12.7.2022 | 10:30
Orðagjálfur um samkeppnishæfni dugar skammt
Það er rétt, að íslenzkar orkulindir eru samkeppnishæfar sem stendur í alþjóðlegu samhengi, en enginn veit, hversu lengi það varir, og það er auðvitað ekki hægt að tala um, að vara eða þjónusta, hér rafmagn, sem verður fyrst til reiðu eftir 5 ár, sé samkeppnishæf. Sinnuleysi orkufyrirtækja og seinagangur yfirvalda og Alþingis í þessum efnum veldur því, að Ísland getur ekki nú þegar tekið þátt í lífsnauðsynlegum umskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafeldsneyti. Eftir 5 ár, þegar Íslendingar fyrst losna út úr klaufalegri skortstöðu á raforku, gæti nýr og vinsæll orkugjafi verið orðinn tiltækur í fjöldaframleiðslu og þar með samkeppnishæfur við íslenzkar orkulindir. Það er vel þekkt, að í ófremdarástandi verður tækniþróun hröð. Má nefna þóríum kjarnorkuver, stór og lítil, sem skilja eftir sig mun minna geislavirkan úrgang með helmingnartíma, sem telst í áratugum, en ekki árhundruðum eða árþúsundum.
Staksteinar Morgunblaðsins 9. júlí 2022 hittu naglann á höfuðið, eins og fyrri daginn, nú undir fyrirsögninni:
"Ónýtt tækifæri".
Þeir hófust þannig:
"Ísland fylgir sem betur fer ekki jafnvitlausri orkustefnu og löndin á meginlandi Evrópu, sem eru búin að koma sér í mikil vandræði með því að elta öfgafull sjónarmið af ýmsu tagi. Þessar þjóðir eru farnar að gjalda orkustefnuna dýru verði, en þó að Ísland standi betur, hefur það ekki alveg sloppið."
Einkenni á orkustefnu landanna, sem þarna er átt við, er, að þau hafa framselt hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum á sviði orkumála til Evrópusambandsins, ESB. Megininntak orkustefnu ESB er að samtengja orkuflutningskerfi aðildarlandanna með öflugum hætti og að samræma orkustefnur landanna til að búa til samræmdan orkumarkað með jarðgas og rafmagn, sem stjórnað er af ACER-Orkuskrifstofu ESB. Ekki verður séð, að markvert gagn hafi hlotizt af þessu brambolti fyrir aðildarríkin, nú þegar harðnar á dalnum. Orkuskortur hefur leitt til svimandi orkuverðshækkana til heimila og fyrirtækja, þótt ríkisstjórnir hafi varið tugmilljörðum EUR til niðurgreiðslna.
Uppboðsmarkaður orku, sem ESB fyrirskrifar í orkulöggjöf sinni, verður að skrípaleik við þessar aðstæður. Nú vill svo illa til, að EFTA-ríkin í EES glöptust á að innleiða hjá sér þessa orkulöggjöf við gjörólíkar aðstæður þeim, sem ríkja á meginlandinu. Undir umsjón Orkustofnunar hefur Landsnet nú tilkynnt, að fyrirtækið vinni að og sé langt komið með undirbúning innleiðingar á orkukauphöll fyir heildsölumarkað raforku á Íslandi. Við þær skortaðstæður, sem búið er að koma upp á íslenzka raforkumarkaðinum, liggur í augum uppi til hvers þetta feigðarflan mun leiða fyrir neytendur hérlendis.
"Hér hefur of lítið verið virkjað á síðustu árum vegna þess, að of auðvelt er að þvælast fyrir virkjanaáformum eða öðrum framkvæmdum alveg óháð því, hvort þær framkvæmdir hafa verulega skaðleg áhrif á náttúruna eða ekki."
Þetta er hárrétt, og nú hefur Orkustofnun bætzt við dragbítaflokkinn af öllum stofnunum, því að afgreiðsla hennar á umsóknum virkjanafyrirtækja um virkjunarleyfi hefur dregizt úr hömlu, eftir að nýr Orkumálastjóri fór að setja mark sitt á verkefnastjórnina þar. Orkumálastofnun hefur misst sjónar á hlutverki sínu, sem er að leggja faglegt mat á tillögu virkjunarfyrirtækis um virkjunartilhögun. Þetta snýst m.a. um það að meta, hvort bezta tækni sé nýtt við að virkja aflið á virkjunarstað með hliðsjón af lágmarks raski á þeirri náttúru, sem er undir. Stofnunin á að gera þetta sjálf, en ekki að hlaupa út um allar koppagrundir til að leita umsagna. Það er hlutverk annarra.
Athygli vekur, að núverandi Orkumálastjóri virðist vera upptekin af því í hvað orkan fer. Það kemur henni ekki við. Samkvæmt orkulöggjöfinni, sem hún á að standa vörð um, ræður markaðurinn því. Það er ennfremur rangt hjá henni að halda því fram, að "endalaus" spurn sé eftir íslenzkri grænni orku. Svo er alls ekki, enda væri raforkuverð á Íslandi þá í hæstu hæðum. Alvörueftirspurn er takmörkuð með verðlagningunni. Þegar Orkumálastjóri virðist vilja beina nýrri orku einvörðungu í orkuskiptin, er um forræðishyggju að ræða hjá Orkustofnun, sem á ekki heima þar undir núverandi löggjöf, enda virðist hún alveg gleyma því, að atvinnulífið allt þarf meiri orku til að halda uppi atvinnustigi, bættum lífskjörum og sífellt dýrara heilbrigðis- og velferðarkerfi hins opinbera.
"Þetta hefur orðið til þess, að orkuskortur hefur gert vart við sig, sem er með ólíkindum í landi fullu af orku, og nú er svo komið, að við getum ekki nýtt þau tækifæri, sem standa til boða við að skapa meiri tekjur fyrir þjóðarbúið."
Þetta er hverju orði sannara hjá þeim, sem handfjallaði staka steina í þetta skiptið, en svo er helzt að skilja á Orkumálastjóra, að hún sé ekki sama sinnis, af því að ekki hafi enn komið til rafmagnsskömmtunar á heimilum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur þó viðurkennt, að raforkukerfið sé þanið til hins ýtrasta, og það er auðvitað alger falleinkunn á framkvæmd orkustefnunnar, sem síðasta ríkisstjórn fékk samþykkta, því að á sama tíma eru 5 ár í, að næsta virkjun fyrirtækisins komist í gagnið.
Framkvæmd kerfisáætlana á að vera þannig, þar sem vel er haldið á málum, að fullnýting aflgetu kerfis og gangsetning nýrrar virkjunar, 35 MW eða stærri, beri upp á sama tíma. Hvernig í ósköpunum má það vera, að Orkumálastjóri komist upp með það við þessar aðstæður að stinga hausnum í sandinn og láta sem ekkert sé ?
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 9. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ísland í kjörstöðu á orkumarkaði",
er viðtal við Pál Erland og hófst þannig:
"Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja um þessar mundir skapa tækifæri til að laða hingað viðskiptavini, sem nýta græna orku til verðmætasköpunar.
"Við Íslendingar þurfum áfram að nýta ýmis tækifæri, sem okkur bjóðast til gjaldeyrissköpunar til að halda uppi lífskjörum á Íslandi. Jafnframt þurfum við að eiga orku í orkuskiptin til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum, sem að er stefnt", segir Páll. Skýrt samhengi er [á] milli orkuframboðs og hagvaxtar á Íslandi."
Það er til lítils að fjölyrða um sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja, þegar þau eiga enga nýja orku til að selja. Hvað verður, ef/þegar þau eignast raforku til að selja nýjum viðskiptavinum, veit enginn, því að bæði er óvíst um kostnað þeirrar raforku og verðið, sem þá mun bjóðast í öðrum löndum. Með töfum hér innanlands hafa dragbítar framfara valdið töfum á orkuskiptum og valdið efnahagslegu tjóni, sem kemur niður á lífskjörum landsmanna. Orkugeirinn er varla nógu beittur til að fást við ormana, sem búnir eru að grafa um sig.
"Haft var eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu í gær [08.07.2022], að fyrirtækið geti ekki annað eftirspurn eftir orku. Varðandi hækkandi raforkuverð beggja vegna Atlantshafsins benti Hörður á, að hagkerfin hefðu farið skarpt af stað, eftir að faraldrinum lauk, og að það ætti, ásamt örvandi efnahagsaðgerðum og innrás Rússa í Úkraínu, þátt í hækkunum á orkumarkaði."
Sú staðreynd, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun situr uppi með 2 hendur tómar (og báðar í skauti) og mun halda því áfram næstu árin, þegar kemur að nýjum viðskiptasamningum við raforkukaupendur, sem eru fúsir til að greiða uppsett verð fyrir raforkuna, og eru t.d. í matvælaframleiðslu eða í starfsemi, sem tengist orkuskiptum, er reginhneyksli á tímum, þegar heimurinn glímir við mjög alvarlegan orkuskort. Þessi staða sýnir grafalvarlega brotalöm í orkulöggjöfinni og stofnanir ríkisins, sem við sögu koma til að hindra ófremdarástand af þessu tagi, í fyrstu atrennu Orkustofnun, gera aðeins illt verra. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur verk að vinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)