Steinrunnið afturhald

Nú berast fregnir af því, að afturhaldsflokkurinn Samfylking njóti nokkurs framgangs í skoðanakönnunum.  Það er einungis til merkis um, að nýjum formanni þessa "jafnaðarflokks" hafi tekizt að villa á sér heimildir og kasta ryki í augu fólks.  Bankadrottningunni og flokkinum hennar má þó aðeins líkja við gamalt vín á nýjum belgjum, enda hefur stefnumiðinu um að troða Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB) og að gera evru að lögeyri hér alls ekki verið kastað fyrir róða.  Það er bara búið að breiða yfir það.  Í þessum pistli má sjá, hvernig ábyrgðarleysi og sérhagsmunadekur Samfylkingarinnar skín í gegnum gerðir hennar, þar sem hún er við völd. 

Skýrust merki um stjórnarhætti Samfylkingarinnar birtast í Reykjavík, þar sem hún hefur haft mótandi áhrif á borgarstjórn megnið af þessari öld.  Afleiðingarnar eru ótrúlegar, enda bæði skelfilegar og skammarlegar.  Fjárhagur borgarinnar er í rúst, enda fer lánstraust hennar minnkandi, og fjárfestingargeta hennar hefur ekki verið minni í manna minnum. Samt hefur borgarsjóður blóðmjólkað mjólkurkú sína, OR (Orkuveitu Reykjavíkur), með þeim hroðalegu afleiðingum, að fjárfestingar samstæðunnar hafa verið í lágmarki, enda hefur jarðfræðingurinn á stóli forstjóra samstæðunnar margtekið fram, að engra nýrra virkjana sé þörf. 

Viðhaldi virðist ekki vera sómasamlega sinnt heldur, þannig að umhirða þessarar mjólkurkýr borgarinnar virðist vera í skötulíki.  Forstjóri dótturfélagsins, ON, tekur í sama streng og kveður óráðlegt, að Veitur (annað dótturfyrirtæki) geti fengið heitt vatn til að anna álagstoppum. Þetta er skammarlegt sjónarmið og sýnir fyrirlitningu meirihluta stjórnar OR og borgarstjórnar (les Samfylkingar) á þörfum borgarbúa og annarra viðskiptavina þessa fyrirbrigðis.  Það kom líka á daginn í vetur, að bilun varð í Hellisheiðarvirkjun, þegar mest lá við, svo að loka varð öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu í nokkra daga vegna skorts á heitu vatni.  Þetta er dæmi um óstjórn Samfylkingarinnar, þar sem hún nær að setja mark sitt á stjórnarhættina.

Annað svið borgarmálanna, sem varpar ljósi á jaðareðli sérvitringa Samfylkingarinnar, sem hiklaust fórna hagsmunum almennings fyrir sérhagsmuni jaðarhópa á borð við Samtök um bíllausan lífsstíl.  Þetta andframfarasinnaða eðli Samfylkingarinnar gerir hana óstjórntæka, enda sjáum við til hvers stjórnarhættir hennar hafa leitt í Reykjavík. Stjórnkerfi borgarinnar er óstarfhæft, og engin framfaramál á döfinni þar.  Borgarlínan (Sorgarlínan) er hrottalega illa ígrunduð fjárfesting, sem verða mun fjárhag borgarinnar og nágrannasveitarfélaga myllusteinn um háls, því að hún mun ekki draga að sér marktækt hlutfallslega fleiri farþega en núverandi Strætó eða 4 %. Þrátt fyrir sérreinar á miðju, hentar ekki þessi samgöngumáti fleirum. Það vita flestir, en troða á fíflaganginum upp á fjöldann.  Sú mun þó ekki verða raunin.

  Nú er verið að skipuleggja borgina með hliðsjón af Sorgarlínu.  Við Snorrabraut er ætlunin að reisa fjölbýlishús án bílastæða á lóð ÓB á mótum Snorrabrautar og Egilsgötu.  Þar yrði upplagt fyrir starfsfólk Landsspítala að búa, ef það gæti komið bíl sínum eða bílum einhvers staðar fyrir. Þegar kemur að því að selja þessar íbúðir, mun koma í ljós, hvað hefst upp úr því að skipuleggja borg fyrir þarfir, sem eru ekki fyrir hendi hjá almenningi. 

Þann 21. desember 2022 birtist frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

  "Ekki raunhæft að flýta Sundabraut".

Hún hófst þannig:

"Það er mat Reykjavíkurborgar, að ekki sé raunhæft að flýta framkvæmdum við Sundabraut.  Þær geti ekki hafizt fyrr en árið 2026, eins og áætlanir geri ráð fyrir.  

Þetta kemur fram í umsögn borgarinnar til Alþingis við þingsályktunartillögu Eyjólfs Ármannssonar og annarra þingmanna Flokks fólksins um, að gerð Sundabrautar með brú [á] milli Kleppsvíkur og Gufuness verði hraðað eftir fremsta megni og framkvæmdir hafnar hið fyrsta [eða] eigi síðar en fyrir árslok 2023.  Framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr [sic ! fyrir árslok eða fyrr er merkingarlaus tvítekning-innsk. BJo]."  

Sundabraut verður mikið framfaraskref til að létta á umferð í Ártúnsbrekku og um Mosfellsbæ.  Ef ekki mundi ríkja afturhaldsstjórnarstefna í borgarstjórn, hefði hún tekið vel í þessa þingsályktunartillögu, en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Samfylkingin eiga sér ömurlega sögu í meðhöndlun sinni á Sundabraut, sem hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni, enda kom eftirfarandi fram í umræðunni:

"Umsögnin var tekin til umræðu á fundi borgarráðs, sem haldinn var 15.12.2022.  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, lögðu fram svohljóðandi bókun:

"Undirbúningur vegna lagningar Sundabrautar er orðin ein mesta sorgarsaga samgöngumála á Íslandi.  Frá árinu 2010 hafa borgarstjórnarmeirihlutar undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka gripið til margvíslegra ráða til að tefja framgang verkefnisins og leggja steina í götu þess.  Smáhýsi hafa verið byggð á fyrirhuguðu vegstæði brautarinnar, vildarvinum úthlutað fjölbýlishúsalóðum mun nær umræddu vegstæði en ráðlegt er, sem og landinu undir heppilegustu tengingu brautarinnar við Sæbraut.  Þannig má áfram telja, og virðist það vera stefnumál vinstri flokkanna í borgarstjórn að koma í veg fyrir, að Sundabraut verði að veruleika. Fyrirliggjandi umsögn ber það með sér, að borgaryfirvöld hyggist halda áfram að tefja lagningu Sundabrautar með öllum ráðum.  Ekki kemur á óvart, að fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar, styðji áframhaldandi tafir vegna Sundabrautarverkefnisins, enda hafa þær verið hluti af samgöngustefnu þessara flokka um árabil. Það kemur hins vegar á óvart, ef áðurnefndum flokkum tækist að fá fulltrúa Framsóknarflokksins með sér í þá vegferð að halda tafaleikjunum áfram og spilla þannig enn frekar fyrir þessu þarfa verkefni."

Í sögu Sundabrautarverkefnisins birtist ljóslega afturhaldseðli Samfylkingarinnar.  Þarna er um að ræða framfaramál fyrir tengingu höfuðborgarinnar í norðurátt, sem mun stuðla að styttingu ferðatíma, eldsneytissparnaði og minni losun og létta stórlega á umferðarþunga um Mosfellsbæ.  Þetta innsiglar Reykjavík og nágrannabæina, Kjalarnes, Kjós og Akranes, sem eitt  atvinnusvæði. Samfylkingin hefur sannað afturhaldseðli sitt og útúrboruhátt með því að leggjast í skæruhernað gegn þessu verkefni, eins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tíunda hér að ofan, og hinn hlálegi "breytingaleiðtogi" Framsóknar reynist Degi leiðitamur og er teymdur á asnaeyrunum út í forað bíllausa lífsstílsins, sem er hjartans mál Samfylkingarinnar.  Flestir hvorki geta né vilja tileinka sér bíllausan lífsstíl.  Sérvitringarnir í borgarstjórn hafa látið teikna nokkur hús í borginni án nokkurs bílastæðis fyrir íbúana, nú síðast fjölbýlishús við Snorrabraut, af því að þar verði "hágæðasamgönguvalkostur", líklega "Sorgarlínan". Það á síðan að tefja umferðina enn meir í Reykjavík og auka á mengunina með því að helminga flutningsgetu Snorrabrautar.  Þetta er algerlega glórulaust og gegn hagsmunum almennings á höfuðborgarsvæðinu.  Allt sýnir þetta, að Samfylkingin er ábyrgðarlaus og þar af leiðandi óstjórntækur stjórnmálaflokkur.  

 

 

 


Bloggfærslur 27. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband