26.10.2023 | 13:12
Nauðsyn atvinnuvegaþekkingar á þingi
Svandís Svavarsdóttir er gott dæmi um þingmann, sem traðkar endalaust í salatinu, einkum klóri hann sig upp í ráðherrastól, þótt hann hafi hvorki þekkingu á né reynslu af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Stjórnsýsla Svandísar hefur reyndar tekið svo út yfir allan þjófabálk, að hún hefur verið kærð til Umboðsmanns Alþingis, sem hlýtur að fella yfir henni skýlausan áfellisúrskurð, svo skýr sem sök hennar er. Hún heimtar endalaust gegnsæi af öðrum, en verk hennar sjálfrar eru myrkraverk, sem þola ekki dagsljósið, eins og þegar hún samdi um verktöku af ríkisstofnun með ríkar rannsóknar- og sektarheimildir um að snuðra í því, sem henni kemur ekki við um innri mál sjávarútvegsfyrirtækjanna, og lét svo forstjóra þessarar ríkisstofnunar gera aumkvunarverða tilraun til að hylja slóðina til ráðuneytisins. Nú er spurningin, hvort Katrín láti vinkonu sína skipta um starf, þegar úrskurður kemur um alvarleg brot í starfi. Það er löngu þekkt, að siðferðisvitund vinstri fólks er brengluð af pólitísku rugli.
Dæmi um þingmann annarrar gerðar, sem tjáir sig um grunnatvinnuvegina af víðsýni og þekkingu, svo að til fyrirmyndar má telja, er Teitur Björn Einarsson. Hann hefur tjáð sig öfgalaust og af heilbrigðri skynsemi t.d. um sjávarútvegsmál og laxeldi. Málflutningur hans glóir sem gull af eiri í samanburði við lýðskrum og dellu um þessar atvinnugreinar frá sumum þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Þeir eru svo fjarstæðukenndir, að engu er líkara en þeir séu nýdotttnir ofan úr tunglinu og skilji alls ekki, til hvers atvinnugreinar eiga að vera.
Þann 7. október 2023 birtist ljómandi góð grein í Morgunblaðinu eftir Teit Björn undir fyrirsögninni:
"Verndun villtra laxa og sjókvíaeldis".
Hún hófst þannig:
"Sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum annars vegar og laxveiði hins vegar eru ekki slíkar andstæður, að eitt útiloki annað. Villta laxastofninum stafar einfaldlega ekki sú hætta af sjókvíaeldi, eins og fullyrt er nú í opinberri umræðu.
Slysaslepping í Patreksfirði í ágúst [2023] er engu að síður alvarlegt mál í ljósi þeirrar umgjörðar, sem stjórnvöld hafa skapað atvinnugreininni. Veigamiklir þættir í starfsemi fyrirtækisins, sem um ræðir, fóru augljóslega úrskeiðis. Krafan um raunhæfar úrbætur, þar sem þeim verður við komið á regluverki, eftirliti og verkferlum fiskeldisfyrirtækja, á því rétt á sér. Mikilvægt er að draga lærdóm af tilviki sem þessu og bæta úr með réttum hætti."
Það fæli í sér skammarlega uppgjöf gagnvart mikilvægu verkefni að slá því föstu, öfugt við allar aðrar þjóðir við norðanvert Atlantshaf, að laxeldi í sjókvíum á afmörkuðum svæðum við Ísland sé ósamrýmanlegt vexti og viðgangi villtra íslenzkra laxastofna. Lausnin er sú að beita vísindalegri þekkingu við báðar greinarnar. Það er gert nú í laxeldinu, og koma þarf böndum á laxveiðina í hverri á, þannig að laxastofnarnir verði nýttir með sjálfbærum hætti, og kjánalegum leik með líf og velferð laxanna, sem kallast að veiða og sleppa, verði hætt, á meðan stofnarnir hjarna við, en þeir eru núna í lægð, og kann veiðiálaginu að vera um að kenna, a.m.k. að nokkru leyti.
"En ef horfa á fyrst og fremst til verndunar villtra laxastofna, þá kemur líka margt annað til skoðunar en sjókvíaeldi. Fjölmargir þættir hafa áhrif á afkomu villtra laxa. Aðstæður í hafinu eru taldar ráða einna mestu um endurkomu laxa í ár, en á móti hefur sá þáttur ekki verið mikið rannsakaður. Veiði hefur líka áhrif á afkomu villtra stofna. Veiðiálag í laxveiðiám hefur samt ekki verið ofarlega á baugi áhyggjufullra stangveiðimanna eða áhrif þess að þreyta lax, háfa og meðhöndla fyrir myndatöku og sleppa svo aftur. Þá er heldur ekki mikið vitað um um áhrif og árangur af fiskrækt í mörgum laxveiðiám með árlegum seiðasleppingum."
Þarna er tekið á veiðiréttarhöfum og stangveiðimönnum með silkihönzkum, sem er ekki í samræmi við óvægna gagnrýni þeirra á laxeldi í nokkrum fjörðum landsins, þar sem frekjan hefur m.a. gengið svo langt, að krefjast banns á sjókvíaeldi við landið. Virðist sú krafa vera reist á kolrangri áhættugreiningu fyrir erfðablöndun eldislax og villtra laxastofna. Líkur á sleppingu kunna að hafa verið vanmetnar hingað til, en þess ber að gæta, að atvinnugreinin í núverandi mynd á Íslandi er ung og í lærdómsfasa. Landssamband veiðifélaga hefur hins vegar stórlega ýkt afleiðingar sleppinga. Þó að einhver erfðablöndun verði, verður hún skammæ, því að blendingar verða verr af guði gerðir en villtu fiskarnir og detta langflestir út úr lífskeðjunni á fyrsta ári.
Veiðiréttarhafar hafa engan siðferðilegan rétt á að stunda erfðabreytingar á fiskistofnum, sem fyrir eru í ám þeirra, a.m.k. ekki án samráðs við sérfræðinga Haf- og vatnarannsókna.
Þá er komið að veiðiálaginu. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að átta sig á því, að hlutfallslegt veiðiálag er margfalt meira en íslenzkir fiskifræðingar ráðleggja úr nytjastofnum á íslenzkum fiskimiðum. Gilda allt aðrar viðmiðunarreglur um íslenzka laxastofna eða stunda veiðiréttarhafar og veiðifélög helbera rányrkju á laxastofnunum ? Það er ekki einkamál þeirra, sem fara með nytjaréttinn, ekki frekar í ám og vötnum en í hafinu. Þess vegna er rétt að setja fiskveiðistjórnarlöggjöf um nytjar á vistkerfum áa og vatna á Íslandi.
"En talsmenn þrýstihópa á vegum stangveiðifélaga og náttúruverndarsamtaka eru komnir langt út í skurð á opinberum vettvangi með því að krefjast þess, að fiskeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum verði bannað. Við slíkan málflutning verður ekki unað, og er áróður þessara hópa í engu samræmi við þann vísindalega grundvöll, sem fiskeldi byggir á og það regluverk, sem sett hefur verið. Virðist meira vera barizt gegn sjókvíaeldi og lífsviðurværi fjölda fólks en fyrir verndun villtra laxa."
Hvernig samræmist það stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi í landinu að krefjast þess á opinberum vettvangi, að heil atvinnugrein verði lögð niður í landinu ? Er ekki réttmætt, að hagsmunaaðilar, sem þannig er sótt að, sæki viðkomandi, sem þessar hæpnu kröfur viðhafa, til saka fyrir dómstólum og heimfæri kæru með vísun til stjórnarskrárvarinna réttinda. Líklega gætu lögfræðingar líka heimfært slíka kæru til Evrópulöggjafarinnar (EES-samningsins).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)