24.6.2022 | 13:56
Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins
Rússland hefur brotið allar viðteknar alþjóðareglur um samskipti við fullvalda þjóð með skefjalausri innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2022, og hefur hagað hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, jafnt rússnesku mælandi sem mælta á úkraínska tungu, með svo grimmdarlega villimannslegum hætti, að flokka má undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Fyrir vikið er Rússland orðið "persona non grata" í lýðræðislöndum, og hvers konar viðskiptum við Rússland ber að halda í algeru lágmarki, sérstaklega á sviðum, þar sem rússneska ríkið á mikilla hagsmuna að gæta, eins og í útflutningi og jarðefnaeldsneyti og innflutningi á tæknibúnaði. Rússland er orðið útlagaríki og gæti fljótlega endað á ruslahaugum sögunnar, enda er því augljóslega stjórnað af siðblindingjum, lygalaupum og ígildi mafíósa.
Við þessar aðstæður er forkastanlegt, að forkólfar öflugustu Evrópusambandsríkjanna, ESB, Olaf Scholz, kanzlari Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skuli enn gera sig seka um einhvers konar baktjaldamakk við Vladimir Putin, Rússlandsforseta og einvald Rússlands, þótt öðrum sé ljóst, að samtöl við þann mann eru tímasóun ein; hann tekur ekkert mark á viðmælendum sínum, og hann sjálfan er ekkert að marka. Froðusnakkið í nytsömum einfeldningum Vesturlanda gefur einvaldinum "blod på tanden", því að hann túlkar slíkt sem veikleikamerki af hálfu Vesturlanda á tímum, þegar þeim er brýnt að sýna Úkraínu fullan stuðning í orði og verki.
Stríðið í Úkraínu er einstakt og örlagavaldandi, því að eins og Bretland sumarið 1940 berst nú Úkraína alein fyrir málstað lýðræðis og einstaklingsfrelsis í heiminum gegn herskáu stóru ríki í landvinningahami undir stjórn grimms og siðblinds alvalds. Til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og jafnvel víðar og til að tryggja öryggi lýðræðisríkja má Úkraína ekki tapa þessu stríði, heldur verða Vesturlönd nú að bíta í skjaldarrendur og senda Úkraínu öll þau hergögn, þjálfun á þau og fjárhagsaðstoð, sem þau megna og stjórnvöld Úkraínu óska eftir. Fyrir tilverknað færni og bardagahæfni Úkraínumanna mun þá takast að reka siðlausan Rússaher, morkinn af spillingu, út úr Úkraínu. Spangól frá Moskvu um beitingu kjarnorkuvopna er að engu hafandi, enda færi Rússland verst út úr slíkum átökum við algeran ofjarl sinn, NATO.
Í heimssamhengi er líklegasta afleiðing þessa stríðs tvípólun heimsstjórnmálanna. Annars vegar verður fylking lýðræðisríkja undir forystu Bandaríkjamanna með um 60 % heimsframleiðslunnar innan sinna vébanda og mikil viðskipti sín á milli, en hins vegar verða einræðisríkin undir forystu Kínverja. Rússar verða í þeirri fylkingu, en munu einskis mega sín og verða að sitja og standa, eins og Kínverjum þóknast.
Áðurnefnd ESB-ríki auk Ítalíu og Ungverjalands verða að fara að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og leggjast á sveif með engilsaxnesku ríkjunum, norrænu ríkjunum, Eystrasaltsríkjunum og hinum Austur-Evrópuríkjunum í einlægum og öflugum stuðningi við baráttu Úkraínumanna fyrir óskoruðu fullveldi sínu og frelsi íbúanna til að búa við frið í landi sínu og til að haga lífi sínu að vild.
Íslendingum og Þjóðverjum hefur alltaf komið vel saman og auðgazt af gagnkvæmum viðskiptum a.m.k. frá 15. öld, og Hansakaupmenn mynduðu mikilvægt mótvægi við danska kaupmenn hér fram að einokunartímanum. Íslendingar neituðu að segja Þýzkalandi stríð á hendur í seinni heimsstyrjöldinni, þótt það ætti að verða skilyrði til stofnaðildar að Sameinuðu þjóðunum, Sþ. Nú rennur mörgum hérlendis og víðar til rifja hálfvelgja þýzku ríkisstjórninnar í Berlín undir forystu krata í stuðningi sínum við Úkraínu. Þessu kann að valda ótti við, að Pútin láti loka fyrir gasflutninga til Þýzkalands, en honum er andvirðið nauðsyn til að halda hagkerfi Rússlands á floti. Þýzka stjórnin ætti að hlíta ráðleggingum manna eins og Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingja í Bundeswehr, sem e.t.v. er skyldur þeim mikla kappa, skriðdrekaási Þjóðverja, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann.
Fyrst verður vitnað í upphaf forystugreinar Morgunblaðsins, 13.06.2022:
"Laskað orðspor".
"Angela Merkel, fyrrverandi Þýzkalandskanzlari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku, eftir að 16 ára valdatíð hennar lauk. Þar var Merkel vitanlega spurð, hvort hún sæi eftir einhverju í kanzlaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beizla Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, með því að auka viðskipti Þýzkalands og Rússlands.
Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu og sagði, að þó að "diplómatían" hefði klúðrazt, væri það ekki merki um, að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta. Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu, en sagðist á sama tíma ekki hafa verið "naíf" [barnaleg] í samskiptum sínum við Pútín."
Það er sorglegt, að þessi þaulsetni kanzlari Þýzkalands, prestsdóttirin Merkel, skuli ekki iðrast gerða sinna nú, þegar öllum er ljóst, að viðskipti Þýzkalands og annarra Vesturlanda við Rússland ólu óargadýrið, sem lengi hafði alið með sér landvinningadrauma til að mynda "Stór-Rússland" í Evrópu í anda landvinningazara, sem lögðu undir sig Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland o.fl. lönd. Putin hefur látið í ljós mikla aðdáun á Pétri, mikla, með svipuðum hætti og Adolf Hitler á Friðriki, mikla, Prússakóngi. Flestir eru sammála um, að stöðug eftirgjöf við Hitler á 4. áratuginum og friðmælgi við hann hafi sannfært hann um veikleika Vestursins og að enginn gæti staðið gegn landvinningastefnu hans í allar áttir. Nákvæmlega hið sama á við einvald Rússlands. Friðþæging gagnvart sturluðum einvöldum er dauðadómur.
Í frétt Morgunblaðsins, 10.06.2022:
"Ein erfiðasta orrusta stríðsins",
er eftirfarandi haft eftir Serhí Haísaí, hérraðsstjóra Lúhansk-héraðs:
""Um leið og við fáum langdrægt stórskotalið [hábyssur og fjöleldflaugaskotpalla - innsk. BJo], sem getur háð einvígi við rússneska stórskotaliðið, geta sérsveitir okkar hreinsað borgina á 2-3 dögum", sagði Haídaí í viðtali, sem dreift var í samskiptaforritinu Telegram.
Sagði Haídaí, að varnarlið borgarinnar hefði mikla hvatningu til að halda uppi vörnum áfram, þrátt fyrir að stórskotalið Rússa léti nú rigna eldi og brennisteini yfir borgina.
Þannig skutu Rússar tvisvar á Asot-efnaverksmiðjuna, en talið er, að um 800 manns séu nú þar í felum. Skemmdi eitt flugskeytið smiðju fyrir ammóníakframleiðslu, en búið var að fjarlægja efni þaðan, sem hefðu getað valdið frekari sprengingum."
Vesturlönd hafa því miður tekið hlutverk sitt í vörnum Úkraínu fyrir fullveldisrétt sinn, frelsishugsjón og lýðræðisfyrirkomulag, sem í raun er vörn fyrir öll lönd í heiminum, hverra þjóðir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti með virkt þingræði í stað einræðis, misalvarlega. Öll ættu þau að vera sneggri í snúningum við afhendingu þess vopnbúnaðar, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir og sem þeir telja forsendu þess, að þeim takist að hrekja glæpsamlegt og villimannslegt innrásarlið útþenslusinnaðs einræðisríkis í austri með mikla landvinningadrauma af höndum sér. Árangur Úkraínuhers til þessa má mest þakka hugrekki og baráttugleði hermannanna og góðri herstjórn þeirra og pólitískri stjórn landsins, en allt kæmi það fyrir ekki, ef ekki hefði notið við dyggs hergagnastuðnings og þjálfunar Bandaríkjamanna og Breta. Stærstu Þjóðir Vestur-Evrópu, aðrir en Bretar, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, hafa hingað til valdið miklum vonbrigðum og sýnt, að þegar hæst á að hóa bregðast þær algerlega. Forystumenn þeirra hafa sumir hverjir lofað öllu fögru, en efndirnar hingað til eru litlar sem engar. Macron og Draghi hafa staðið í óskiljanlegu símasambandi við Vladimir Putin og skilja ekki enn, að við þann mann er ekki hægt að semja, honum er í engu treystandi.
Í grein The Economist 4. júní 2022: "Baráttan um Severodonetsk" er haft eftir Oleksiy Arestovych, ráðgjafa forseta Úkraínu, að stórskotalið Úkraínu hafi orðið sérlega illa úti í baráttunni. Suma dagana hafa um 200 hermenn fallið af þessum og öðrum orsökum, og þess vegna eru hendur þeirra vestrænu leiðtoga, sem geta sent öflug, langdræg vopn, en hafa tafið vopnasendingarnar, blóði drifnar.
"Við höfum einfaldlega ekki haft yfir nægum vopnabúnaði að ráða til að geta svarað þessari skothríð", segir hann. Yfirburðir í öflugum skotfærum virðast einnig hafa gert Rússum kleift að snúa við gagnsókn Úkraínuhers við Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu. Könnunarsveit úkraínska hersins þar komst að því, að landgönguliðar Eystrasaltsflota Rússa og fleiri úrvalssveitir búi nú tryggilega um sig í steyptum varnarbyrgjum.
"Þeir ætla að vera þarna lengi, og erfitt verður að stugga þeim á flótta", sagði ráðgjafinn.
"Á Vesturlöndum hafa komið upp nokkur áköll um, að efnt verði til vopnahlés hið fyrsta og jafnvel þá gefið í skyn, að Úkraínumenn verði einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut og gefa eftir landsvæði í skiptum fyrir frið.
Slík áköll hafa ekki tekið mikið tillit til óska Úkraínumanna sjálfra, en Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, sagði fyrr í þessari viku [5.-11.06.2022], að of margir Úkraínumenn hefðu fallið til þess að hægt væri að réttlæta það að gefa eftir land til Rússa.
"Við verðum að ná fram frelsun alls landsvæðis okkar", sagði Zelenski, en hann ávarpaði þá viðburð á vegum Financial Times. Zelenski var þar einnig spurður um nýleg ummæli Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sem sagði í síðustu viku [um mánaðamótin maí-júní 2022], að það væri mikilvægt að "niðurlægja" ekki Rússa til að ná fram endalokum stríðsins. "Við ætlum ekki að niðurlægja neinn, við ætlum að svara fyrir okkur", sagði Zelenski um ummæli Macrons."
Viðhorf Macrons eru dæmigerð fyrir uppgjafarsinna, sem glúpna óðara fyrir ofbeldisfullu framferði árásargjarnra einræðisseggja, eins og franska dæmið frá júní 1940 ber glöggt vitni um. Þar var árásarliðið reyndar með færri hermenn og minni vopnabúnað en lið Frakka og Breta, sem til varnar var, en bæði tækni og herstjórnarlist var á hærra stigi hjá þýzka innrásarhernum. Það er dómgreindarleysi að gera því skóna, að vitstola einræðisseggur í Moskvu 2022 muni láta af upphaflegum fyrirætlunum sínum um landvinninga, ef samþykkt verður, að hann megi halda þeim mikilvægu landsvæðum fyrir efnahag Úkraínu, sem Rússar hafa lagt undir sig með grimmdarlegum hernaði gegn innviðum og íbúum, sem lygararnir þykjast vera að frelsa. Þorpararnir munu sleikja sárin og skipuleggja nýjar árásir til framkvæmda við fyrsta tækifæri.
"Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingi í þýzka hernum [Bundeswehr] og lektor í samtímasögu við Potsdam háskóla [e.t.v. skyldur fremsta skriðdrekaási Wehrmacht, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann], ritaði grein í Die Welt í vikunni, þar sem hann sagði, að þeir, sem krefðust vopnahlés fyrir hönd Úkraínumanna, áttuðu sig líklega ekki á, hvernig umhorfs yrði á þeim svæðum, sem Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hefði lagt undir sig.
Sagði Wittmann, að engar líkur væru á, að Rússar myndu skila þeim í friðarviðræðum og að það væri vel vitað, að hernámslið Rússa tæki nú þátt í óskiljanlegum voðaverkum á hernámssvæðunum. Nefndi Wittmann þar m.a. morð, nauðganir og pyntingar, auk þess sem hundruðum þúsunda Úkraínumanna hefur verið rænt og þeir fluttir með valdi til Rússlands. Þá væru Rússar að ræna menningarverðmætum frá söfnum, eyðileggja skóla og sjúkrahús, brenna hveiti og hefna sín á stríðsföngum.
Það að gefa eftir landsvæði til Rússlands væri því að mati Wittmanns að ofurselja milljónir Úkraínumanna sömu örlögum, sem væru jafnvel verri en dauðinn. Benti Wittmann jafnframt á, að engin trygging væri fyrir því, að Pútín myndi láta staðar numið, þegar hann hefði lagt undir sig Úkraínu að hluta eða í heild.
Gagnrýndi Wittmann sérstaklega hægagang þýzkra stjórnvalda og tregðu við að veita Úkraínumönnum þungavopn, sem hefðu getað nýtzt þeim í orrustunni í [bardögum um] Donbass. Sagði hann, að Þjóðverjar þyrftu að íhuga, hvaða hlutverk þeir vildu hafa spilað [leikið].
"Ef Úkraína vinnur, viljum við vera meðal þeirra, sem lögðu mikið af mörkum ? Eða, ef Úkraína tapar og er þurrkuð út og bútuð í sundur sem sjálfstætt evrópskt ríki, viljum við segja við okkur, að stuðningur okkar var ekki nægur, því [að] hann var ekki af heilum hug - að við gerðum ekki allt, sem við gátum ?". Sagði Wittmann í niðurlagi greinar sinnar, að það þyrfti því ekki bara að hafa áhyggjur af örlögum Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig [af] orðspori Þýzkalands."
Allt er þetta satt og rétt, þótt með eindæmum sé í Evrópu á 21. öld. Villimannleg og óréttlætanleg innrás rússneska hersins í Úkraínu 24.02.2022 var ekki einvörðungu gerð í landvinningaskyni, heldur til að eyðileggja menningu, nútímalega innviði og sjálfstæðisvitund úkraínsku þjóðarinnar, svo að Úkraínumenn og lýðræðisríki þeirra mundi aldrei blómstra og verða Rússum sjálfum fyrirmynd bættra stjórnarhátta. Að baki þessum fyrirætlunum liggur fullkomlega glæpsamlegt eðli forstokkaðra einræðisafla í Rússland, sem eiga sér alls engar málsbætur og hinum vestræna heimi ber að útiloka algerlega frá öllum viðskiptum og meðhöndla sem útlagaríki, þar til skipt hefur verið um stjórnarfar í Rússlandi, því að glæpahyski Kremlar og Dúmunnar er ekki í húsum hæft í Evrópu.
"Andrzej Duda, forseti Póllands, gekk skrefinu lengra í gagnrýni sinni í gær [09.06.2022] og fordæmdi bæði Macron og Olaf Scholz, kanzlara Þýzkalands, fyrir að vera enn í samskiptum við Pútín. Í viðtali við þýzka blaðið Bild spurði Duda, hvað þeir teldu sig geta fengið fram með símtölum sínum við Pútín.
"Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni", spurði Duda. "Sagði einhver, að Adolf Hitler þyrfti að bjarga andlitinu. Að við ættum að hegða okkur á þann veg, að það væri ekki niðurlægjandi fyrir Adolf Hitler ? Ég hef ekki heyrt af því", sagði Duda.
Hann bætti við, að samtöl vestrænna leiðtoga við Pútín færðu honum einungis réttmæti þrátt fyrir þá stríðsglæpi, sem rússneski herinn hefði framið í Úkraínu og þrátt fyrir, að ekkert benti til þess, að símtölin myndu bera nokkurn árangur.
Duda gagnrýndi einnig þýzkt viðskiptalíf, sem virtist skeyta lítið um örlög Úkraínu eða Póllands og vildi helzt halda áfram viðskiptum sínum við Rússland, eins og ekkert hefði í skorizt. "Kannski trúir þýzkt viðskiptalíf ekki, að rússneski herinn geti aftur fagnað stórum sigri í Berlín og hertekið hluta Þýzkalands. Við í Póllandi vitum, að það er mögulegt.""
Sjónarmið og málflutningur forseta Póllands, Andrzej Duda, eru fullkomlega réttmæt, af því að þau eru reist á réttu stöðumati og hættumati. Viðhorf, hegðun og gerðir forystumanna stærstu ESB-ríkjanna, Þýzkalands og Frakklands, eru að sama skapi fullkomlega óréttmæt. Þau eru reist á röngu hagsmunamati, vanmati á hættunni, sem af Rússum stafar, vanvirðu við Úkraínumenn og skilningsleysi á eðli þeirra átaka, sem nú fara fram í Úkraínu.
Þar fer fram barátta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, í þessu tilviki fullvalda þjóðar, og á milli kúgunarstjórnkerfis og frelsisstjórnkerfis, þar sem í fyrra tilvikinu ríkir miðstýring upplýsingaflæðis og í síðara tilvikinu ríkir frjálst flæði upplýsinga. Hið síðast talda er undirstaða framfara á öllum sviðum, þ.á.m. í atvinnulífinu og í hagkerfinu, enda var árlegur hagvöxtur í Úkraínu 14 % á nokkrum árum fyrir innrásina, þegar hann var aðeins 2 % á ári í Rússlandi. Hefði þessi munur á hagvexti fengið að halda áfram óáreittur, mundi hagkerfi Úkraínu hafa náð því rússneska að stærð innan 21 árs. Það er þessi þróun mála, sem hefur valdið ótta í Kreml; miklu fremur en ótti við aðild Úkraínu að varnarbandalaginu NATO, enda er áróður rússnesku stjórnarinnar um það, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæði (Finnlandiseringu) við landamæri sín hruninn með væntanlegri aðild Finnlands að NATO.
Nú er stórvirkari vopnabúnaður en áður á leiðinni til Úkraínu frá Vesturlöndum. Yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu sagði fyrir um innrás Rússa með lengri fyrirvara en leyniþjónusta Bandaríkjamanna. Hann hefur spáð því, að viðsnúningur muni eiga sér stað á vígvöllunum síðla ágústmánaðar 2022 og að Úkraínumenn verði búnir að reka rússneska herinn af höndum sér um áramótinn 2022-2023 og að mannaskipti hafi þá farið fram í æðstu stjórn Rússlands, enda eru afglöp forseta Rússlands þau mestu í Evrópu síðan 01.09.1939, þegar þýzki herinn réðist inn í Pólland. Strax haustið 1940 laut Luftwaffe í lægra haldi fyrir Royal Airforce í baráttunni um Bretland, sem átti eftir að hafa forspárgildi um úrslit styrjaldarinnar þrátt fyrir hetjulega baráttu Þjóðverja við ofurefli liðs. Nú er ekkert hetjulegt við lúalega baráttu Rússahers við mun minni her og herafla Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)