5.6.2022 | 12:51
Ætlar óstjórninni aldrei að linna ?
Reykvíkingar felldu furðudýrin, sem mynduðu meirihluta borgarstjórnar, í kosningum 14. maí 2022, frá völdum, og er það í annað skiptið í röð, sem lýst er frati á stjórnarhætti borgarstjórans og önnur furðudýr, sem með honum hafa myndað meirihluta borgarstjórnar.
Þá gerist það, að eini fulltrúi Viðreisnar, sem inn komst, spyrðir sig við bandalag vinstri flokkanna, sem myndað var um þá huggulegu fyrirætlun þeirra að hundsa kosningaúrslitin og gefa Reykvíkingum langt nef. Þótt Viðreisn flaggi borgaralegum gildum og hugmyndum á tyllidögum og fyrir kosningar, er nú ljóst, að ekkert er að marka hana; hún er ómerk orða sinna og kom í veg fyrir, að Framsóknarflokkurinn gæti a.m.k. látið líta út fyrir, að hann vildi efna kosningafyrirheit sín í Reykjavík. Viðreisn neitaði að reyna að verða við ábendingum kjósenda um nauðsyn róttækrar stefnubreytingar í Reykjavík og situr nú brennimerkt í kratasúpunni.
Þessi kratamoðsuða tók 4 nýja borgarfulltrúa Framsóknar í gíslingu til að endurlífga gamla meirihlutann án VG, og er það eins óbjörguleg byrjun á "samstarfi" um stjórnun borgarinnar og hugsazt getur. Þetta er pólitískt eitrað fyrirkomulag fyrir bæði Viðreisn og Framsókn, eins og fljótlega mun koma á daginn.
Í Morgunblaðinu 31. maí 2022 voru viðraðar skoðanir ritstjórnarinnar í leiðara undir fyrirsögninni:
"Engar breytingar, og reyndar verri en engar".
Í lok hennar stóð þetta:
"Splunkunýr leiðtogi kom í Framsókn [frá hægri - innsk. BJo] skömmu fyrir kosningar í Reykjavík nú. Óljóst var, hverju hann lofaði, en þó ekki jafn óljóst og í dæmunum, sem nefnd voru [af loforðum Framsóknar fyrir þingkosningar - innsk. BJo]. Hann lofaði ítrekað [m.a. í flaumi dýrra auglýsinga - innsk. BJo] og alltaf, þegar hann kom því að, að Framsóknarflokkurinn nýi í borginni myndi tryggja breytingar. Þetta var risastóra loforðið, enda hið eina, sem menn muna, sem eykur stærðina enn. Og efndin eina og ógnarsmá[a] er að tryggja, að Dagur Bje E, sem kjósendur gerðu allt, sem þeir gátu til að losna við, yrði áfram, og að hans meginverkefni yrði, eins og áður, að tryggja bensínsölum, sem leggja upp laupa, milljarða [ISK] á milljarða ofan í fullkomnu heimildarleysi og andstöðu við reglur og hefðbundið verklag borgarinnar til tuga ára."
Þarna er sýnt fram á, að Framsóknarflokkurinn í borginni lætur furðudýrin í föllnum vinstri meirihlutanum ekki einvörðungu teyma sig á asnaeyrunum inn í pólitískt öngstræti, heldur út í kviksyndi spillingar, sem grafið hafur um sig undir verndarvæng Samfylkingarinnar í borginni.
Hvernig getur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík litið á það sem hlutverk sitt að endurnýja völd sérvitringa og furðudýra, sem misbeita skipulagsvaldi sínu í þágu minnihlutasjónarmiða sinna um, að Reykjavíkurflugvöllur skuli fara sem fyrst úr Vatnsmýrinni, og reyna að gera hann óstarfhæfan með íbúðabyggingum (á hæðina) í grennd auk fleiri óþurftarverka ?
Önnur dæmi um misbeitingu skipulagsvalds eru af sviðum samgangna á landi, en furðudýrin tóku mislæg gatnamót út af aðalskipulagi borgarinnar, svo að Vegagerðin færi ekki að huga að fjárfestingum í alvöru og löngu tímabærum samgöngubótum. Alræmt er síðan, þegar þetta stæka afturhald skipulagði íbúðabyggð (án skóla) í Vogahverfi í veg fyrir hagkvæmustu legu Sundabrautar að dómi Vegagerðar, en rök samtaka um bíllausan lífstíl og furðudýranna í gamla meirihlutanum gegn Sundabraut eru, að hún auki á umferðina og auki þar með mengun og losun koltvíildis. Þegar veruleikafirrtir fá völd, er bara skáldað upp "nýjum sannleik", sem alltaf er eins og út úr kú.
Aðför hins afdankaða meirihluta í borgarstjórn að fjölskyldubílnum er annálsverður í sögu Reykjavíkur, því að þar er fullkominn fíflagangur á ferðinni með þrengingum gatna, fuglahúsum og framkvæmdastoppi á umbætur. Hugmyndafræði furðudýranna snýst um að gera ökumönnum sem erfiðast fyrir í umferðinni í von um, að þeir gefist upp og leggi bílum sínum eða flytji annað.
Fleiri akreinar og örugg (mislæg) gatnamót eru sögð fjölga ökutækjum, en furðudýrin vilja leysa úr umferðarhnútum í Reykjavík með því að fækka bílum. Þessi "hugmyndafræði" er eintóm vitleysa frá upphafi til enda, og að setja borgarlínuverkefnið, sem er trompið til að fækka bílum, í forgang fjárveitinga er yfirþyrmandi áhættusækni fyrir hönd skattgreiðenda með mrdISK 100-200 áður en upp verður staðið, og árangurinn verður alls enginn, ef reynsla Björgvinjarbúa í Vestur-Noregi er höfð til hliðsjónar.
Í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar við Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor emerítus, í Morgunblaðinu 16.05.2022 mátti lesa þetta í byrjun undir fyrirsögninni:
"Töpum 120 milljörðum á töfum":
"Auknar tafir hafa einkennt umferðina á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn áratug og má áætla, að árið 2019 hafi tekið um 50 % lengri tíma að komast á milli staða en árið 2007. Hægt er að reikna út kostnaðinn af þessum töfum, en samanlagt má áætla, að hjá höfuðborgarbúum fari á bilinu 11-18 Mklst/ár í súginn árlega vegna lengri ferðatíma. Ef reynt er að verðleggja þennan glataða tíma, er tjón almennings um 60 mrdISK/ár, en þjóðhagslegt tjón í kringum 120 mrdISK/ár.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, sem Hagrannsóknir sf. gerði að beiðni samtakanna Samgöngur fyrir alla (SFA) með stuðningi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE)."
Hér er hrikalegt sjálfskaparvíti á ferðinni, sem stafar af óhæfri pólitískri forystu í Reykjavík. Hún er veruleikafirrt og þess vegna gjörsamlega utan gátta, þegar þarf að finna skynsamlegar lausnir á viðfangsefnum. Það er ekki nóg með, að vegfarendur í Reykjavík verði fyrir óþörfum töfum, heldur veldur servizka furðudýranna í borgarstjórn aukinni slysahættu, þar sem þau hafa hundsað nauðsynlegar nútímalegar endurbætur á forneskjulegum gatnamótum, sem henta engan veginn fyrir þann ökutækjafjölda, sem daglega þarf að fara um þau. Furðudýrin skeyta engu um mannlega harmleiki, sem af þessu hljótast, og líklega um 50 mrdISK/ár aukakostnaði í tjónum, slysum og jafnvel dauðsföllum. Í staðinn hafa þau fengið þá flugu í höfuðið, að þeim beri með stjórnvaldsaðgerðum að fækka fjölskyldubílum í umferðinni, og til þess reyna þau að torvelda umferðina. Þetta er sjúklegt ástand, og toppurinn á vitleysunni verður ofurstrætó, sem mun fækka akreinum fyrir önnur ökutæki og torvelda alla umferð, því að ofurstrætó verður á 2 akreinum fyrir miðju vegstæðis. Þetta er ferlíkisframkvæmd, sem er dæmd til að mistakast og verða myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem að henni standa, og baggi á skuldsettum ríkissjóði, sem fyrir vikið verður að fresta bráðnauðsynlegum samgöngubótum.
"Spurður um ástæðurnar að baki auknum töfum í umferðinni segir Ragnar, að sennilegasta skýringin sé sú, að fólksfjölgun hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu og ferðum þar með fjölgað, en samgönguinnviðir ekki verið bættir til að mæta þessari þróun. "Umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið verið bætt undanfarin 12-15 ár og jafnvel verið stigin ákveðin skref - sérstaklega af hálfu Reykjavíkurborgar - til að rýra umferðarmannvirki með ýmsum hætti á þessu tímabili."
Augljósasta lausnin til að leysa umferðarvandann í dag er, að mati Ragnars, að ráðast í gerð viðeigandi umferðarmannvirkja, og segir hann, að þegar liggi fyrir hönnun á umferðarmannvirkjum, sem munu draga verulega úr umferðartöfum. Sum þeirra séu mislæg gatnamót á viðeigandi stöðum, en aðrar felist í tiltölulega einföldum endurbótum á þeim umferðarmannvirkjum, sem fyrir hendi eru. Víða geti einfaldar lagfæringar eða endurhönnun vega haft veruleg jákvæð áhrif. "Þetta eru framkvæmdir, sem útreikningar sýna, að eru mjög hagkvæmar, og skila samfélaginu ávöxtun, sem er langt umfram það, sem venjuleg fjárfestingartækifæri bjóða.""
Að hætti vandaðra fræðimanna lætur Ragnar Árnason ekki þar við sitja að greina vandamálið og leggja tölulegt mat á umfang þess, heldur dregur hann upp úr pússi sínu lausnir, sem eru þekktar, þaulprófaðar að virka og kostnaðarmetnar. Hængurinn á verkefninu er sá, að vandamálið er ekki sízt að finna í borgarstjórn Reykjavíkur sjálfri, þar sem við eldana sitja furðudýr úr gjörólíkum hugmyndaheimi, m.v. hugmyndaheim Ragnars, sem leynt og ljóst telja hluta lausnarinnar vera að auka vandræði vegfarenda með töfum og aukinni slysahættu, því að þannig muni bílum í umferðinni að lokum fækka.
Síðan er í undirbúningi rándýr ofurstrætó (liðvagnar), sem á að bjóða þeim, sem hrökklast út úr bílum sínum, upp á valkost, sem þau geti sætt sig við. Þetta er kolruglaður hugsunargangur og ósvífinn í hæsta máta, sem hafa mun mikil og neikvæð áhrif á lífsgæði allra þeirra, sem þurfa að aka um höfuðborgarsvæðið, og mun draga úr getu viðkomandi sveitarfélaga og ríkissjóðs til að sinna mun vitrænni og nauðsynlegum fjárfestingum.
Verkefnið er glórulaust í alla staði, enda rökstutt með bábiljum, eins og minni mengun og losun koltvíildis. Það stenzt ekki skoðun, því að tafirnar auka losun eiturefna og CO2 og ofurstrætisvagnar munu tæta upp malbikið vegna tíðra ferða og öxulþungans. Vegslitið fylgir öxulþunganum í 3. veldi, sem þýðir t.d., að 2,0 t bíll veldur áttföldu sliti á við 1,0 t bíl.
"Bætir Ragnar við, að áhugavert sé að setja tjónið af töfum í umferðinni í samhengi við tekjur sveitarfélaganna, en árið 2018 námu útsvarstekjur Reykjavíkurborgar um mrdISK 110. "Líta má svo á, að með því að láta reka á reiðanum í þessum málaflokki sé verið að leggja á borgarbúa viðbótarskatt, sem slagar hátt upp í útsvarið, sem þeir eru að greiða.""
Þetta er lýsandi samanburður hjá Ragnari, en það er nauðsynlegt að taka líka slysakostnaðinn af völdum frumstæðra gatnamóta (m.v. umferðarþungann) með í reikninginn, og þá fæst sama upphæð og útsvarinu nemur, sem varpar ljósi á afleiðingar þess að hafa við völd í Reykjavík, kjörtímabil eftir kjörtímabil, staurblint afturhald.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)