Orkustefnan og hagsmunir verkalýðs

Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, reit athygliverða Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið í sumar, 6. júlí 2022, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að stefna landverndarsinna mundi óhjákvæmilega leiða til lífskjaraskerðingar almennings.  Höfundar þessarar stefnu virðast draga dám af höfundum bókarinnar um Endimörk vaxtar (Limits to Growth), sem boðuðu afturhvarf til fortíðar til að bjarga jörðunni. Þeir reyndust vera falsspámenn, þótt margir hafi síðar orðið til að feta í fótspor þeirra, t.d. framkvæmdastjóri Landverndar á Íslandi. 

Það er ástæða til að halda þessari grein hagfræðingsins á lofti nú, þegar kjaramál eru í brennidepli.  Kjaraskerðing almennings á Íslandi er hjóm eitt m.v. þær hrikalegu holskeflur, sem orkuskortur hefur leitt yfir önnur Evrópulönd. Sú staðreynd ætti að leiða öllum landsmönnum fyrir sjónir, hversu farsæl stefna hefur verið við lýði í landinu við nýtingu orkulinda landsins, en öfgasjónarmiðum um landvernd hefur verið gert of hátt undir höfði í löggjöfinni, svo að dýrkeyptar tafir hafa orðið við að reisa flutningsmannvirki raforkunnar með þeim afleiðingum, að alvarlegur, staðbundinn raforkuskortur ríkir.  Þá ríkir nú illskiljanleg lognmolla yfir virkjanamálum á tímum, þegar raforkueftirspurn í landinu er meiri en raforkuframboð . Ótrúleg málsmeðferð Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til virkjunar Neðri-Þjórsár (Hvammsvirkjun) hefur rýrt faglegt traust til OS, eftir að nýr Orkumálastjóri tók þar við. 

Hefst nú tilvitnun í téða Sjónarhólsgrein: 

"Á Íslandi hefur umræða um umhverfismál oft verið óskipulögð og ólíkum hugtökum blandað og ruglað saman.  Í sömu umræðu erlendis er skýr munur gerður á umhverfisvernd og landvernd.  Þar til nýlega ægði þessum hugtökum saman í íslenzkri umræðu um virkjanaframkvæmdir og raforkuframleiðslu.

Umhverfisvernd snýr fyrst og fremst að því að framleiða orku með sem minnstum tilkostnaði m.t.t. loftslagsmála.  Landvernd snýst hins vegar um, að helzt megi ekki hrófla við náttúrunni, sama hvað það kostar.

Þeir, sem tala fyrir landvernd, verða einfaldlega að vera heiðarlegir með þessa afstöðu sína og hætta að fela sig að baki merkimiðum í loftslagsmálum.  Öll orkuframleiðsla útheimtir náttúrufórnir.  Þeir, sem tala fyrir aukinni orkuframleiðslu, eiga svo ekki að vera feimnir við að segja það hreint út."

 Orkumálin eru í kyrrstöðu núna, m.a. af því að stuðningsmenn meiri nýtingar hefðbundinna íslenzkra orkulinda, vatnsafls og jarðgufu, hafa sig lítt í frammi.  Framkvæmdastjóri Landverndar hefur hins vegar talað berum orðum fyrir hönd samtaka sinna um, að þessi nýting skuli ekki aukin, heldur skuli ríkisvaldið, sem alfarið á stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, beita sér fyrir því, að dregið verði svo mjög úr orkusölu til orkusækins iðnaðar, stóriðju, að svigrúm skapist til orkuskiptanna og almennrar aukningar raforkunotkunar vegna fólksfjölgunar.  Þessi boðskapur jafngildir því ósköp einfaldlega að leggja stóriðjuna niður, líklega með því að endurnýja enga orkusölusamninga við hana, hvað þá að gera nýja slíka samninga, því að riftun gildandi samninga yrði óheyrilega dýr.

Þessi stefna Landverndar er fullkomlega ábyrgðarlaus, því að hún mun fyrr en seinna leiða til meiri einsleitni í atvinnulífinu, viðvarandi halla á viðskiptajöfnuði með gengislækkun og atvinnuleysi, einkum vestanlands og austan, sem afleiðingu. Þetta mundi ekki síður koma niður á félagsfólki verkalýðsfélaganna en öðrum landsmönnum, og þess vegna skýtur skökku við m.v., að sumir verkalýðsforingjar, sem tjá sig um allt mögulegt í þjóðfélaginu, skuli ekki hafa gagnrýnt harðlega málflutning Landverndar, sem hvetur til stjórnvaldsaðgerða, sem óhjákvæmilega mundu gera marga verkamenn, iðnaðarmenn og aðra í góðum störfum stóriðjunnar, að fórnarlömbum vanhugsaðrar hugmyndafræði. 

"Málflutningur landverndarsinna felur hins vegar í sér að skrúfa niður í lífsgæðum almennings. Fráleitt er að tala um breytta forgangsröðun í orkumálum á Íslandi og ýja að því, að taka eigi pólitíska ákvörðun um að draga úr sölu til stórnotenda og beina raforkunni þess í stað til íslenzkra heimila og fyrirtækja."  

Að félagssamtök skuli álykta með þessum hætti og kynna stefnuna sem hvern annan valkost, sem landsmenn geti valið og eigi að velja án þess, að það muni draga nokkurn dilk á eftir sér, er alvarlegt sjúkdómseinkenni.  Fjölmiðlar hafa heldur ekki spurt sérlega gagnrýninna spurninga um afleiðingarnar.  Þeir gefa sér væntanlega, að þá færu þeir í geitarhús að leita ullar.

Fyrir utan efnahagsáfall og atvinnuleysi má nefna, að traust til Íslendinga á meðal erlendra fjárfesta, sem eru að eða munu íhuga fjárfestingar á Íslandi, yrði að engu við aðfarir, sem væru einsdæmi á Vesturlöndum. Þessi hnekkir einn og sér er á við annað efnahagsáfall. Hugarfarið, sem að baki þessari tillögugerð Landverndar býr, er þess eðlis, að óþarfi er að taka nokkurn boðskap þessa félags alvarlega. Þjóðarhagur er þar látinn lönd og leið, svo að minnir á skæruliðastarfsemi. 

"Landverndarsinnum hefur tekizt að snúa sönnunarbyrðinni við í þessum efnum á liðnum árum.  Sá hópur, sem áttar sig á því, að framleiðsla og sala raforku sé ein undirstaða hagkerfisins, hefur þurft að standa í stöðugri baráttu við að benda á þá einföldu staðreynd. 

Sem betur fer virðist núna annað hljóð í strokknum.  Þeir, sem halda því fram, að uppbyggingu orkuframleiðslu á Íslandi geti verið lokið núna, verða einfaldlega að láta það fylgja máli, að slíkri stefnu fylgir afturför í lífsgæðum, minni kaupmáttur og fábrotnara líf. 

M.ö.o. boðar landverndarstefnan aukið meinlæti.  Minna handa öllum."

 Ofstækisfólk, sem oft ber mest á, leggur allar framkvæmdir í náttúrunni að jöfnu við landspjöll.  Það viðurkennir ekki afleiðingar stefnu sinnar, sem Þórður Gunnarsson telur þarna upp. Þvert á móti setur það á langar ræður um, að enginn, nema fjárfestirinn, tapi á að leggja starfsemi hans niður.  Veruleikafirringin knýr þetta fólk áfram og tálmar því sýn.  Það lifir í eigin heimi, útópíu, sem enginn verður feitur af. 

"Í ljósi alls þessa sætir furðu, að verkalýðsforystan á Íslandi [t.d. ASÍ - innsk. BJo] beiti sér ekki meira í þessari umræðu.  Þeir, sem segjast standa í stafni lífsgæðabaráttu verkafólks, ættu að vera fremst í flokki þeirra, sem knýja á um aukna uppbyggingu orkuframleiðslu og iðnaðar. 

Skýringin á afstöðuleysi flestra verkalýðsleiðtoga, sem jafnan veljast úr hópi vinstri manna, er sú, að helzti fararmáti vinstri stefnu á síðast liðnum þremur áratugum hefur verið í formi umhverfis-eða landverndarstefnu.  Enda var ekkert annað hægt en að markaðssetja vinstri stefnu undir nýjum formerkjum í kjölfar þess, að efnahagsstefna sósíalismans beið skipbrot fyrir um 3 áratugum."

Hérlendis stóð Alþýðuflokkurinn (jafnaðarmenn) með Sjálfstæðisflokkinum að kaflaskilum í iðnvæðingu landsins og virkjun fallvatna til að knýja þennan iðnað og aðra starfsemi í landinu ásamt heimilunum. Síðan hefur reiðfærið ekki staðið á vinstra liðinu til atvinnuuppbyggingar af neinu viti.  Öðru vísi hefur þessu verið háttað á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð, þar sem sósíaldemókratar (jafnaðarmenn) studdu jafnan gerð virkjana í ánum til að knýja orkusækinn iðnað í hinum dreifðu byggðum. 

Vegna þeirra sinnaskipta vinstri manna, sem Þórður Gunnarsson lýsir þarna, eru þeir rótlausir, vita vart sitt rjúkandi ráð, en stunda lýðskrumsstjórnmál til að fiska óánægjufylgi, sem kann að reka á fjörur þeirra. Síðan eru auðvitað gjalda- og skattahækkanir viðvarandi kliður hjá þeim og þar með útþensla opinbera geirans, en að hlúa að verðmætasköpuninni, sem öll verður til í fyrirtækjum landsins, fer fyrir ofan garð og neðan í loftslagsjapli og landverndarstagli. 

Samorkumenn-7-11-2012-StraumsvikAflmestu spennar landsins   

 

    


Bloggfærslur 3. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband