Nær er að aðlagast hitastigshækkun

Óumdeilt er, að hitastig gufuhvolfsins hækkar, en þó er deilt um, hversu mikið og af hvaða völdum. Hitastigsmælingar gervihnatta frá um 1980 til þessa dags sýna mun minni hitastigshækkun að meðaltali í andrúmsloftinu en Loftslagsnefnd SÞ, IPCC, heldur fram, og fyrri hitastigshækkanir, sem eru meiri en núverandi, hafa örugglega ekki orðið af völdum hækkandi styrks koltvíildis í andrúmsloftinu.  Það sýna rannsóknir á borkjörnum. Mælingar háðar skekkjuvöldum við yfirborð jarðar og skrýtin áherzla á eina gróðurhúsalofttegund ásamt sleggjudómum og afar vafasömum framreikningum gera IPCC svo ótrúverðuga, að líkja má við áróðursstofnun.  

Þegar hitastig hækkar á jörðunni, eykst uppgufun, og raki er öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2, svo að áhrifin magnast.  Núna ganga yfir jörðina áhrif El Nino-sjávarstraumsins í Kyrrahafi, sem veldur öfgum í veðurfari víða á jörðunni og hækkun lofthitans.  Núverandi El Nino er sterkur, svo að árin 2023-2024 gætu slegið hitastigsmet.

Fé, sem varið er til að draga úr losun CO2 með lélegum tæknilausnum, eins og vindknúnum rafölum, er illa varið.  Þótt öll CO2 losun manna yrði stöðvuð núna fyrir töfra, héldi hitastigið samt áfram að hækka næstu áratugina vegna aukinnar vatnsgufu í andrúmsloftinu.  Fénu yrði mun betur varið til að aðlaga þjóðirnar að hitastigshækkun með tæknilegum ráðstöfunum og varnarmannvirkjum. 

Þessi er t.d. boðskapur Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus, sem er afar gagnrýninn á ráðleggingar IPCC og loftslagskirkjunnar (margra fjölmiðla, stjórnmálamanna, embættismanna og stofnana).  Efir Björn birtast iðulega athyglisverðar greinar í Morgunblaðinu, og ein þeirra kom fyrir sjónir lesenda 5. september 2023:

"Ósagða samhengið í orðræðu um hamfarahlýnun":

"Hitabylgjur verða greinilega verri vegna hlýnunar jarðar.  En ofmettuð fjölmiðlaumfjöllun um háan hita á sumrin segir ekki söguna í heildarsamhengi.  Dauðsföll af völdum hitastigs eru yfirgnæfandi vegna kulda.  Nýleg rannsókn Lancet dregur fram í niðurstöðum sínum, að 4,5 M/ár dauðsfalla tengist kulda, sem er nífaldur fjöldi dauðsfalla vegna hita á heimsvísu.  Rannsóknin leiðir einnig í ljós, að hitastig, sem hefur hækkað um 0,5°C á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, hefur valdið því, að 116 k fleiri létust árlega vegna hita en fyrir þetta tímabil [hlýnunar um 0,5°C - innsk.BJo].  En hlýrra loftslag veldur því líka, að 283 k færri látast vegna kulda á ári hverju.  Að segja einungis frá því fyrrnefnda gerir okkur illa upplýst." 

Samkvæmt þessu er kuldi á jörðunni miklu erfiðari viðfangs fyrir mannkynið en hiti.  Hækkað hitastig andrúmslofts er að mörgu leyti hagfelld þróun, en felur líka í sér ógnir.  Í stað þess að verja miklum fjármunum til óskilvirkra ráðstafana til að draga úr losun CO2, er miklu nær að hefja markvissar aðgerðir til undirbúnings þess að verjast neikvæðum afleiðingum hitastigshækkunar, t.d. flóðvarna vegna hækkandi sjávarstöðu.  

"Jafnvel þótt öll metnaðarfullu loforð heimsins um kolefnissamdrátt yrðu sett í framkvæmd fyrir tilstilli einhverra töfra, myndu þessar aðgerðir einungis hægja á hlýnun í framtíðinni.  Sterkari hitabylgjur mundu samt drepa fleiri, bara aðeins færri en án þeirra [aðgerðanna]. Skynsamlegri viðbrögð mundu aðallega snúast um seiglu og viðnámsþrótt, sem kallar á meiri loftkælingu og kaldari borgir með lausnum tengdum gróðri og vatni [öndvert við þéttingu byggðar - innsk. BJo].  Eftir skynsamlegar úrbætur, sem voru innleiddar í Frakklandi eftir hitabylgjurnar árið 2008 og innifólu m.a. skyldu til loftkælingar á hjúkrunarheimilum, fækkaði dauðsföllum af völdum hita niður í 1/10 af því, sem var fyrir breytingarnar þrátt fyrir hækkandi hitastig."

 Það er óhjákvæmilegt að hefja þessar aðlögunarframkvæmdir strax.  Á Íslandi munu þær ekki þurfa að snúast um að verjast hita, heldur sjávarflóðum og skriðuföllum af völdum stórrigninga, eins og dæmin sanna. Það er ekkert vit í, að yfirvöld setji landsmönnum svo háleit losunarmarkmið, að tæknistigið og innviðauppbygging geri ókleift að ná þeim.  Afleiðingin af slíkri vitleysu er skerðing samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem dregur úr getu þeirra til raunlaunahækkana og arðgjafar. Fyrirtækin þurfa þá að greiða stórfé fyrir losunarheimildir koltvíildis, og þessu fé yrði bezt varið í mótvægisaðgerðir gegn afleiðingum af óhjákvæmilegri hlýnun. 

Hlýnunin verður að hafa sinn gang, enda gerir hún ekki annað en að tefja fyrir innreið óhjákvæmilegs kuldaskeiðs og ísaldar, sem sagan sýnir, að er hið ríkjandi ástand á jörðunni.  Í hræðsluáróðri IPCC og Landverndar er aldrei minnzt á þessar jarðsögulegu staðreyndir, en öllu púðrinu eytt á gastegundina CO2, sem er varasöm ofeinföldun á loftslagsfræðunum. 

"Samhliða metum í hitastigi bárust skelfilegar myndir af skógareldum á forsíðum í sumar.  Auðveldlega væri hægt að fá það á tilfinninguna, að öll plánetan stæði í björtu báli.  Raunveruleikinn er samt sá, að frá því, að gervihnettir NASA byrjuðu að skrá elda nákvæmlega á öllu yfirborði jarðarinnar fyrir 2 áratugum, hefur orðið umtalsverð fækkun skógarelda.  Í upphafi 20. aldar brunnu 3 % af flatarmáli heimsins á hverju ári.  Á síðasta ári [2022] brunnu 2,2 % af flatarmáli heims, sem er nýtt lágmark.  Samt yrði vandkvæðum háð að finna fréttir af því nokkurs staðar."

Það væri óskandi, að fleiri fjölmiðlar en nú settu atburði í samhengi, eins og Björn gerir hér, í stað þess að mála ástandið svo dökkum litum, að almenningur dragi þá ályktun, að allt sé að fara fjandans til.  Það er ómetanlegt, að Björn Lomborg skuli óhræddur birta niðurstöður sínar, sem eru í andstöðu við hræðsluáróðurinn, sem rekinn er ýmist í einfeldni eða af annarlegum ástæðum, oft til að afla opinberra styrkja í einhver háfleyg verkefni. Það hlýtur óneitanlega að koma mörgum í opna skjöldu, að skógareldar fari nú minnkandi í km2 talið.

  Fréttastofur hafa tilhneigingu til að matreiða atburði í æsifregnastíl og að kynda undir þá tilfinningu, að allt stefni nú á versta veg, t.d. vegna mikillar koltvíildislosunar. Það er alls ekki svo. Hlýnun jarðar hefur bæði kosti og galla. 

"Flóð eru á sama hátt reglulega rakin til hlýnunar jarðar.  Nýjasta skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna [SÞ] hefur hins vegar "lítið traust til almennra yfirlýsinga um, að rekja megi breytingar á flóðum til loftslagsbreytinga af manna völdum".  Sérfræðingarnir leggja áherzlu á, að hvorki ár- né strandflóð séu nú tölfræðilega greinanleg frá bakgrunnshávaða náttúrulegs loftslagsbreytileika.  Reyndar kemst nefnd Sameinuðu þjóðanna að því, að slík flóð verði ekki tölfræðilega greinanleg í lok aldarinnar [21.], jafnvel þótt gengið væri út frá svörtustu framtíðarsýn."

Það var og.  Fyrirbrigðið El Nino og La Nina hafa verið við lýði í þúsundir ára og alltaf bætt í öfgar veðurfarsins.  Þess vegna greinir tölfræðin enga breytingu núna á flóðamynztrinu. Allt annað mál er mannlegur harmleikur í Norður-Afríku, þegar manngerð og viðhaldslítil stífla brestur og tekur af heilan bæ vegna þess, að yfirvöld flutu sofandi að feigðarósi, þar sem vitað var um bresti í stíflunni og veðurfræðingar höfðu varað við steypiregni.  Þar sem rotið miðaldastjórnarfar ríkir, er allt unnið fyrir gýg.  

"Þótt hamfarahlýnunarboðskapurinn nái nýjum hæðum skelfingar og yfirlýsingar aðalritara SÞ um, að "heimurinn sjóði", séu komnar á svið fáránleikans, þá er raunveruleikinn ekki alveg svo skáldlegur. 

Hlýnun jarðar mun valda kostnaði, sem jafngildir einni eða tveimur efnahagskreppum, það sem eftir lifir af þessari öld.  Það er það, sem gerir hana að raunverulegu vandamáli, en ekki að að því heimsendastórslysi, sem réttlætir kostnaðarsömustu mótvægisaðgerðirnar, sem hægt er að finna." 

Um aðalritara SÞ gildir, að öfgamálflutningur hans er marklaus, því að hann hefur hrópað svo oft úlfur, úlfur, þótt enginn komi úlfurinn.  Að tala um, að heimurinn brenni núna er rangt, því að brunar af völdum hita og þurrka eru minni núna en áður og samtala dauðsfalla í heiminum af völdum hita og kulda fer lækkandi.  Auðvitað eru staðbundin vandamál af völdum öfgakennds veðurfars, en þær öfgar eru eldri en frá þeim tíma, er verulegrar aukningar á styrk CO2 í andrúmslofti tók að gæta.  

Efnahagssamdráttur og minni hagvöxtur í einni efnahagskreppu er óljós stærð, hvað þá í tveimur, en það má gizka á, að þetta nemi um 20 % af VLF.  Á Íslandi er þetta e.t.v. lægra, nema hér verði kólnun af völdum kaldari sjávar vegna jökulbráðnunar, en annars staðar getur kostnaður hlýnunar orðið meira en 20 % VLF.  Heimurinn virðist hafa valið orkuskipti sem aðalleið til að draga úr losun koltvíildis, en orkuskipti eru víðast hvar torsótt, því að heppilega tækni vantar þar til að framleiða rafmagn án tilstyrks kolefniseldsneytis. 

Svo er þó ekki á Íslandi, þótt úrtöluraddir haldi því fram.  Vilji er allt sem þarf.  Hins vegar vantar heppilega tækni í orkuskipti stórra farartækja og stórra véla.  Á Íslandi eru orkuskipti, þar sem tæknin er fyrir hendi, þjóðhagslega hagstæð, því að betri nýtni fæst með raforku á rafgeymum en úr jarðefnaeldsneyti til að knýja fjölskyldubílinn, og gjaldeyrir vegna eldsneytiskaupa sparast. Orkuskiptin á Íslandi munu bæta hag almennings.   

 


Bloggfærslur 1. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband