15.4.2022 | 11:10
Skipbrot Rússlands
Feigðarflan fasistans á forsetastóli, sem sölsað hefur undir sig öll völd í Rússlandi og ráðizt á nágrannalönd Rússlands, Georgíu, Tétseníu og síðar Úkraínu 2014 og með allsherjarinnrás þar tæplega 200 k manna hers þann 24. febrúar 2022, hefur þegar dregið Rússland siðferðilega og efnahagslega gjörsamlega niður í svaðið, þaðan sem landið mun ekki eiga afturkvæmt í mannsaldur eða meir.
Rússland er einangraðra en það hefur verið frá því, er Jósef Stalín, fjöldamorðingi, var við völd í skjóli kommúnistaflokksins í Kalda stríðinu við Vesturveldin. Þá mun þó hafa verið hagvöxtur, en samdrætti í vergri landsframleiðslu Rússlands er spáð 10 %-20 % árið 2022 m.v. 2021, og atgervisflótti er hafinn. Einræðisríkið Kína virðist jafnvel vera hálfvolgt í stuðningi sínum við ofbeldishegðun Rússlands, og Indverjar, sem jafnan hafa notið stuðnings Kremlarstjórnar í átökum sínum við nágrannana, eru tvístígandi í afstöðu sinni til Rússlands núna. Rússland, ríkisstjórn og herstjórn, hafa gert herfileg mistök á öllum sviðum, er lúta að þessum hernaðarátökum, og berað sig sem gegnumrotið, siðspillt og veikt ríki, sem fellur nú í fúafen þriðjaheims ríkja.
Verkfræðiprófessor Jónas Elíasson skrifaði af sinni glöggskyggni grein í Morgunblaðið þann 7. apríl 2022, sem hann nefndi:
"Vegferð Pútíns".
Undir millifyrirsögninni:
"Aðgerðir Pútíns styrkja NATO og eyða evrópskum sósíalisma",
stóð þetta:
"Þau ríki, sem vildu sýna Rússum hlutleysi eða vináttu, ganga nú í NATO. Ef Pútín óttaðist NATO áður, ætti hann að vera alvarlega hræddur núna. Framferði Rússa skapar gríðarlegan pólitískan vanda fyrir evrópska vinstrimenn, gæti einfaldlega þýtt endalok vinstri sósíalisma í Evrópu.
Aðalmál þeirra, hatrið á bandarískum kapítalisma, hefur leitt þá yfir í ósjálfrátt, og stundum ómeðvitað, Rússadekur og kröftuga andstöðu við NATO, en allt þetta er nú að gufa upp [og rjúka] út í veður og vind. Evrópskir stjórnmálamenn munu ekki komast upp með Rússadekur, og evrópskir vinstrimenn verða að snúast á sveif með NATO, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Lítil grein á forsíðu Fréttablaðsins 09.03.2022 sýnir, að þetta vandamál á ekki síður við um íslenzka sósíalista. Pútín á eftir að fara verr með evrópska vinstrimenn en Stalín í Finnagaldrinum, uppreisnum í Austur-Þýzkalandi, Ungverjalandi og Póllandi. Stalín stal korni Úkraínu 1931-1933, og 3 milljónir [manna] dóu úr hungri. Þetta man Úkraína, svo [að] á hvaða vegferð er Pútín."
Austurríki stendur utan NATO og virðist ekki vera á leiðinni inn fyrir, en það virðast hins vegar bæði Finnland og Svíþjóð vera. Finnland var hluti af ríki zarsins, og Ráðstjórnarríki Stalíns réðust á landið 30.11.1939, og stóð Vetrarstríðið yfir til 13.03.1940. Þar af leiðandi er Finnland í stórhættu gagnvart fasistaríki Putins, sem hikar ekki við landvinningastríð til að endurvekja ríki zarsins.
Í áróðri Kremlverja hefur því verið haldið fram, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæðum við landamæri sín. Þetta er ekkert annað en skálkaskjól til að eiga auðveldar með að hremma þessi lönd með valdi við tækifæri. Þetta hefur nú runnið upp fyrir meirihluta Finna, sem sjá sér ekki annan kost vænni til að styrkja öryggi sitt en að ganga í NATO. Það mun verða auðsótt, og verða þeir boðnir velkomnir, þótt björninn í austri muni reka upp ramakvein og skekja klærnar. Það verður ein af langtíma afleiðingum þess axarskapts einræðisherrans Putins að gefa dauðann og djöfulinn í fullveldi Úkraínu, að þjóðir á áhrifasvæði Rússlands brjótast undan því og leita undir verndarvæng Vesturveldanna.
Nú er sú gamla grýla þokuhöfða vinstrisins dauð, að Bandaríkin (BNA) séu árásargjarnasta stórveldið, sem minni ríkjum stafi mest hætta af. Þar með gufar upp goðsögnin um auðvaldið, sem mati krókinn með hergagnaframleiðslu. Þrjóturinn Vladimir Putin er valdur að því, að BNA stíga nú fram sem bólvirki frelsins og baráttunnar við landvinningamenn og sem kjölfestan í varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO. Allt snýst í höndunum á ódáminum í Kreml.
"Í síðustu heimsstyrjöld börðust Úkraínumenn af mikilli hörku gegn Þjóðverjum og áfram gegn Rússum allt til 1953. Vesturlönd komust ekki upp með annað en að styðja þá baráttu, leynt, ef ekki ljóst. Munu Rússar sætta sig við, að skæruliðar í Úkraínu fái skjól, vistir og búnað í NATO-löndum og herji á Rússa bæði í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi ? Nei, það mun Pútín ekki sætta sig við. Rússar fengu að leika þetta hlutverk í stríðunum í Kóreu og Víetnam, en Vesturlönd fá ekki að gera þetta núna, ekki á landamærum Rússlands. Þá fara Rússar út fyrir landamæri Úkraínu með hernaðinn, taka Moldóvíu, einangra Eystrasaltslöndin með [því] að loka Suvlaki-hliðinu, og það leiðir til afskipta NATO og heimsstyrjaldar.
Hvað getur komið í veg fyrir þetta ? Menn einfaldlega vona, að valdadagar Pútíns verði ekki miklu lengri, sem er reyndar spurningin um, hve lengi hann hefur stuðning hersins, eða hvort honum verður komið frá með þeim aðferðum, sem hann hefur beitt á aðra. En ef það gerist ekki og Pútín verður áfram við völd, þá er gríðarleg stríðshætta fram undan."
Líklega er meiri spurning um heilsufar mafíuforingja ólígarkanna en hvort tekst að koma honum fyrir kattarnef. Af útlitinu að dæma er maðurinn sjúkur, enda fylgja honum 9 læknar við hvert fótmál. Hann er auðvitað vænisjúkur og hreinsaði meira að segja nýlega til í FSB, utanríkismáladeildinni, þar sem hann sjálfur starfaði, þegar Boris Jeltsín var bent á gaurinn sem forsætisráðherraefni hjá sér laust fyrir aldamótin.
Með vísun til ofangreindrar tilvitnunar í prófessor Jónas er ljóst, að á miklu ríður, að Úkraínumönnum takist að koma þannig höggi á rússneska herinn, að hann hörfi frá austurhéruðunum og til baka á sína heimatorfu, eins og gerðist norður af Kænugarði um mánaðamótin marz-apríl 2022. Í þessu ljósi er óafsakanlegt, að kratinn Olaf Scholz skuli nú þvælast fyrir því, að Bundeswehr láti brynvarða trukka og skriðdreka og önnur þungavopn af hendi rakna við Úkraínumenn. Utanríkisráðherra hans, græningjanum Önnu Lenu Bärbock, er tekið að leiðast þóf karlsins á kanzlaraskrifstofunni og talar nú eindregið fyrir því, að Þjóðverjar taki sig á og sendi þungavopn austur til Úkraínu. Þegar menn segja A, þ.e. "Zeitenwende" (vatnaskil), verða þeir að vera menn til að segja B líka. Í ljósi þess, að Boris Johnson var nýlega gestur Volodimirs Zelenski, forseta, í Kænugarði og lagði þar á ráðin um hergagnasendingar til Úkraínumanna að beiðni Zelenskis, kemur loðmullukratinn í Berlín alveg sérstaklega illa út.
Þjóðverjar eru komnir í slæmt ljós fyrir undirlægjuhátt við Rússa, sem þeir misreiknuðu algerlega í samskiptum sínum við þá. Þeir skilja ekki hugsunarganginn í Moskvu, enda er hann forneskjulegur og algerlega óraunsær, tragíkómisk hugmyndafræði um mikilleika Rússlands, sem er hrein firra.
Þótt Frank-Walter Steinmeier, forseti Sambandslýðveldisins, hafi séð að sér eftir hina svívirðilegu innrás glæpahyskisins og lygalaupanna í Kreml 24.02.2022, var heimsókn hans afþökkuð í Kænugarði. Það ætti að verða þýzku stjórninni verðugt umhugsunarefni, en Steinmeier, ásamt Gerhard Schröder, krata og fyrrum kanzlara, var einn helzti talsmaður samstarfsverkefnis Rússa og Þjóðverja, Nord Stream 2, og aðstandandi hins misheppnaða Minsk-samkomulags á milli Úkraínumanna og Rússa 2015. Við þessar aðstæður sér líklega enginn þýzkur ráðherra sér fært að heimsækja Kænugarð, sem er miður.
Þann 5. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Geir Waage, "pastor emeritus", undir fyrirsögninni:
"Skildi leiðir við Minsk ?"
Þar örlar víða á samúð með Rússum og fremur hornóttum ummælum í garð Úkraínumanna og ekki laust við, að nokkurri sök sé velt yfir á Vesturlönd á því, hvernig komið er. Þessi afstaða kemur spánskt fyrir sjónir hér, þar sem Davíð berst við Golíat fyrir varðveizlu fullveldis þjóðar sinnar. Ef það eru rök í málinu Rússum í vil, að Úkraína hafi áður verið hluti af Rússaveldi, Guð hjálpi þá Íslendingum og öðrum, oft á tíðum smáríkjum, sem rifið hafa sig lausa úr ríkjasambandi við mun mun fjölmennari þjóðir, oft óhamingjusömu kúgunar- og arðránssambandi. Berum niður í grein prestsins:
"Svo sem komið hefur á daginn, hafa efndir Minsk-samkomulagsins orðið verri en engar. Úkraína hefur virt það að vettugi. Frakkar, Þjóðverjar og ÖSE hafa ekki hafzt að. BNA hafa ýtt fram sókn NATO í austur. Rússar rjettlæta árás sína á Úkraínu nú m.a. á vísun til þessa. Eins og nú er komið málum, er vandsjeð, hvar finnast kunni hlutlægt mat á þeirri rjettlætingu."
Þarna er kíkirinn settur fyrir blinda augað, þegar horft er til austurs. Staðreyndum er snúið á haus að hætti rússnesku áróðursvélarinnar. Árásaraðilinn er gerður að fórnarlambi. Látið er í veðri vaka, að Bandaríkjamenn láti NATO gleypa þjóðir Austur-Evrópu. Þær þrábáðu um að komast inn undir verndarvæng NATO, senda þekktu þær Rússa af eigin raun og vissu fullvel, að þeir væru árásargjarnir og til alls líklegir, eins og margsinnis hefur komið í ljós. Því miður komu smjaðurskjóður á borð við Angelu Merkel í veg fyrir aðild Úkraínu, og þess vegna stendur nú hinn siðmenntaði heimur á öndinni yfir illvirkjum og níðingslegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu. Það á að láta af "Stokkhólmsheilkenninu" svo nefnda og hætta að taka mark á hótunum mafíunnar í Kreml.
"Í grein hjer í blaðinu hinn 21. marz [2022] rifjaði eg upp ummæli Henrys Kissingers í grein í Washington Post af því tilefni, að hann gaf út bók sína, World Order", árið 2014. Þar minnir hann á, að Úkraína sje sögulega og menningarlega órjúfanlegur hluti rússneskrar sögu og menningararfs."
Það er ekki víst, að minningu dr Henrys Kissinger, utanríkisráðherra Richards Nixon, Bandaríkjaforseta, sé greiði gerður með því að rifja þessa skoðun hans upp núna, sem hefur eldst mjög illa, enda mörkuð af hugmyndafræðinni um ógnarjafnvægi á milli Ráðstjórnarríkjanna og Bandaríkjanna, sem skipti heiminum á milli sín í áhrifasvæði til að varðveita friðinn sín í millum. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir sem eiga að ráða stjórnskipun sinni og afstöðu Úkraínu til annarra landa, eru Úkraínumenn sjálfir. Það er óréttlætanlegt, að önnur ríki reyni að ráðskast með fullveldi Úkraínu. Úkraínumenn hafa reynzt meta fullveldi lands síns svo mikils, að þeir eru tilbúnir að úthella blóði sínu til að viðhalda því. Allt annað er aukaatriði og að reyna að færa einhver söguleg rök fyrir öðru er bull ættað frá Moskvu og söguleg fölsun í þokkabót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)