11.3.2022 | 11:30
Orkan og stríðið
Frá Rússlandi kemur um fjórðungur olíunnar og helmingur jarðgassins, sem Evrópa vestan Úkraínu notaði áður en Rússaher réðist með offorsi inn í Úkraínu. Þann 7. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu og sjálfsagt víða um heim áhrifarík grein eftir Oleg Ustenko, efnahagsráðgjafa Volodimirs Zelenski, forseta Úkraínu, frá maí 2019, og Simon Johnson (Project Syndicate). Greinin hét:
"Sniðgöngum rússneska orku strax".
"En engin af þessum refsiaðgerðum (frysting þess hluta rússneska gjaldeyrisvarasjóðsins, sem geymdur er utan Rússlands, lokun á SWIFT hjá nokkrum rússneskum bönkum, ekki öllum) hefur stöðvað innrás Rússa í Úkraínu af einni ástæðu, og engin þeirra mun gera það.
Ástæðan er einföld: Rússar halda áfram að flytja út olíu og gas. Reyndar hefur stríðið hækkað verðið á þessum vörum, mikilvægasta þætti rússneska hagkerfisins, til mikilla hagsbóta [fyrir þá]. Þannig er því, viku eftir að [stríðið] hófst, vestræn orkunotkun enn að fjármagna innrás Rússlands í Úkraínu, og rússneska yfirstéttin (elítan) hagnast meira en nokkru sinni fyrr. Það er engin hjáleið í kringum verkefnið. Það eina, sem mun stöðva yfirgang Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta, er að sniðganga alfarið allar rússneskar orkuafurðir.
Orka er burðarásinn í útflutningi Rússlands. Aðallega sala á gasi til Vestur-Evrópu [um lagnir] á langtíma viðskiptasamningum og sala á olíu á opnum heimsmarkaði."
Ekki þarf að draga í efa þetta mat Oleg Ustenko, enda eru Vesturveldin sama sinnis, en hafa mismunandi mikið svigrúm til athafna í þessa veru. Bandaríkjamenn brugðust fyrstir við og tilkynntu 8. marz 2022 bann við innflutningi jarðgass, olíuvara og kola frá Rússlandi, sem nema um 8 % af notkun þeirra á þessum efnum. Bretar búa enn að nokkru streymi gass og olíu úr botni Norðursjávar, bæði úr eigin lögsögu og Norðmanna, og ætla á nokkrum mánuðum að hætta þessum innflutningi frá Rússum.
Þjóðverjar hafa lagt mest undir í þessum orkuviðskiptumvið Rússa og ætluðu að vaða lengra út í ófæruna með Nord Stream 2. Þeir hafa líka sagzt ætla að hætta þessum viðskiptum við Rússa, en í áföngum og ekki að ljúka þeim fyrr en 2027. Það mun þó sennilega verða miklu fyrr í raun.
"Undanfarinn mánuð hefur daglegt verðmæti rússnesks olíuútflutnings aukizt um nærri 100 MUSD/dag (reiknað út frá mati IEA á daglegum útflutningi Rússa [og] margfaldað með mati okkar á hækkun á raunverði fyrir Úralhráolíu). Gjaldeyrishagnaður Rússa sl. janúar var um mrdUSD 19 eða um 50 % hærri en vanalega á sama tíma. Oft er mánaðarlegur hagnaður mrdUSD 9-12."
Það er athyglisvert, hversu köldu andar nú frá Sádi-Arabíu til Bandaríkjanna, en þetta mikla olíuútflutningsríki gæti fyrirvaralítið aukið framleiðslu sína, a.m.k. um nokkurra mánaða skeið, álíka mikið og nemur olíuútflutningi Rússa, um 0,7 Mt/dag (4-5 Mtu/d). Það kann að stafa af gagnrýnum ummælum háttsettra bandarískra stjórnmálamanna um stjórnarfarið í þessu Arabalandi.
Nú reyna Bandaríkjamenn að strjúka kommúnistanum Maduro í Venezúela meðhárs, en þar er allt í niðurníðslu, eins og mikill fjöldi flóttamanna frá Venezúela til Íslands er til vitnis um. Það yrði saga til næsta bæjar, ef konungsfjölskyldan í Riyadh bregst Vesturveldunum á ögurstundu og mun vart verða henni til framdráttar.
Það er svo að sjá, að rússneska ríkið muni ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið vegna villimannslegra aðfara rússneska hersins í Úkraínu. Líklega er pólitískur óstöðugleiki framundan í Garðaríki, og í vestrænum fjölmiðlum er farið að gera greiðslufalli rússneska ríkisins skóna. Lífskjör um allan heim hafa þegar versnað vegna afleiðinga þessa viðbjóðslega og óafsakanlega stríðs Kremlarherranna gegn friðsamri, fullvalda og lýðræðislega þenkjandi þjóð, sem sækist eftir vestrænum lifnaðarháttum. Í Rússlandi munu rýr lífskjör almennings hrapa, þegar VLF lækkar um 6 % eða meir og rúblan missir mikið af verðgildi sínu. Ætli ólígarkarnir í kringum forsetann megi þá ekki fara að biðja Guð að gleypa sig ?
"Stöðvun á orkusölu Rússa getur hafizt með algeru viðskiptabanni Bandaríkjamanna [gerðist 08.03.2022] auk afleiddra þvingana eða sekta, sem hægt er að leggja á þriðju aðila eða þjóðir, sem ekki falla beint undir viðskiptabannið, en eiga í viðskiptum, sem fara gegn tilgangi þess.
Heimsmarkaðsverð á olíu mun hækka, en verði refsiaðgerðunum að fullu framfylgt, mun hagnaðurinn af því ekki enda hjá rússneskum framleiðendum. Í slíkri atburðarás áætlar IEA, að olíuframleiðsla um allan heim verði aukin mjög hratt - Rússland flytur út 5 Mtu/dag, en viðbótar framboð heimsins gæti orðið a.m.k. 3 Mtu/dag. Ráðstafanir til orkusparnaðar geta og ættu einnig að verða innleiddar, þar sem við á."
Markaðsöflin munu vafalaust knýja á um aukna framleiðslu nú, þegar raunverð olíu er hærra en nokkru sinni áður og notendur munu sjá sér mikinn hag í að spara olíuna á öllum sviðum, ekki sízt bílaeigendur. Við þessar aðstæður kemur vel í ljós glámskyggni þeirra, sem bera ábyrgð á því, að á Íslandi er raforkuskortur. Af hagkvæmniástæðum og af þjóðaröryggisástæðum ætti alltaf að vera borð fyrir báru í raforkuframboðinu, svo að hægt sé að verða við allri eftirspurn forgangsorku gegn verði, sem skilar hóflegri arðsemi raforkugeirans. Nú er Landsvirkjun að fyllast örvæntingu yfir því að verða e.t.v. að draga úr forgangsorkuafhendingu í vor vegna eigin fyrirhyggjuleysis. Hún býðst til að greiða forgangsorkunotanda stórfé fyrir að draga úr raforkunotkun sinni nú. Hvílíkt sjálfskaparvíti ! Nýtur slík endemisstjórn Landsvirkjunar enn stuðnings Alþingis ?
"Auðvitað þyrfti Evrópusambandið að fylgja fast í kjölfarið. Til að vera ekki að skafa neitt utan af hlutunum þá er það bara spurning um tíma. ESB getur annaðhvort hætt að kaupa rússneskt gas strax til að stöðva innrásina eða það getur beðið í mánuð, þar til þúsundir til viðbótar hafa fallið - og skelfilegar myndir af mannfalli óbreyttra borgara hafa flætt um alla miðla. Það kemur að því, að Evrópubúar geti ekki lengur lifað með þeirri staðreynd, að þeir eru að fjármagna grimmdarverk Pútíns í Úkraínu."
Innrás Rússa í Úkraínu er fullkomlega fráleit. Þeir eiga ekkert tilkall til landsins, og skiptir sagan þá engu máli. Það, sem öllu máli skiptir í þessu sambandi, er, að Úkraína var frjálst og fullvalda ríki, og það hlutskipti völdu íbúarnir sér sjálfir í kosningum. Nú hafa þeir sýnt og sannað fyrir sjálfum sér og umheiminum með hetjulegri baráttu sinni við ofureflið, sem vill leggja þá undir sig, að þeir eru tilbúnir að fórna öllu fyrir land sitt, fullveldi ríkisins og frelsi íbúanna til að ráða málum sínum sjálfir. Það mun aldrei gróa um heilt á milli Úkraínumanna og Rússa, og þess vegna hafa hinir síðarnefndu algerlega eyðilagt alla möguleika sína til pólitískra áhrifa í landinu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Rússneskir hermenn berjast þess vegna tilgangslausri baráttu í Úkraínu, og með svívirðilegum grimmdarverkum sínum leiðir rússneski herinn þjóð sína æ lengra út í fúafen, sem hafa mun svo slæm áhrif á rússneska þjóðarsál (sjálfsvitund almennings), að langvarandi kreppa og jafnvel upplausnarástand, verra en eftir fall hins kommúnistíska þjóðskipulags árið 1991, gæti hæglega orðið reyndin í Rússlandi. Sýnir þetta glögglega í hvers konar ógöngur einræðisskipulag getur leitt þjóðir og gerir oftar en ekki, sbr Þriðja ríkið.
"IEA [International Energy Agency] hefur birt áætlun um, hvernig megi draga úr notkun Evrópu á rússnesku gasi, og teymi hjá Brügel [hugveita] hefur birt tillögur um það, hvernig hægt sé að þrauka næstu mánuði án rússnesks gass. Allir evrópskir stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við verkefnið."
Evrópuþjóðirnar verða að setja í algeran forgang að fást við skrímslið í Kreml. Nú vorar í Evrópu, og það er hægt með mótvægisaðgerðum að komast af án rússneskrar olíu og gass. Því fyrr sem þjóðirnar í ESB lýsa sig reiðubúnar að taka á sig þær fórnir, sem til þarf til að stöðva stríðsvél Kremlarmafíunnar, þeim mun betra. Nokkur ríki innan ESB gerðu sig sek um að fóðra bjarndýrið og tóku með því allt of mikla áhættu, af því að þau vanmátu grimmd bjarndýrsins og ranghugmyndir um yfirráð þess. Þau verða um skeið að súpa seyðið af því.
"Áhrifin takmarkast heldur ekki aðeins við Evrópu. Úkraínskur landbúnaður mun t.d. mjög fljótlega hrynja. Enginn getur plægt akra eða sáð fræjum undir skothríð rússneskra hersveita. Þetta mun ýta undir hækkun matvælaverðs á heimsmarkaði vegna þess, að Úkraína er 5. stærsti útflytjandi hveitis í heiminum, og hafa neikvæð áhrif á efnahag og lífskjör í lágtekjulöndum."
Úkraína er kornforðabúr Evrópu, og var sú staðreynd notuð til að telja íbúum Þriðja ríkisins trú um nauðsyn "Drang nach Osten für Lebensraum", þ.e. útþenslustefnu nazista í austurveg. Í Kreml hefur í aldaraðir ríkt útþenslustefna í allar áttir, en nú er rússneska ríkið komið að leiðarlokum í þeim efnum. Að missa kornvörur Úkraínu út af markaðinum mun hækka verða landbúnaðarafurða, kynda enn meir undir heimsverðbólgu og auka hungursneyð í heiminum, en Bandaríkjamenn o.fl. munu e.t.v. geta aukið framleiðslu sína eitthvað á móti.
Grein Olegs Ustenko lauk þannig:
"Það er tími kominn til að horfast í augu við þann harðneskjulega veruleika, að Pútín og félagar hans hafa gengið berserksgang. Heimurinn getur annaðhvort sniðgengið rússneska orku með öllu til að stöðva innrásina strax eða haldið áfram að fylgjast með rússneskum hersveitum fremja hverja svívirðuna á fætur annarri - og fikra sig á hverjum degi nær yfirráðasvæði ESB-ríkja.
Enginn í veröldinni ætti að kaupa rússneska orku. Útskúfun fyrir það ætti að vera meiri og verri en fyrir viðskipti með blóðdemanta. Heimurinn er að vopnavæða og hvetja grimmt og stjórnlaust skrímsli. Það verður að hætta."
Nú er rússneski flugherinn tekinn til við að gera loftárásir í Úkraínu vestanverðri. Þar er mikið af flóttamönnum. Þá er ekki seinna vænna fyrir NATO að setja flugbann á vestanverða Úkraínu af mannúðarástæðum og sökum nálægðar við landamæri aðildarlandanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)