Að skreyta sig með annarra orkufjöðrum

Í forystugrein Morgunblaðsins 15. september 2022 var orkumálaþáttur stefnuræðu forsætisráðherra kvöldið áður gerður að umfjöllunarefni, eins og verðugt er.  Þar blasti við sá tvískinnungur, hræsni og óheilindi, sem einkennir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) til orkumála, landverndar og loftslagsmála hérlendis. Skörin færist þó upp í bekkinn, þegar formaður VG afneitar sögu sinni, flokksins og rótum þessa flokks (Alþýðubandalagsins).  Það er jafnan ógeðfellt að verða vitni að því, þegar fólk, ekki sízt stjórnmálafólk, með einfeldningslegum hætti tekur að grobba og skreyta sig með annarra manna fjöðrum.  Morgunblaðið benti kurteislega á þetta, en það er engin ástæða til að skafa utan af þessum þætti í fari formanns VG. 

Forystugreinin nefndist:

"Orkumál og skautun",

og gerði stefnuræðu forsætisráðherra nokkur skil:

"Í hinu hnattræna samhengi gat forsætisráðherra ekki stillt sig um að minnast á loftslagsmálin, en í þeim efnum hefði hin endurnýjaða ríkisstjórn sett sér ný markmið til þess að minnka útblástur og sagði landið á "fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu - inn í nýtt, grænt hagkerfi, en þar voru Katrínu efst í huga orkuskipti í samgöngum og [á] öðrum sviðum raunar einnig, þar sem öld grænna orkugjafa væri hafin."

Þetta er bölvað fleipur hjá forsætisráðherra.  Losun gróðurhúsalofttegunda 2022 verður sennilega meiri en 2021, svo að ferðin er aftur á bak, ef þetta er ferð.  Það vantar enn forsenduna um "öld grænna orkugjafa".  Hérlendis eru þeir fyrir hendi í náttúrunni, og u.þ.b. helmingur fýsilegra virkjanakosta hefur verið virkjaður, flestir þeirra í andstöðu við vinstri græna og forvera þeirra.  Ekki gleymist hatrömm andstaða Alþýðubandalagsins við virkjun Þjórsár við Búrfell, og sú virkjun er varla til, sem vinstri grænir hafa ekki lagzt gegn. Hvers vegna leyfist Orkustofnun að draga Landsvirkjun á virkjanaleyfi í Neðri-Þjórsá nú í 15 mánuði ?  Það vantar raforku nú í orkuskiptin og eflingu gjaldeyrissköpunar og atvinnu, og þannig verður það fyrirsjáanlega allan þennan áratug.  Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum og öðru strönduð, og þessi fagurgali forsætisráðherra um losun koltvíildis og orkuskipti er gjörsamlega innantómur.  Hún talar tveimur tungum og sitt með hvorri og meinar ekkert með öllu saman.  Þetta er ábyrgðarlaust hjal hjá formanni VG. 

"Forsætisráðherra sagði, að Íslendingar væru "í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess, að réttar ákvarðanir hafa verið teknar".  Undir það má taka, þótt Katrín hafi raunar vanrækt að geta þess, að hún og hennar fólk lögðust gegn öllum þeim framsýnu ákvörðunum á sínum tíma.  Hún rakti og, að það væri mikil gæfa, að Landsvirkjun og Landsnet - helzta orkufyrirtæki landsins og mikilvægasta innviðafyrirtæki þess - væru í almenningseigu."

Hvaða þokuhjal er þetta hjá Katrínu um "réttar ákvarðanir" ?  Er hún að afneita fortíð VG og viðurkenna, að flokkurinn og forveri hans hafi allan tímann haft rangt fyrir sér ?  Það jafngildir sprengingu í herbúðum þursanna, sem leggjast gegn öllum framförum.  Líklegra er, að hún eigi við einhverjar ótaldar ákvarðanir í tíð VG, sem auðvitað þarfnast þá skýringa.  Á hvaða vegferð er þetta furðufyrirbrigði eiginlega, sem hefur jafnan stimplað sig inn sem andstæðingur íslenzks atvinnulífs. 

Hlutverk Landsvirkjunar við stofnun hennar 1965 var að virkja stórt og reisa öflugt flutningskerfi raforku frá virkjunum til notenda, fyrirtækja og almennings.  Hugmyndin var, að stórsala raforku til áliðnaðar mundi fjármagna bæði virkjanir og flutningskerfi.  Það gekk eftir, en þessari hugmyndafræði lagðist Alþýðubandalagið, forveri VG, algerlega gegn. Ef afturhaldsstefna þessara vinstri afla hefði ráðið ríkjum allan tímann, væri hér engin Landsvirkjun og ekkert Landsnet í sinni núverandi mynd.  VG getur ekki einu sinni með réttu þakkað sér, að þessi fyrirtæki bæði eru í ríkiseigu.  VG - flokkur embættismanna og draumóramanna - telur sér nú sæma að skreyta sig með stolnum fjöðrum borgaralegra afla.

""Eins hljótum við að þakka fyrir, að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn.  Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt - þegar almenningur í Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur - er augljóst, að við erum í öfundsverðri stöðu", sagði forsætisráðherra, en lét að vísu alveg vera að ræða um orkupakkann í því sambandi."  

Hræsnin lekur af þessum orðum forsætisráðherra.  Hún er svo tvöföld í roðinu, að til háborinnar skammar er. Hún, flokkur hennar og forverar, hafa barizt hatrammlega gegn framförum, sem leitt hafa Íslendinga til núverandi stöðu í orkumálum, og hún situr enn við sinn keip, þegar kemur að leyfisveitingum til nýrra virkjana og flutningslína.  Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, lyfti ekki litla fingri til að koma í veg fyrir lögleiðingu þess Orkupakka 3, sem nú veldur því, að tíföldun hefur orðið í fjölmennustu fylkjum Noregs á verði rafmagns til heimila, þ.m.t. húshitunar, og til fyrirtækja án langtímasamninga. Hvað ætlar þessi dr Jekyll og Mr Hyde í stóli forsætisráðherra Íslands að gera, þegar Landsnet og Landsreglari ACER á Íslandi hyggjast hrinda af stokkunum kauphöll raforku á Íslandi, þar sem tiltæk raforka verður falboðin á uppboðsmarkaði með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum, að raforkuverð til almennings mun snarhækka samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn ?

"Aftur ítrekaði hún, að þetta væri vegna þess, að góðar og framsýnar ákvarðanir hefðu verið teknar hingað til, þótt Vinstri-græn hafi verið á öndverðum meiði.  Það er ekki nefnt forsætisráðherra og flokki hennar til lasts.  Þvert á móti ber að fagna aukinni samstöðu um þessi grundvallarmál, því [að] Ísland á, líkt og önnur lönd, allt sitt undir orkugnægð og enn frekar, þegar horft er til framtíðar og bættra lífskjara til frambúðar.  

Þessu virðist forsætisráðherra átta sig á og eins hinu, að miklu skipti, hvernig fram verður haldið.  Katrín sagði, að þegar kæmi að orkuskiptum og orkuframleiðslu væri frumskylda stjórnvalda við íslenzkan almenning."

Það er óráðlegt að ráða svona bjartsýnislega í orð forsætisráðherra, sem er hræsnari af Guðs náð og tvöföld í roðinu.  Hvað meinti hún með ræðunni.  Var verið að boða stefnubreytingu VG, "die Wende", eða vendipunkt, eins og hjá Olaf Scholz, kanzlara ?  Það er hægt að túlka loðmullu, eins og að "frumskylda stjórnvalda [sé] við íslenzkan almenning" með ýmsu móti.  Nema hvað ?  Hingað til hefur þessi skylda VG verið, að standa vörð um óraskaða náttúru Íslands, sem er della, því að þessi náttúra er sífelldum breytingum undirorpin, en Mogginn er yfir sig bjartsýnn og spáir vendipunkti hjá VG.  Guð láti gott á vita, en VG er forstokkaður ríkisafskipta- og afturhaldsflokkur, sem hefur ekki enn orðið fyrir vitrun: 

"Þarna er um afar afdráttarlausa stefnumörkun að ræða, og hún sætir nokkrum tíðindum, ekki sízt fyrir Vinstri-græn.  Þar á bænum hafa menn verið ákaflega tvístígandi í þessum efnum, þar sem á togast ýmis illsamrýmanleg grundvallarmarkmið um loftslag eða landvernd, bætt kjör almennings eða skerta neyzlu hans.  Nú hefur það skýrzt til muna, og það er vel."

Höfundur þessa vefpistils er engu nær og spáir engum breytingum hjá afturhaldinu.  Forsætisráðherra gasprar og geiflar sig.  Þegar hún hittir Jens Stoltenberg, er hún ötull baráttumaður bættra varna Vesturlanda gegn ofbeldinu í austri, sem engu eirir, þótt hún pakki umræðunni inn í óskiljanlegt jafnréttismálskrúð um jafnrétti innan NATO.  Hér heima er hún á móti þátttöku Íslands í NATO.  Þessi ruglandi nægir til að æra óstöðugan. Formaður VG hefur reynzt ófær um að marka flokkinum skýra stefnu í orkumálum, enda gerast kaupin ekki þannig á eyrinni þar á bæ, en Mogginn hefur tekið það að sér í lok forystugreinarinnar.  Forsætisráðherra ætti að vera þakklát fyrir:

"Af fyrrnefndum varnagla [forsætisráðherra, ábyrg orkunýting í sátt við náttúruna og í þágu almennings] má einnig draga ályktanir um, að Vinstri-græn geri ekki athugasemdir við orkuöflun fyrir landsmenn, en vilji síður, að hún komi útlendingum til góða.  Það vekur hins vegar spurningar um, hversu mikil alvara fylgir heitstrengingum Vinstri-grænna um loftslagsmálin eða vorkunn vegna orkukreppu í Evrópu.  Nú eða hvernig eigi að tryggja bætt lífskjör til frambúðar. 

Undir lok stefnuræðunnar sagði forsætisráðherra, að á "tímum skautunar og einstefnustjórnmála [skipti] miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt".  Það er ánægjulegt, að ríkisstjórnin gangi þar á undan með góðu fordæmi málamiðlunar og miklu skiptir, hvernig verður fram haldið."

Það er smásmyglislegt útúrborusjónarmið VG, sem býr að baki einhvers konar útilokunarþörf gagnvart eðlilegri þróun og viðgangi erlendra fjárfestinga í landinu. Þetta er gamalkunnugt stef frá Alþýðubandalaginu, en stingur auðvitað gjörsamlega í stúf við inntak EES-samningsins.  Vinstri-grænir lögðust ekki gegn Orkupakka 3, sem þó fól útlendingum mikilvæg ítök í íslenzkum orkumálum, en nú á að mismuna fyrirtækjum í erlendri eigu á Íslandi, þegar kemur að orkuafhendingu hérlendis.  Þessi tvískinnungur forsætisráðherra í orkumálum er fyrir neðan allar hellur, gjörsamlega óboðlegur, enda siðlaus.

Það fylgir alls engin alvara heitstrengingum vinstri-grænna, sem Morgunblaðið gerir hér að umræðuefni.  Nýjar og miklar virkjanaframkvæmdir eru forsenda allra framfara á sviði orkuskipta og loftslagsmála á Íslandi, og hjá VG hefur alls engin afstöðubreyting orðið til þessara mála, hvað sem túðri forsætisráðherra í ræðustóli Alþingis líður.      

 

 


Bloggfærslur 21. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband