Finnlandisering í Evrópu er liðin tíð

Dr Otto von Habsburg (1912-2011) vakti athygli á því í ræðu árið 2003, að Vladimir Putin, þá nýskipaður arftaki verkfræðingsins Borisar Jeltsin á forsetastóli Rússlands, hefði í ræðu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (Belarus) árið 2000 viðrað hugmyndir sínar um endurheimt nýlendna Rússlands í Evrópu, en útþenslukeisarar Rússlands höfðu gert Úkraínu, Eystrasaltslöndin, Finnland, Pólland o.fl. lönd að nýlendum Rússlands. Þessi kaldrifjaði og einræðissinnaði nýi forseti, þá undir sýndarmerkjum lýðræðis, en nú einvaldur til æviloka, vissi, að hann yrði að beita hervaldi til að framkvæma hugmyndafræði sína, en í svívirðilegri innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022, misreiknaði þessi ógnarstjórnandi sig herfilega.  Hann ímyndaði sér, að úkraínski herinn myndi lyppast niður og leggja niður vopn og að Vesturveldin myndu líka lyppast niður og samþykkja innlimun Úkraínu á nýjan leik. Ef menn af gamla Kaldastríðsskólanum á borð við Henry Kissinger, bundnir í þrælaviðjar áhrifasvæða stórvelda, Finnlandiseringu, hefðu mátt ráða, hefði svo vafalítið orðið, en ofan á urðu réttmæt sjónarmið að alþjóðalögum um, að ekkert ríki mætti komast upp með það að beita fullvalda nágrannaríki sitt hervaldi. Putin er ofbeldismaður, sem hættir ekki fyrr en hann er stöðvaður, nákvæmlega eins og Adolf Hitler.  Þess vegna ber höfuðnauðsyn til að reka rússneska herinn út úr Úkraínu, þ.m.t. Krímskaga. 

Umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um NATO-aðild eru kjaftshögg á granir Kremlarherranna, sem reyndu að réttlæta óverjanlega ákvörðun sína um innrás í Úkraínu með því, að þar með væru þeir að koma í veg fyrir að fá NATO upp að vesturlandamærum sínum. Nú hafa yfirgangssamir og ósvífnir Kremlarherrar orðið að kyngja því, að handan 1300 km landamæra við Finnland verður NATO-ríki með einn öflugasta her í Evrópu og öflugasta stórskotaliðið.

Hortugar og ógnandi yfirlýsingar þeirra um, að innganga Úkraínu í NATO mundi hafa hernaðarlegar afleiðingar, eru aðeins skálkaskjól nýlenduherra í landvinningahug.  Þeim stendur engin ógn af varnarbandalaginu NATO, og þeir eiga alls ekki að ráða ákvörðunum fullvalda nágranna sinna um utanríkis- og varnarmál.  Það er kominn tími til að vinda ofan af þeirri vitleysu, að þessir grimmlyndu og gjörspilltu stjórnendur Rússlands hafi einhver áhrif á það, hvernig aðrar þjóðir í Evrópu haga sínum málum, enda hefur styrkur Rússlands verið stórlega ofmetinn hingað til, og Rússland hefur nú beðið siðferðislegt skipbrot og bíður vist í skammarkróki heimsins. 

Rússlandsforseti hefur haldið því fram, að stækkun NATO til austurs, að þrábeiðni þjóðanna þar eftir fall Ráðstjórnarríkjanna, sé brot á samkomulagi, sem James Baker, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið Ráðstjórnarríkjunum í febrúar 1990.  Margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum átu það upp eftir Kremlarherrum, að stækkun NATO til austurs væri óskynsamleg, af því að Rússum stæði ógn af slíku.  Angela Merkel fór illu heilli fyrir þessum sjónarmiðum á NATO-fundi 2008, þar sem umsókn Úkraínu var til umfjöllunar og knúði Bandaríkin til undanhalds um þetta. Undirlægjuháttur hennar gagnvart Rússlandi reið ekki við einteyming.

Ef innganga Úkraínu hefði verið samþykkt, hefði Úkraínumönnum verið hlíft við þeim hörmungum, sem síðan hafa á þeim dunið fyrir tilverknað glæpsamlegra afla í Rússlandi. "Partnership for Peace" eða bandalag við NATO um frið veitir þjóðum ekki öryggistryggingu í viðsjárverðum heimi, og þess vegna sóttu Svíar og Finnar um inngöngu. 

Þessi málatilbúnaður Rússa um samkomulag við Baker 1990 er að engu hafandi, enda finnst ekkert skriflegt um það.  Orð Bakers áttu ekki við löndin í Austur-Evrópu, heldur var hann að tala um Austur-Þýzkaland, og við Endursameiningu Þýzkalands áttu þau ekki við lengur. Eftir upplausn Varsjárbandalagsins um 18 mánuðum eftir að orð Bakers féllu, hrundu forsendur þeirra.

Samkomulag á milli NATO og Rússlands var undirritað árið 1997, og þar voru engar hömlur lagðar á ný aðildarríki NATO, þótt stækkun hefði verið rædd þá þegar.  Tékkland, Ungverjaland og Pólland gengu í NATO u.þ.b. 2 árum seinna.  Samkomulagið, sem hefur verið brotið í þessu samhengi, er loforð Rússlands gagnvart Úkraínu frá 1994 (Búdapest-samkomulagið) um að beita Úkraínu hvorki efnahagsþvingunum né hernaðaraðgerðum. Samkvæmt þessu samkomulagi Úkraínumanna, Rússa og Breta afhenti Úkraína Rússlandi kjarnorkuvopnin, sem hún erfði frá Ráðstjórnarríkjunum.

NATO á fullan rétt á að stækka.  Skárra væri það nú.  Samkvæmt lokaútgáfu Helsinki-samningsins 1975, sem var m.a. undirritaður af hálfu Ráðstjórnarríkjanna, er ríkjum frjálst að velja sér bandamenn.  Varsjárbandalagsríkin þjáðust mjög undir rússnesku ráðstjórninni.  Hvers vegna skyldu aðildarríkin ekki leita skjóls gagnvart ríki, sem þau þekkja af grimmilegri kúgun ? 

Í mörg ár töldu Finnar og Svíar hagsmunum sínum betur borgið utan NATO.  Þetta breyttist, þegar þessi ríki horfðu upp á algert virðingarleysi Rússlands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og lögum 24. febrúar 2022.  Eitt af mörgum grundvallarmálum, sem nú eru í húfi í Úkraínu, er réttur fullvalda ríkja til að ákvarða sjálf örlög sín. 

Var stækkun NATO til austurs viturleg ráðstöfun ?  Hún hefur hingað til tryggt öryggi þessara ríkja, sem augljóslega hefði verið í uppnámi annars samkvæmt reynslunni frá 24. febrúar 2022. Þannig var hún viturleg ráðstöfun, og að sama skapi hefði átt að skella skollaeyrum við geltinu úr Kreml 2008 og verða við ósk Úkraínu um aðild.  Sífelld friðþæging Þýzkalands og Frakklands með því að henda beinum í Kremlarhundinn var óábyrg og skammsýn. Rússar láta eins og þeir hafi ástæðu til að óttast árás að fyrra bragði frá NATO, en það er helber áróður, og stækkun NATO breytir því ekki.  Kaldrifjaður Putin hefur ýtt undir rússneska þjóðerniskennd og notað rétttrúnaðarkirkjuna til að efla völd sín.  Hún hefur nú lýst stríð Rússlands í Úkraínu heilagt, hvorki meira né minna, enda fá Rússar að heyra, að þar stundi rússneski herinn afnazistavæðingu, sem er eitthvert vitlausasta áróðursbragð, sem heyrzt hefur frá nokkrum einræðisherra um langa hríð.

Meintar ógnanir við rússneskumælandi fólk handan landamæranna voru skálkaskjól Putins fyrir innrásinni í Georgíu 2008 og í Úkraínu 2014. Merkja menn ekki sömu klóförin hér og í Súdetahéruðum Tékkóslavikíu 1938 og í Póllandi 1939 (Danzig-hliðið og Slésía). Í báðum tilvikum höfðu stórveldi misst spón úr aski sínum og leituðust við með ólögmætum hætti að rétta hlut sinn. Í ljós hefur komið, að Wehrmacht var þó miklu öflugri en þessi Rússaher við framkvæmd skipana alræðisherrans. 

NATO var ekki annar orsakavaldur í þessu sjónarspili nú en sá að veita Austur-Evrópuríkjunum, sem í það gengu, skjól gagnvart árásargirni risans í austri.  Hið eina, sem stöðvar villimennina, sem þar hafa hrifsað til sín völdin með fláræði, er samstaða og einarður viðnámsþróttur Vesturveldanna og heilsteyptur stuðningur við Úkraínu á öllum sviðum. 

  Finnar og Svíar  nutu Bandalags um frið (Partnership for Peace) við NATO, en treystu ekki lengur á, að það dygði þeim til öryggis eftir 24. febrúar 2022. Nú liggur í augum uppi, að hefði NATO hafnað aðildarbeiðnum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, mundi hafa myndazt öryggislegt tómarúm í Austur-Evrópu vestan Úkraínu, sem hefði freistað Rússa að fylla. Finnland og Svíþjóð komust að réttri niðurstöðu um það, að Rússlandsforsetinn Putin er hættulegur og ófyrirsjáanlegur - ekki vegna NATO, heldur þess, hvernig hann stjórnar Rússlandi.  Umsókn þeirra ætti að samþykkja við fyrsta mögulega tækifæri, enda mun aðild þeirra styrkja NATO, einkum á Eystrasalti, við varnir Eystrasaltsríkjanna og á norðurvængnum almennt.         

 


Bloggfærslur 18. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband