19.3.2022 | 11:45
Stórhuga hugmyndir um vindorkuver
Markaðsdrifin fyrirtæki hafa fyrir löngu eygt mikil viðskiptatækifæri í ömurlegum vandræðagangi íslenzkra stjórnvalda við að gegna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni með vísun til þjóðaröryggis að tryggja hér nægt framboð raforku, þ.m.t. til upphitunar húsnæðis, þar sem íbúarnir verða að reiða sig á rafmagn ellegar að brenna olíu.
Vindorkufyrirtæki hafa látið í ljós áhuga sinn á því að stíga með skjótum hætti inn í skortstöðuna, sem stjórnvöld hafa með aðgerðarleysi leyft að myndast. Orku, sem kemur inn í skortstöðu, er hægt að selja á hærra verði en ella, og það getur skapað vindorkuverum á Íslandi rekstargrundvöll, sem þau annars hefðu ekki. Vindorkufyrirtækin hafa sennilega einnig gert sér grein fyrir, að til langs tíma er miðlunargeta íslenzkra miðlunarlóna of lítil til að anna álaginu og þannig eygt möguleika á að selja Landsvirkjun alla þá raforku, sem þeir geta látið af hendi, svo að Landsvirkjun geti sparað vatn. Sama árangri má ná með gufuvirkjunum. Vindorkufyrirtækin hafa kynnt áhuga sinn fyrir vindorkugörðum m.a. á Hróðnýjarstöðum við Búðardal, í Gilsfirði, á Laxárdalsheiði, á Melrakkasléttu og á Mosfellsheiði.
Nú er komin fram hugmynd frá bandarísku félagi um að reisa risavaxið vindorkuver úti fyrir strönd Íslands með uppsettu afli alls 10 GW. Þetta er um ferfalt allt uppsett afl á landi og gæti framleitt um 35 TWh/ár, sem er 75 % meira en framleiðslugeta virkjana á Íslandi um þessar mundir. Viðskiptahugmyndin snýst um að selja orkuna til Bretlands. Aðalmálið í þessu sambandi hlýtur að verða, hvaða áhrif slíkir vindmyllugarðar, 20-40 km frá landi, hafa á öryggi sæfarenda. Af kynningu að dæma gætu þessar vindmyllur orðið tæplega 1000 talsins, og líklega verða reistir dreifistöðvarpallar til að safna orkunni inn á safnskinnur, spenna hana upp og breyta í jafnspennu fyrir flutningsstrengi til Bretlands. Það hljómar sem undarleg viðskiptahugmynd að leita alla leið til Íslands til að setja upp orkuver á hafi úti til að framleiða raforku fyrir Bretland. Eru ekki aðrir kostir nærtækari, t.d. skozku eyjarnar eða Færeyjar ? Líklega kæra íbúarnir þar sig ekki um þessi ferlíki úti fyrir sínum ströndum, sem óhjákvæmilega hafa áhrif á aðra nýtingu hafsvæðanna, s.s. til siglinga og veiða.
Það er fagnaðarefni, hversu áhugasöm ritstjórn Morgunblaðsins er um orkumál, og 12. febrúar 2022 birtist þar frásögn Gunnlaugs Snæs Ólafssonar af þessum áformum og umfjöllun norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar (Havforskningsinstituttet-HI) um umhverfisáhrif slíkra mannvirkja:
"Aukinn áhugi hefur verið á uppbyggingu vindmyllugarða í Noregi á undanförnum árum, ekki sízt vegna síhækkandi raforkuverðs, en miklum efasemdum hefur verið lýst um ágæti slíkra áforma.
"Vindorkuver á hafi úti framleiða hljóð, sem flestir fiskar og sjávarspendýr heyra. Hljóðunum má skipta í byggingarhljóð, þ.e. hljóð frá byggingu vindmyllanna og framleiðsluhávaða, hljóð frá vindmyllum, sem eru í gangi", segir í inngangi kafla skýrslunnar um áhrif vindmyllugarða."
Lágtíðnihljóðið smýgur inn um veggi bygginga og er ein af ástæðum þess, að ekki ætti að leyfa staðsetningu vindmylluvera á landi í grennd við íbúðarhúsnæði eða útihús, eins og t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð. Ekki er ólíklegt, að sjávardýrin geti beðið tjón af þessu hljóði líka, en þau hafa tilhneigingu til að safnast að slíkum mannvirkjum.
Þarna er minnzt á Noreg. Óhugnanlegt er að sjá viðurstyggileg vindorkuver upp um fjöll og firnindi Noregs, og hvernig stórum flæmum óspilltrar náttúru hefur verið rótað upp vegna slóðagerðar, skurðgraftar fyrir rafstrengi og graftar fyrir gríðarlegar steyptar undirstöður fyrir hverja burðarsúlu rafala og spaða. Þá er ekki gott til þess að vita, að plasttrefjaagnir slitna frá spöðunum og dreifast um óspillta náttúruna og menga fæðu fugla og spendýra og drykkjarvatn.
Frá HI kom þetta í téðri frásögn blaðamanns:
"Stöðugur lágtíðnihávaði frá túrbínunum [spöðunum-innsk. BJo], á meðan þær [þeir] eru í rekstri, mun fyrst og fremst hafa áhrif á dýrin í og nálægt vindmyllugörðunum. Þar sem botndýr koma sér fyrir á svæðinu og fiskar laðast oft að svæðinu, verða þessir hópar fyrir framleiðsluhávaða í lengri tíma. Stöðugur lágtíðnihávaði getur haft áhrif á hegðun eins og botnblöndun, beit, æxlun, hegðun gegn rándýrum og samskipti, en hversu mikil áhrifin eru m.v. jákvæð áhrif aukins fæðuframboðs og skjóls í vindorkuverum er óþekkt. Einnig eru þekkingareyður um getu sjávardýra til að laga sig að hávaðaáhrifum með tímanum."
Rannsóknir á umhverfisáhrifum vindmylla á hafi úti virðast ekki hafa leitt til neinnar niðurstöðu, þótt um 20 ára reynsla sé af rekstri þeirra úti fyrir ströndum Evrópu og Bandaríkjanna. Þegar við bætast öryggis- og mengunarsjónarmið virðist að svo stöddu gamla slagorðið, sem í öðru samhengi er ekkert annað en skálkaskjól, að náttúran skuli njóta vafans, eiga við.
Norska hafrannsóknarstofnunin er raunverulega bara að velta upp þeim atriðum, sem þarf að rannsaka áður en heimild er veitt til að reisa vindorkuver á hafi úti:
"Hávaði getur, ásamt öðrum áhrifum vindorkuvirkjana (t.d. breytingum á rafsegulsviðum og straummynztri), leitt til breytinga á búsvæðum, sem geta hugsanlega haft neikvæð áhrif, eins og minni æxlun og/eða aukna dánartíðni."
Síðan kemur fram í þessari umfjöllun, að norska ríkisstjórnin er raunverulega að beina vindmyllufjárfestingum á haf út, líklega af því að vaxandi andstaða er á meðal norsks almennings við vindmylluver á landi, enda spara þau Norðmönnum enga jarðefnaeldsneytisbrennslu, eins og reyndin er á meginlandi Evrópu og á Bretlandi. Skilvirkni vindmylla til raforkuvinnslu er lítil m.v. fjármagnsþörf og landþörf. Þess vegna er vindmyllurekstur til raforkuvinnslu hérlendis líklegur til að þrýsta verði raforku upp, sem leiða mun til veikingar á samkeppnishæfni Íslands. Þannig virðist það vera meinloka spákaupmanna, að vindmyllur eigi heima í íslenzku raforkuumhverfi.
"Ríkisstjórnin vill stórfellda fjárfestingu í vindorku á hafi úti, en sýnir engan vilja til að rannsaka afleiðingar þess fyrir nokkra af stærstu fiskistofnum heims. Á Noregur að fjárfesta í blindni, eða ættum við í staðinn að afla vitneskju um afleiðingarnar og tryggja áframhaldandi sjálfbæra stjórnun fiskveiðiauðlinda okkar ?", spyrja talsmenn samtaka norskra útgerðarmanna, Fiskebåt, í grein á vef sínum."
Svipaðs andvaraleysis hefur gætt í Noregi varðandi leyfisveitingar fyrir vindmyllum úti í fallegri fjallanáttúru, þar til þjóðin vaknar nú upp við vondan draum. Þrýstingur hefur verið mikill í Noregi frá vindmyllufyrirtækjunum, því að þau hafa getað flutt raforkuna utan við háu verði, og þá hefur verið hægt að halda því fram, að þessi endurnýjanlega orkuvinnsla dragi úr losun koltvíildis út í andrúmsloftið. Það er næsta víst, að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi munu að svo stöddu hafa uppi svipuð varnaðarorð gegn risavindmyllum úti fyrir Suð-Austurlandi og norskir útgerðarmenn hafa haft uppi gegn vindmyllum við strandlengju Noregs, enda á Noregur, eins og Ísland, enn talsvert eftir af óvirkjuðu vatnsafli og mun verða að bæta við virkjunum vegna orkuskipta og þjóðar í vexti. Að treysta á innflutning raforku utan mesta álagstímans veitir ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku fyrir Ísland. Íslendingar eiga einfaldlega að beina fjárfestingargetu raforkuiðnaðar síns í virkjanir á jarðgufu og vatnsafli, þannig að á Íslandi verði alltaf borð fyrir báru á framboðshlið raforkunnar m.v. eftirspurn almenningsveitna og fyrirtækja, sem geta staðið undir arðbærum samningum fyrir íslenzk raforkufyrirtæki. Með þessu móti verður bæði tryggð hámarkshagkvæmni við nýtingu orkulinda landsins og lágmarks unhverfisrask. Er það ekki augljóst ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)