Afleiðingar tengingar raforkukerfis Íslands við Bretland

Vegna hás raforkuverðs á Bretlandi og orkuskorts á Íslandi eru menn enn á þeim buxunum, að gullgraftrarhugmynd felist í að flytja út rafmagn frá Íslandi til Bretlands og möguleikanum á innflutningi rafmagns þaðan. Það er lærdómsríkt í því sambandi að líta til reynslu Norðmanna í þessum efnum.  Þeir eiga nú raforkuviðskipti við Englendinga, Þjóðverja, Hollendinga, Dani, Svía og Finna. Í Suður- og SV-Noregi, þ.e. sunnan Dofrafjalla, hefur heildsöluverð  raforku í vetur til heimila og fyrirtækja án langtímasamninga verið 8-13 sinnum hærra en í mið- og norðurhluta Noregs, þ.e. í Þrándheimi og þar fyrir norðan.  Þetta er svo mikil hækkun, að markaðsbrestur hefur orðið, þ.e. ríkisstjórnin hefur gripið inn í með niðurgreiðslum til almennings, því að sum heimili og fyrirtæki voru að kikna undan fjárhagsbyrðunum.

Ástandið hefur valdið mikilli reiði í Noregi, því að almenningur lítur svo á, að hann eigi að njóta hagkvæmni norskra vatnsorkulinda beint í eiginn vasa með lágu raforkuverði.  Hann sættir sig ekki við, að mismunur markaðsverðs og kostnaðar við vinnsluna m.v. venjulega arðsemi renni allur í vasa fyrirtækjanna, sem reka orkuverin, jafnvel þótt þau í mörgum tilvikum séu að megninu í eigu ríkissjóðs eða sveitarfélaga.  Þetta er eðlilegt sjónarmið, enda eru lífskjör almennings (ráðstöfunartekjur) og samkeppnishæfni fyrirtækjanna háð raforkuverði. Þess skal geta hér, að vegna almennrar rafhitunar húsnæðis í Noregi eru raforkukaup almennings um 5-falt meiri þar en hér í MWh/ár að orku til rafbíla slepptri. Þess ber þó að gæta í samanburðinum, að raforka er drjúgur kostnaðarþáttur í hitaveituverði hérlendis, líklega um 15 %. 

Ástæðan fyrir því, að raforkuverðið hefur ekki hækkað jafnt um allan Noreg er, að flutningsgeta raforkukerfisins norður-suður um Dofrafjöll er takmörkuð, og það er fjöldi virkjana og miðlunarlóna í mið- og norðurhlutanum, sem sjá þeim landshlutum fyrir raforku á verði, sem er ákvarðað á markaði út frá vatnsgildi (vatnshæð) miðlunarlónanna þar.  Millilandasæstrengirnir eru tengdir við Noreg sunnanverðan, og þess vegna er þessi mikli verðmunur suðurs og norðurs í landinu bein afleiðing raforkuviðskiptanna við útlönd.

Þann 15. marz 2022 var heildsöluverðið í Ósló 2,13 NOK/kWh=31,2 ISK/kWh, sem er rúmlega 5-falt heildsöluverð hérlendis, og 0,164 NOK/kWh=2,4 ISK/kWh í Þrándheimi, sem er rúmlega 40 % af heildsöluverðinu hérlendis um þessar mundir.  Verðhlutfallið á milli landshlutanna er 13.  

Hvaða raforkuverð má geta sér til, að Íslendingar þyrftu að greiða, ef landið væri nú tengt við raforkukerfi Englands með t.d. einum 1000 MW sæstreng ?  Raforkuverð á Englandi var 15. marz 2022 í heildsölu 260 GBP/MWh eða 45 ISK/kWh. M.v. núverandi stöðu á markaðnum má gera ráð fyrir, að heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis væri um 40 ISK/kWh eða tæplega 7-földun núverandi heildsöluverðs raforku hérlendis.  Heildareiningarverðið með VSK mundi hækka úr 18,8 ISK/kWh í þéttbýli í 60,3 ISK/kWh eða 3,2 faldast að því gefnu, að dreifingar- og flutningskostnaður verði óbreyttur.  Þetta þýðir, að árlegur meðalrafmagnsreikningur einbýlishúss með rafmagnsbíl hækkar um 446 kISK/ár, sem er mikil kjaraskerðing. 

Dettur einhverjum í hug, að skattheimtan muni lækka á móti vegna aukinna arðgreiðslna orkufyrirtækjanna ?  Þau munu þurfa að fara í fjárfestingar upp á a.m.k. mrdISK 400 til að geta boðið sæstrengseigandanum upp á alvöru viðskipti.  Þetta mun minnka hagnað þeirra verulega, á meðan greiðslubyrði lánanna varir, og þar af leiðandi verður arðgreiðslugetan lítil fyrstu 15 árin.  Eftir það veit enginn, hvernig kaupin gerast á eirinni á Englandi.  Englendingar verða sennilega langt komnir með orkuskiptin með uppsetningu hagkvæmra kjarnorkuvera í einingum víðs vegar um landið (SRU-Small Reactor Units) og alls ekki víst, að þeir hafi hug á að kaupa rafmagn langa leið, sem er rándýrt að flytja (a.m.k. 65 USD/MWh = 50 GBP/MWh). Þannig er þetta ævintýri mjög áhættusamt fyrir bæði sæstrengsfjárfesta og virkjanafjárfesta. 

Í Morgunblaðinu 12. marz 2022 birtist grein um útflutning raforku eftir Egil Benedikt Hreinsson, prófessor emeritus, og Gunnar Tryggvason, verkfræðing. Margt orkar tvímælis í þeirri ritsmíð, og verður hér stiklað á stóru.  Yfirskriftin var:

"Er orkuútflutningur góður fyrir Ísland ?"

"Eingöngu um fimmtungur eða 20 % af raforkunni er hins vegar nýtt af hinum almenna markaði, en 80 % af stóriðjunni. Þetta tvennt gerir það að verkum, að almenn verðhækkun raforku er almenningi á Íslandi í hag !" 

Þessi framsetning er óraunhæf, vegna þess að verðbreytingar á íslenzka raforkumarkaðinum fara fram með tvennum hætti.  Þessi 80 %, sem höfundarnir nefna, eru afhent samkvæmt langtímasamningum, og gjaldskrárbreytingar orkuseljenda ráða verðinu á um 20 %.  Samkvæmt Orkupakka 3 á heildsöluverð þessa fimmtungs að ráðast af framboði og eftirspurn í orkukauphöll.  Ef orkuseljendur ætla að láta verðhækkanir á almenna markaðinum eftir tengingu landsins við enska raforkukerfið ráða för við endurnýjun samninga, er hægt að fullyrða, að ekkert verður úr orkusamningum á slíkum forsendum.  Af þessum sökum og þeim, sem raktar eru að framan um kostnað orkuiðnaðarins af fjárfestingum, er það rangt, að almenn verðhækkun raforku verði almenningi í hag.

"Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um mögulegan orkuútflutning frá Íslandi.  Annars vegar hafa verið hugmyndir um beinan raforkuflutning um sæstreng til Bretlands og hins vegar um útflutning rafeldsneytis til Evrópu og e.t.v. Norður-Ameríku, tengt möguleikum á hraðari orkuskiptum.  

Það er að okkar mati skynsamlegt að huga að báðum þessum leiðum, bæði af efnahagsástæðum, eins og reifað var hér að framan, en ekki síður sökum umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar."

Fyrsta spurningin, sem þarf að svara í sambandi við orkuútflutning, er, hvort endurnýjanlegar orkulindir Íslands duga landsmönnum bæði til innanlandsnotkunar og orkuútflutnings.  Af nýlegri grænbók umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að dæma, þar sem fram kemur, að allt að 25 TWh/ár þurfi í orkuskipti og vöxt atvinnustarfsemi fyrir vaxandi þjóð og hóflegan hagvöxt næstu 2-3 áratugi, verður harla lítið eða ekkert eftir til beins útflutnings. 

Ef við föllumst ekki á að gjörbreyta ásýnd Íslands með vindmyllum, sem er of hár fórnarkostnaður, þá verður áreiðanlega ekki orka fyrir hendi til að standa undir orkusölu um sæstreng, en í nafni hagkvæmni stærðarinnar kann að reynast grundvöllur fyrir takmörkuðum útflutningi rafeldsneytis.

"Með auknum tengingum og viðskiptum batnar nýting auðlinda og sóun minnkar."

Þetta er alls ekki víst. Sem dæmi má taka jarðhitaauðlindina.  Nýting virkjaðs jarðgufuforða fylgir ekki stærð virkjunar.  Þvert á móti getur of stór virkjun m.v. gufuforðann valdið tjóni á honum, svo að hann minnki.  Það hefur gerzt hérlendis, t.d. á Hellisheiði.  Það þarf að stækka jarðgufuvirkjun rólega til að komast að þolmörkum jarðgufuforðans. 

Mest hefur verið talað um orkusóun í sambandi við umframvatn á sumrin í góðum vatnsárum, þegar miðlunarlón yfirfyllist. Þetta er þó ekki sóun á fé, því að vélarafl skortir til að nýta vatnið, og markað kann að skorta líka.  Hér er þá frekar um tækifæri að ræða til aflaukningar í virkjun, en nýting hennar verður tilfallandi í góðum vatnsárum, sem er ekki góð nýting á fjármagni.   

Byggðalínan er búin að vera flöskuháls lengi og standa atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum í aldarfjórðung vegna lítillar flutningsgetu.  Með spennuhækkun hennar úr 132 kV og upp í 220 kV munu töp hennar minnka um rúmlega 300 GWh/ár, og hægt verður að draga verulega úr yfirflæðisvatni framhjá virkjun með góðri skipulagningu og samhæfingu á milli virkjana.  

Sæstrengur væri glannalegt yfirskot í fjárfestingu til að bæta tiltölulega litlu við vatnsrennsli gegnum virkjanir með því að draga úr yfirflæði.

"Þannig hafa frændur okkar í Noregi og Danmörku lagt marga strengi, bæði sín á milli og til flestra nágrannaríkja og leggja á ráðin um fjölgun þeirra.  Með þessu auka þeir orkuöryggi sitt og í tilfelli Norðmanna auka þeir þjóðartekjur og hag almennings, en auðlindarentan af orkuauðlindinni rennur að langmestu leyti til hins opinbera í Noregi, eins og hér á landi, þegar um opinbert eignarhald er að ræða." 

Það eru tvær hliðar á þessum peningi og yfirborðslegt að fjalla ekki um báðar. Höfundarnir skrifa, að frændur vorir leggi á ráðin um fjölgun þeirra.  Í Noregi ríkja nú svo miklar efasemdir um þjóðhagslega hagkvæmni fleiri aflsæstrengja til útlanda, að nýjasta verkefnið á þessu sviði, Nord Link á milli SV-Noregs og Skotlands (Petershead) hefur legið í "salti" sem leyfisumsókn hjá Orkustofnun Noregs (NVE) í 4 ár.  Þessi strengur er á vegum einkafyrirtækis, en ekki Statnetts, eins og allir starfræktir aflsæstrengir Noregs eru.

  Norðmenn horfa upp á geigvænlegar orkuverðshækkanir af völdum utanlandstenginganna, sem allt að 13-falda heildsöluverð raforku í Noregi.  Þegar arðurinn af orkuflutningunum á milli landa rennur ekki til ríkisfyrirtækis, vega gallar verðhækkananna meir en kostirnir að mati Norðmanna.  Hvernig fá þeir það út ? Jú, samkeppnisgeta fyrirtækjanna rýrnar gríðarlega og getur hæglega riðið þeim að fullu.  Fyrirtækin hafa getað borgað há laun og verið kjölfesta í sínu byggðarlagi, en ef þau leggja upp laupana, verður skarð fyrir skildi og atvinnuleysi skellur á í byggðarlaginu.  Kostnaður af slíku lendir á ríkissjóði, og kostnaður af niðurgreiðslu raforku til heimilanna lendir líka á ríkissjóði. 

Þetta þykir almenningi í Noregi vera óheilbrigt ástand og vilja einfaldlega nýta sjálfbærar orkulindir sínar (vatnsföll) til að halda uppi góðum lífskjörum í eigin landi án gríðarlegra millifærslna úr ríkissjóði af völdum brests á raforkumarkaði.  Senterpartiet lofaði í kosningabaráttunni veturinn og sumarið 2021 að ráða bót á þessu, en hefur enn ekki orðið ágengt með það í ríkisstjórn með Verkamannaflokkinum.  Til þessa er að mestu rakið 2/3 fylgistap Sp í nýlegum skoðanakönnunum. 

Þannig er ekki hægt að fullyrða án rökstuðnings, að aflsæstrengir auki þjóðartekjur og hag almennings.  Hið síðar nefnda er kaldranalegur sleggjudómur í ljósi þess, sem hér var rakið.

"Árið 2016 gáfu ráðgjafar ríkisstjórnar Íslands út skýrslu um áhrif lagningar sæstrengs til Bretlandseyja á íslenzkan efnahag og samfélag.  Niðurstaðan var sú, að slík tenging gæti verið arðsöm, ef brezk stjórnvöld tryggðu íslenzkum orkufyrirtækjum hagstætt verð fyrir græna orku. 

Almennt var þá talið, að slík ábyrgð væri í boði, ef Ísland sæktist eftir því.  Þess má einnig geta, að raforkuverð á Bretlandseyjum er um þessar mundir mun hærra en það var, þegar þessi úttekt var gerð."

Skýrslurnar, sem gerðar hafa verið um tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi annarra landa, aðallega Bretlands, eru allar fremur einhæfar, af því að þær skortir allar faglega dýpt á tæknisviðinu.  Baunateljarar láta aftur á móti gamminn geisa um kostnað og hugsanlegt verð, en allt er það í lausu lofti, af því að verkfræðilega greiningu á viðfangsefninu skortir. 

Það þarf að finna út, hversu mikil flutningsgeta sæstrengs og jaðarbúnaðar má vera til að raforkukerfi Íslands fari ekki á annan endann við rof á flutningskerfi undir fullu álagi.  Sömuleiðis þarf að ákvarða nauðsynlegan síubúnað fyrir yfirsveiflur, því að hann hefur talsverð áhrif á kostnaðinn, og einnig þarf að ákvarða spennustigið, því að spennan hefur áhrif á orkutöpin og allan kostnað.

Ábyrgð brezkra stjórnvalda á lágmarksverði fyrir græna orku eftir sæstreng frá Íslandi eða öðrum ríkjum hefur aldrei staðið til boða. Brezk stjórnvöld tóku ekki slíka áhættu og munu enn síður taka hana, eftir að ákvörðun um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kjarnorku hefur verið tekin.  Verðið, sem rafmagnsseljendur á Íslandi fá fyrir rafmagn sent til Englands, ákvarðast af markaðsverði í Englandi að frádregnum töpum í flutningskerfinu og flutningsgjaldinu. Um þessar mundir gætu orkuseljendur á Íslandi fengið um 200 GBP/MWh eða um 260 USD/MWh í sínar hirzlur, ef þeir væru í stakk búnir til að selja þangað raforku. Þetta líta út fyrir að vera mjög arðbær viðskipti, en sá er gallinn á gjöf Njarðar, að núverandi raforkuverð á Englandi er ósjálfbært; það stafar af jarðgasskorti af völdum stríðs á meginlandi Evrópu, sem hófst án stríðsyfirlýsingar 24. febrúar 2022.  Atvinnulífið getur ekki til lengdar staðið undir svona háu raforkuverði, enda er það hagvaxtarhamlandi, og heimili fá orkustyrki. Öryggisleysið í þessum viðskiptum er of mikið til að leggja í fjárfestingar í virkjunum, flutningslínum og sæstreng með endabúnaði.

"Í skýrslunni kom fram, að áætluð áhrif slíkrar tengingar á losun gróðurhúsalofttegunda næmi um 1,0-2,9 Mt/ár, eftir að tengingin væri komin í gagnið."

 Það er ekki hægt að réttlæta verkefni af þessu tagi með vísun til baráttunnar við hlýnun jarðar af 4 ástæðum. (1) kolefnisfótspor framkvæmda og framleiðslu  búnaðarins er talsvert; (2) orkutöpin við að breyta orkunni í jafnstraum og aftur yfir í riðstraum ásamt flutningi um 1000 km leið eru mun meiri en vegna nýtingar sömu orku innanlands; (3) kolaorkuver munu hafa verið aflögð á Englandi, þegar þetta verkefni kæmist í gagnið, svo að íslenzka rafmagnið mundi aðallega leysa jarðgas af hólmi.  Það er hægt að ná miklu meiri árangri við að draga úr losun CO2 með notkun þessarar raforku á Íslandi; (4) Englendingar munu draga hratt úr gasþörf sinni með litlum stöðluðum kjarnorkuverum (SRU), sem raforka frá Íslandi mun eiga fullt í fangi með að keppa við. 

"Fyrrum forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, benti á það í viðtali fyrr í vetur, að Norðmenn hefðu sannað það, að þetta væri góð leið til að veita Evrópu græna orku, og taldi rétt, að við skoðuðum þennan möguleika frekar.  Undir þessi orð er vert að taka."

Dr Ólafur er gjarn á að slá um sig með ýmsum óraunhæfum hugmyndum.  Í fersku minni er, þegar hann hvatti til aflsæstrengslagnar frá Grænlandi um Ísland og áfram til annarra Evrópulanda, þótt ekki sé vitað um minnsta áhuga Grænlendinga fyrir slíkum orkuútflutningi.  Ef Norðmenn væru nú spurðir út í það, hversu góð viðskiptahugmynd slíkur orkuútflutningur er, mundu þeir vísast flestir vilja vera án hans, því að raforkumarkaðurinn þar innanlands er í uppnámi vegna hans og afkomu margra heimila og fyrirtækja er stefnt í hreinan voða fyrir vikið.

Annars er þessi sífelldi samanburður við Noreg illa grundaður, því að norska raforkukerfið er a.m.k. 7-falt stærra orkulega séð en hið íslenzka, Statnett á allar millilandatengingarnar og sæstrengirnir eru yfirleitt innan við helmingur að lengd á við hugsanlega aflsæstrengi til Íslands, og þeir liggja allir á grunnsævi.  Þar að auki er bæði miðlunargeta lóna og aflgeta virkjana mun meiri en 7-föld á við íslenzka kerfið, því að húsnæði er yfirleitt rafkynt og álagssveiflur þar af leiðandi meiri en hér.  Norðmenn eiga engin jarðgufuorkuver, sem óháð eru sveiflukenndum vatnsbúskapi frá einu ári til annars. 

"Um þessar mundir erum við Íslendingar að fást við  skerðingar á raforkuafhendingu vegna lágrar stöðu helztu uppistöðulóna vatnsaflsvirkjana.  Slíkar skerðingar eru mun sjaldgæfari í vel tengdum raforkukerfum með skilvirkum markaði og mundu líklega heyra sögunni til, ef Ísland tengdist slíkum markaði um sæstreng." 

Það er kolröng nálgun við að leysa þetta viðfangsefni að einblína á lausnir á meginlandi Evrópu. Hér erum við á orkuríkri eyju lengst norður í Atlantshafi, og það er nærtækast að sníða lausnir okkar að þeirri staðreynd.  Núverandi raforkuskortur á Íslandi er ekki náttúrulögmál, heldur sjálfskaparvíti, sem stafar af fullkomnu fyrirhyggjuleysi orkuyfirvalda landsins og Landsvirkjunar.  Þetta sést bezt af því, að hefði Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá verið tekin í gagnið sumarið 2021, þá hefði ekki þurft að grípa til neinna langtíma orkuskerðinga, eins og hófust strax haustið 2021. 

Að lokum er rétt að taka undir lokaorð höfunda greinarinnar, sem hér hefur verið rýnd, en það er bezt að gera með virkjun að jafnaði 100 MW/ári næstu 2 áratugina til nýtingar alfarið innanlands:

"Um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:

"Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er, að þau eru algild, og hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra." 

Við skorum á íslenzka stjórnmálamenn að fylgja heimsmarkmiðunum í verki, eins og að ofan greinir, því að Heimsmarkmið nr 7 er "Sjálfbær orka" og nr 13 er "Aðgerðir í loftslagsmálum"."      

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 22. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband