Höfuðborg í gíslingu einstrengingsháttar

Stjórn höfuðborgarinnar virðist hverfast um þá köllun meirihluta borgarstjórnar að umbylta samgönguháttum í borginni.  Meirihlutinn vill smala fólki út úr einkabílunum og inn í almenningsvagna. Til þess eru notuð óvægin meðul á borð við myndun tafa og umferðarhnúta. Þá er lóðaúthlutun sniðin við þessa hugmyndafræði með því að hún eigi sér aðallega stað á s.k. þéttingarreitum, helzt á upptakasvæði Borgarlínu, sem allt borgarskipulagið hverfist um núna og hefur smitað yfir í nágrannasveitarfélögin.  

Tafirnar auka orkunotkunina og mengunina í borginnieru óþægilegar fyrir borgarana og kosta stórfé, sennilega um 30 mrdISK/ár (tíminn er peningar) um þessar mundir og fara hratt vaxandi.  Þessum töfum er ætlað að hrekja bílstjóra og farþega þeirra út úr bílunum og upp í almenningsvagnana, þótt þeir verði víðast hvar líka fyrir töfum.  Til að ráða bót á þessu og auka hraða almenningsvagnanna ætla þessir hugmyndafræðingar forræðishyggjunnar að búa til 2 sérakreinar fyrir miðju gatnanna, þar sem Borgarlínu er ætlað að fara um, og tvínóna þá ekki við að gera þetta á kostnað flutningsgetu núverandi gatna, þ.e. með því að fækka akreinum. Umferðarkerfi borgarinnar er þegar meðal hins frumstæðasta, sem finnst á meðal þróaðra iðnaðarþjóða í sambærilegum bæjarfélögum, og veldur auðvitað alltof hárri slysatíðni og feikilegu tjóni.

Gatnakerfi Bergen er miklu nútímalegra en gatnakerfi Reykjavíkur frá sjónarmiði bílstjóra. Fyrir nokkrum árum var sett á laggirnar keimlík borgarlína þar og ætlunin er að gera á höfuðborgarsvæðinu.  Hún átti að draga úr bílaumferð, en reyndin varð sú, að hún gerði það alls ekki.  Þar með brast rekstrargrundvöllur undan borgarlínu Bergen.  Hvað gerðu borgaryfirvöld þar þá ?  Þau settu á "bompenger" eða gatnagjöld á bílana, sem nú þurfa að borga um 1000 ISK/dag fyrir að fara þar um.  Sú von borgarstjórans í Reykjavík, að borgarlínan muni flytja 12 % þeirra, sem eru á ferðinni í Reykjavík, á eftir að verða sér rækilega til skammar, því að þjónustustigið fyrir almenning vex ekki nóg m.v. það, sem það er nú, þegar Strætóhlutdeild ferða er 4 %.  Borgarlínan er fjárhagslegt kviksyndi, sem auðvelt er að forðast með "léttri" borgarlínu.   

Þetta er algerlega fráleit samgöngustefna, því að höfundar hennar reyna með öllu móti að taka ráðin af fólki, hafa vit fyrir því um samgöngumáta þess.  Að baki býr ólýðræðislegur hugsunarháttur forræðishyggjunnar. 

Með samningi borgarinnar og samgönguráðherra 2011 voru þau afglöp framin að setja allar áformaðar samgöngubætur Vegagerðarinnar á ís í 10 ár með slæmum afleiðingum fyrir umferðaröryggi, mengun og þjóðhagslegan kostnað umferðarinnar.  Í staðinn átti ríkissjóður að leggja fram um 1 mrdISK/ár til almenningssamgangna innan borgarinnar og í rútuferðir á milli borgar og landsbyggðar (opinber samkeppni við einkafyrirtæki er afleit hugmynd, en ær og kýr vinstri sinna). Þetta gerræðislega tiltæki fól í sér aðför að umferðaröryggi, því að nú er leitun að jafnlélegu gatnakerfi í um 150 þús. manna borg og í Reykjavík, og er þá ekki átt við viðhaldið, heldur lélegt umferðarflæði. 

Það er þyngra en tárum taki, hvernig sérvizka sértrúarhóps veldur stöðnun (hlutfallslegri afturför með fjölgun bíla) umferðarmála og kreppu (gríðarlegum skorti á viðeigandi og hagkvæmum íbúðum) á húsnæðismarkaði.

Með eflingu Strætó með ríkisstuðningi átti að tvöfalda hlutdeild almenningsvagna í heildarfjölda vegfarenda í borginni, en niðurstaðan var næsta fyrirsjáanleg.  Hlutdeildin var 4 % í upphafi tímabilsins og var 4 % í lok þessa tilraunatímabils að áratug liðnum.  Draumóramenn borgarlínu ætla, að með henni megi þrefalda þessa hlutdeild og að þannig muni hún standa undir rekstrarkostnaði sínum, en það er af og frá.  Til þess er óhagræðið fyrir íbúana, sem vanizt hafa einkabil, allt of mikið.  Fjárfestingin mun þannig aldrei skila sér, öfugt við mislæg gatnamót og Sundabraut, og reksturinn verður þungur baggi á sveitarfélögunum, sem að þessu gönuskeiði standa. Lífsskilyrði á höfuðborgarsvæðinu munu versna með borgarlínu, en ekki batna, eins og draumóramenn gaspra um.   

Fyrri forystugrein Morgunblaðsins 13. desember 2021 hét:

"Blekkingar í borginni".

Þar stóð m.a.:

"Hann [meirihluti borgarstjórnar-innsk. BJo] segist hafa "grænt plan" um uppbyggingu, en staðreyndin er sú, að hann má hvergi sjá grænan blett í borginni án þess að vilja reisa þar nokkurra hæða hús.  

Meirihlutinn segist ekki vera á móti einkabílnum, en hann þrengir allar götur, sem hann kemst yfir og fjarlægir bílastæði af miklu kappi.  Og þegar hann skipuleggur nýja byggð á grænu blettunum, þá gætir hann þess að hafa vel innan við eitt stæði á íbúð, þannig að flestir íbúarnir, bæði þeir nýju og hinir, sem fyrir voru í hverfinu, lenda í vandræðum.

Auk þessa vill meirihlutinn leggja borgarlínu, sem á víða að taka burt akreinar með þeim augljósu afleiðingum, að umferðin verður enn hægari og teppurnar verri.  En það er eins með borgarlínuna og Bústaða- og Fossvogshverfið; hún er ekki endanlega útfærð, þannig að hægt er að halda því fram, að niðurstaðan verði ekki endilega jafnslæm og við blasir.  Þetta verður seint talinn heiðarlegur málflutningur í aðdraganda kosninga, en það er ekki hægt að útiloka, að hann verði árangursríkur." 

Verkin tala, og flestir íbúar Reykjavíkur á kosningaaldri ættu að geta sannreynt, að núverandi borgarstjórnarmeirihluti siglir undir fölsku flaggi.  Hann ætlar af fordild sinni og forstokkun að troða upp á Reykvíkinga lífsháttum, sem eru bæði síðri að gæðum og dýrari en tíðkazt hafa í höfuðborg Íslands.  Af siðlegum ástæðum á að losa sig við stjórnmálamenn úr valdastöðum, sem sigla undir fölsku flaggi, hvar í flokki sem þeir standa. 

Stjórnmálamennirnir í núverandi meirihluta borgarstjórnar uppfylla ekki lágmarkskröfur um heilindi við hag borgarbúa og raunar landsmanna allra.  Andstaðan við að brjóta nýtt land undir byggð hefur framkallað alvarlegan lóðaskort fyrir húsnæði af öllu tagi, sem framkallað hefur hrikalegan framboðsskort húsnæðis (vantar a.m.k. 3000 íbúðir á ári upp á framboðið á höfuðborgarsvæðinu á næsta kjörtímabili, og munar þar mest um þéttingarstefnu byggðar í Reykjavík meðfram borgarlínu).

Angi af sömu þröngsýnu fordildinni (mjög slæmur eiginleiki stjórnmálamanns) er að bægja Vatnsmýrarvellinum burt.  Nú lítur út fyrir, að 19 sæta rafknúnar flugvélar verði á markaðinum innan fáeinna ára.  Þær verða í upphafi dýrari í innkaupum en sambærilegar vélar knúnar sprengihreyfli, en viðhalds- og orkukostnaður rafknúnu flugvélanna verður miklu lægri, svo að farmiðaverð getur lækkað talsvert.  Þessi tækni getur bætt samgöngur á milli margra staða og Reykjavíkur án mengunar og með minni hávaða en verið hefur.  Það verður að stöðva aðför borgarstjóra og fylgifiska hans að flugvellinum og hefja þar uppbyggingu á aðstöðu til framtíðar. 

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ritaði stórgóða grein í Morgunblaðið 17. febrúar 2022 um óboðlega stjórnun Reykjavíkur um þessar mundir, þar sem allt snýst um að fjölga fólki í grennd við fyrirhugaða borgarlínu, sem er auðvitað fráleit forsenda að borgarskipulagi og lóðaúthlutunum.  Ósvífni vinstri meirihlutans í garð íbúa Reykjavíkur og raunar landsins alls á sér engin takmörk, enda verður að flokka valdastöðu þeirra sem slys á lýðræðislegri vegferð.

Fyrirsögn téðrar greinar Mörtu var:

"Húsnæðisskortur í boði borgaryfirvalda".

  Þar stóð m.a.:

"Borgarstjórn sér um lóðaúthlutanir í Reykjavík og hefur það því í hendi sér, hvort yfirleitt sé byggt í borginni, hvar, á hversu mörgum lóðum og á hversu dýrum lóðum.  Þéttingarstefna meirihlutans fækkaði mjög lóðaúthlutunum og margfaldaði verð á byggingalóðum.  Þegar borgaryfirvöld úthlutuðu lóðum úr eigin landi, var það lengi viðmið, að lóðaverð væri um 4 % af heildarbyggingarkostnaði íbúðar.  Nú hefur þetta verð margfaldazt og víða tífaldazt.  Það gefur því auga leið, að skortur á byggingarlóðum í Reykjavík og margfalt verð á þeim m.v. fyrri tíð eru helztu langtímaástæður fyrir núverandi hækkunum á fasteignamarkaðnum."

Þessi skort- og okurstefna á lóðum undir íbúðir er ófagur vitnisburður um skeytingarleysi borgarstjórnarmeirihlutans gagnvart húsnæðislausu fólki og þeim, sem þurfa að stækka eða minnka við sig. Það er grundvallar mælikvarði á frammistöðu sveitarstjórnarmeirihluta, hvernig honum tekst upp við að skipuleggja nýja íbúðabyggð og svara spurn fólks eftir nýjum lóðum og húsnæði innan sveitarfélagsins.  Fyrir frammistöðu sína á þessu sviði og fleiri sviðum, s.s. við meðferð fjár og fjármálastjórnun borgarsjóðs, verðskuldar núverandi borgarstjórnarmeirihluti falleinkunn með lægstu mögulegu einkunn, því að ömurlegri getur frammistaðan vart orðið á þessu sviði.

Með undirfyrirsögninni:

 "Framboð og eftirspurn hvað" ,

hélt Marta áfram:

"Hjá borgarstjórn Reykjavíkur blikka hins vegar engin ljós.  Hún kærir sig kollótta um framboð og eftirspurn sem og þá spurningu, hvort ungir Reykvíkingar geti keypt þar sína fyrstu íbúð. 

Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag [15.02.2022] fóru fram umræður um fasteignamarkaðinn og húsnæðismálin í Reykjavík að beiðni okkar sjálfstæðismanna.  Ýmsar þær tölur, sem hér hefur verið drepið á, komu þar til álita.  En það var ekki að sjá, að þær röskuðu ró meirihlutans.  Stefnan er skýr: Það, sem byggt verður í Reykjavík, verða sviplaus excel-skjalteiknuð fjölbýlisstórhýsi meðfram Borgarlínu svo há og þétt, að sjaldan sér til sólar á jörðu niðri né glittir í gróður.  Einbýlis- og tvíbýlishús eru ekki í boði.  Þetta heitir á máli borgaryfirvalda sérlega fjölbreytileg íbúðabyggð."

Þessi frásögn staðfestir, að áttaviti borgarstjórnarmeirihlutans við uppbyggingu í Reykjavík er kolruglaður.  Samfylkingin og fylgifiskar hennar í borgarstjórn láta andvana fædda draumsýn um forneskjulegt fyrirkomulag umferðar í borginni stjórna lóðaúthlutunum og skipulagi borgarinnar.  Þegar málsvarar þessa steinrunna stjórnmálaflokks taka þátt í umræðum um hinn geigvænlega húsnæðisskort í höfuðborginni, neita þau einstrengingslega að viðurkenna stórfelld stjórnunarleg mistök borgarstjórans, en draga óðar fram blóraböggla á borð við bankana og jafnvel Seðlabankann, sem örvaði hagkerfið í Kófinu með vaxtalækkun. 

Þetta heitir að neita að horfa í eigin barm.  Slíkum er alls varnað og er alls ekki treystandi til að fara með forræði yfir málefnum almennings, t.d. að stjórna einni höfuðborg.  Hinum illa áttaða borgarstjóra Reykjavíkur verður að gefa frí frá borgarstjórastörfum í maí 2022, ef ekki á að verða stórfellt skipulagslegt og pólitískt slys í borginni.

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 28. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband