31.3.2022 | 13:07
Innflutt orkulöggjöf hefur steytt á skeri í Noregi
Þriðjudagurinn 15. febrúar 2022 var mótmæladagur um þveran og endilangan Noreg. Þann dag voru haldnar blysfarir á a.m.k. 20 stöðum í Noregi til að mótmæla háu raforkuverði. Mótmælendur tengja þetta háa orkuverð beint við útflutning raforku um aflsæstrengi, sem lækkað hafa yfirborð miðlunarlóna á Vesturlandinu og Suðurlandinu, þ.e. sunnan Dofrafjalla, með þeim afleiðingum, að heildsöluverð á Nord Pool-raforkumarkaðinum er 8-10 sinnum hærra sunnan við Dofrafjöll en norðan þeirra.
Þetta er óyggjandi merki um áhrif millilandatenginganna á raforkuverðið, því að allir aflsæstrengirnir koma á land á Suðurlandinu eða Vesturlandinu og flutningsgetan yfir Dofrafjöll er svo takmörkuð, að hún dugar ekki til að hafa marktæk áhrif á raforkuverðið norðan við þau.
Allir aflsæstrengirnir eru í eigu og reknir af Statnett, sem er sambærilegt fyrirtæki Landsneti á Íslandi, en frá því að Þriðji orkupakkinn, OP3, tók gildi í EFTA-hluta EES eftir innleiðingu Alþingis á þessari löggjöf með fyrirvörum þó haustið 2019, hefur Statnett stjórnað orkuflæðinu um þá samkvæmt reglum OP3 og forskrift frá ACER - Orkustofu ESB, þar sem orkulandsreglarar Noregs, Íslands og Liechtenstein sitja sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi, en án atkvæðisréttar.
Þetta veldur því, að norskum stjórnvöldum er óheimilt að skipta sér af þessum orkuviðskiptum, þótt þau kunni að telja, að afhendingaröryggi raforku til Norðmanna sjálfra, eigenda orkulindanna, sé stefnt í voða. Þau mega heldur ekki hlutast til um að draga úr nettóútflutningi raforku, þótt verðhækkanir raforku til almennings, sem kyndir húsnæði sitt með rafmagni, ógni afkomu almennings. Það hefur þó enn þá verið látið óátalið af ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, að ríkisstjórnin niðurgreiði raforkuverð til almennings. Hún hefur nú samþykkt að borga 80 % af þeim hluta heildsöluverðsins, sem er yfir 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh).
Þann 15.02.2022, á degi mótmæla Norðmanna gegn háu raforkuverði, var heildsöluverðið í Ósló 1,14 NOK/kWh eða 16,0 ISK/kWh, sem er meira en þrefalt heildsöluverðið hér til almenningsveitna. Þá nam heildarraforkuverðið án niðurgreiðslu til almennra notenda í Ósló 2,0 NOK/kWh eða 28 ISK/kWh, sem er tæplega 50 % hærra en hér á höfuðborgarsvæðinu. Með niðurgreiðslunum verður heildarverð til notenda hins vegar mjög svipað og á höfuðborgarsvæðinu, en þess ber að geta, að vegna húshitunar eru rafmagnskaup Ola Nordmanns 5-falt meiri en Óla Íslendings.
Allt annað er uppi á teninginum, þegar litið er til Þrándheims. Þar er heildsöluverð raforku aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh og heildarverðið er þar 0,8 ISK/kWh eða 11,2 ISK/kWh, eða tæplega 60 % af heildarverðinu í Ósló og Reykjavík. Hlutfall heildsöluverðsins í Ósló og Þrándheimi var 8,1 þennan tiltekna dag og skýrist að mestu leyti af raforkuviðskiptunum við útlönd. Íbúar norðan Dovre óttast yfirvofandi raforkuverðshækkun hjá sér, af því að styrking raforkutengingar á milli norðurs og suðurs stendur yfir.
Í norskri löggjöf er kveðið á um, að "vatnsorkulindir landsins [séu] þjóðareign og þær [beri] að nýta í almanna þágu". Raunveruleikinn hins vegar er sá, að Stórþingsmeirihluti hefur fært umsetningu þessara auðlinda til kauphalla og samtengds ESB-markaðar, sem eru fullkomlega laus undan stjórnmálalegu innlendu valdi samkvæmt innfluttri löggjöf, sem Stórþingið samþykkti í marz 2018 og Alþingi með afbrigði haustið 2019 að fengnum hvatningum að utan, þar sem norskir almannahagsmunir voru sagðir í húfi.
F.o.m. desember 2021 hafa veður hins vegar skipazt svo í lofti, að til að verja almenning er talin þörf á að verja fúlgum fjár úr ríkissjóði, sem styrktur er af olíusjóði Norðmanna, til niðurgreiðslna (meðalniðurgreiðsla í desember 2021 nam 21,8 Naur/kWh = 3,1 ISK/kWh).
Reglugerðin um raforkuviðskipti á milli landa (EB 714/2009) með viðhengjum og undirstöðu reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf og þ.a.l. fyrirmæli um framkvæmd þessara viðskipta. Afleiðingarnar valda nú stórtjóni í Noregi, þar sem heimilum og fyrirtækjum blæðir.
Á Íslandi er í gangi fáránleika leikhús um raforkuna, þar sem látið hefur verið reka á reiðanum í 5 ár varðandi öflun nægilegrar raforku til að svara eftirspurn með þeim afleiðingum, að landsmenn munu þurfa að búa við annars óþarfa stórfellda olíubrennslu, nýir viðskiptavinir hafa farið bónleiðir til búðar, orkuskiptin eru í uppnámi, og raforkuverðið hefur hækkað, algerlega að óþörfu, á sama tíma og ríkisfyrirtækið Landsvirkjun ætlar að greiða mrdISK 15 í arð fyrir árið 2021.
Orkulandsreglari ESB (Orkumálastjóri á Íslandi, í Noregi RME=Reguleringsmyndighet for energi) hefur það hlutverk að framfylgja þessari löggjöf. Hann má ekki bera hagsmuni síns lands fyrir brjósti umfram hinna EES-landanna m.t.t. afhendingaröryggis raforku eða annarra þátta. Þess vegna lækkar ískyggilega í lónum sunnan Dovre-fjalla, og 8-10 földun raforkuverðs þar m.v. Þrændalög og þar fyrir norðan endurspeglar þessa ábyrgðarlausu stöðu, og orkulandsreglari hérlendis hefur enga heimild til að skipa orkufyrirtækjum að virkja. Orkulandsreglari (RME) getur ekki og á ekki að hafa neitt boðvald yfir eða lúta boðvaldi innlendra yfirvalda. Innlend yfirvöld geta ekki haft nokkra raunverulega stjórn á raforkumarkaðinum, nema orkulandsreglari (RME) verði deild í Orkustofnun (NVE), og Orkumálastjóri verði alfarið settur undir pólitíska stjórn ríkisstjórnar (Orkumálaráðherra, í Noregi Olje- og Energidepartementet).
Þessa reglugerð, EB 714/2009, þarf að taka út úr lagasafninu og EES-samninginum. ESA-getur hvenær sem hentar gert athugasemd við innleiðingu OP3 á Íslandi, þar sem samþykki Alþingis var áskilið fyrir heimild til tengingar aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið, sem var ekki minnzt á í afgreiðslu Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 árið 2017. Norðmönnum er þetta nauðsyn, til að ríkið öðlist á ný stjórnunarrétt á raforkuviðskiptunum við útlönd. Þannig má tryggja stöðugt lágt og fyrirsjáanlegt raforkuverð fyrir almenna notendur og atvinnurekstur. Noregur og Ísland þurfa jafnframt að endursemja við ESB um aðrar reglugerðir og tilskipanir, sem skuldbinda löndin til að gefa eftir samfélagslega stjórnun sína á nýtingu orkulindanna.
Rafmagn á ekki að vera frjáls markaðsvara eða markaðsþjónusta. Raforkukerfið var ekki hannað og fjármagnað með það fyrir augum í upphafi í Noregi og á Íslandi, og markaðskerfi í anda Evrópusambandsins er sniðið við örugga aðdrætti eldsneytis, en hvorki dynti náttúrunnar né skort á eldsneyti, eins og núna hrjáir Evrópu vestan Rússlands. Ein af fáum náttúruauðlindum Íslands og Noregs er orkan í fallvötnum og iðrum jarðar (fyrir utan jarðefnaeldsneytið á norsku landgrunni og e.t.v. innan íslenzkrar lögsögu einnig). Þessar orkulindir á að nýta íbúunum til hámarks hagsbóta með því að selja þeim hana samkvæmt kostnaði við öflun, flutning og dreifingu með arðsemi í samræmi við arðsemi fjárfestinga með svipaða áhættu. Ástæðan fyrir þessu er, að verðmætasköpun með rafmagninu er margfalt meiri en fæst með umsetningu þess á erlendum mörkuðum, iðulega 5-10 sinnum meiri. Lagabann við slíkri ráðstöfun innlendra auðlinda með EES-skuldbindingum er fráleitt og hefur nú þegar örlagaríkar afleiðingar á meðal frænda vorra, Norðmanna.
Markaðssetning raforku í kauphöll, ef menn endilega vilja innleiða slíkt fyrirbrigði á Íslandi, ætti einvörðungu að vera á ótryggðri orku, og jafnvel hún orkar mjög tvímælis, því að slík kauphallarviðskipti geta knúið fyrirtæki til brennslu jarðefnaeldsneytis af kostnaðarástæðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)