16.3.2022 | 10:23
Herstjórn í handaskolum
Það er kolröng ályktun Viðreisnarforkólfa, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, kynnir um þessar mundir af áfergju, t.d. í Silfri RÚV 13. marz 2022, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, predikar líka, að nú hafi þeir atburðir orðið í Evrópu, sem geri einboðið fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB), þ.e. að biðja viðkomandi "kommissar" í ESB um að dusta rykið af þeirri gömlu. Halda þau virkilega, að ESB telji ekki mikilvægara að fást við brýnni mál en þetta núna ? Engum alvöru norskum stjórnmálaleiðtoga dettur í hug að fara á flot með jafnfjarstæðukennda hugmynd og þessa þar í landi. Þannig hefur formaður Hægri, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, og fylgjandi ESB-aðild, ekki fitjað upp á þessu, enda ekki vinsælt í Noregi, að norskir hermenn gangi í Evrópuherinn. Norski herinn er NATO mikilvægur í vörnum Norður-Evrópu. Þessir íslenzku formenn tveir eru úti að aka.
Það er alveg rétt, að allt gjörbreyttist í Evrópu 24. febrúar 2022 með villimannlegri innrás Rússahers í Úkraínu, sem lygnu siðblindingjarnir í Kreml kalla ekki sínu rétta nafni og hafa bannað rússnesku þjóðinni að kalla sínu rétta nafni, heldur skuli viðhafa hugtakarugling að hætti Kremlar og kalla ófögnuðinn "sértæka hernaðaraðgerð". Þá er skírskotað til þeirrar vitfirrtu átyllu, að nauðsynlegt hafi verið að hreinsa nazista út úr valdastöðum í nágrannaríkinu, af því að rússneskumælandi fólk ætti þar í vök að verjast. Sjúklegri lygaþvættingur hefur sjaldan sézt eða heyrzt. Rússar eru nú flæktir í eigin lygaþvælu, þar sem yfirmenn hafa logið að undirmönnum um "strategíu" hernaðarins, og undirmenn hafa logið að yfirmönnum um getu hersins. Leyniþjónustan, arftaki KGB, laug að Pútín um hug Úkraínumanna til innrásarhersins og sagði honum aðeins, það sem hann vildi heyra. Þetta er dæmigerður veikleiki einræðisríkis.
Viðbrögð ESB-ríkjanna urðu snögg og samstæð, mikil aukning hernaðarútgjalda, miklar hergagnasendingar til Úkraínu og viðamiklar fjármálalegar og viðskiptalegar refsiðgerðir gegn Rússum undir forystu Bandaríkjamanna. Við Rússlandi blasir gjaldþrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Mikil aukning fjárveitinga til hermála er ekki til að styrkja hernaðararm ESB, heldur til að gera Evrópuríkin í stakk búin til að uppfylla hernaðarlegar skuldbindingar sínar gagnvart NATO, enda gera þau sér mætavel grein fyrir, að þau geta ekki varið sig sjálf gegn Rússlandi, heldur verða að reiða sig á NATO. Þetta varð enn ljósara við brotthvarf öflugasta herveldis Vestur-Evrópu úr ESB, og Bretar hömruðu jafnan á því, á meðan þeir voru innanborðs, að stofnun ESB-hers yrði NATO ekki til framdráttar, nema síður væri, því að sömu fjármunina er ekki hægt að nota tvisvar. Þegar af þessari ástæðu er Úkraínustríðið engin hvatning fyrir Ísland til að ganga í ESB. Málflutningurinn sýnir fremur málefnalegt gjaldþrot ESB-sinna hérlendis, þar sem þeim hefur mistekizt að sýna fram á gagnsemi aðildar fyrir hinn almenna mann. Það er ekki hægt að sýna fram á neina gagnsemi af aðild fyrir land, sem er með þjóðartekjur á mann hátt yfir meðaltali ESB-ríkjanna.
Staðan sýnir hins vegar öllu hugsandi fólki í sjónhendingu, hversu mikilvægt varnarbandalagið NATO er fyrir varnir lýðræðisríkja hins vestræna heims, enda mælist nú meira en helmingsfylgi almennra flokksmanna VG við NATO-aðild Íslands, þótt forstokkaðir flokksbroddarnir japli enn á andstöðu sinni við veru Íslands í hvers konar hernaðarbandalögum. Þau eru óskiljanleg og verulega vandræðaleg. Þegar fólk hefur verið einu sinni slegið blindu, á það sér ekki viðreisnar von. Á hinum Norðurlöndunum eru systurflokkar VG ekki svona forstokkaðir, heldur endurmeta nú stöðuna, t.d. SV í Noregi.
Spurt hefur verið, hvort Ísland eigi við núverandi aðstæður að fara fram á stöðuga viðveru herliðs á vegum NATO. Varnarbandalagið hefur nú nóg á sinni könnu í austanverðri Evrópu, þar sem það gæti lent í beinum bardaga við rússneska herinn fyrirvaralaust. Á meðan átökin hafa ekki færzt út á Atlantshafið, verður að líta svo á, að stöðug viðvera varnarliðs hér á vegum NATO hafi litla þýðingu.
Það gæti þó breytzt, og fari NATO fram á slíkt, t.d. eftir að hafa komizt á snoðir um einhver áform óvinarins, þá er það helzta mótframlag, sem Íslendingar geta lagt að mörkum gegn hervernd NATO, að ljá land, aðstöðu og alla mögulega þjónustu við herlið, sem NATO telur æskilegt eða nauðsynlegt að staðsetja hér.
Stríðið í Úkraínu hefur komið flatt upp á flesta. Aðdáun hefur vakið frækileg vörn Úkraínumanna, sem láta ekki bilbug á sér finna þrátt fyrir hrottalega stríðsglæpi rússneska hersins gegn almennum borgurum, íbúðarhúsum, sjúkrahúsum, fæðingardeildum, elliheimilum o.s.frv.
Rússneski herinn sýnir öll merki þess gerspillta ríkis, sem hann þjónar. Búnaður stendur sig illa og er óáreiðanlegur, varahluti, eldsneyti og mat handa hermönnunum skortir, þ.e. aðföng hersins eru í lamasessi. Þar sem spilling ríkir, þykir þetta dæmigert einkenni. Af fjárveitingum til hermála er m.ö.o. ótæpilegu stolið á öllum stigum. Ólígarkar fá framleiðslusamninga á hertólum, en illa er gengið frá samningum, svo að ólígarkar sleppa með að afhenda gallaða vöru.
Herstjórnarlist Rússa virðist ekki vera upp á marga fiska. Hún virðist í sumum tilvikum miðast við að hrúga saman sem flestum skriðdrekum á lítil svæði í von um, að ógnin af þeim leiði til uppgjafar, en Úkraínuher virðist hafa átt ágæt svör við þessari ógn, sem leitt hefur á 2 vikum til þriðjungs af mannfalli Rússa í öllu Afghanistan-stríðinu og svo mikils taps stríðstóla, að rússneski herinn virðist ekki fá það bætt með varaliði. Afleiðing af þessu öllu er slæmur andi og minni bardagageta rússneska hersins en búizt var við. Orðstýr rússneska hersins er farinn norður og niður, hann virðist vera siðferðislegt flak.
Þessi innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik þar í landi, en út úr viðbjóði óréttlætanlegrar innrásar með tugþúsundum látinna og hundraða þúsunda særðra auka efnalegs tjóns, sem hleypur á hudruðum milljarða evra, gæti komið samstæðari Úkraínuþjóð en nokkru sinni áður í sögunni, sem mun ákveðin kjósa sér vestræna lifnaðarhætti, eigi hún þess kost. Vesturveldin fá vonandi tækifæri til að aðstoða við uppbyggingu vestræns þjóðfélags úr þeim rústum, sem Rússar hafa valdið.
Rússa bíður ekkert annað en skömm og fyrirlitning heimsins í einangrun. Stjórnarfarið þar er nú farið að minna mjög á Stálínstímann. Hversu lengi heimurinn mun þurfa að lifa í nýju "Köldu stríði", verður undir Rússum komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)