Eimreiðar atvinnulífsins

Nýlega hækkaði seðlabanki evrunnar, ECB, stýrivexti sína úr -0,5 % í 0,0, og var aðgerðin sögð til að hamla verðbólgu, sem nú nemur 8,6 % á evrusvæðinu að meðaltali, en er þar á bilinu 6,5 % - 22,0 %.  Verðbólgan í Þýzkalandi er 8,2 %, en á þann samræmda mælikvarða, sem þarna liggur til grundvallar, er hún 5,4 % á Íslandi og þar með næstlægst í Evrópu.  Ekki kemur á óvart, að verðbólgan skuli vera lægst í Sviss, 3,2 %, enda er CHF, svissneski frankinn, fyrir nokkrum vikum orðinn verðmætari en EUR, evran.  Svissneski seðlabankinn barðist lengi vel við að halda verðgildi frankans undir verðgildi evrunnar, en nú horfir satt að segja mjög óbjörgulega með evrusvæðið, enda lofaði evrubankinn að koma skuldugum ríkjum evrusvæðisins til hjálpar með skuldabréfakaupum, um leið og hann hækkaði vextina.  Ríkisstjórn Marios Draghi á Ítalíu er fallin, af því að ítalska þingið neitaði að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnar hans á ríkisfjármálunum.  

Deutsche Bank spáir þverrandi krafti þýzka hagkerfisins á næstu misserum.  Reyndar fjarar svo hratt undan Þjóðverjum núna, að bankinn spáir jafnmiklum samdrætti þýzka hagkerfisins 2023 og íslenzka hagkerfisins 2009 eða 6 %, og er hið síðara kennt við Hrun, enda fór þá fjármálakerfi landsins á hliðina, en útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og orkukræfur iðnaður, björguðu því, sem bjargað varð. Hjá Þjóðverjum verður það væntanlega öfugt.  Útflutningsatvinnuvegirnir, tækjaframleiðsla ýmiss konar, mun dragast saman, því að orkukræfir birgjar þeirra munu ekki fá þá orku, sem þeir þurfa, og það, sem þeir fá af jarðefnaeldsneyti og rafmagni, verður mjög dýrt (tíföldun frá í fyrra). 

Þjóðverjar eru fastir í gildru, sem prestsdóttirin frá DDR-Deutsche Demokratische Republik, Angela Merkel, væntanlega óafvitandi, en undir áhrifum illmennisins, sem nú er blóðugur upp fyrir axlir í Úkraínu sem einvaldur í Kreml, leiddi þá í.  Hún lét undir höfuð leggjast að útvega aðrar aðdráttarleiðir fyrir gas en frá Síberíu, t.d. móttökustöðvar í þýzkum höfnum fyrir LNG - jarðgas á vökvaformi, sem hægt hefði verið að flytja til Þýzkalands á skipum, en verður vart hægt fyrr en 2024.  Hún lét Bundestag samþykkja lög, sem bönnuðu vinnslu jarðgass með leirsteinsbroti - "fracking", þótt mikið sé af slíku gasi í þýzkri jörðu.  Putin laug því, að slíkt væri hættulegt og að þýzk heimili gætu átt á hættu að fá svartagall, jafnvel logandi, út um vatnskrana sína. Hún samþykkti Nordstream 2, sem hefði gert Þjóðverja algerlega háða jarðgasi frá Rússlandi, en þegar hún fór frá, nam hlutdeild Rússagass í heildareldsneytisgasnotkun Þýzkalands 55 %, en hefur nú í júlí 2022 minnkað niður í 30 %, enda hafa Rússar nú sýnt Þjóðverjum vígtennurnar og minnkað flæði um Nordstream 1 niður í 20 % af flutningsgetu lagnarinnar.  Rússar eru nú með réttu skilgreindir sem hættulegir óvinir vestrænna bandamanna vegna villimannlegrar innrásar sinnar og löðurmannlegs hernaðar síns gegn óbeyttum borgurum þar í landi, sem flokkast undir þjóðarmorð. 

Þá fékk Angela Merkel Bundestag til að samþykkja þá glórulausu ráðstöfun 2011 að loka nokkrum kjarnorkuverum, banna ný og loka síðustu kjarnorkuverunum fyrir árslok 2022.  Allar þessar aðgerðir Angelu Merkel voru eins og að forskrift forseta Rússlands til að færa honum sem allra beittast orkuvopn í hendur.  "Der Bundesnachrichtendienst" hefur að öllum líkindum vitað, eins og sumar aðrar vestrænar leyniþjónustur, hvað í bígerð var í Kreml (endurheimt tapaðra nýlendna með hervaldi), en Angela Merkel skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum.  Það er alls ekki einleikið og grafalvarleg pólitísk blinda, en nú hervæðast Þjóðverjar að nýju og undirbúa að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu, en Þjóðverjar og Frakkar hafa hingað til þótt draga lappirnar í hernaðarstuðningi sínum við aðþrengda Úkraínumenn, og er það mikið óánægjuefni í Bandaríkjunum og í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum.  

Hagkerfi allra Vesturlanda eða mikilvægir þættir þeirra eru orkuknúin.  Á Íslandi er mikilvægasta útflutningsatvinnugreinin knúin innfluttri olíu, sem frá ársbyrjun 2022 hefur hækkað í innkaupum um 60 % á tonnið, þótt frá norska ríkisolíufélaginu Equinor sé.  Útgerðarkostnaður hefur þannig hækkað gríðarlega og sömuleiðis flutningskostnaður á markað, en vegna tiltölulegs stöðugleika í verði innlendrar orku hefur framleiðslukostnaður neytendavöru af íslenzkum fiskimiðum þó hækkað minna. 

Vegna hækkunar tilkostnaðar hefur sjávarútvegur í ESB þegið neyðaraðstoð hins opinbera í tvígang síðan 2020, og það er engin furða, þótt íslenzkar útgerðir leiti leiða til hagræðingar. Slíkt sáum við, þegar almenningshlutafélagið SVN festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík.  Um þau viðskipti og fáránlegt moldviðri sumra stjórnmálamanna og blaðamanna út af þeim skrifaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Morgunblaðið 21. júlí 2022, undir fyrirsögninni: 

"Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja".

Hún hófst þannig:

"Viðbrögð vinstri manna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takti við fyrri ummæli þeirra um íslenzkan sjávarútveg.  Oft veit maður ekki, hvort þetta fólk talar þvert um hug sér, eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina.  Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi !  Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenzkt samfélag !"

Gunnar Þórðarson hefur góða innsýn í rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs.  Honum er vel ljóst, hvað léttir undir með atvinnugreininni, og hvað er íþyngjandi fyrir samkeppni hans hér innanlands um fólk og fjármagn og á fiskmörkuðum erlendis, þangað sem yfir 95 % framleiðslunnar fer.  Þegar ytri aðstæður versna, hvort sem er fyrir tilstuðlan þingmanna og ráðherra, aðfanganna, flutninganna eða vegna harðari samkeppni á vörumörkuðum, verður aukin tilhneiging til að draga sig út úr starfseminni.  Þetta gerðist nú síðast í Grindavík, og það er fagnaðarefni, þegar traust innlent almenningshlutafélag í sjávarútvegi ákveður að hlaupa í skarðið og efla starfsemina í nýkeyptri eign. Það ætti öllum að vera ljóst, að nýja staðsetningin er verðmæt fyrir kaupandann, en engu að síður hafa slettirekur í hópi þingmanna og blaðamanna kosið að vera með svartagallsraus um allt annað en þó blasir við og kaupandinn hefur lýst yfir.

"Ef ekkert hefði breytzt undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin, væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld, og afkoman væri slök.  Svona svipað og ástandið var á 10. áratugi síðustu aldar, og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað.  Þá væri sennilega allt í góðu lagi, og vinstrimenn ánægðir með ástandið !"

Hér væri allt með öðrum brag, ef afturhaldssinnar hefðu komið í veg fyrir þróun íslenzks sjávarútvegs í krafti markaðsaflanna og stjórnmálamenn sætu uppi með rekstur atvinnugreinar, sem þeir hafa ekkert vit á og engan áhuga á, nema þeir geti beitt honum fyrir sig á  atkvæðaveiðunum.  Lífskjör í landinu væru í samræmi við óstjórnina, og þær hræður, sem hér hefðust við, væru sennilega augnkarlar í verstöð Evrópusambandsins hér úti í Dumbshafi.  

Í lokin reit Gunnar Þórðarson:

"Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim, sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzka þjóð.  Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar, verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni.  Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda.  Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru, en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa.  Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni.  Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn." 

Sú neikvæða umræða, sem fór af stað um þessi viðskipti, eftir að þau voru tilkynnt, sýndi ljóslega fram á, að þau, sem að henni stóðu, höfðu lítið vit á málefninu og voru ekki í stakkinn búin til að bera neitt gagnlegt á borð.  Slíkt fólk er bara að fiska í gruggugu vatni undir kjörorðinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Leiðinlegast er, hvað þessir gjammarar eru orðnir fyrirsjáanlegir.

 

 


Bloggfærslur 30. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband