Tvískinnungur og hræsni eftiráklókra

Tvískinnungur, hræsni og eftirávizka tröllríður gagnrýni þingmanna og eins ráðherrans á útboðsferli Bankasýslunnar á 20 % hlut í Íslandsbanka, sem jókst í 22,5 %.  Líklegt er, að óvandaðir stjórnmálamenn hræri hér í gruggugu vatni í tilefni væntanlegra sveitarstjórnarkosninga, aðallega til að rétta borgarstjórnarmeirihluta með allt á hælunum hjálparhönd á ögurstundu, en tilfinningaþrungin umræða, þótt á röngum forsendum sé, getur haft áhrif á val á milli stjórnmálaflokka í kjörklefanum. 

Mest kom á óvart, að einn ráðherrann fann til ríkrar þarfar að þjóna lýðskrumsónáttúru sinni, þegar hún varð vör við kurrinn.  Þóttist Lilja D. Alfreðsdóttir hafa mælt gegn málinu á vettvangi ríkisstjórnar, en forsætisráðherra kvað enga bókun um það finnanlega í fórum ríkisstjórnarinnar, og sat téð Lilja þó í ráðherranefndinni, sem á undirbúningsstigum fjallaði um þessa bankasölu og hélt gerðabók. Hefur téð Lilja þagað þunnu hljóði eftir þessa ádrepu. Er betra að veifa röngu tré en öngu í pólitík ?  Fer eftir, hver á heldur. Af gögnum málsins er ljóst, að hér er um fullkomlega ábyrgðarlausa hegðun viðskipta- og menningarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins að ræða, sem hefur grafið undan trausti á henni, sem var þó lítið fyrir, m.a. vegna lagabrots hennar við ráðningu ráðuneytisstjóra og málaferla, sem kostuðu ríkið stórfé. Ráðherrann, sem við tók, flokksbróðir Lilju, stöðvaði áfrýjun hennar á töpuðu máli til Landsréttar og dró líklega þannig úr tjóni ríkisins.  Dómgreind téðrar Lilju Daggar virðist ekki vera upp á marga fiska.  

Þá voru skrýtin ummæli Lilju um, að EES-reglur hindruðu að fara í almennt útboð.  Það er rangt hjá henni, en þá þarf að semja nákvæma útboðslýsingu, eins og gert var fyrir frumútboðið, og það kostar auðvitað sitt.  Þetta varð ekki ferð til fjár fyrir Lilju D. Alfreðsdóttur, en er fallið til að eitra andrúmsloftið innan ríkisstjórnarinnar.  Var það ætlunin ?

Þingmenn hafa sennilega sjaldan fengið jafnítarlega kynningu á nokkru máli eins og þessu útboði á um fimmtungi af hlutabréfum Íslandsbanka. Samt láta þeir eins og þeir komi af fjöllum, margir hverjir. Jólasveinar geta ekki leynt eðli sínu. Gera þeir þó ekki helzti lítið úr sér og hæfileikum sínum til að taka við, greina og spyrja gagnrýninna spurninga ? Nokkrir af þeim, sem hæst hafa látið og vitrastir og um leið hneykslaðistir hafa orðið eftir á, sitja í þingnefndunum, sem fjölluðu sérstaklega um málið.  Morgunblaðið greindi frá þessu þannig í fréttaskýringu 13. apríl 2022:

"Þingmenn í fjárlaganefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd fengu ítarlegar kynningar frá fulltrúum Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytisins í aðdraganda útboðsins.  Fyrsti kynningarfundurinn var haldinn nokkrum dögum eftir að fjármála- og efnahagsráðherra hafði óskað eftir umsögnum nefndanna.  

Á fundunum var farið yfir kosti og galla þeirra aðferða, sem hægt er að [beita] í útboðum sem þessum, hvaða áhrif salan kynni að hafa á þróun á hlutabréfamarkaði, hvernig salan færi fram og fleira til.

Nokkrir af þeim þingmönnum, sem hafa gagnrýnt útboðið, eftir að því lauk, sátu umrædda fundi, þar sem þau eiga sæti í nefndunum.  Má þar m.a. nefna Bryndísi Haraldsdóttur (Sjálfstæðisflokki), Jóhann Pál Jóhannsson og Kristrúnu Frostadóttur (Samfylkingu), Guðbrand Einarsson (Viðreisn), Björn Leví Gunnarsson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur (Pírötum).  

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerðu þau ekki athugasemdir við verklag eða aðferðafræði Bankasýslunnar í aðdraganda útboðsins, þó [að] sum þeirra hafi skilað séráliti, þegar nefndirnar skiluðu sínum umsögnum, og þar gagnrýnt  með margvíslegum hætti, að til stæði að selja hlut ríkisins."

Það er heiðarleg pólitísk afstaða, þótt arfavitlaus sé frá hagfræðilegu sjónarmiði, að vera andvíg[ur] sölu ríkiseigna.  Það er út af því, að ríkið á ekki að standa í samkeppnisrekstri, enda stendur ríkið sig yfirleitt illa í þeim rekstri, sem það tekur sér fyrir hendur að sinna, á almenna mælikvarða um árangur í rekstri.  Ef Jón og Gunna vilja eiga hlut í banka, gátu þau tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka og aftur óbeint núna með því að kaupa í verðbréfasjóðum, sem eru á hlutabréfamarkaði. Það eru viðurkenndir fagfjárfestar og voru þar af leiðandi taldir hæfir til að bjóða í hluti Íslandsbanka nú.  Hvergi var sett skilyrði um stærð fagfjárfestis, svo að það er hreinn fyrirsláttur hjá þingmönnum og öðrum, að lítil stærð fagfjárfesta hafi komið á óvart, ef hlutlægt er skoðað. 

Annað gagnrýniatriði er söluþóknunin, og hún er nú til athugunar hjá Bankaeftirliti Seðlabankans.  Ekki verður annað séð en upphlaupið út af þessu máli sé stormur í vatnsglasi, og stjórnmálamenn hafa þarna fallið fyrir freistingum sýndarmennsku og lýðskrums.  

Kristrún Frostadóttir, nýr þingmaður Samfylkingar í Reykjavík, hefur bókstaflega staðið á öndinni út af þessu máli.  Það er skiljanlegt, þar sem hún hefur haft meiri persónuleg kynni af hlutabréfum en margur annar, og þeir, sem hafa kynnt sér bankaferil hennar, hafa reyndar staðið á öndinni af hneykslun yfir þeim skjótfengna gróða og án verðleika, sem hún varð aðnjótandi, en vill ekki að fréttist um og alls ekki, að aðrir njóti.

Í Staksteinum Morgunblaðsins 14. apríl 2022 stóð þetta m.a. um þennan sérkennilega ofsagróða kratans Kristrúnar:

"Björn Bjarnason skrifar:"Kristrún Frostadóttir stefnir að formennsku í Samfylkingunni. Fyrir kosningar 25. september 2021 var hún þráspurð um viðskipti sín með bréf í Kvikubanka, þar sem hún starfaði. Hún vildi engu svara fyrir kosningar, en að þeim loknum fékk hún drottningarviðtal í Silfrinu.""

Hvers vegna neitaði kratinn Kristrún að upplýsa um ofsagróða sinn á verðbréfum í Kviku fyrir kosningar í september 2021 ?  Kannski þótti kratanum það ekki vænlegt til vinsælda og atkvæðaveiða í kosningum ? Þetta vitnar um óhreint eðli hennar og óheiðarleika gagnvart kjósendum, þótt hún nú ásaki aðstandendur útboðsins á fimmtungshluti ríkisins í Íslandsbanka um skort á gagnsæi.  Sá skortur er uppspuni hennar, en ekki nóg með það, heldur hefur hún sýnt af sér tvískinnung með því að mótmæla söluferlinu ekki hástöfum fyrir útboðið, en standa svo á öndinni af vandlætingu eftir útboðið.  Ef hún telur einfaldlega engan tíma heppilegan til að losa um bundið fé ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri, þá væri heiðarlegra af henni að segja það hreint út í stað þess að sá tortryggni um framkvæmd útboðsins. Í hvaða gróðabralli stóð þessi krati ?  Það var ekkert smáræði:

"Björn heldur áfram og segir, að í Viðskiptablaðinu hafi viðskiptum  Kristrúnar verið lýst á þennan hátt: "Hún fékk að kaupa áskrift að kaupum á 10 milljónum hluta í bankanum á ákveðnu gengi á fyrirfram ákveðnum dagsetningum gegn hóflegri greiðslu. Myndi þróun á gengi bréfa bankans verða hagfelld - gætu þessi áskriftarréttindi skapað gríðarlega mikinn hagnað, eins og kom á daginn: Þrjár milljónir króna urðu að áttatíu."  

MISK 80/MISK 3 = 27  Þetta er með betri ávöxtun, sem sézt hefur, enda býðst hún ekki hverjum sem er.  Téð Kristrún er forréttindaspíra, sem nú kastar steinum úr glerhúsi yfir skjótfengnum gróða annarra, sem þó bliknar í samanburðinum við gróða Kristrúnar, og þessir aðrir nutu engra forréttinda, heldur spiluðu eftir almennum leikreglum, sem Alþingi var rækilega upplýst um.  Hvers vegna þyrlar hún upp þessu moldviðri núna ?  Það er af ómerkilegasta tagi, enda kosningar í nánd.

""Nú býsnast Kristrún mjög yfir skjótfengnum gróða þeirra, sem keyptu bréf í Íslandsbanka 22. marz [2022] og segir á visir.is 12. apríl [2022], að stór hópur þeirra rúmlega 200, sem keyptu bréfin, hafi "komið inn aðeins fyrir skjótfenginn gróða", og sé ávöxtun þeirra "ævintýraleg". Fyrir Kristrúnu, sem breytti þremur milljónum í áttatíu með hlutabréfaviðskiptum er þarna mjög sterkt að orði kveðið um gróða annarra af slíkum viðskiptum", skrifar Björn."

Þessi gagnrýni Kristrúnar Frostadóttur er helber hræsni.  Hún fór langt með að setja Íslandsmet í hræsni í dymbilvikunni og lætur eins og það sé glæpsamlegt að selja nýkeypt hlutabréf í Íslandsbanka með nokkurra % hagnaði.  Í útboðsskilmálunum var það ekki bannað.  Hvers konar reginvitleysu er þessi fyrrverandi bankadama að sviðsetja hér ?  Hjá henni fara tal og mynd alls ekki saman.  Hún starfaði áður hjá einkabanka og hrærir nú í gruggugu vatni, vegna þess að undir fölsku flaggi háværrar gagnrýni, sem er stormur í vatnsglasi, leynist hin kommúnistíska hugmyndafræði um, að öll atvinnutæki og fjármálastarfsemi eigi að vera á höndum ríkisins.  Skyldi þessi hræsnari dymbilvikunnar nú  sem þingmaður vera orðin að bráð þeirrar gjörsamlega misheppnuðu og hættulegu hugmyndafræði sameignarstefnunnar, eða er hún loddari og lýðskrumari af Guðs náð ? 

 

 

 

  

 

     

 


Bloggfærslur 21. apríl 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband