Borgarlínan er gróft yfirskot stjórnmálamanna

Það hefur lengið ljóst verið, að forræðishyggju stjórnmálamenn hefa tekið kolrangan pól í hæðina, þegar þeir mótuðu borgarlínuverkefnið.  Samfylkingin leiddi þá vegferð alla af ótrúlegri kreddufestu og án nokkurs tillits til faglegrar verkefnisstjórnunar, sem vanalega hefst með kerfisbundinni þarfagreiningu. Lélegir stjórnendur í hópi stjórnmálamanna þekkja ekki sín takmörk og eru nógu dómgreindarlitlir til að þiggja léleg ráð, sem ekki henta umbjóðendum þeirra, borgurunum. Ráðslag Samfylkingarinnar í höfuðborginni ætti að verða öllum landsmönnum víti til varnaðar. 

Ekki vantar, að stjórnmálamennirnir, sem í hlut eiga, hafi leitað á vit erlendra borga um fyrirmyndir, en vitið er nú ekki meira en það, að þeir kunna ekki að leita sér fyrirmynda af hóflegri stærð.  Það er þyngra en tárum taki að búa við svona skyni skroppna leiðtoga.  Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, velkist ekki í vafa um, hvert ber að leita um fyrirmyndir fyrir hraðvagnakerfi höfuðborgarsvæðis Íslands og hvert ekki.  Fyrir þessu gerði hann skilmerkilega grein í Morgunblaðsgrein, 3. október 2023.  Ef ráðamenn mundu leita ráðgjafar Þórarins, mundu þeir ekki fara í geitarhús að leita ullar.  Hann veit nákvæmlega, hvað hann er að tjá sig um, alveg öfugt við gasprara borgarlínunnar. 

Þórarinn kom að kjarna málsins með fyrirsögn greinarinnar:

"Reykjavík er ekki milljónaborg".

"Nýlega fóru borgarfulltrúar í kynnisferð til Seattle og Portland, sem báðar eru milljónaborgir á vesturströnd BNA.  Íbúafjöldi á Seattle-svæðinu er rúmlega 4 M og Portland-svæðisins um 2,5 M.  M.v. aðstæður tel ég, að samgönguáætlanir borganna séu ágætar út af fyrir sig.  Hins vegar geta þær engan veginn verið fyrirmynd fyrir Reykjavík eða höfuðborgarsvæðið." 

Að borgarfulltrúar illa stæðrar Reykjavíkur séu að láta borgarbúa kosta undir sig ferðir, sem eru dæmdar til að verða erindisleysa, því að téðir áfangastaðir eru allt of fjölmennir til að geta veitt borgarfulltrúunum raunhæfa fyrirmynd fyrir höfuðborgarsvæðið á Íslandi, er forkastanlegt. Sú staðareynd, að þessir 2 staðir skyldu verða fyrir valinu hjá ferðaglöðum borgarfulltrúum sýnir, að þeir eru algerlega utan gátta um þarfir Reykjavíkur og kærulausir um meðferð fjár borgarbúa. Að láta viðvaninga af þessu tagi móta stefnuna í umferðarmálum, er vonlaus aðferðarfræði, sem býður hættunni heim.  Hjá Vegagerðinni er mikil þekking fyrir hendi, og hún er með tengingar þangað, sem ekki er farið í geitarhús að leita ullar, eins og í tilviki stjórnmálamannanna. 

"Í Seattle, vinaborg Reykjavíkur, búa tæplega 800 k manns, og er hún fremur þéttbyggð af bandarískri borg að vera eða um 2,5 k íb/km2.  Byggðin er langþéttust í miðborginni, og í gegnum hana liggur Interstate 5 hraðbrautin (I-5).  Um hana aka allt að 270 k bílar á sólarhring.  Umferðarástandið er mun erfiðara en á höfuðborgarsvæðinu.  Vegna þrengsla er ekki raunhæft að breikka hraðbrautina og ekkert rými fyrir nýja hraðbraut til að auka afköst.  Samgönguyfirvöld á Seattle-svæðinu sáu sér þann kost vænstan að leggja til, að hafið yrði átak í uppbyggingu almenningssamgangna. Árið 2016 var því samþykkt að stækka léttlestakerfi Seattle upp í tæplega 200 km.  Kostnaðaráætlun hljóðar upp á um mrdISK 9400 á verðlagi 2023.  Til að ráða við þennan mikla kostnað þurfti að hækka bifreiðagjöld, fasteignaskatta og söluskatt á svæðinu.  Vandamál vinaborganna virðast ólík."

Viðangsefni Seattle og aðstæður eru svo gjörólík viðfangsefnum og aðstæðum Reykjavíkur í samgöngumálum, að engum heilvita Reykvíkingi ætti að detta í hug að fara þangað til að læra af þeim að leysa umferðarhnúta. Stærðarmunurinn er allt of mikill til þess, og þar hamlar plássleysi lausnum, sem gætu aukið afkastagetu gatnakerfisins. Á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar mikið svigrúm fyrir hendi til að fjölga akreinum og til að reisa mislæg gatnamót.  Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er algerlega úti að aka og er engan veginn í stakk búinn til að leysa eitt eða neitt. 

"Borgin Eugene í Oregon er líkari Reykjavík að stærð, og hefðu borgarfulltrúar e.t.v. átt að leggja lykkju á leið sína þangað.  Í Eugene búa um 175 k manns og um 270 k á borgarsvæðinu öllu, sem er svipað og á höfuðborgarsvæðinu." 

Þarna orðar Þórarinn þá nöpru staðreynd kurteislega, að borgarfulltrúar hefðu varið tíma sínum betur, ef þeir hefðu heimsótt borg af sambærilegri stærð og Reykjavík sem áfangastað, en hins vegar er nauðsynlegt að horfast í augu við það, að fólk, sem ekki getur einu sinni valið sér gagnlegan stað til að kynna sér, er alveg vonlaust, að geti gagnast umbjóðendum sínum, kjósendunum, með nokkrum vitrænum hætti.   Kynnisferðir þessa fólks eru hrein sóun á fé Reykvíkinga.

"Á tímabilinu 2007-2017 voru teknar í notkun 3 hraðvagnaleiðir [á Eugen svæðinu], samtals rúmlega 30 km.  Þrátt fyrir það fækkaði farþegum með almenningssamgöngum á tímabilinu 2009-2018 um u.þ.b. 10 %, þótt íbúum hefði fjölgað um 6 %.  Reyndar fjölgaði farþegum á hraðvagnaleiðunum vegna aukinnar ferðatíðni, en fækkaði þeim mun meira á hefðbundnum strætóleiðum. 

Nú eru samgönguyfirvöld á Eugene-svæðinu komin með báða fætur niður á jörðina.  Í nýrri samgönguáætlun fyrir svæðið, sem nær til ársins 2045, er ekki gert ráð fyrir fjölgun hraðvagnaleiða í hæsta gæðaflokki.  Í áætluninni er einungis gert ráð fyrir fjárveitingu upp á um mrdISK 20 í uppbyggingu innviða fyrir almenningssamgöngur.  Það er um 1/30 á hvern íbúa m.v. Seattlsvæðið."

Þarna varpar Þórarinn Hjaltason ljósi á einn helzta áhættuþátt borgarlínuverkefnisins, sem er tekjuhlið borgarlínu, þ.e. hversu mikil aðsókn veður að henni.  Íslendingar eru ekki strætóþjóð.  Það er ekki endilega genalægt, heldur stafar af rysjóttu tíðarfari hérlendis og miklum önnum á heimilunum, þannig að fólkið er tímabundið.  Þess vegna er líklegt, að sömu tilhneigingar muni gæta á höfuðborgarsvæðinu hér og í Eugene, eftir að hraðvagnakerfið hér verður tekið í notkun, að heildarfækkun eigi sér stað á meðal viðskiptavina strætó.  Þar með renna allar vonir borgarfulltrúa meirihlutans um fjölgun viðskiptavina út í sandinn, og fjármunum hefur verið kastað á glæ við uppbyggingu borgarlínunnar, og hún verður óbærilegur baggi á rekstri borgarsjóðs og hinna  sveitarsjóðanna á höfuðborgarsvæðinu, sem þátt taka í þessu ljóta ævintýri. 

Enn er hægt að snúa af þessari fjárhagslegu hættubraut og velja í staðinn mun ódýrari umbót á almenningssamgöngunum með viðbótar akrein hægra megin og hraðvagnakerfi þar.  Fyrir viðskiptavini Strætó er þessi kostur sambærilegur að gæðum, og aðgangseyririnn getur orðið lægri en í ofurstrætóinn, og fyrir skattborgarana og fjárhag allra opinberra sjóða, sem við sögu koma, er hér um yfirburðakost að ræða.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband