14.3.2022 | 11:43
Kjarnorkuver eru forsenda orkuskipta víðast hvar í Evrópu
Frakkar hafa aldrei lagt kjarnorkuna á hilluna og Bretar ekki heldur. Þjóðverjar veðjuðu á mikil og örugg jarðgaskaup frá Rússlandi til að fylla upp í eyður verðleika vindmyllna og sólarhlaða. Nú hafa þeir vaknað upp með andfælum og áttað sig á, að orkuna er ekki unnt að eiga undir Rússum, hverra valdamenn eru haldnir sjúklegum landvinningahugmyndum, eins og tröllriðið hafa rússneskum valdamönnum um aldaraðir, sem og landakortið ber vott um. Hið eina, sem komið getur af fullum krafti í stað jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu í flestum löndum Evrópu, er kjarnorkan.
Íslendingar eru í sérstöðu, hvað þetta varðar, með orku fallvatna og jarðgufu auk jarðhita undir 100°C til húsahitunar. Þá bregður hins vegar svo við, að einstrengingslegt úrtölufólk, eintrjáningar, sem er fyrirmunað að sjá heildarmyndina og varðar ekkert um þjóðarhag, leggjast af offorsi, af því að rök vantar, gegn frekari nýtingu þessara eftirsóknarverðu orkulinda og hafa fengið þá flugu í höfuðið, að búið sé að virkja nóg. Þau eru í raun að berjast gegn orkuskiptum og aukinni hagsæld í landinu, enda fléttast inn gasprið hugmyndir um, að þjóðin verði að hætta að sækjast eftir hagvexti, en kappkosta í staðinn núllvöxt. Einkabíllinn er óvinur þessara voluðu sálna, líka sá rafvæddi. Afleiðingarnar af glapræði þessara afturhaldsviðhorfa eru sérkapítuli.
Í samningaviðræðunum, sem leiddu til Rio-umhverfisráðstefnunnar árið 1992, eyddi Saudi-Arabía miklum tíma í að fá sett inn orðin "umhverfislega örugg og traust" (environmentally safe and sound) framan við "orkulindir" (energy sources) og "orkuframboð" (energy supplies). Þar sem olía Saudi-Arabíu, sem íbúarnir pumpa upp úr jörðunni í meira mæli en annars staðar þekkist, er nú á dögum ekki talin vera umhverfislega örugg, virðist þetta keppikefli Saudanna þokukennt. Í þá daga var þó ætlun Saudanna öllum, sem létu sig málin varða, ljós: orðalaginu var ætlað að halda kjarnorkunni utan við dagskrá Rio.
Olíukreppur 8. áratugar 20. aldarinnar höfðu hleypt lífi í þróun, hönnun og uppsetningu kjarnorkuvera í mörgum löndum. Á áratugnum fyrir 1992 hafði orðið aukning í notkun raforku frá kjarnorkuverum um 130 %. Það, sem meira var; það voru umræður um að nota raforkuna frá kjarnorkuverunum til að rafgreina vatn og fá þannig vetni í gervieldsneyti. Hvort sem Saudarnir báru umhverfið fyrir brjósti eða ekki, þá gerðu þeir sér ljóst, hvaðan vænta mætti samkeppni.
Varnarviðbrögð þeirra reyndust óþörf. Öfugt við olíukreppurnar hefur baráttan við hlýnun jarðar ekki framkallað hrifningu á kjarnorkunni. Notkun hennar náði hámarki 2006, en árið 2019 var hún aðeins 18 % meiri en en árið 1992. Sem hlutfall af frumorkunotkun heimsins féll hún úr 6.1 % árið 2006 í 4,3 % árið 2019. Skýringarinnar er að leita í því, að eftirlitsaðilar kjarnorkumála hafa stöðugt verið að hlaða utan á regluverkið um kjarnorkuverin nýjum kröfum, sem allar hafa bætt við kostnaði, sem dregið hefur úr fjárhagslegri arðsemi þeirra, en skaðleg áhrif jarðefnaeldsneytis hafa yfirleitt ekki verið látin endurspeglast í verði þess. Þar að auki hafa umhverfisverndarsinnar af tilfinningalegum ástæðum lagzt gegna kjarnorkuverum.
Róttæk lækkun á vinnslukostnaði vindmyllna og sólarhlaðna síðasta áratuginn hefur varðað leið Vesturlanda til kolefnislausrar raforkuvinnslu, en hún leiðir ekki til ákvörðunarstaðarins, af því að raforkukerfin eru órekanleg með þeim án varaafls, og þá er gripið til jarðgasknúinna raforkuvera. Nú hefur orðið kúvending á viðhorfi margra þjóða, t.d. Þjóðverja, til jarðgasöflunar, því að ríkið, sem afhenti þeim áður gas, hefur reynzt vera glæpsamlegt útþensluríki, sem einskis svífst í grimmdarlegri aðför, villimannslegu stríði, við nágrannaríki, sem alls ekki vill aftur lenda undir yfirráðum þessa frumstæða nágranna, sem lýtur forystu siðblindingja af verstu sort, höldnum lygaáráttu og allra handa ranghugmyndum í sínum bunker.
Kjarnorkan hefur sína galla, eins og allar orkulindir. Þegar hún er hins vegar undir eðlilegu faglegu eftirliti, þar sem hönnunin er reist á vönduðum áhættugreiningum, svo að þau eru í raun "fail safe", þ.e. örugg í bilunartilvikum, þá eru þau mjög örugg. Þess vegna er við núverandi aðstæður heimskulegt að loka kjarnorkuverum þessarar gerðar, sem enn hafa ekki lokið öruggu rekstrarskeiði sínu, eins og t.d. Diablo Canyon í Kaliforníu vegna lítils annars en fordóma, eins og einnig átti við um Þýzkaland, sem nú hlýtur að söðla um í þessum efnum, þegar landið sér "skriftina á veggnum". Þess vegna hafa nokkur lönd, í mestum mæli Kína, nú þegar hafið mikið uppbyggingarskeið kjarnorkuvera. Ekki er víst, að þau fullnægi þó öll vestrænum öryggiskröfum, en orkuneyðin og mengunin knýr á um þessa stefnu í Kína. Jafnvel Saudi-Arabarnir hafa nú hoppað á þetta hross.
Þess vegna er nú aukinn þrýstingur á markaðinum, t.d. á Bretlandi og í Frakklandi, að lækka kostnaðinn við kjarnorkuverin. Frakkar, sem nota kjarnorku í ríkum mæli (> 50 %), byggja stór kjarnorkuver, en þeim hefur á seinni árum ekki tekizt að halda sig innan kostnaðaráætlana og tímamarka með þau. Þeir eru nú með ný áform um lítil ver í einingum (SMR), sem eru miklu viðráðanlegri verkefni en hin stóru. Þann 4. nóvember 2021 skrifaði bandarískt félag, NuScale, undir samning um afhendingu 6 slíkra kjarnakljúfa til Rúmeníu, svo að ýmsir sjá nú ljósið.
Að hanna kjarnorkuver í fremur litlum einingum er góð hugmynd, því að þannig má koma við stöðlun á öllum sviðum hönnunar, framleiðslu, flutninga og uppsetningar, sem veitir kost á hagræðingu, er hefur í för með sér sparnað. Regluverkið þarf að vera sveigjanlegt og faglegt, svo að það veiti svigrúm til samkeppni ólíkra framleiðenda. Þetta mun gera kjarnorkuiðnaðinn aftur að góðum jarðvegi fyrir líflega tækniþróun, eins og var raunin á árum áður en reglufarganið lamaði þróunina, svo að kjarnorkan gat ekki veitt jarðefnaeldsneytinu verðuga samkeppni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)