Gæluverkefni að breytast í martröð

Mikið hefur verið ferðazt og mikið hefur verið skrafað og skrifað um uppáhaldsgæluverkefni stjórnmálamanna alla þessa öld og reyndar frá Kyoto ráðstefnunni áratug fyrir aldamótin, þótt ekki sé traust land undir fótum um nákvæman þátt styrks koltvíildis í andrúmslofti á hlýnun jarðar. Snorri, goði, spurði á Alþingi, er fregnir bárust þingheimi um eldsumbrot á tíma þinghaldsins, er trúskipti í landinu voru til umfjöllunar: hverju reiddust goðin, er hraun það rann, er nú stöndum vér á.

Nú spyr afkomandi hans: hverju hafa sætt fyrri hlýskeið í sögu jarðar, þegar hitastig andrúmslofts náði hærri hæðum en núverandi lífverur á jörðunni upplifa, í ljósi þess, að rannsóknir sýna, að þá var koltvíildisstyrkur andrúmslofts miklu lægri en nú er eða svipaður og í upphafi iðnvæðingar (um 1750) ?

Það skyldu þó ekki vera önnur lögmál á ferðinni en lögmál Ångströms um gróðurhúsaáhrif gastegunda á borð við CO2 ?  Enginn efast um, að gróðurhúsaáhrif gastegundanna eru fyrir hendi, einna helzt H2O, en deilt er um, hversu mikil sú hlýnun raunverulega er, og er þá vísað til gervihnattamælinga (t.d. frá John Christi), sem sýna mun minni hlýnun en IPCC (Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna) belgir sig út með af mikilli vandlætingu yfir hegðun manna í sönnum loddarastíl. 

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa farið offari í skuldbindandi markmiðasetningum á alþjóðavísu, þótt Íslendingar hafi náð mun meiri árangri á sviði, þar sem tæknilega auðveldast hefur verið um vik, þ.e. orkusviðinu, þar sem um 85 % heildarorkunotkunar landsmanna er frá endurnýjanlegum orkulindum, sem losa lítið koltvíildi við notkunina.  

Tveir valinkunnir menn rituðu afar skýra og ítarlega grein um þessi efni í Morgunblaðið 4. nóvember 2023 undir fyrirsögninni:

"Heimsmet í hættu". 

Þar er með talnalegum rökum sýnt fram á skýjaglópsku íslenzkra stjórnmálamanna, sem tekið hafa gæluverkefnið "Baráttuna við hlýnun jarðar" upp á arma sér af fullkominni sýndarmennsku, því að þeir hafa sett landsmönnum með öllu óraunhæf markmið með þeim afleiðingum, að ríkissjóður mun þurfa að greiða risaupphæðir til fjölþjóðlegra stofnana (ESB) í sektir.  Hér hefur stjórnmálamönnum rétt einu sinni tekizt að forgangsraða með vitlausum hætti.  Þeir hafa ekki tekið tillit til þess, að tækniþróun og kostnaður samfara þessum orkuskiptum útiloka, að hægt verði að ná markmiðum þeirra, og rétt einu sinni hafa þeir látið flækja ríkiskassann í stórfelld útlát, sem landsmenn hafa ekki efni á. Síðan er sú einkennilega þversögn við lýði á stjórnarheimilinu, að sá stjórnarflokkanna, sem ákafastur er í vitleysunni, þ.e. að setja óraunhæf markmið og gorta af, leggst þversum gegn útvegun sjálfbærrar, innlendrar orku í stað jarðefnaeldsneytisins og flutningi hennar á milli landshluta. Með þessu skýtur forsætisráðherra sig í fótinn, en það er í stíl við aðra ósamkvæmni í pólitískum störfum hennar, sem er ný af nálinni í íslenzum stjórnmálum.  Þann skrípaleik virðast kjósendur þó ekki kunna að meta, og þarf engan að undra.  

Téð grein Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, og Egils Jóhannssonar, stjórnarmanns í SVÞ og Bílgreinasambandinu, hófst þannig:

"Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga, þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.

Stjórnvöld hafa undirgengizt alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands, sem nemur um 29 % árið 2030 m.v. stöðuna árið 2005.  Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55 % samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því, að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040.  Ef illa tekst til, blasa við allt að mrdISK 10 ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum, sem margfalda gjaldeyrisútstreymi."

 Hvað í ósköpunum gengur íslenzkum stjórnvöldum til að haga sér með svo óábyrgum hætti, sem þarna er lýst.  Áður en markmið eru sett, verður sá, sem á að ná markmiðinu, að hafa aðferðarfræðina, sem beita á til að ná markmiðinu, á hreinu.  Í tilviki stjórnvalda fórna þau mikilvægum stjórntækjum sínum við neyzlustýringuna áður en áratugurinn, sem skipta átti sköpum, er hálfnaður.  Ríkisvaldið hefur ekki haft nægilegt úthald við að ná markmiðinu til að nokkur von sé til, að það heppnist.  Hún flækir þar með landsmenn enn meir í gildru fjárhagskvaða, sem Evrópusambandinu mun þóknast að innheimta í fyllingu tímans.  Þetta er léttúðug stjórnsýsla.  

"Árið 2022 áttu 33 % af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna.  Í þeim flokki hefur losun aukizt með auknum efnahagsumsvifum.  Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar, þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin.  Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðizt í aðgerðir, sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum."

Menn sjá í hendi sér, hversu lélega leiðsögn stjórnvöld veita við að ná rándýrum loftslagsmarkmiðum þeirra, að á sviði, sem nemur þriðjungi losunar á beinni ábyrgð Íslands, höfum við fjarlægzt markmiðin, því að losun hefur aukizt, þrátt fyrir innflutning hreinorkubíla og bætta orkunýtni bíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti.  Nú eru stjórnvöld að gera fjölmarga afhuga hreinorkubílum í bílaviðskiptum 2024-2025 með því að auka bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað kaupenda hreinorkubíla 2024-2025.  Þannig skýtur ríkisstjórnin sig í fótinn og býður hættunni heim á stórútlátum í refsigjöld til ESB frá  2030. 

"Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum.  Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5 % af heildarfjöldanum.  Því er ljóst, að það þarf að gera enn betur.  Búast má við, að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 k ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 k talsins eða 32 %.  Líklegt er, að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 kt CO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15 % meiri en árið 2005, en ekki 55 % minni."

Þetta er átakanleg niðurstaða.  Hvernig datt Katrínu Jakobsdóttur og umhverfisráðherranum úr sama flokki í hug að vaða algerlega blint í sjóinn með það, sem þau voru að gera.  Þau geta auðvitað ekki reiknað dæmi af þessu tagi, en þau hafa örugglega ekki fengið neinn með viti til að gera það fyrir sig.  Eini hugsanlegi ráðgjafinn í þessum efnum er Landvernd, þar sem ráðherrann gegndi framkvæmdastjórastöðu áður en hann var dubbaður upp í stjórnarráð Katrínar. Hneisan verður alger fyrir yfirvöld, þegar þau kynna þessi ósköp innanlands og erlendis.  Það er bót í máli, að fyrir loftslagið skiptir þessi heimska engu máli, enda hafa eldgos 2020-2030 haft meiri áhrif en eldsneytisknúnir bílar á Íslandi á loftslagið á tímabilinu.     

 "Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn, og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti.  Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma, þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum.  Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða, sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja [á] hraða orkuskipta.  Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið."

Hið opinbera vinnur flest með hangandi hendi, og þegar allt í einu rennur upp fyrir vinstri slagsíðu ríkisstjórnarinnar, að þeir eru orðnir nokkrir núna, sem aka um vegi landsins án þess að greiða allt of háar álögur til ríkissjóðs og nota raforku, sem er af skornum skammti í boði vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þá veit ríkisstjónin ekki í hvora löppina hún á að stíga.  

"Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma, og þau er mikilvægt að taka föstum tökum.  Glundroði getur reynzt sandur í vél þeirra.  Öllu skiptir, að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafnmiklum metnaði og markmiðin, sem að er stefnt.  Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar."

Ráðherrar, Alþingi og embættismenn hafa klúðrað góðri hugmyndafræði orkuskiptanna með fljótræði, innantómum montmarkmiðum og getuleysi við skipulagningu framkvæmda.  Flest þetta fólk er reynslulaust úr heimi einkaatvinnurekstrar, þar sem þekking, geta og reynsla af sviði stjórnunar með markmiðasetningum ("Management by Objectives") er fyrir hendi og hefur borið góðan  árangur.  Þetta þekkja þeir 2 heiðursmenn, sem tilvitnaða grein rita, vafalaust úr sínum rekstri.  Þessu virðist alls ekki vera til að dreifa á meðal opinberra starfsmanna.  Hugarfarið er öðru vísi, og því fer sem fer með markmið og áætlanagerð opinberra starfsmanna. 

Þei, sem tekið hafa þá trú (bitið það í sig), að þjóðfélagslega sé bezt, jafnvel nauðsynlegt, að færa sem flest svið mannlegrar tilveru undir opinbera stjórn eða jafnvel í hendur hins opinbera, eru gjörsamlega veruleikafirrtir afneitunarsinnar og skapa fólki þess vegna mikil vandamál, þar sem þeir ná völdum.  

 

 


Bloggfærslur 15. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband