Einvaldur kastar grímunni

Aðfararnótt 24. febrúar 2022 gaf forseti Rússlands, sem er einvaldur og stjórnar í skjóli leynilögreglunnar FSB að hætti Jósefs Stalín og rússneskra einvalda á undan honum, rússneska hernum fyrirskipun um að ráðast á fullvalda ríkið Úkraínu og leggja það undir Rússland. Mistækur einvaldurinn mun hafa ætlazt til leifturstríðs (Blitzkrieg að hætti Þriðja ríkisins) af hálfu Rússahers, en er nú staddur í hernaðarlegu og pólitísku kviksyndi, blóðugur upp að öxlum. Einvaldurinn er kominn í hóp verstu þorpara mannkynssögunnar, en enginn efast lengur um rétt og vilja úkraínsku þjóðarinnar til sjálfstæðis og fullveldis.  Vesturveldin eiga að taka Úkraínumönnum opnum örmum í sinn hóp og í samtök sín.

Hér er um gjörsamlega óviðunandi landvinningastríð Rússa í Evrópu að ræða að hætti fyrri einvalda Rússlands. Í Kreml hefur alltaf blundað draumur um landvinninga. Síðan 24.02.2022 hefur þessi sami rússneski hér framið fleiri stríðsglæpi gegn almennum borgurum og með árásum á kjarnorkuver en tölu verður á komið. Orðstír rússneska hersins er í tætlum, og hann á sér ekki viðreisnar von. 

Af illvirkjum rússneska hersins að dæma er einvaldur Rússlands gjörsamlega misheppnaður stjórnandi, kaldrifjaður illvirki, sem hefur haft leiðtoga Vesturveldanna að fíflum, það sem af er öldinni.  Hann hefur að hætti KGB (Leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna (sovézka kommúnistaflokksins)) stundað undirróður og lygar á Vesturlöndum og tekizt að vinna auðtrúa sálir á sitt band, sem jafnvel enn enduróma áróðurinn frá honum gegn Vesturlöndum. (Ætli spákerlingin, sem kom á flug hugarórunum um "Endurræsinguna miklu" hafi  aðsetur í Moskvu ?  Nú er því nefnilega haldið fram, að Vladimir Putin standi helzt í veginum fyrir þessari endurræsingu heimsins.  Það er ekki öll vitleysan eins.) 

Rafael Grossi, forstjóri IAEA (International Atomic Energy Agency-Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar) sagði á 8. degi innrásarinnar, þegar Zaporizhzhia kjarnorkuverið varð fyrir skothríð rússneska hersins, sem áður hafði hertekið Chernobyl-kjarnorkuverið, að  hernaður gegn kjarnorkuverum sé stríðsglæpur að alþjóðalögum:

"The IAEA principles should never be compromised, and therefore our agency must back up words with actions."

Hann ásamt teymi frá IAEA lagði síðan upp í ferð til Úkraínu, og var ætlunin að fara um öll kjarnorkuver landsins til að yfirfara rekstraöryggi veranna og varnir gegn skaðlegri geislun.

Morgunblaðið birtir dagbækur Úkraínubúa.  Fyrirsögnin 22. marz 2022 var:

"Og þeir kalla okkur nasista".

Færsla Karínar í Karkív hófst þannig

"Í dag er 26. dagur innrásar Rússa.  Við erum enn á lífi.  Stöðugar loftárásir voru í alla nótt, og við vorum mjög hrædd.  Rússar eru að skjóta langdrægum eldflaugum á borgina, og hávaðinn glymur hérna rétt hjá okkur og í fjarska.  Þessir villimenn halda óbreyttum borgurum í skelfingu.  Þeir eru að eyðileggja allt, drepa fólk og beita sálfræðilegum þrýstingi til að þvinga okkur til að ganga að kröfum þeirra.  Hræðilegar fréttir bárust á laugardaginn, þegar Boris Romanchenko, sem var 96 ára, lézt í loftárás á Karkív. Hann lifði af helförina í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni, en var drepinn af rússneskri eldflaug, og þeir kalla okkur nasista !

 Samkvæmt upplýsingum frá Ígor Terekóv, borgarstjóra Karkív, voru 972 byggingar eyðilagðar og þar af 778 íbúðabyggingar.  Það er ekki hægt að semja neitt við þetta fólk.  Eina, sem hægt er að samþykkja, er, að þessi villimannaþjóð, Rússland, verði afvopnuð og afnasistavædd.  Þeir þurfa að fara eftir samningum, sem gerðir voru eftir seinni heimsstyrjöldina."

Það eru mikil líkindi með stríðsglæpamönnunum Adolf Hitler og Vladimir Putin. Hvorugur virðir nokkra samninga, ef honum býður svo við að horfa.  Engin vettlingatök dugðu á þann fyrrnefnda, og Rússar verða að losa sig við þann síðar nefnda og hverfa síðan með öllu út fyrir landamæri Úkraínu.  Einangraður einvaldurinn virðist lífhræddari en rotta í búri, hefur sett af æðsta mann hersins, skipt um 1000 manna þjónustulið sitt og hneppt 2 háttsetta FSB-menn í stofufangelsi.  Seðlabankastjórinn er á öndverðum meiði við Putin og jafnvel hættur og sverfa tekur að Rússum víða, enda hefur kvalarinn í Kreml nú leitað á náðir forseta Kína um aðstoð. Sá leitar nú eftir 5 ára framlengingu umboðs síns frá kínverska kommúnistaflokkinum og hefur slegið úr og í.  Hvers vegna ætti hann að veita böðlinum í Kreml liðsstyrk við óhæfuverkin ?

Margar átakanlegar fréttir og myndir hafa borizt frá Úkraínu undanfarið. Ein var frá Maríupol, þar sem verið var að forða gömlum manni.  Hann mundi eftir hernaði Wehrmacht fyrir um 80 árum á sömu slóðum.  Hann hafði þá sögu að segja, að Wehrmacht og Waffen SS hefðu látið óbreytta borgara að mestu í friði, en einbeitt sér gegn Rauða hernum, en Rússaher Putins virtist mest í mun að ráðast á varnarlaust fólk. Her, sem framfylgir skipunum um níðingsverk, eins og Rússaher hefur gert sig sekan um, er dauðadæmdur.  Ekki bætir úr skák fyrir honum, að fórnarlömbin eru flest með rússnesku að móðurmáli.  Stríðið sýður saman eina úkraínska þjóð án tillits til móðurmáls. 

Nürnberg-réttarhöld blasa við forseta, ríkisstjórn og herstjórn Rússlands. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, ritaði um þetta í Morgunblaðið 22. marz 2022 undir fyrirsögninni:

 "Ísland styðji sérstaklega við rannsókn á stríðsglæpum Rússlands":

"Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt sannanir fyrir, að rússneski herinn hafi beitt klasasprengjum.  Notkun slíkra sprengja er bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum.  

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallaði eftir því, að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir.  Síðast en ekki sízt hefur Karim A.A. Khan, saksóknari hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sagt ástæðu til að ætla, að stríðsglæpir hafi verið framdir af hálfu rússneska hersins í Úkraínu.  Hinn 28. febrúar [2022] lýsti saksóknarinn því svo yfir, að rannsókn vegna stöðunnar í Úkraínu væri hafin."

Þann 22. marz 2022 bárust svo fréttir af því, að Rússar væru farnir að beita fosfórsprengjum gegn borgum í Úkraínu. Slíkt er stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni samkvæmt Rómarsamkomulaginu (Rome Convention). 

Hegðun Rússa gagnvart almennum borgurum Úkraínu verður því níðingslegri þeim mun verr sem þeim gengur á vígvöllunum í átökunum við úkraínska herinn.  Rússlandi er augljóslega stjórnað af mafíósum, sem einskis svífast og eru viðbjóðslegar skepnur í mannsmynd.  Við slíka er hvorki hægt að semja við né eiga við þá viðskipti. Það ber að einangra þá með öllu.

Það er með öllu óviðunandi, að ríki Evrópu með Þýzkaland í broddi fylkingar fóðri þessa mafíósa með um 800 MUSD/dag fyrir eldsneytisgas. (40 %-50 % gasnotkunarinnar er jarðgas frá Rússlandi, 55 % í Þýzkalandi.) Nú hefur þýzka ríkisstjórnin gert samning við Qatar um afhendingu LNG (Liquid Natural Gas) í stað rússneska gassins og ætlar að minnka gaskaup 2022 um 2/3 m.v. árið áður. Bygging móttökustöðva fyrir LNG í þýzkum höfnum er í undirbúningi. Það verður að einangra Rússland á öllum sviðum, þar til þar verður gerð vorhreingerning.  Peningarnir fyrir gasið hindra, að rúblan hrynji til grunna, en hún mun hafa fallið um 30 %- 40 % frá upphafi stríðs. Svartamarkaðsbrask að hætti kommúnistatímans blasir nú við almenningi í Rússlandi.   

Þann 21. marz 2022 skrifaði pastor emeritus Geir Waage grein í Morgunblaðið, sem vekur fleiri spurningar en svör.  Hún hét:

"Sýn Kissingers á Úkraínu árið 2014".

 

 

"Hann [Kissinger] heldur því fram, að Úkraína eigi hvorki að halla sjer til austurs nje vesturs, heldur að brúa bil þar á milli.  Rússar verði að virða landamæri Úkraínu og Vesturveldin verði að gæta þess, að Úkraína geti í þeirra augum aldrei orðið útland."

Það er réttur fullvalda Úkraínu að ákveða það sjálf, hvort hún hallar sér til austurs eða vesturs. Rússneskumælandi Úkraínumenn berjast nú við hlið úkraínumælandi landa sinna gegn innrásarliði Rússlands, sem með fantabrögðum reynir að leggja landið undir Rússland.  Með hetjulegri vörn sinni hefur Úkraínuher og úkraínska fólkið úthellt blóði sínu, ungra og aldinna, fyrir sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu.  Þjóðin sjálf og ríkisstjórn hennar hafa sýnt, að þau vilja allt til vinna að mega halla sér til vesturs.  Vestrið á að taka þeim fagnandi inn í samtök sín, hverju nafni sem þau nefnast, og gera Úkraínumenn fullgilda aðila þar. 

Það er fullreynt frá 2014 og 2022, að Rússum er ekki treystandi til að virða landamæri Úkraínu. Árið 1994 var gert samkomulag, kennt við Búdapest, á milli Úkraínumanna, Rússa, Bandaríkjamanna og Breta, um, að Úkraínumenn létu af hendi við Rússa kjarnorkuvopn sín, sem voru arfur frá Ráðstjórnarríkjunum 1991, gegn því, að hin ríkin tryggðu öryggi Úkraínu og virtu landamæri hennar.  Úr því að þetta samkomulag var svívirt af Rússum, hvernig á þá að tryggja öryggi Úkraínu með öðru móti en t.d. öryggi Póllands og Eystrasaltsríkjanna, þ.e. með inngöngu Úkraínu í NATO ?  

"Evrópusambandið verði að skilja, að kröfur þess um samræmingu og aðild að reglum og stefnu Evrópusambandsins setji alla samninga í uppnám."

 

"Kissingar leggur [lagði] til [2014], að allir aðilar gæti eftirfarandi sjónarmiða:

  1. Úkraínumenn velji sjálfir viðskipta- og stjórnmálatengsl sín, þ.m.t. gagnvart Evrópusambandinu.  [Þetta á við í enn ríkara mæli eftir hina örlagaþrungnu atburði 2022 - innsk. BJo.]
  2. Úkraína gangi ekki í NATO.  [Þetta á alls ekki við 2022 - innsk. BJo.]
  3. Úkraínumenn ráði sjálfir stjórnarfari sínu í samræmi við vilja þjóðarinnar.  Skynsamir leiðtogar muni leita samkomulags andstæðra fylkinga.  Á alþjóðasviði skyldu þeir fara að fordæmi Finna, sem sjeu eindregnir sjálfstæðissinnar, en starfi með vestrænum þjóðum og gæti þess að sýna Rússum enga óvild. [Kenningin um rétt Rússa til að eigna sér áhrifasvæði í kringum sig á ekki við lengur.  Hún er skálkaskjól til hernaðarlegrar atlögu, þegar Rússar telja sér henta.  Þess vegna vega og meta Finnar núna, hvort þeir eigi að ganga í NATO.  NATO er opið gagnvart þeim, sem þangað leita - innsk. BJo.]
  4. Ekki verði á það fallizt, að Rússar hafi innlimað Krím.  Þeir verði að virða fullveldi Úkraínu yfir Krím, en Úkraína verði að styrkja sjálfstjórn Krímverja, sem borin verði undir atkvæði undir alþjóðlegu eftirliti.  Staða flotastöðvar Rússa í Sevastopol verði ekki vefengd. [Þetta getur staðið áfram - innsk. BJo.]

Sýn hins reynda stjórnmálamanns og margra annarra bandarískra diplómata og háskólamanna var síðan gjörsamlega fyrir borð borin.  Evrópusambandið og NATO reri þá og æ síðan að innlimun Úkraínu í Evrópusambandið og NATO.  Sú stefna hefur nú leitt til árangurs, sem seint verður bættur."

Með þessum lokaorðum höfundarins horfir hann algerlega framhjá glæpsamlegu eðli forseta Rússlands, sem gekk á lagið og nýtti sér það, að Úkraína var ekki gengin í NATO.  Eina raunhæfa vörn Úkraínu til lengdar er NATO-aðild.  ESB-aðild dugar landinu ekki til varnar, en mun hjálpa því mikið við uppbygginguna.  Réttast er, að Rússland verði auk þess látið greiða landinu stríðsskaðabætur. 

Þann 22. marz 2022 gerði Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, stutta athugasemd við ofannefnda grein Geirs Waage undir fyrirsögninni:

"Hverju var lofað ?".

Greininni lauk Þorsteinn þannig:

"Þótt Gorbatsjov segði í viðtalinu, að hann væri ósáttur við síðari þróun mála og fjölgun NATO-ríkja, væri ekki um samningsbrot eða svik að ræða.  Fullyrðingar Pútíns um hið gagnstæða fá því ekki staðizt.  Eins og Anthony Blinken, núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið, var það höfuðatriði í stofnsáttmála NATO frá 1949, að bandalagið skyldi hafa opnar dyr.  NATO hefði aldrei gefið loforð um að neita nýjum aðilum um inngöngu.  Slíkt væri útilokað."

Málflutningur Kremlar er reistur á lygavef, og lygunum hefur bæði verið beint að íbúum Rússlands og Vesturlanda. Rússar sjálfir hafa verið heilaþvegnir, enda ríkir þar nú skoðanakúgun og einokun ríkisins á  fréttum og túlkun atburða.  Þolinmæði Rússa gagnvart einvöldum, sem tapa í vopnuðum átökum við önnur ríki, hefur aldrei verið mikil, og það mun vonandi fljótlega renna upp fyrir mörgum Rússum, að þeir hafa verið hafðir að fíflum af eigin stjórnvöldum og að mistökum þessara sömu stjórnvalda er um að kenna, að lífskjör fara nú hratt versnandi í Rússlandi, og ófarir rússneska hersins í Úkraínu verður ekki lengi hægt að dylja úr þessu.  Lygamerðir Rússlandsstjórnar á borð við Dimitry Peshkov, talsmann forsetans, sem viðtal birtist nýlega við á vestrænum fjölmiðli, er til vitnis um, að stjórn Rússlands er heillum horfin. 

 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Bloggfærslur 25. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband