14.8.2022 | 18:05
Hnignun orkuveldis
Frá hruni Ráðstjórnarríkjanna 1990 hefur Rússland sótt í sig veðrið sem orkuútflytjandi, og sú sókn magnaðist, eftir að Boris Jeltsín, þáverandi forseti rússneska ríkjasambandsins, skipaði KGB-foringjann Vladimir Putin, eftirmann sinn, illu heilli. Ætlun Rússa með því að efla vinnslu jarðefnaeldsneytis var að afla dýrmæts gjaldeyris og halda þar með rúblunni uppi; svo og að ná hreðjataki á kaupendum orkunnar, aðallega Evrópuríkjunum. Hvort tveggja tókst, en það tókst þó ekki að Finnlandisera viðskiptalöndin í Evrópu, sem vonir einvaldsins í Kreml vafalítið stóðu til, þegar hann hrinti innrásinni í Úkraínu af stað 24. febrúar 2022.
Þann dag urðu vatnaskil í stjórnmálum Evrópu, því að þjóðunum varð ljóst, að binda yrði endi á öll viðskipti við hið löglausa og árásargjarna ríki, sem nú hafði notað her sinn, fjármagnaðan með hinum verðmæta afrakstri jarðefnaeldsneytisins, í miskunnarlausri og blóðþyrstri tilraun til að leggja undir sig allt nágrannaríkið Úkraínu, sem sneiðum hafði verið stolið af strax 2014.
Þessi endurvakning á skefjalausum ríkishernaði í Evrópu, sem ekki hafði sézt þar frá falli Þriðja ríkisins 8. maí 1945, varð Evrópumönnum og öllum hinum vestræna heimi andlegt áfall og ástæða sjálfsrýni og endurskoðunar á lífsviðhorfi og stefnu. Barátta einræðis og lýðræðisstjórnarfars hefur ekki kristallazt með jafnskýrum hætti í Evrópu síðan vorið 1940, þegar Bretar stóðu einir gegn landvinningum Stór-Þýzkalands.
Gert hefur verið lítið úr viðbrögðum Vesturveldanna til að draga máttinn úr stríðsvél nýlenduveldisins í austri. Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, telur þær efasemdir orðum auknar og færir fyrir því viðhorfi sínu sterk rök í umræðugrein í Morgunblaðinu, laugardaginn 6. ágúst 2022, undir fyrirsögninni:
"Greining á rússnesku hruni".
Umfjöllunarefnið er þjóðarbúskapur Rússa:
"Í nýlegri skýrslu 5 rannsakenda við Yale-háskóla í Bandaríkjunum um hrikalegar afleiðingar vestrænna refsiaðgerða á efnahag Rússlands segir, að Vladimir Putin, Rússlandsforseti, fylgist náið með verðþróun á olíumörkuðum, enda sé það olía og gas, sem geri Rússa gildandi í heimsbúskapnum; þeir séu 3. stærsti olíuframleiðandi heims, en vegi aðeins 3 %, þegar litið sé til hlutdeildar þeirra í vergri heimsframleiðslu."
Þetta sýnir, hversu furðulega lítið Rússar hafa upp á að bjóða af eftirsóknarverðri framleiðslu annarri en jarðefnaeldsneyti, sem dælt er upp úr jörðunni. Þetta er hvorki í samræmi við landstærðina né mannfjöldann og sýnir djúpstæða meinsemd í rússnesku samfélagi, sem e.t.v. má kalla spillingu valdhafanna, sem gegnsýrir allt þjóðfélagið, einnig herinn.
"Yale-menn segja, að nú glími Rússar við mun meiri vanda við útflutning á hrávöru en almennt er rætt um í fréttum. Heildartekjur þeirra af olíu og gasi hafi lækkað um meira en helming í maí m.v. apríl 2022, sé tekið mið af opinberum rússneskum tölum. Rússar hafi í raun sveigt verulega hjá því framtíðarmarkmiði sínu um að ná lykilstöðu á hrávörumarkaðinum."
Þessar upplýsingar sýna, að hnignun rússneskrar markaðshlutdeildar jarðefnaeldsneytis í heiminum er hafin. Sennilega liggja til þess 2 meginástæður og eru báðar varanlegar. Önnur er lokun aðgengis fyrir Rússa að vestrænni tækniþekkingu á sviði viðhalds, rekstrar og nýborana á vettvangi orkuvinnslu, og þar með lokun á varahluti fyrir kerfi í rekstri og búnað fyrir ný verkefni.
Hin ástæðan er, að viðskiptavinir Rússa hafi fórnað höndum yfir villimannlegu grimmdaræði þeirra í árásarstríði þeirra í Úkraínu, þar sem óbreyttir borgarar og vistarverur þeirra eru helztu skotmörk hins lítilsiglda hers þeirra, og að Rússar hafi af þeim sökum hreinlega séð undir iljar gamalla viðskiptavina sinna. Það hefur óhjákvæmilega afleiðingar að ganga fram með þvílíkum kúgunartilburðum og ofstopa gegn friðsömum nágrönnum, sem ekkert hafa til saka unnið, og reyna í einu vetfangi að breyta heimssögunni. Það er alger tímaskekkja.
"Það skipti e.t.v. enn meira máli, að til þess að snúa viðskiptum sínum í austur verði Putin að ráða yfir tækni til að gera olíu og gas hæf til flutnings í leiðslum frá norðurslóðum til kaupenda. Eftir að erlendir samstarfsaðilar sögðu skilið við rússnesku fyrirtækin Rosneft og Gazprom hafi þessir orkurisar sjálfir enga burði til að geta nýtt sér til gagns gífurlegar olíu- og gaslindir, einkum í Síberíu og á norðurslóðum, og því síður að koma eldsneytinu á markað. Til skamms tíma þýði þetta, að rússneska ríkið fari á mis við lífsnauðsynlegar skatttekjur fyrir utan að tapa stöðu sinni og trúverðugleika á heimsmarkaði og sem félagi í OPEC+ félagsskapnum. Nú verði þeir hins vegar að skríða á hnjánum til Kínverja og Indverja í von um, að þeir kaupi eitthvað af þeim á miklu afsláttarverði."
Á tímabilinu 1999-2014 óx rússnesku millistéttinni fiskur um hrygg, enda jukust tekjur hennar ríflega árlega á þessu tímabili, en síðan hefur ríkt stöðnun og jafnvel afturför, hvað lífskjör millistéttarinnar varðar, og þjóðnýting hefur haldið innreið sína, svo að þjóðfélaginu er tekið að svipa til Ráðstjórnarára 9. áratugar 20. aldarinnar. Þá kemur nú u.þ.b. fimmtungur af tekjum almennings úr ríkissjóði, svo að sú skerðing ríkistekna, sem þarna er gerð að umfjöllunarefni, getur reynzt rússneska ríkissjóðinum þungbær og að lokum skert lífskjör almennings.
Þjóðirnar, sem þarna eru nefndar til sögunnar að taka við jarðefnaeldsneyti af Rússum, Indverjar og Kínverjarar, eru alræmdir prúttarar. Þær munu hikstalaust nýta sér vandræði Rússa á heimsmarkaðinum og heimta af þeim langtímasamninga á tiltölulega lágu verði. Þetta mun draga allan kraft úr hagkerfi Rússa. Rússar eiga fjölda góðra verkfræðinga og vísindamanna, þótt spekileki sé úr þeirra röðum líka, en Rússland er enn með sömu böggum hildar og Ráðstjórnarríkin að geta ekki framleitt hátæknivörur. Þessi veikleiki dæmir Rússland meira eða minna úr leik á heimssviðinu við núverandi aðstæður.
""Þrátt fyrir hugaróra Pútins um sjálfsþurftarbúskap og heimavarning í stað innflutts hefur heimaframleiðslan algjörlega stöðvazt og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta, sem horfin eru, hvorki með vörur né mannafla; eftir útþurrkun á nýsköpun og framleiðslu á heimavelli hefur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neytenda", segir Yale-hópurinn.
Skýrsluhöfundarnir 5 benda á, að niðurstöður þeirra stangist á við ítrekaðar fullyrðingar um, að refsiaðgerðirnar skaði þjóðirnar í vestri meira en Rússa. Þeir segja:
"Þegar 5. mánuður innrásarstríðs Rússa hefst, hefur sú almenna skoðun birzt, að einhugur þjóða heims um andstöðu gegn Rússum hafi einhvern veginn þróazt í "efnahagslegt þreytustríð, sem sé Vestrinu dýrkeypt" vegna svo nefndrar "seiglu" og jafnvel "hagsældar" í rússneskum þjóðarbúskapi."
"Þetta eru einfaldlega ósannindi", segir í skýrslunni. Hagsmunir Pútins felast í blekkingum út á við um efnahag Rússa. Inn á við bannar forsetinn, að hernaður hans sé kallaður stríð. Þeir, sem gera það, eru fangelsaðir. Notum frelsið til að greina og lýsa hlutunum, eins og þeir eru."
Lygamaskína rússneska stjórnkerfisins segir enga sögu, eins og hún er, ef lygin setur Rússland og Kremlverja í skárra ljós en sannleikurinn. Rússar virðast stela öllu steini léttara í Úkraínu, jafnvel af heimilum fólks, og sögur gengu um, að rússneskir hermenn hefðu selt þýfið á uppboðsmörkuðum í Hvíta-Rússlandi og í Rússlandi, sem auðvitað gefur til kynna meiri velmegun almennings í Úkraínu en í hinum löndunum tveimur.
Alls konar bolaskítur hefur verið borinn á borð af Putin um ástæður innrásarinnar 24.02.2022. Einfaldasta skýringin er sennilega sönn, af því að hún hefur legið í þagnargildi hjá Kremlverjum. Hún er sú, að um hreinræktað nýlendustríð af gamla skólanum sé að ræða. Frétt í brezka tímaritinu Spectator 12.08.2022 styður þetta. Hún var sú, að Rússar hefðu nú með "blóði og járni" svælt undir sig í Úkraínu síðan 24.02.2022 auðlindir á borð við orkugjafa (kol, olíu, gas), málma og steinefni í jörðu að verðmæti trnGBP 10, sem nemur tæplega 7-faldri vergri landsframleiðslu Rússlands árið 2021.
Putin og ólígarkar hans ætla að skítnýta auðlindir nýlendunnar Úkraínu í eigin auðgunarskyni og til að láta Úkraínu borga fyrir kostnað Rússlands af stríðsrekstrinum í Úkraínu. Þá munu þeir beita sömu kúgunartökunum við enduruppbyggingu Úkraínu og Kremlverjar beittu Austur-Evrópuríkin, sem lentu austan Járntjaldsins eftir Heimsstyrjöldina 1939-1945, að láta þjóðina þræla sjálfa fyrir endurreisninni úr rústunum.
Þetta er ástæðan fyrir því, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, leggur höfuðáherzlu á að reka Rússaher út úr Úkraínu og að nýta frystar eigur rússneskra ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum til enduruppbyggingarinnar. Vonandi, Evrópu allrar vegna og hins frjálsa heims alls, verður sú niðurstaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)