Mátt náttúruvalsins má ekki vanmeta

Landssamband veiðifélaga og náttúruverndarsamtök hafa lengi þann steininn klappað, að íslenzkum laxastofnum stafi bráð hætta af kynblöndun við norskættaðan eldislax.  Þessi fullyrðing er ímyndun ein og alls ekki reist á neinni erfðafræðiþekkingu eða reynslu af sambærilegum aðstæðum erlendis, eins og glögglega kom fram í frétt Morgunblaðsins 09.10.2023, þar sem viðtal var tekið við Ólaf Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum í Hjaltadal.

Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því uppnámi, sem verður í hvert skipti, sem fréttist af, að lax hafi sloppið úr eldiskvíum á Vestfjörðum eða Austfjörðum.  Ef það er umhyggja fyrir náttúrunni, er sú umhyggja reist á misskilningi, því að engin önnur próteinframleiðsla á Íslandi, og þótt víðar væri leitað, kemst í samjöfnuð við laxeldið, hvað lítil umhverfisáhrif varðar, nýtni á hráefni og kolefnisspor.  Svo kallaðir umhverfisvinir skjóta sig í fótinn með því að beina spjótum að sjókvíaeldi og vinna gegn eigin stefnu.  Þannig fer fyrir ofstækisfólki, sem skeytir engu um vanþekkingu sína á málefnum, sem höfða til tilfinninga þess. 

 Svo er það Landssamband veiðifélaga.  Um það má hafa þau orð, að hæst bylur í tómri tunnu. Á meðan jafngegndarlausar veiðar eru stundaðar úr íslenzku laxastofnunum (allt að 2/3 drepnir árlega) og seiðasleppingar úr öðrum ám stundaðar, hafa þessi samtök ekki úr háum söðli að detta, en reyna að nýta sér allar neikvæðar fréttir af laxeldinu til að búa til blóraböggul úr þeirri starfsemi, sem gæti nýtzt þeim til að klína sök á minnkandi laxastofnum á aðra en þessa ábyrgðarmenn ánna.  Þola einhverjir fiskistofnar hærra en 2/3 veiðihlutfall til lengdar ? Þetta lið hefur gasprað um, að eldislax útrými villtum laxastofnum, en sá málflutningur er reistur á fávísi og misskilningi, eins og gerð er grein fyrir í þessum pistli.

Téð frétt bar fyrirsögnina:

"Villtir laxar sterkari en eldislax".

""Við þurfum að framleiða meiri mat, og það hefur umhverfisáhrif.  T.d. með því að framleiða lax með fiskeldi í sjókvíum.  Í okkar tilviki erum við að reyna að ala verðmæta tegund, eins og lax, en það hefur gengið upp og niður í [tímans rás].  Það var ekki fyrr en fyrir rúmum áratug, að hjólin fóru að snúast.  Fiskeldi hefur umverfisáhrif, en flestir reyna að draga úr þeim", segir Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum." 

 

Fiskveiðar í höfunum fara minnkandi, aðallega sökum ofveiði, og umhverfisspor kjötframleiðslu er hátt.  Mannkyni fer fjölgandi og af öllum þssum orsökum er mikil spurn eftir umhverfisvænu próteini.  Fiskeldið í heiminum reynir að mæta vaxandi eftirspurn, og verðið á eldislaxi hefur haldizt hátt eða um 1 kISK/kg.  Íslendingum gekk illa að fóta sig í greininni, en Norðmönnum tókst það fyrir rúmlega 40 árum og hafa fært út kvíarnar til Íslands með miklum fjárfestingum og þekkingaryfirfærslu.  Eru Vestfirðingar og Austfirðingar yfirleitt ánægðir með þetta samstarf, enda hefur það aukið fjölbreytni atvinnulífs á þessum svæðum, svo að um munar.   

"Náttúruverndarsinnar hafa varað við erfðablöndun íslenzkra og norskra laxa, einkum eftir slysasleppingu úr kví í Patreksfirði.  

"Það gerist af einhverjum klaufaskap eða handvömm.  Þar var mjög hátt hlutfall af löxum þar kynþroska.  Það á að vera hægt að koma í veg fyrir það með ljósastýringu.  Þetta er tjón hjá fyrirtækinu, því að kynþroska lax er annars flokks eða ónýt vara.  Það er eðli kynþroska laxa að ganga upp í ár, sem hann hefur verið að gera. Það má búast við, að hluti þessara fiska taki þátt í hrygningu með villtum löxum, sérstaklega hrygnurnar. Rannsóknir sýna, að hængarnir eru óvirkir eða lélegir þátttakendur í hrygningunni og verða undir í samkeppninni við náttúrulega laxastofna.""

 Einkenni "náttúruverndarsinna" er hræðsluáróðurinn, sem oftast er algerlega fótalaus og reistur á ímyndun einni saman.  Virðist þetta fólk ekki greina muninn á eigin tilbúna hugarheimi og raunheimi.  Þau vaða áfram og geipa í fjölmiðlum, eins og þau hafi höndlað stóra sannleika, en þegar betur er að gáð, er ekki flugufótur fyrir gasprinu.  Þetta eru falsfréttadreifarar, sem ekki dettur í hug að leiðrétta kúrsinn, t.d. í þessu tilviki með því að leita til Hólaskóla.  

""Ég trúi, að náttúruvalið muni henda þeim út.  Það er órökrétt, að dýr með skerta hæfni taki yfir vistkerfi hjá sömu tegund, sem hefur aðlagazt aðstæðum í þúsund ár eða lengur."

Hvernig stendur á því, að s.k. "náttúruverndarsinnar" reyna án nokkurs fræðilegs bakgrunns að kokka upp hverja vitleysuna á fætur annarri í algerri mótsögn við raunverulega reynslu og vísindalegar athuganir.  Það má vafalaust leita skýringa í sálarlífi þeirra, en oftar en ekki hræra einhverjir hagsmunaaðilar í viðkvæmu geðslagi og fávizku.  Veiðiréttarhafar kæra sig ekki um að verða settir undir vísindalegt veiðistjórnunarkerfi yfirvalda.  Skammsýnin er ríkjandi, en með gegndarlausri ofveiði verður hrun stofna villtra laxa í íslenzkum ám óhjákvæmilegt. 

"Dæmi um þetta séu t.d. frá Kanada.  "Þar var stór slepping á kynþroska laxi við Nýfundnaland í september 2023.  Hún var jafnstór og villti stofninn var metinn og talið, að um 50 % af klakfiski hafi gengið upp í árnar á svæðinu [um helmingur af fjölda villtra laxa í viðkomandi ám - innsk. BJo]. 

Það [urðu] til blendingar og bæði blendingsseiði og hrein eldisseiði, en þau hurfu nánast mjög hratt á fyrsta ári út úr vatnakerfinu.  Það tekur seiði nokkur ár að komast í sjógöngubúning, 3-5 ár á Íslandi, þannig að náttúruúrvalið lemur á þeim, og hinir hæfustu lifa af."" 

 Af þessari frásögn lektorsins sést, að lætin í atvinnumótmælendum, "náttúruvinum" og veiðiréttarhöfum út af 3500 eldislöxum utan kvía hérlendis á þvælingi aðallega austur með norðurströndinni eru gjörsamlega tilhæfulaus stormur í vatnsglasi.  Um þessi læti mætti segja: "maður, líttu þér nær".  Náttúran á Nýfundnalandi hristi af sér úrkynjaða eldislaxana og afkvæmi þeirra á mjög skömmum tíma.  Það er engin ástæða til að halda, að í íslenzkum ám ríki meiri jafnaðarstefna en í Kanada.  Hver er að hræra í einfeldningunum ?

"Fram hefur komið, að í 75 % laxveiðiáa í Noregi hafi fundizt merki um erfðablöndun villi- og eldislaxa.  Ólafur segir, að í yfir 80 % norskra laxveiðiáa sé erfðablöndun undir 4 %.  "Það eru engin dæmi um, að erfðablöndun hafi útrýmt laxastofnum í Noregi."

Hann nefnir nýja skýrslu NINA, norsku náttúrufræðistofnunarinnar, um laxveiðiá í Harðangri á mjög miklu eldissvæði, sem var orðin laxlaus í kringum 1970.  Ástæðan var súrt regn, sem eyddi meira en 25 laxastofnum í Suður- og Suð-Vestur Noregi.  

"Síðan gerðist það, að áin var kölkuð til að rétta af sýrustigið, og þá fóru að birtast þar laxar aftur úr nálægum ám og víðar að, en hlutdeild eldislaxins hefur farið minnkandi ár frá ári.  Fullyrðingin um, að eldislax útrými villtum laxi stenzt ekki.""

Fávísir og illviljaðir landar vorir úr hópi þeirra, sem ranglega kalla sig náttúruverndarsinna, hafa frétt það á skotspónum, að villtir laxastofnar væru útdauðir í nokkrum ám í Noregi, en þar væru aftur á móti eldislaxar.  Úr þessu verður svo tröllasagan um það, að úrkynjaður eldislax hafi rutt laxastofni nokkurra áa úr vegi.  Þetta er einhver heimskulegasti samsetningur, sem um getur.  Í raun var það brennisteinssýra, sem drap villtu laxana, þar sem mikill brennisteinn steig til himins frá orkuverum, iðjuverum og umferð á landi og hafi, sem svo skilaði sér niður sem súrt regn.  Nokkrir fréttamenn virðast hafa keypt þennan skáldskap ásamt hræðsluáróðrinum um, að íslenzku laxastofnunum stafi hætta af úrkynjuðum eldislöxum.  

Þegar "the usual suspects" hefja upp sinn mótmælasöng, er rétt að hafa varann á sér gagnvart "falsfréttum".

 

 


Bloggfærslur 17. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband