Framkvæmdastjóri Landverndar talar vafalaust í nafni félagsins, þegar hún tilkynnir, að nóg sé komið af virkjunum á Íslandi.  Spurð, hvernig eigi þá að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda, koma svör, sem sýna, að hún talar í senn af fullkomnu þekkingarleysi og ábyrgðarleysi gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum landsins. 

Hún segir lausnina vera orkusparnað, en raunhæfur orkusparnaður fæst sjaldnast án fjárfestinga, og raforkan, sem hægt er að spara hérlendis með tækniframförum, mun aðeins nema broti af raforkuþörf orkuskiptanna.  Einna stærsta orkusparnaðarverkefnið, sem nú er í gangi, er ný 220 kV Byggðalína í stað 132 kV línu, en Landvernd hefur einmitt lagt steina í götu þeirrar framkvæmdar og tafið hana stórlega.  Þá hefur hún nefnt nýtingu á varmatöpum stóriðjunnar, en hitastigið er yfirleitt svo lágt í strompum verksmiðjanna, að enga raforku er hægt að vinna með þeirri orku, en e.t.v. með ærnum kostnaði hægt að nýta hana í fjarvarmaveitu. 

Ef/þegar álverin söðla yfir í kolefnisfría rafgreiningu súráls, mun orkuþörf álveranna aukast að öðru óbreyttu, því að raforka þarf að koma í stað varmaorku frá bruna kolaforskautanna til að viðhalda hitastigi raflausnarinnar. 

U.þ.b. 1 TWh/ár kann að fara núna til gagnaveranna í landinu.  Fundið hefur verið að þessari sölu vegna þess, að talsvert af orkunni fer í "námugröft" eftir Bitcoin og öðru slíku. Eru slíkar aðfinnslur í samræmi við einstæða hvatningu nýs orkumálastjóra til orkufyrirtækjanna um að láta ekki viðskipti við fyrirtæki ráðast af því, hver býður hæsta verðið, heldur að setja orkuskiptaverkefni í forgang. Standast þessar hvatningar orkumálastjóra ákvæði orkulaga (Orkupakka 3) varðandi frjálsa samkeppni og jafnræði ?

Allt er þetta krepputal afleiðing af þeim raforkuskorti, sem fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hefur leitt yfir þjóðina.  Landsmenn standa nú frammi fyrir fulllestuðu raforkukerfi, sem þýðir, að vegna aflskorts (vöntun á nýjum virkjunum) mun verða að neita öllum óskum um raforku til nýrra verkefna og sennilega að neita fyrirtækjum um afhendingu ótryggðrar raforku, sem er 5-10 % af heildargetu raforkukerfisins, næstu 5 árin, eða þar til ný virkjun, sem eitthvað kveður að á landsvísu, kemst í gagnið.  Augljóslega setur þessi staða loftslagsmarkmið stjórnvalda í uppnám, enda voru þau orðin tóm, þar sem það vantaði, sem við átti að éta. 

Staksteinar Morgunblaðsins gátu ekki orða bundizt 20. janúar 2022 um delluna, sem upp úr framkvæmdastjóra Landverndar vellur:

"Þar [í viðtali á RÚV 16.01.2022 um virkjunarþörf versus orkusparnað Landverndar - innsk. BJo] nefndi hún t.d. strandsiglingar til vöruflutninga, sem lognuðust út af um aldamót.  En hvað er Landvernd að segja ?  Að fólk úti á landi sé ekki of gott til þess að neyta tveggja vikna gamallar dagvöru og geti vel beðið eftir sendingum ?"

Þessi málflutningur framkvæmdastjóra Landverndar er aðeins ein birtingarmynd þeirra afturhaldsviðhorfa, sem eru grundvöllur stefnu Landverndar yfirleitt.  Ekki ber þó að útiloka strandsiglingar.  Þungaflutningar valda megninu af vegslitinu og þar með viðhaldsþörf þjóðveganna.  Þegar þetta ásamt aukinni slysahættu af völdum þungaflutninga á vegum er tekið með í reikninginn, kann vel að vera, að strandsiglingar með annað en dagvöru neytenda, t.d. með rusl að nýrri sorpbrennslustöð, sem gefur frá sér varmaorku og raforku, verði senn hagkvæmar, en bæði þungaflutningar á landi og sjó munu þurfa sitt rafeldsneyti, sem engin raforka er nú til í landinu til að framleiða.

"Aðalmálið sagði hún samt millilandaflugið.  "Þar verðum við að sætta okkur við, að við getum ekki verið að fljúga til útlanda þrisvar á ári hver einasta manneskja, eins og við gerðum fyrir Covid."  Þar fer hún með rangt mál.  Árin fyrir plágu lætur nærri, að það hafi verið 1,7 ferðir á hvert mannsbarn." 

Hvers vegna gerir framkvæmdastjóri Landverndar svo mikið úr utanlandsferðum Íslendinga ?  Þær skipta ekki sköpum fyrir heildarlosun millilandaflugs til og frá Íslandi, og millilandaflug í heiminum skiptir ekki sköpum fyrir losun koltvísýrings á heimsvísu. Þar að auki er afar sennilegt, að 2030-2040 muni koma fram tækni, sem leysir jarðefnaeldsneyti af hólmi í millilandaflugvélum. Ef hugarfar Auðar Önnu Magnúsdóttur yrði hins vegar ráðandi í heiminum, yrðu engar framfarir í þessa veru.  Afturhaldssjónarmið Landverndar hefja neyzlusamdrátt og núllvöxt til skýjanna.  Þetta er hins vegar vís leið til fjöldaatvinnuleysis og fjárhagslegra vandræða um allt þjóðfélagið og um allan heim, ef því er að skipta. Enginn ábyrgur stjórnmálamaður getur léð máls á slíku, en engu að síður smjaðrar nánast öll vinstri slagsíða stjórnmálanna á Íslandi fyrir þessum útúrboruhætti. 

Gervifjölmiðlar gera heldur enga athugasemd við delluna frá Landvernd, en það gerir alvörufjölmiðill á borð við Morgunblaðið aftur á móti:

"En það, sem Landvernd þarf að útskýra, er, hvernig þessum markmiðum skal náð, því [að] leiðirnar eru ekki margar.  Með átthagafjötrum ?  Með skömmtunarstofu utanlandsferða ?  Með skattheimtu, svo [að] aðeins efnafólk hafi efni á utanlandsferðum ? 

Í leiðinni mætti Auður segja okkur, hversu margar flugferðir hafa verið farnar á vegum Landverndar, nú eða fráfarins umhverfisráðherra hennar eða annarra í svipuðum erindum á ráðstefnur úti í heimi árin fyrir fraldurinn, og þess vegna [á] meðan á honum stóð." 

Þarna varpa Staksteinar ljósi á hræsnina, sem umlykur öfgagræningja. Getur verið, að kolefnisfótspor öfgagræningjans sé stærra en meðalkolefnisspor landsmanna ?  Ef við tökum tillit til afleiðinga baráttu þessara græningja gegn orkutengdum framkvæmdum undanfarinn áratug nú í raforkuskortinum, þá er engum vafa undirorpið, að kolefnisfótspor öfgagræningja er risastórt í öllum samanburði.   

 


Bloggfærslur 7. febrúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband