Kúvending við örlagaþrungna atburði

Í fyrsta sinn frá Heimsstyrjöld 2 hefur stórveldi ráðizt með hervaldi á fullvalda nágranna sinn í því skyni að ná tökum á öllu landinu. Það gerðist 24.02.2022 með innrás Rússlands í Úkraínu, þrátt fyrir fullyrðingar forseta Rússlands um, að liðssafnaðurinn við landamæri Úkraínu væri þar í æfingaskyni. Sannleikurinn vefst ekki fyrir þessum fyrrum leyniþjónustumanni, sem Kasparof, fyrrum heimsmeistari í skák, líkti nýlega við mafíuforingja. 

Sovét-Rússland réðist að vísu með her inn í Ungverjaland og hertók Búda-Pest 1956 og inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, en varla er hægt að kalla fórnarlömbin þá fullvalda ríki, enda voru þau á bak við járntjald alræðis kommúnismans í þá daga.  Þá horfði Evrópa og upp á hin hræðilegu Balkanstríð á 10. áratugi 20. aldarinnar, þegar Serbar reyndu að sameina ríkin, sem áður voru hluti Júgóslavíu, undir veldi sitt, en Serbar voru ekki stórveldi.  Þannig er hinn voveiflegi atburður að næturlagi 24. febrúar 2022 einstakur í sögunni og mun eðlilega hafa gríðarlegar, jafnvel geigvænlegar, afleiðingar. Miklar afleiðingar hafa þegar komið í ljós.  Núverandi atburðir munu móta söguna í mannsaldur eða meir. Af afstöðu Kínverja að dæma til hinnar villimannlegu innrásar í Úkraínu, er Rússland að einangrast á öllum sviðum.  Ríkisstjórn og herráð Rússlands hafa gert herfileg mistök með innrásinni í Úkraínu, herinn hefur lent í kviksyndi stríðsglæpa með árásum, einnig eldflaugaárásum, á saklausa borgara, íbúðarhús, skóla og sjúkrahús, og vakið viðurstyggð umheimsins. Óskandi væri, að bardagaþrek þessa rússneska innrásarhers þryti alveg og að hann hundskaðist heim til sín með skottið á milli lappanna.  

Við sjáum nú, að glæpsamlegt atferli lygalaupsins og ómerkingsins, sem situr enn með valdataumana í Kreml, hefur ekki aðeins náð að sameina Úkraínumenn í blóðugri baráttu gegn ofurefli liðs einræðisseggsins, heldur einnig Vesturlönd og bandamenn þeirra. Þau hafa sameinazt um hörðustu refsiaðgerðir á fjármálasviðinu, sem þekkjast, með þeim afleiðingum, að rússneska rúblan hefur hrunið ásamt rússneska verðbréfamarkaðinum, ýmsum ólígörkum í kringum forseta Rússlands hefur verið meinaður aðgangur að fjárhirzlum sínum á Vesturlöndum, bankaviðskipti Rússa hafa verið torvelduð verulega (SWIFT-takmarkanir) og síðast en ekki sízt hafa eigur rússneska seðlabankans á Vesturlöndum verið teknar eignarnámi um sinn (á meðan Vladimir Putin er við völd). Það er athyglisvert, að Svissland, með alla sína bankaleynd, tekur þátt í ströngum refsiaðgerðum gegn téðum Pútin og hirðinni í kringum hann. 

Téður Vladimir Pútín greip þá til vitlausasta svarsins, sem hugsazt gat, þ.e. að hóta kjarnorkustríði.  Rússar eiga nú engra annarra kosta völ en að fjarlægja þennan mann úr valdastóli. Æ fleiri valdamönnum í Rússlandi hlýtur að verða það ljóst, að héðan af liggur leiðin bratt niður á við fyrir Pútín, og Rússland má ekki við því að verða dregið lengra ogan í svaðið. Það er þó hægara sagt en gert að losna við einræðisseggi, eins og sannaðist með hetjulegri tilraun Claus von Stauffenbergs og félaga 20. júlí 1944 í Úlfsgreninu í Austur-Prússlandi. 

Vesturlönd standa nú sameinuð gegn Rússlandi.  Þjóðverjar hafa gert sér grein fyrir áhættunni, sem fylgir kaupum á jarðeldsneytisgasi frá Rússlandi og stöðvað leyfisveitingaferli fyrir Nord Stream 2 gasleiðslu Gazprom á botni Eystrasalts.  Þeir hafa kappkostað viðskipti við Rússa í nafni friðsamlegrar samvinnu, en hafa nú áttað sig á því, að hagsmunirnir fara ekki saman.  40 % af orkunotkun Þjóðverja á uppruna sinn í jarðgasi, og u.þ.b. helmingur þessa gass kemur frá Rússlandi.

Skyndilega er rússneska ríkið orðið fjandmaður Sambandslýðveldisins, þar sem sú ógn liggur í loftinu eftir ritgerðaskrif og ræðuhöld forseta Rússlands undanfarna mánuði, að hann sé haldinn einhvers konar köllun um að endurreisa rússneska ríkið með landvinningum, þar sem taka Úkraínu væri bara forsmekkurinn að því, sem koma skal.  Fyrir vikið hefur Sambandslýðveldið nú orðið við beiðnum Úkraínustjórnar um að senda Úkraínuher öflug varnarvopn, og munar þar e.t.v. mest um handhæg flugskeyti gegn skriðdrekum og herflugvélum/herþyrlum. Ekki hefur þó frétzt af Leopard 2. skriðdrekanum enn í Úkraínu. Er þó um að ræða hressilega viðbót við þá 5000 hjálma, sem ríkisstjórn Olaf Scholz áður sendi, og sumir litu á sem lélegan brandara, en reyndist síðasti liðurinn í friðþægingarferli Þjóðverja gagnvart Rússum, sem mafíósar túlka bara sem veikleikamerki.  Friðþægingarstefnan heyrir nú sögunni til. 

Þá var sunnudaginn 27. febrúar 2022 tilkynnt í Berlín um, að ríkisstjórnin hygðist leggja fram fjáraukalagafrumvarp fyrir Bundestag, sem kveður á um mrdEUR 100 eða rúmlega 14 trilljóna ISK (tæplega 5-föld VLF Íslands) viðbótar fjárveitingu til Bundeswehr á örfáum árum til að fullnægja strax viðmiðum NATO um a.m.k. 2,0 % af VLF til hermála á ári.  Það mundi svara til mrdISK 60 til varnarmála hérlendis. 

Þjóðverjar gera það ekki endasleppt, þegar þeir finna, að að þeim er sorfið.  Um þessa sömu helgi söðlaði ríkisstjórnin í Berlín um í orkumálunum.  Í stað þess að hvetja til fjárfestinga í vindmyllum og sólarhlöðum, sem eru í senn lítilvirk, plássfrek og óáreiðanleg framleiðslutæki, sem krafjast gasorkuvera með til að fylla í eyður slitrótts rekstrar, þá var ákveðið að leysa raforkuvanda landsins með því að flýta fyrir því að reisa kjarnorkuver, en eins og mörgum er kunnugt, ákvað Bundestag 2011 að tilhlutan fyrrverandi kanzlara CDU, Angelu Merkel, í kjölfar Fukushima hamfaranna í Japan, að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands í síðasta lagi 2022.  Þarna hafa Þjóðverjar loksins tekið raunhæfa stefnu um að verða sjálfum sér nógir með rafmagn án þess að brenna jarðefnaeldsneyti. 

Með þessum 3 ákvörðunum ríkisstjórnar og þings í Berlín, þ.e. að senda vopn til stríðandi aðila, að gera Bundeswhr vel bardagahæfan á ný og að reisa kjarnorkuver, hafa Jafnaðarmenn (SPD) kastað friðþægingarstefnu sinni gagnvart Rússum á haugana, og Græningjar hafa kastað friðarstefnu sinni (uppruni þessa flokks eru friðarhreyfingar í Þýzkalandi á 8. og 9. áratug 20. aldar) og hatrammri andstöðu við kjarnorkuver fyrir róða.  Miklir atburðir hafa orðið, og er þó innan við vika síðan hinir örlagaþrungnu atburðir hófust.   


Bloggfærslur 2. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband