5.8.2022 | 16:44
Úr sér gengið efnahagslíkan
Frá því að Járntjaldið féll með hruni kommúnismans í Austur-Evrópu 1989 og Endursameiningu Þýzkalands (die Wiedervereinigung Deutschlands) í kjölfarið, hefur efnahagskerfi Þýzkalands og þar með lifibrauð Þjóðverja verið reist á fölskum forsendum í veigamiklum atriðum. Undirstöður nokkurra þessara forsendna hafa nú brostið, og aðrar forsendur efnahagslegrar velgengni Þjóðverja og velmegunar eru í uppnámi. Þýzka valdastéttin hefur brugðizt þjóðinni, hervæðing er hafin á ný og tími þjóðfélagsóróa, vonandi ekki óreiðu, gæti verið framundan af þessum sökum. Það sést móta fyrir skepnunni nú þegar, því að verkfallshótanir hljóma nú um landið í þeim mæli, sem íbúar Sambandslýðveldsins hafa aldrei heyrt áður. Það er til vitnis um gjá þjóðfélagslegs vantrausts, sem ekki hefur sézt síðan á dögum Weimar-lýðveldisins á þýzkri foldu. Samhljómur hefur verið boðorð dagsins frá stofnun Sambandslýðveldisins, þá Vestur-Þýzkalands, 1949.
Þjóðverjum var sagt, að þeir gætu treyst á ótakmarkað, ódýrt jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi og í Rússlandi og í Kína væri óþrjótandi markaður fyrir þýzka iðnaðarframleiðslu. Pólitískt og viðskiptalegt stríð Þýzkalands og allra Vesturlanda við Rússland skall á með blóðugri styrjöld Rússa við Úkraínumenn 24. febrúar 2022. Rússar hafa beitt orkuflæðinu til Evrópu frá Síberíu sem vopni gegn Evrópumönnum í þessari baráttu á milli einræðis- og lýðræðisafla og hafa t.d. skert gasflæðið um Nordstream 1 um 80 %. Afleiðingin hefur orðið u.þ.b. tíföldun orkuverðs í Evrópu og fyrirsjáanlegur orkuskortur í vetur, þegar vetrarhörkur taka að herja á Evrópu. Þá getur komið til orkuskömmtunar, sem ekki hefur gerzt í hálfa öld þar eða síðan í fyrstu orkukreppunni á 8. áratugi 20. aldarinnar, þegar Arabar drógu verulega úr olíuframboði til Vesturlanda.
Þjóðverjar standa nú frammi fyrir endalokum tímabils, þegar þeir gátu knúið hagkerfi sitt áfram með ódýru jarðefnaeldsneyti, og þeir eru tómhentir í þessari viðureign, því að þeir hafa lokað kjarnorkuverum sínum, öllum nema þremur, og engin ný eru í byggingu. Ódýrt jarðefnaeldsneyti er ekki og verður ekki á boðstólum, og meginmarkaðir þeirra fyrir iðnaðarvörur eru nú meira eða minna lokaðir. Kalt stríð er skollið á við Kína. Mynt Evrópusambandsins, evran, stendur illa, svo að ekki sé meira sagt, og verðbólgan í Þýzkalandi slær öll met frá upphafi Deutsche Mark. Annaðhvort gliðnar þetta myntbandalag eða stofnað verður Sambandsríki Evrópu með einum ríkisfjármálum fyrir öll aðildarríkin, sbr BNA. Miklir atburðir eru í vændum.
Það eru fleiri í vandræðum, en þeir eru þó ekki bundnir á klafa evrunnar. Mjög hefur dregið úr gasstreymi úr virkjuðum lindum Norðursjávar til Bretlands, og hátt orkuverð herjar á Breta og raforkuskortur liggur í loftinu, sumpart vegna orkuskiptanna, sem eru í fullum gangi þar. Vikuna 18.-24. júlí 2022 komst London naumlega hjá straumleysi með því að borga Belgíu 9.724,54 GBP/MWh, sem mun vera 5000 % yfir venjulegu verði. Þessi litla saga gefur til kynna í hvers konar ógöngur stórar Evrópuþjóðir hafa ratað með orkumál sín. Nú verður að stokka upp efnahagslíkan og orkukerfi margra Evrópuþjóða. Þær munu örugglega draga mjög úr hlutdeild jarðefnaeldsneytis í raforkuvinnslu sinni, og þá verður að koma til skjalanna stöðugur orkugjafi. Lausn í sjónmáli eru stöðluð og fjöldaframleidd kjarnorkuver í verksmiðju, u.þ.b. 300 MW, sem flutt eru tilbúin til tengingar á byggingarstað. Heildarvinnustundum per MW má fækka til muna með þessu móti, niður í u.þ.b. 6 % við ýmsa verkþætti, og þannig má gera kjarnorkuna mun ódýrari en áður, en hár byggingarkostnaður hefur verið akkilesarhæll kjarnorkuvera um hríð.
Morgunblaðið gerði alvarlega stöðu Evrópu, m.a. orkumálanna þar, að umfjöllunarefni í forystugrein 21. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ótrúleg afturför".
Þar sagði m.a.:
"Á örfáum árum hefur staða Evrópu gjörbreytzt. Fæstir gerðu sér grein fyrir því, að öflugasta ríki álfunnar hefði misst öll tök á orkumálum eigin þjóðar og sé nú háð duttlungum þeirra, sem sízt skyldi. Framleiðslugeta þjóðarinnar hafði einnig misst að hluta styrk og yfirburði og er skyndilega háð risaveldinu Kína, sem fer sínu fram, hvað sem lýðræðislegum kröfum líður. Núverandi kanzlari Þýzkalands beitti sér af öllu afli til að gera Hamborg að þjónustuhöfn Kína á meginlandinu og tryggja, að stórveldið hefði þar ríkulegt eignarhald. Fyrirrennari hans í embætti sat á hljóðskrafi við sænska fermingarstúlku um, að þjóðirnar yrðu að kúvenda í meginmálum vegna heimshlýnunar, sem barnið var ein helzta heimild vestrænna leiðtoga um ! Þjóðverjar yrðu að láta sér kínverskar sólarsellur duga og vindmyllur, niðurgreiddar af skattborgurum, með sínum skaða á náttúrulegri umhverfismynd landsins. Og, á meðan að það gæti loks látið slíka orku duga, sem aldrei er raunhæft, þá yrðu gerðir risasamningar við Rússa, sem gerðu Þýzkaland að peði í risalúku þessa ríkis."
Þarna er reifaður sá stjórnmálalegi barnaskapur, sem varð þess valdandi, að efnahagslíf Þýzkalands, eimreiðar Innri markaðar Evrópusambandsins, stendur nú á brauðfótum. Stjórnmálaleg blinda á raunveruleika stjórnmálanna í alræðisríkjum á borð við Rússland og Kína, á ekkert skylt við "Realpolitik", sem Willy Brandt kallaði "Ostpolitik" sína og hefur sennilega ekki gert annað en að styrkja alræðisöflin í sessi og sennilega að sannfæra einræðisherrana um, að Vesturlönd væru að verða svo "dekadent" - úrkynjuð, að þau hefðu ekki burði til að verja sig. Sennilega hefur einörð stefna leikarans Ronalds Reagans, 40. forseta Bandaríkjanna 1981-1989, verið drýgsta framlag Vesturlanda til að fella "ríki hins illa", sem hann réttilega nefndi Ráðstjórnarríkin. Ekki er "ríki hins illa" síður réttnefni á ríkið, þar sem Vladimir Putin er æðsti koppur í búri sambandsríkis, sem er rotið ofan í rót, og hefur nú sigað agalausum her villimanna á saklausa þjóð, sem nú berst fyrir lífi sínu. Úrkynjun Vesturlanda nú kemur helzt fram í því, að beina ekki öllum öflugustu hefðbundnu hergögnum sínum í hendur úkraínska hersins, sem einn heldur nú uppi merki Vesturlanda í harðvítugri baráttu við villimenn af sléttum Rússlands. Það er eftirtektarvert, að sá stjórnmálamaður, sem nú heldur merki frelsishugsjóna Vesturlanda hæst á lofti og er í raun annar Winston Churchill (1874-1965) í sögunni, er líka leikari að atvinnu, Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)