13.5.2022 | 11:22
Geðshræring, þegar yfirvegunar er þörf
Ótrúlegu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna sölu á 22,5 % eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar eru lítilsigldir stjórnmálamenn að fiska í gruggugu vatni í ljósi sveitarstjórnarkosninganna 14. maí 2022, og ofan á bætist innbyrðis ómerkingakeppni þeirra um athygli og vegsemd innan eigin stjórnmálaflokka. Þetta er frumhlaup stjórnarandstöðunnar í ljósi þess, að Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun eru með undirbúning og söluferlið sjálft til skoðunar. Ófáir gagnrýnendanna hefðu notað hvaða fjöður, sem þeir komust yfir, til að búa til 10 hænsni, svo að úthúða mætti þeim gjörningi per se að selja ríkiseignir. Forstokkaðir sameignarsinnar eru ófærir um að draga rökréttar ályktanir af atburðum, gömlum og nýjum, sem sýna glögglega, að binding á ríkisfé í banka í miklum mæli er engu þjóðfélagi til heilla, enda er slíkt yfirleitt ekki tíðkað.
Kolbrúnu Bergþórsdóttur blöskrar framganga stjórnarandstöðunnar í þessu bankasölumáli, enda í raun ótímabær, þar til málið hefur verið krufið til mergjar af til þess settum aðilum. Skýring á þessari hegðun gæti verið tilraun til að draga athygli kjósenda frá gjörsamlega óboðlegum kreddum meirihluta borgarstjórnar, sem hafa valdið stórvandræðum á húsnæðismarkaðnum og fullkominni stöðnun í umferðarmálum, sem auðvitað jafngildir afturför. Gatnakerfi Reykjavíkur er með öllu óboðlegt fyrir þá umferð, sem það þarf að þjóna, það er tæknilega aftarlega á merinni og býður hættunni heim með frumstæðum gatnamótum. Hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar um að fækka bílunum með ofurstrætó á miðju vegstæði eru andvana fæddar skýjaglópahugmyndir. Ofan á þessa hörmung bætist óstjórn fjármála og leynibrall borgarstjóra með "útrásarvíkingi", sem nú er stærsti hluthafi Skeljungs.
Kolbrún ritaði forystugrein Fréttablaðsins 6. maí 2022, sem hún nefndi því lýsandi nafni:
"Vanstilling".
Forystugreinin hófst þannig:
"Það er örugglega ekki vinsæll þankagangur nú um stundir, en samt skal spurt, hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullmikill ? [Þetta mætti Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, hugleiða sérstaklega, en hún hefur flestum öðrum átt auðveldan leik við ávöxtun hlutabréfa, sem henni hafa áskotnazt á sérkjörum sem starfsmaður í banka - innsk. BJo.]
Djöfulgangur stjórnarandstöðunnar er skiljanlegur, þótt erfitt sé að hafa þolinmæði með honum. Stjórnarandstaðan þráir ekkert meir en að fella ríkisstjórnina og virðist tilbúin að grípa til hvaða ráða sem er til að það markmið náist. Um leið verða ýkjur, gífuryrði og útúrsnúningar sjálfsagður hluti af málflutninginum. Einmitt þetta gerir stjórnarandstöðuna ótrúverðuga í þessu ákveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum.
Vissulega blasir við, að í Íslandsbankamálinu var sumu klúðrað. Það jafngildir hins vegar ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjölmargir haldi því fram. Það hentar stjórnarandstöðunni t.d. afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni [á] meðal almennings.
Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir, sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum stað eftir bankahrun ["the usual suspects"-innsk. BJo]. Það hvarflar jafnvel að manni, að þetta fólk sakni tímans, þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur, og sé nú að reyna að endurskapa hann. Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli, þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn. Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið."
Þessi mótmæli í hlaðvarpa Hallveigar og Ingólfs eru óttalega hvimleið og skilja ekkert annað eftir sig en svigurmæli og annan sóðaskap. Þetta fólk hefur lítið fyrir stafni, úr því að það finnur sér ekkert annað til dundurs en að misþyrma vikulega þessum hlaðvarpa fyrstu skrásettu landnámshjónanna á Íslandi og verða til almennra leiðinda með ópum og skrækjum. Það ætti að finna sér einangrað rými og fá þar útrás með því að syngja "Nallann" nokkrum sinnum. Boðskapurinn er enginn, nema almenn samfélagsleg vonbrigði.
Lok þessarar forystugreinar Kolbrúnar voru þannig:
"Spyrja má, hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir, að þetta fólk færi upp á háa c-ið, hvernig sem hefði verið staðið að sölu Íslandsbanka. Það hefði ætíð þefað uppi tækifæri til að öskra uppáhaldsorð sín: Spilling ! Vanhæf ríkisstjórn ! [meinar líklega "óhæf ríkisstjórn" !?-innsk. BJo]. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fara ofan í saumana á sölu Íslandsbanka, en þeir, sem fá það hlutverk, verða að búa yfir yfirvegun, en ekki lifa í stöðugri vanstillingu."
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa opinberað vangetu sína (óhæfni) til að taka við upplýsingum og vinna úr þeim, en það er grundvallar atriði fyrir þingmenn að ráða við þetta. Þeir hafa eftir söluna komið eða þótzt koma af fjöllum um aðferðina, sem beitt var, en formaður og forstjóri Bankasýslunnar voru þó búnir að gera þingnefndum ítarlega grein fyrir aðgerðinni og þingmenn ekki gert athugasemdir, nema til að gera sölu ríkiseigna yfirleitt tortryggilega. Morgunblaðið gerði grein fyrir þessu 7. maí 2022 undir fyrirsögninni:
"Fengu kynningu á tilboðsleiðinni".
Fréttin hófst þannig:
"Á fundum með fjárlaganefnd Alþingis 21. febrúar [2022] og með efnahags- og viðskiptanefnd þremur dögum síðar kynntu fulltrúar Bankasýslu ríkisins með ítarlegum hætti, hvaða leið stofnunin legði til við við sölu á frekari hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar var helzt lagt til, það sem kallað er "tilboðsfyrirkomulag", sem var sú leið, sem farin var í útboðinu 22. marz [2022], þegar ríkið seldi 22,5 % hlut í bankanum fyrir um mrdISK 53."
Það er þess vegna helber hræsni stjórnarandstöðunnar á Alþingi, að sú leið, sem farin var, hafi komið þinginu í opna skjöldu. Að einhverju leyti kann sofandaháttur og misskilningur þingmanna að hafa ráðið för, en árásir á ríkisstjórnina í kjölfar útboðsins bera aðeins vitni ómerkilegri tækifærismennsku. Í sumum tilvikum notuðu sameignarsinnar tækifærið til að koma höggi á ríkisstjórnina fyrir yfirleitt að dirfast að koma eigum ríkisins í verð í stað þess að liggja aðgerðalitlar og með talsverðri áhættu sem eigið fé banka. Engum rekstri hentar ríkiseign og ríkisafskipti, og bankastarfsemi er þar engin undantakning.
"Eins og fram kom í úttekt ViðskiptaMogga, fór mikil umræða fram um málið á fundum nefndanna, en enginn nefndarmaður gerði þó efnislega athugasemd við þá leið, sem farin var, þ.e. tilboðsfyrirkomulagið. Þá var heldur ekki gerður fyrirvari um það, hverjir mættu eða mættu ekki fjárfesta í útboðinu.
Í fyrrnefndum glærum kemur fram, að bankasýslan leggi til tilboðsfyrirkomulag í þeim tilgangi að fá sem hæst verð fyrir eignarhlutinn með sem minnstum tilkostnaði. Þótt deilt hafi verið um fyrirkomulagið eftir á, þá gekk þetta markmið eftir."
(Undirstr. BJo) Þar sem söluferlið var með blessun Alþingis og megináformin gengu eftir, er engin málefnaleg ástæða fyrir þingmenn að hneykslast á ferlinu eftir og því síður er ástæða fyrir þingið að haga sér, eins og himinninn hafi hrunið, og að þingið þurfi strax að skipa "óháða" rannsóknarnefnd með öllum þeim tilkostnaði. Rétt bærir eftirlitsaðilar ríkisins fara nú yfir þessa hnökra. Geðshræring þingmanna og vanstilling hefur smitað út frá sér. Fullyrðingar loddara í þeirra röðum um, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi átt að hindra föður sinn í að neyta réttar síns til viðskipta í þessu tilviki eru svo ósvífnar og heimskulegar, að engu lagi er líkt. Bankasýslan upplýsti engan um viðskiptamenn á meðan á viðskiptunum stóð og taldi sig ekki einu sinni mega upplýsa ráðuneytið eftir á. Ráðherrann sjálfur skarst þá í leikinn, fékk skrá um kaupendur og opinberaði hana umsvifalaust. Hvernig getur nokkur verið svo skyni skroppinn, að kaup þessa ættmennis ráðherrans hafi farið fram með vitund hans og vilja ? Uppþotið væri of dýru verði keypt. Upphæðin var lág, en öllum mátti vera ljóst, að það er fátt og lítið, sem hundstungan finnur ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)