Stríð valda verðbólgu

Framleiðsla Úkraínu hefur lamazt vegna nýlendustríðs Rússa, sem telja sig eiga tilkall til þessa auðuga lands af náttúrunnar hálfu, þvert á alþjóðalög, en Úkraína er fullvalda ríki, og íbúarnir hafa einfaldlega fengið sig fullsadda af nýlendukúgurunum í austri og vilja ekkert frekar en reka þá af höndum sér út fyrir landamærin. Nýlendukúgarinn hefur augastað á fleiri fyrrverandi nýlendum sínum í Evrópu.  Þetta er fornfálegt og óverjandi viðhorf á 21. öldinni, en minnir á stríð Breta við Bandaríkjamenn 1812, þegar Bretakóngur reyndi að endurheimta nýlendurnar með vopnavaldi.   

Kínaforseti beitir tröllheimskulegum aðferðum við að fást við kórónaveiruna SARS-CoV-2, þ.e. lokunum heilla borgarhluta.  Þetta tefur aðeins fyrir veirunni, en hún verður að hafa sinn gang, og staðan lagast ekkert fyrr en hjarðónæmi hefur verið náð, því að kínversku bóluefnin gefast ekkert betur en þau vestrænu frá Pfizer/BioNTech, Moderna og Astra Zeneca. Allt er það húmbúkk til að græða á óttanum og örvæntingunni, sem í flestum tilvikum var jafnástæðulaus og ótti við inflúensu.  Hún getur drepið, en dánarhlutfallið er lágt.  Bezta mótvægisaðgerðin er að hlaða vítamínum inn í líkamann.

Efnahagslegar afleiðingar sóttvarnaaðgerða Kínaforseta, sem leitar endurkjörs á flokkþingi Kommúnistaflokksins í haust, eru svo slæmar, að hagvöxtur í Kína gæti hrapað niður í 0 árið 2022.  Fyrir vikið er minni orkunotkun í Kína nú en undanfarin ár, sem dregur úr verðhækkunum jarðefnaeldsneytis.

Eldsneytisverðhækkanir knýja verðbólguna upp í methæðir, en þær eiga eftir að verða meiri.  Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) lagt til við ráðherraráð sambandsins að draga strax úr olíuinnflutningi frá Rússlandi og binda endi á hann fyrir árslok 2022 með fáeinum undantekningum (Ungverjaland o.fl.), en áður hefur kolainnflutningur verið bannaður þaðan.  Þetta mun valda nýjum hækkunum á olíuvörum, ef samþykkt verður.  Þýzkaland greiðir Rússlandi núna 116 MEUR/dag (tæplega 16 mrdISK/dag) fyrir vörur, sem er hærri upphæð en fyrir svívirðilega innrás Rússahers í Úkraínu.  Þetta gerist þrátt fyrir víðtækt viðskiptabann.  Eldsneytisverðhækkanir vegna stríðsins meira en vega upp á móti skerðingu eða afnámi annars innflutnings.  Sú staða, sem Þýzkaland hefur komið sér í með sífelldu smjaðri og friðþægingu gagnvart útþenslusömum nýlendukúgara, er algerlega óviðunandi fyrir landið og bandamenn þess.  Þýzkaland verður enn á ný að færa fórnir í stríði við Rússland. Nýbirtar upplýsingar þýzka stjórnarráðsins um afstöðu Kohls, kanzlara, og Genschers, utanríkisráðherra, bera vitni um skaðlegan undirlægjuhátt þýzkra stjórnvalda gagnvart rússneskum stjórnvöldum, þar sem þeir m.a. lögðust gegn því að samþykkja inntökubeiðni Eystrasaltsríkjanna í NATO.  Þjóðverjarnir misreiknuðu Rússa herfilega.  Friðsamlega sambúð við hina síðar nefndu er ekki unnt að reisa á viðskiptum, heldur einvörðungu fælingarmætti, sem felst í varnargetu. Það er rétt, sem Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir: ef Úkraínu hefði að eigin ósk verið hleypt inn í NATO 2008, þá væru ekki stórfelld hernaðarátök í Evrópu núna, og siðblindur, veruleikafirrtur einvaldur í Kreml hótandi kjarnorkuárásum, þar sem hvorki gengur né rekur hjá rotnum rússneskum her í Úkraínu.  

Það er eðlilega víða meiri verðbólga en á Íslandi, því að hérlendis er aðeins um 15 % heildarorkunotkunar úr jarðefnaeldsneyti, en þetta hlutfall er víðast yfir 70 %. T.d. spáir Englandsbanki nú 10 % verðbólgu á Bretlandi í árslok 2022, en hún muni síðan fljótlega hjaðna. Bankinn hækkaði stýrivexti sína um þriðjung, úr 0,75 % í 1,00 %, um sama leyti og Seðlabanki Íslands hækkaði sína stýrivexti um rúmlega þriðjung, úr 2,75 % í 3,75 %.  Til þess erum við með sjálfstæða mynt, að vaxtastigið dragi dám af efnahags- og atvinnuástandinu á Íslandi, en ekki t.d. af vegnu meðaltali á evrusvæðinu.  Þar er verðbólga og atvinnuástand nú með mjög mismunandi hætti, og vaxtastig evrubankans í Frankfurt hlýtur að koma mörgum ESB-ríkjum illa. Verðbólgan er t.d. yfir 10 % í Hollandi, af því að vaxtastigið er allt of lágt m.v. efnahagsstöðuna þar, og Þjóðverjum, með sinn mikla sparnað, er ekki skemmt með háa neikvæða raunvexti í Þýzkalandi, af því að þýzk viðhorf til peningamálastjórnunar hljóta ekki brautargengi um þessar mundir í bankaráði evrubankans í Frankfurt, enda Frakki bankastjóri.  

Morgunblaðið fjallaði um verðbólguna innanlands og utan í leiðara 5. maí 2022, sem hét: 

"Verðbólga á uppleið".

Hann hófst þannig:

"Verðbólga er komin á kreik hér á landi og er einnig farin að láta á sér kræla í löndunum í kringum okkur, sums staðar, svo [að] um munar.  Á Spáni [evruland] jaðrar verðbólgan við 10 %, og Pólverjar eru þar skammt frá.  Verðbólga mældist í marz [2022] 8,5 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu 7,4 %.  Ísland var þar rétt fyrir neðan með 6,7 %, en ekki má miklu muna.  Reyndar mældist verðbólgan hér á landi 7,2 % í apríl [2022]."

Sá er munurinn á Íslandi og þessum upp töldu löndum og landsvæðum, að hagvöxturinn er hér þokkalegur og vaxandi, en kreppuhorfur víða annars staðar.  Útflutningstekjurnar eru tiltölulega háar og líklega bæði hærri og meira vaxandi en innflutningskostnaður vegna metverðs á vörum málmiðnaðarins (stóriðju), hás fiskverðs (minna framboð vegna viðskiptabanns á Rússa) og útlits fyrir álíka marga erlenda ferðamenn og 2016, en þó betur borgandi (Asíubúa vantar að mestu). Viðskiptajöfnuður mun sennilega styrkjast á árinu, þrátt fyrir dýrari innflutning en áður og mikla ferðagleði Íslendinga erlendis (svipuð og rétt fyrir Kóf).  Þess vegna mun gengið fremur styrkjast en hitt, sem hægir á verðbólgunni. 

Það er hins vegar alveg bráðnauðsynlegt til að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands, að verðbólgan hér sé ekki hærri en yfirleitt erlendis.  Til þess verða allir að leggjast á eitt, og er þar verkalýðshreyfingin engin undantekning.  Hún getur ekki spilað sóló.  Orð formanns VR eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun maí 2022 um, að hún væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni, eru alveg eins og út úr kú, gjörsamlega óábyrg og órökstudd.  Gera verður kröfu um, að verkalýðsleiðtogar setji sig vel inn í málin, kynni sér í þaula orsakir og afleiðingar verðbólgu og vaxta áður en þeir móta stefnuna í kjarasamningum og séu ekki bara eins og hverjir aðrir flautaþyrlar í pissukeppni um breiðastar yfirlýsingar og hæstu kröfugerðina.  Slíkt er háskalegt, óábyrgt og heimskulegt framferði. 

Áfram með leiðarann:

"En innri þrýstingur hefur einnig skapazt vegna ófremdarástands á húsnæðismarkaði.  Húsnæði hefur hækkað jafnt og þétt í verði með tilheyrandi þrýstingi á vísitölu.  Ein meginástæðan fyrir þessu ástandi er, hvernig húsnæðismál hafa verið látin reka á reiðanum í höfuðborginni.  Þar annar framboðið engan veginn eftirspurninni, og þetta dáðleysi er beinlínis farið að hafa áhrif á þjóðarhag.  

Tekizt hefur að halda verðbólgu í skefjum þrátt fyrir ástandið á húsnæðismarkaði, en nú, þegar ytri aðstæður hafa snúizt við, gætu þær reynzt æði dýrkeyptar."

Undirliggjandi skýring á dáðleysi meirihluta borgarstjórnar við að bregðast með raunhæfum hætti við fjölgun þjóðarinnar og brjóta nýtt land undir lóðir og gatnagerð er þráhyggjan við að þétta byggð meðfram fyrirhugaðri legu "þungu" borgarlínunnar. Þar er allt of fátt fólk búsett til að nokkur minnsti rekstrargrundvöllur geti orðið fyrir stórfjárfestingu af tagi "þungu" borgarlínunnar.  Vonleysið verður algert, þegar í ljós kemur, að þéttingin dugar borgarlínunni ekki, þótt "þéttingin" verði svipt bílastæðum.  Nú er áætlað minna en eitt bílastæði á íbúð þéttingarsvæða.  Allt er þetta ráðabrugg kenjótts þráhyggjufólks fullkomlega óeðlilegt og stríðir gegn hagsmunum Reykvíkinga og landsmanna allra.  Ríkið hefur yfrið nóg af öðrum hagkvæmari og nauðsynlegri samgönguverkefnum til að fjárfesta í en þetta og ætti alls ekki að taka þátt í fjármögnun þessa fráleita verkefnis.

"Hinar dökku verðbólguhorfur gefa einnig tilefni til þess að fara með gát, þegar kemur að næstu kjarasamningum.  Þótt í síðustu tveimur samningum hafi tekizt að ná fram miklum kjarabótum og þær hafi haldið að mestu, er ekki þar með sagt, að komið sé fram nýtt lögmál um, að það sé ávallt hægt að hækka laun rækilega án þess að hækkunin hverfi í verðbólgu." 

Þvergirðingar í forystu verkalýðshreyfingar láta eins og þeir geti stundað "business as usual" og þurfi ekki að draga saman seglin, þótt stríð geisi í Evrópu.  Á þessum örlagatíma gengur ekki að láta kjánalega í kjarasamningum og gera landið ósamkeppnisfært í ferðageiranum og á erlendum vörumörkuðum.  Þá mun atvinnuleysi bætast ofan á verðbólguvandræðin.  Fíflagangur íslenzkra verkalýðsleiðtoga er einstæður á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað. Þegar raunstýrivextir voru orðnir -4,5 %, æpti formaður VR að þjóðinni, að 1,0 % hækkun stýrivaxta væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni og að aðrir seðlabankar væru ekki að hækka stýrivexti.  Hvort tveggja var kolrangt, eins og æði margt hjá þessum manni, sem virðist hafa asklok fyrir himin. 

Téðri forystugrein lauk þannig:

"Það er góðs viti, að verðbólga hér á landi sé enn undir meðaltali evrusvæðisins (og sýnir kannski enn akkinn af því að standa utan þess, þótt það sé önnur saga).  Það er fyrir öllu, að svo verði áfram, og því þurfa allir að leggjast á árar til að freista þess að halda aftur af verðbólgunni eins og framast er unnt.  Ógerningur er að hafa áhrif á þann þrýsting, sem kemur utan að, en það er mikið í húfi að sjá til þess, að þrýstingurinn inni í íslenzka hagkerfinu verði ekki til þess að bæta gráu ofan á svart." 

Nú er stríð í Evrópu, og framvinda atburða getur orðið allt frá allsherjar tortímingu til friðsamlegra samskipta og enduruppbyggingar Úkraínu innan landamæra hennar, sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust með Búda-Pest-samkomulaginu 1994. Við þessar aðstæður láta verkalýðsleiðtogar í Evrópu hvergi eins og óð hænsni, nema á Íslandi, þótt verðbólgan sé þar hærri, orkuverðið óbærilega hátt og seðlabankar teknir að hækka stýrivextina.  Hvers vegna ?  Evrópskir verkalýðsleiðtogar stunda raunverulega hagsmunagæzlu fyrir sína skjólstæðinga og vita, hvað kemur þeim bezt, enda hafa þeir víða náð góðum árangri. Þar er ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum, eins og í raun er hér.  Ef launþegarnir fá ávæning af einhverjum pólitískum bægslagangi félagsleiðtoganna, þá segja þeir einfaldlega skilið við þessi félög. Íslenzkir verkalýðsleiðtogar hafa ekkert slíkt aðhald, og virðast sumir hverjir ekki hafa til að bera nægan þroska og ábyrgðartilfinningu til að fara með vald sitt, heldur eru komnir á bólakaf í pólitískan boðskap.  Þetta er hrapallegt, því að þeir styðjast við mjög lítið fylgi í kosningum í sínar ábyrgðarstöður.  

 


Bloggfærslur 11. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband