Óttastjórnun af ýmsu tagi

Óttatilfinningin er rík í manninum og tengist viðleitni hans til að sleppa sem bezt út úr aðstæðum, sem hann ræður ekki fyllilega við eða jafnvel alls ekki við. Hrottinn í Kreml, sem gerzt hefur sekur um hryllilega glæpi gegn mannkyni í viðbjóðslegum stríðsrekstri rússneska hersins í Tétseníu, Georgíu, Sýrlandi og nú í Úkraínu, hefur í hótunum við NATO-löndin um að beita kjarnorkuvopnum af lítt skilgreindum tilefnum.  Þetta er gert til að vekja ótta Vesturveldanna við að taka beinan þátt í átökunum, t.d. með því að verja lofthelgi Úkraínu, sem mikil þörf er á af mannúðarástæðum. Úkraínumenn hafa nú náð töluverðum árangri í loftvörnum sjálfir, þótt þeir hafi ekki öflugustu tólin til þess (Patriot ?). Þjóðverjar hafa dregið lappirnar skammarlega við að aðstoða Úkraínumenn við varnirnar, en nú hafa þeir lofað að senda þeim eina 50 loftvarnarskriðdreka.  

Forstokkaðir einræðisherrar með sjúklegar landvinningahugmyndir skilja hins vegar ekki fyrr en skellur í tönnum, og þess vegna er kominn tími til að NATO setja hinum ofbeldisfulla ómerkingi og þorpara stólinn fyrir dyrnar varðandi villimannlegan hernað Rússa gegn varnarlausum borgurum. Það hefur verið lengi að renna upp fyrir ýmsum, að æðstikoppur í Kreml núna er nýr Hitler.  

Það hefur verið meira áberandi á Vesturlöndum undanfarin misserin en áður, að yfirvöld hafa talið sér sæma að skapa ótta í samfélaginu til að hafa sitt fram. Skemmst er að minnast viðbragða sóttvarnayfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni í öllum tilbrigðum hennar. Einkenni hennar voru frá því að vera engin og upp í kvef, hálsbólgu, inflúensu og lungnabólgu.  Kínverjar gáfu línuna með harkalegum viðbrögðum með lokunum, samkomubönnum og einangrun, eins og búast má við í einræðisríkjum, en með þeirri afleiðingu, að þeir eru alls ekki lausir við veiruna, eins og þó flestir aðrir eru að mestu.

Viðbrögðin á Vesturlöndum hafa víða verið algert yfirskot m.v. tilefni, svipað og að skjóta spörfugl með kanónu.  Hið eina, sem dugir gegn veirunni, er náttúrulegt lýðónæmi, því að áhrif bóluefnanna vara aðeins í nokkrar vikur (vörusvik !).

Vesturlönd brugðust misjafnlega við.  Þar sem minnstar frelsishömlur voru lagðar á, t.d. í Svíþjóð, mældist engin hækkun á dánartíðni yfir árin 2020-2021 m.v. meðaltal 5 ára á undan, en hömlurnar kostuðu greinilega mannslíf víða annars staðar, eins tölur um heildardánartíðni sýndu, þar sem þær þrengdu mjög að frelsi fólks og lífsgæðum. 

 

Þá ráku sóttvarnaryfirvöld harðan áróður fyrir bólusetningum, jafnvel eftir að í ljós kom, að skaðsemi bóluefnanna var meiri en gagnsemin. Þó kastaði fyrst tólfunum, þegar sóttvarnarlæknirinn hérlendis tók að reka harðan áróður fyrir bólusetningum barna með ónýtum og áhættusömum bóluefnum, þótt almennt væru einkenni barna væg eftir C-19 smit.  Cuo bono ? 

Fjölmargir maka krókinn af öllum þessum bólusetningum, og kostnaður ríkissjóðs var gríðarhár.  Kostnaður sjúkdómsgreininga einna saman nam mrdISK 10, sem er óheyrilegur kostnaður sýnataka og sýnagreininga.  Hátt var reitt til höggs af vægu tilefni.  Hvað gerist, ef/þegar skelfileg veira á borð við ebólu ber að dyrum ?  Brýnt er að breyta stjórnkerfi sóttvarna, og breytingin mun vera í farvatninu hjá heilbrigðisráðherra. 

Þá hefur ekki lítið gengið á í fjölmiðlum, en minna í raun, út af meintri hlýnun jarðar, sem rakin er til gróðurhúsaáhrifa nokkurra gastegunda, og starfsemi mannsins kennt um hitastigshækkun, sem sögð er stofna lífinu á jörðunni í sinni núverandi mynd í voða.  Tvennum sögum fer af þessari hitastigshækkun, og er annars vegar orðræða SÞ-IPCC og hins vegar t.d. þeirra, sem unnið hafa úr gervihnattamælingum hitastigs í andrúmsloftinu, og ber mikið á milli eða um 3°C í hækkun á 100 árum. 

Þann 17. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu áhugaverð grein eftir Gunnlaug Jónsson, eðlisfræðing, um þróun hitastigs á Íslandi, sem hét:

"Gleðitíðindi eða áhyggjuefni ?".

Hún hófst þannig:

  "Daglega berast nýjar fréttir, sem tengja má við hlýnun jarðar.  Kristján Vigfússon, aðjunkt við HR, sagði í Fréttablaðinu 1. febrúar sl. loftslagskvíða barna og ungmenna gríðarlegt áhyggjuefni.  Nýleg könnun sýni, að 60 % ungs fólks hafi svo miklar áhyggjur, að þau telji mannkynið dauðadæmt."

Þetta er mjög mikill áfellisdómur yfir framsetningu loftslagspostulanna á meintri óviðráðanlegri hlýnun jarðar.  Framsetningin er í anda áróðurspostula í því augnamiði að hræða fólk til að breyta um lífsstíl.  Þetta er algerlega óábyrg hegðun þessara postula í ljósi þess, að mæliniðurstöður um hitastigsþróun andrúmsloftsins eru alls ekki einhlítar. 

Nákvæmustu og áreiðanlegustu fáanlegu mælingar, sem eru hitastigsmælingar í neðri lögum lofthjúpsins úr gervihnöttum, benda til hækkunar um 1,5°C/100 ár, sem er ekki ávísun á helvíti á jörðu. Í einhliða áróðri SÞ/IPCC hafa Sameinuðu þjóðirnar útilokað nokkra gagnrýna loftslagsfræðinga, t.d. mikla fræðimenn á þessu sviði hjá Alabama-háskóla í BNA, frá skýrslum sínum og greinargerðum um þróun hitastigs á jörðunni.

  Þegar minni spámenn taka til við að flytja dómsdagsspár, verða þeir að hafa algerlega traust land undir fótum vegna þess mikla tjóns, sem ógætilegur og illa ígrundaður málflutningur þeirra getur valdið. 

"Í þessu samhengi má spyrja sig, hvort eftirfarandi fréttir séu gleðiefni eða áhyggjuefni.  Sjófarendur sjá risastóran borgarísjaka á Húnaflóa og hafís, sem er aðeins 17 sjómílur frá landi.  Hafís er óvenjumikill á norðurslóðum, og NA-siglingaleiðin fyrir norðan Síberíu lokaðist fyrr en venjulega í haust, þannig að fjöldi flutningaskipa sat fastur í hafís."

Stjórnmálamenn o.fl. hafa mikið hjalað um hitafarið á norðurslóðum og möguleikana á nýtingu, sem opnast við, að ísinn hopar.  Þarna lýsir Gunnlaugur afturkippi á NA-siglingaleiðinni.  Ef ísbrjótur þarf að fylgja flutningaskipum þessa leið, verður hún ekki hagkvæmari en hefðbundna leiðin um Súez, nema Egyptar taki upp á að hækka verulega gjaldið þar í gegn, eins og komið hefur til tals (vegna aukinnar gjaldeyrisþarfar þeirra í kjölfar hveitiverðshækkana).  Skip á NA-leiðinni þurfa að vera sérstaklega styrkt, ef tryggingafélög eiga að fást til að tryggja þau gegn sjótjóni eða óhæfilegum töfum. 

Þá er nú svo komið, að mikið af blaðri Hringborðs norðurslóða stenzt ekki, t.d. um, að hægt sé að viðhalda ráðstefnuhaldi o.fl. á þess vegum utan átaka í heiminum.  Svívirðileg innrás rússneska hersins í Úkraínu, sem afhjúpaði m.a. landvinningastefnu Rússa í Evrópu til að endurvekja "Stór-Rússland", sem gegnumrotið Rússland nútímans hefur engan lagalegan/siðferðilegan rétt til að krefjast né fjárhagslega/hernaðarlega burði til að standa undir, hefur sannað, að kenningin um, að hægt sé að véla um norðurslóðir í pólitísku/hernaðarlegu tómarúmi er algerlega fráleit, þegar á reynir.

Í lok greinarinnar gerði Gunnlaugur grein fyrir hitastigsþróun á 3 veðurmælistöðvum á Íslandi, í Stykkishólmi, í Reykjavík og á Stórhöfða, í 100 ár, til 2019 og til 2021, með þessum hætti:

"Hlýnun á þessum 3 veðurstöðvum hægir á sér, en gefur ekki í, eins og ætla mætti af umræðu um hlýnun jarðar. Í umræðunni hefur komið fram, að veðurfar á Íslandi muni eftir 100 - 200 ár líkjast veðurfari, eins og það er nú á Skotlandi.  Landsvirkjun muni njóta meiri úrkomu og rennslis í ám, og bændum muni ganga betur að rækta korn og þá sérstaklega bygg, en það hentar vel til bruggunar á bjór og Whisky á Skotlandi.  

Lítum aðeins nánar á þessa hugmynd með hliðsjón af því, að meðalárshiti í Reykjavík hefur vaxið um 0,28°C á síðustu 100 árum.  Meðalhiti í Reykjavík síðustu 100 árin var 4,8°C, meðalhiti í höfuðborg Skotlands, Edinborg, er 9,5°C.  Mismunurinn er 4,7°C.  Með 0,28°C hlýnun á öld verður hiti í Reykjavík orðinn sambærilegur við hitann í Edinborg eftir nær 17 aldir eða árið 3700.  Það virðist því ekki sérstök ástæða til þess að hlakka til eða kvíða breytingum á hita í Reykjavík næstu aldirnar."

Hitastigullinn í Reykjavík í 100 ár til 2019 var 0,36°C/100 ár.  Með aðeins 2 ára hliðrun lækkar hitastigullinn um 22 %, sem er mjög mikið.  Sagt er, að hitastigullinn vaxi, þegar farið er í átt að pólum jarðar, og það getur skýrt hærri hitastigul í Reykjavík en að meðaltali í gufuhvolfinu samkvæmt gervihnattamælingum, en einnig geta áhrif þéttbýlisins skekkt mæliniðurstöðurnar til hækkunar. 

Veðurfræðingar ýmsir hafa skotið landsmönnum skelk í bringu með því, að ein afleiðinga bráðnunar Grænlandsjökuls og minnkunar annarra jökla á norðurhveli væri veiking Golfstraumsins. Ef sú tilgáta væri sönn, hefði slíkt margháttuð slæm áhrif á lífsafkomu Íslendinga, sem stundum eru sagðir búa á mörkum hins byggilega heims.  Þann 25. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu ánægjuleg frétt, sem afsannar þessa tilgátu, a.m.k. m.v. núverandi stöðu.

Fyrirsögn fréttarinnar var: 

"Golfstraumurinn er ekki að veikjast".

"Lars H. Smedsrud, prófessor við Háskólann í Bergen, hefur ásamt fleirum rannsakað gögn frá heilli öld til að sjá, hvernig flutningskerfi hafsins hefur þróazt.  Hann segir þau sýna, að flæði Golfstraumsins inn í norðurhöf hafi aukizt.  Með auknu flæði hlýs sjávar hafi varmaflutningur norður á bóginn aukizt um 30 %.  

"Þetta er alveg rétt.  Við [Steingrímur Jónsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og prófessor við Háskólann á Akureyri og Héðinn Valdimarsson, haffræðingur] skrifuðum greinar um varma- og sjávarflutninginn inn á þetta svæði fyrir nokkrum árum.  Okkar framlag var mæling á þessum Norður-Íslands Irminger-straumi á Hornbanka í um 20 ár. Við sáum mikla breytingu frá 1996 til 2000.  Þá hækkaði hitastigið og straumurinn jókst, þannig að það varð töluvert mikil aukning á varmaflutninginum norður í höf", segir Steingrímur.  Hvernig rímar þetta við kenningar um, að Golfstraumurinn sé að veikjast ?  

Það rímar alls ekki við [þær].  Þessar mælingar sýna, að hann er frekar að eflast hérna.  En það er bara lítill hluti af Golfstraumnum, sem fer hér norðureftir. Hann er miklu stærri fyrir sunnan Ísland."

Sumir, sem telja sig hafa höndlað stóra sannleik, og að hann eigi brýnt erindi til almennings, eru óþarflega PR-kátir, þ.e. veikir fyrir sviðsljósinu.  Með því að draga boðskapinn dökkum dráttum, fær hann áberandi rými og umfjöllun í fjölmiðlum, en þá verður líka að hafa í huga, að hafa skal gát í nærveru sálar.  Að vekja tilvistarótta í huga almennings er ábyrgðarhluti, enda oft hræðsluáróður í vafasömu og ankannalegu augnamiði.  

 

  

 


Bloggfærslur 26. apríl 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband