Stríðshörmungar

Forseti Rússlands hefur með því að etja rússneska hernum á nágrannann í vestri, Úkraínu, valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik og ofboðslegu efnislegu tjóni.  Þetta er slíkt fólskuverk, að þessi viðbjóðslegi maður hefur á fáeinum sólarhringum áunnið sér fordæmingu alls heimsins, og Rússland er að taka á sig mynd hryðjuverkaríkis. Það er líka þyngra en tárum taki.

Honum má ekki verða kápan úr því klæðinu að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi. Vladimir Putin er siðblindur ómerkingur, sem enga samninga virðir, ef honum býður svo við að horfa. Hann hefur nú (reyndar 2014 með hertöku Krímskaga) rofið samkomulag frá 1994 (The Budapest Memorandum of 1994), þar sem Bandaríkin, Rússland og Bretland hétu að ábyrgjast landamæri Úkraínu gegn því, að hún léti af hendi kjarnorkuvopn, sem hún tók að erfðum frá Ráðstjórnarríkjunum. 

Árið 1854 var 35 ára Breti að nafni Roger Fenton skipaður konunglegur stríðsljósmyndari á Krímskaga til að gera Krímstríði Breta og Rússa skil með ljósmyndum.  Nú þegar í 2. viku árásarstríðs Rússa í Úkraínu er  þessi mannlegi harmleikur líklega orðinn sá mest myndaði í sögunni, bæði mest ljósmyndaði og kvikmyndaði, og hörmungarnar eru jafnóðum færðar inn á heimili almennings um allan heim.  Þessar hörmungar vekja slíkan óhug, að fólk getur vart á heilu sér tekið.  Að brjálæði eins manns geti rétt einu sinni valdið svo miklum þjáningum, dauða og tjóni, sem þessar myndir og lýsingar stríðsfréttaritara greina frá, er með ólíkindum á 21. öldinni og sýna, að herfileg pólitísk mistök hafa átt sér stað, þar sem Vesturlönd eru einnig undir sök seld, aðallega fyrir dómgreindarleysi gagnvart hættunni, sem frá Rússlandi undir gjörspilltum einvaldi stafar. Pólverjar voru lengi búnir að vara við þessari hættu, en töluðu fyrir daufum eyrum í Evrópusambandinu, ESB, og NATO.

Mikil bjartsýni og baráttugleði ríkti hjá sendiherra Úkraínu, Olgu Díbrovu, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík, sem Morgunblaðið gerði skil 2. marz 2022:

"Olga Díbrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, segist vera örugg um það, að Rússar nái ekki Kænugarði á sitt vald, þar sem hún segir stríð ekki unnin með skotvopnum eða sprengjum, heldur með anda þjóðarinnar. Ef þörf krefur, muni úkraínska þjóðin berjast til síðasta blóðdropa." 

Orð sendiherra Úkraínu fáum við staðfest daglega á fjölmörgum myndbandsupptökum stríðsfréttaritara í Úkraínu. Birt hafa verið viðtöl við rússneska stríðsfanga, þar sem þeir upplýsa, að þeir hafi farið yfir landamæri Úkraínu á fölskum forsendum.  Þeim hafi verið sagt, að leiðangurinn væri til að frelsa úkraínskan almenning undan oki nazista, sem réðu ríkisstjórn Úkraínu.  Fáránlegri lygaþvættingur hefur ekki heyrzt í háa herrans tíð, en nú bregður svo við, að nokkrir kvislingar Rússlandsstjórnar hérlendis gleypa við þessum sjúklega málflutningi (forseti Úkraínu er rússneskumælandi Gyðingur frá austurhéruðunum). Hermönnunum var jafnframt sagt, að þeim yrði fagnað með blómum, en reyndin varð sú, að almenningur kastaði Mólotoffkokkteilum að rússnesku skriðdrekunum. 

""Úkraínska þjóðin er innblásin og sameinuð sem aldrei fyrr; meira að segja á samfélagsmiðlum sér maður, að þjóðin er tilbúin að berjast.  Já, íbúar fela sig vegna sprengjuárásanna, en þeir eru ekki hræddir", sagði Díbrova í samtali við Morgunblaðið að loknum blaðamannafundi í gær." 

Brent-olíuverðið hækkaði að morgni 7. marz 2022 um 6,1 % og fór í 125,3 USD/tunnu, sem er 80 % hækkun síðan 01.12.2021. Hækkunin á eftir að verða enn meiri út af þessu stríði, og hún mun smita yfir í plastið og nánast allar aðrar vörur, sem eiga uppruna sinn í olíu eða eru orkukræfar í framleiðslu.  Skortur verður á hveiti og öðrum korntegundum, þegar um þriðjungur framboðsins dettur út.  

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, BNA, tilkynnti sunnudaginn 06.03.2022, að á milli BNA og Evrópusambandsins, ESB, færu nú fram viðræður um innflutningsbann á rússneska olíu og jarðgas. Forseti BNA tilkynnti 08.03.2022, að BNA væri að setja slíkt innflutningsbann á. Innflutningur BNA á þessu eldsneyti er þó lítill, en 27 % af olíuinnflutningi ESB er frá Rússlandi, og  tæplega helmingur af jarðgasnotkun ESB er rússneskt gas.  Það er kaldhæðni örlaganna, að Evrópa heldur uppi fjárhagslegu bolmagni Rússlands til að halda úti stríði af því tagi, sem nú er háð í Úkraínu með eldsneytiskaupum (gas, olía, kol) af Rússum fyrir um 700 MUSD/dag eða 256 mrdUSD/ár.  Sennilega er hægt að lama efnahag Rússlands með því að hætta þessum viðskiptum við landið, en það er hægara sagt en gert. ESB tilkynnti þó 08.03.2022, að dregið yrði úr þessum innflutningi um 2/3 á örfáum árum og honum alfarið hætt fyrir 2030.  Stórtíðindi þar á ferð.  

Hvorki er hægt að hætta gaskaupunum, eins og hendi sé veifað, né geta Rússar fundið aðra viðskiptavini strax, því að það tekur tíma að leggja flutningslagnirnar annað. Þeir verða nú að fjárfesta í nýjum lögnum.  Hvar fá þeir fé til þess ?  Olíuútflutningur Rússa nam 4,5 Mtunna/dag fyrir þetta  stríð.  Það eru 5 % af heimsneyzlunni á olíu, og önnur lönd með Saudi-Arabíu í broddi fylkingar geta aukið framleiðsluna að sama skapi.  Tankskip eru líklega tiltæ, enda rýkur nú hlutabréfaverð upp í útgerðum þeirra.

Putin hefur nú hótað að draga úr streyminu eftir Nord Stream 1 til Evrópu, ef innflutningsbann verður sett á rússneska olíu.  Það kann að verða látið reyna á þá hótun einvaldsins.  

Þjóðverjar voru svo blindaðir af friðþægingarþörf sinni við Rússa, að þeir hafa ekkert plan B gagnvart bresti á gasafhendingu. Þannig er enginn búnaður í þýzkum höfnum til að taka á móti jarðgasi á vökvaformi (LNG) og breyta því aftur á gasform.  Það er samt umframafkastageta slíks búnaðar fyrir hendi í Evrópu, en hann er aðallega á Spáni.  Sennilega mætti auka jarðgasinnflutning frá öðrum á gas- og vökvaformi um jafngildi 20 % af þörfinni, og þá liggja 30 % þarfarinnar óbættar hjá garði í Evrópu, ef skrúfað verður alfarið fyrir gasið frá Rússlandi.  Það gæti komið sem LNG frá BNA og Persaflóaríkjunum, þegar móttökustöðvar LNG hafa verið reistar víðar, en þetta mun leiða til hærra gasverðs til neytenda.  Allt mun þetta flýta fyrir kjarnorkuveravæðingu rafkerfisins til að draga verulega úr gasþörfinni.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands kynnti virkjanaþörf hérlendis næstu áratugina fyrir heildarorkuskipti, þörf vaxandi þjóðar og hagvöxt.  Eru það um 25 GWh/ár eða ríflega tvöföldun núverandi virkjaðrar orku.  Hvernig hennar verður aflað, verður mikilsvert rannsóknarefni.  

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

  

 


Bloggfærslur 8. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband