7.10.2023 | 18:09
Borgarlínan setur umferðina á höfuðborgarsvæðinu í uppnám
Öllum, sem lesa málefnalegar og fróðlegar greinar Þórarins Hjaltasonar, samgönguverkfræðings, ætti undireins að verða ljóst, að borgarlína núverandi borgarstjórnarmeirihluta er algerlega óþarft yfirskot í verkefnavali og gersamlega misheppnuð leið til að leysa úr umferðarvandanum, þ.e. hættulegum gatnamótum og miklum töfum á annatímum. Ofurstrætó, miðjusettur í núverandi gatnakerfi, er allt of dýr aðferð til að fækka bílum í umferðinni, og Þórarinn Hjaltason hefur sýnt fram á, að fækkunin verður svo lítil, að ekkert munar um hana, þegar kemur að umferðartöfum. Auk fyrirsjáanlegs botnlauss taprekstrar á þessari útgáfu borgarlínu, mun hún tefja bílaumferðina alveg frá framkvæmdatíma og allan sinn rekstrartíma. Þegar af þeirri ástæðu er hún engin lausn.
Þórarinn Hjaltason ritaði grein í Morgunblaðið 15. september 2023 undir fyrirsögninni:
"Forsendur samgöngusáttmálans eru brostnar".
Hann lýsir þarna skoðun, sem vörzlumaður ríkissjóðs, fjármála- og efnahagsráðherrann, hefur tjáð vera sína í ræðu og riti. Síðan hafa ýmsir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu tekið í sama streng, svo að binda má vonir við, að ofan á verði tillaga samgönguverkfræðingsins Þórarins Hjaltasonar um vitræna framtíðarmiðaða lausn á vanda, sem segja má, að endurspeglist í allt of mörgum "þungum" ljósastýrðum gatnamótum. Þórarinn er gjörkunnugur umferðarlausnum erlendis og nefndi Stavanger, olíumiðstöð á SV-strönd Noregs:
""Borgarlínan" í Stavanger, "Bussveien", hefur verið ein helzta fyrirmyndin. "Bussveien" verður 50 km og umfangsmesta hraðvagnakerfi í Evrópu. Framkvæmdum við hluta af kerfinu er lokið, og fyrir 5 árum var áætlað, að kerfið myndi kosta um mrdISK 200, eða 4 mrdISK/km, sem var hátt í þreföldun á upphaflegri áætlun. Hver km hér verður e.t.v. eitthvað ódýrari. Hins vegar er reiknað með, að borgarlínan verði 60 km, þannig að búast má við, að heildarkostnaður verði af svipaðri stærðargráðu."
Þórarinn útskýrir ekki, hvers vegna hann telur, að einingarkostnaður hérlendis verði lægri en í Noregi. Er það venjan, að samgönguverkefni hérlend útheimti minni fjárfestingar en í Noregi. Það er hærra kostnaðarstig á Íslandi en í Noregi og má nefna vextina. Þessi bloggari mundi telja óráðlegt að reikna með lægra einingarverði hér en í Noregi, og þá stöndum við frammi fyrir mrdISK 240 fjárfestingarfé í borgarlínu og umferðartaföfum og hættuástandi í umferðinni, sem verða verri en fyrir borgarlínuframkvæmdirnar. Féð, sem fer í fjárfestingu borgarlínu, er þannig kastað út um gluggann, og fjárfestingin er þannig fullkomið glapræði í boði Samfylkingar, sem berst fyrir framgangi vitlausra hugmynda stjórnmálamanna af fullkominni þvermóðsku.
Fróðlegt væri, að Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, mundi afla sér upplýsinga um og birta, hvernig áætlanir hafa staðizt um aðsókn að "Bussveien", svo og rekstraráætlanir. Hversu mikill er hallareksturinn af "Bussveien", og hver greiðir hann ? Hversu marga íbúa spannar "upptökusvæði" "Bussveien", og bera síðan þann fjölda saman við "upptökusvæði" borgarlínu, gjarna einnig íbúafjölda "upptökusvæðis" á km2.
Það er ágætt að hafa í huga, þegar bolmagn Stafangurs og Reykjavíkur til dýrra og óarðbærra verkefna er borið saman, að Stafangur er olíuhöfuðborg Noregs og auðugur eftir því, en fjárhagur Reykjavíkur er í molum eftir áratug kratískrar óráðsíu og gæludýradekurs.
"Borgarlínan mun auka á umferðartafir, þar sem akreinum fyrir almenna umferð verður fækkað til þess að skapa sérrými fyrir hana, sérstaklega á umferðargötum, eins og Suðurlandsbraut og Laugavegi. Við þetta bætist, að flækjustig borgarlínuframkvæmda er slíkt, að seinka verður ýmsum brýnum vegabótum, t.d. mislægum gatnamótum á Reykjanesbraut við Bústaðaveg.
Borgaryfirvöld hafa dregið lappirnar í mörg ár, af því að meirihluti borgarstjórnar er á móti mislægum gatnamótum. Nú er komið á daginn, að jafnvel þótt borgaryfirvöld fallist á mislæg gatnamót þarna, verða þau ekki byggð fyrr en í fyrsta lagi samhliða framkvæmdum við Sæbrautarstokk, vegna þess að sérrými borgarlínu [á] milli Vogabyggðar og Mjóddar liggur um bæði mannvirkin. Árlegur kostnaður við umferðartafir á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar er meiri en mrdISK 1,0. Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu fara vaxandi, og áætlað hefur verið, að þær kosti um 30 mrdISK/ár. Það er því ljóst, að borgarlínan veldur því, bæði beint og óbeint, að árlegur kostnaður við umferðartafir verður nokkrum mrdISK meiri en ella [vegna borgarlínu].
Þetta er fullkomin falleinkunn fyrir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í meirihluta borgarstjórnar undanfarinn áratug. Þar á bæ hefur verið ákveðið að setja á oddinn samgönguverkefni (borgarlínu), sem er þjóðhagslega óarðbært, og það er eina verkefnið á höfuðborgarsvæðinu, sem er þjóðhagslega óarðbært. Rekstrarkostnaður ofurstrætó og hefðbundins strætós verður líklega alls um 50 mrdISK/ár, og þessum útgjöldum hafa sveitarfélögin þar einfaldlega ekki efni á, allra sízt Reykjavík, sem rekin er á rándýrum lánum, enda vantreysta lánadrottnar greiðslugetu borgarinnar. Þess vegna betlar borgarstjóri í ríkissjóði um að taka verulegan þátt í rekstrarkostnaði, en það er alls ekki hlutverk ríkissjóðs að borga fyrir gjörsamlega misheppnað gæluverkefni Samfylkingar, sem örfáir vilja nota, enda úrelt frá fyrsta degi.
"Samtökin "Samgöngur fyrir alla" (SFA) hafa lagt fram tillögu um svokallaða "létta borgarlínu", sem er miklu einfaldari, ódýrari og hagkvæmari. Nýjar forgangsakreinar verða byggðar, eins og hingað til hefur verið gert, þ.e. hægra megin vegar. Það er bæði miklu ódýrara í framkvæmd en miðjusett sérrými og truflar umferð minna á framkvæmdatíma, sjá nánar vefsíðu SFA, www.samgongurfyriralla.com.
Auk þess munu aðreinar og fráreinar nýtast á við forgangsakreinar, og þeim má sleppa, þar sem umferð er það greið, að vagninn tefst ekki. Lýsandi dæmi um slíka lausn er eystri akbraut Hafnarfjarðarvegar [á] milli Arnarnesvegar og Digranesvegar. Á morgnana ekur Leið 1 niður rampinn frá Arnarnesvegi. Í stað þess að aka inn á aðalakreinar Hafnarfjarðarvegar ekur strætó inn á forgangsakrein, þangað til hann blandast umferð, sem ekur frá Hafnarfjarðarvegi að Digranesvegi. Leið 1 kemst þannig auðveldlega fram hjá löngum biðröðum á Hafnarfjarðarvegi.
Síðast en ekki sízt má nýta flestar af núverandi forgangsakreinum, sem eru á borgarlínuleiðum. Akreinar léttu borgarlínunnar yrðu því bæði ódýrari á lengdareiningu og styttri en dýru borgarlínunnar."
Þegar Þórarinn, samgönguverkfræðingur, tjáir sig um borgarlínutengd verkefni, er auðvelt að skynja, að viðvaningar og/eða fúskarar við hönnun umferðarmannvirkja móta stefnuna hjá Reykjavíkurborg og Betri samgöngum. Borgaryfirvöld hafa að illa athuguðu máli hoppað á útfærslu, sem er tröllvaxin m.v. íslenzkar þarfir og aðstæður. Hún verður því óhjákvæmilega myllusteinn um háls íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ríkisvaldið, sem borgin ætlast til að borgi brúsann, verður að stöðva þessa vitleysu þegar í stað, en þar þvælist innviðaráðherra fyrir, því að flokksmaður hans fékk borgarstjórastólinn fyrir stuðning við endaleysuna. Það er vissulega spilling á háu stigi, þar sem Samfylking og Framsókn eru á bólakafi hrossakaupanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)