Dragbítur og skeldýr

Þegar embættismönnum hefur loksins tekizt að reyra atvinnustarfsemi í þvílíka reglugerðarfjötra, að starfsemin fær sig ekki hrært, þá fyrst verður sósíalistinn ánægður, telur endamarkinu náð og ekki einu sinni þörf á að taka greinina með í stefnumörkun ráðuneytisins, af því að lög og reglur þurfi ekki lengur að herða utan um greinina. Er hægt að hugsa sér nokkurn ráðherra meir skyni skroppinn en að hleypa embættisvarginum í óhefta reglusmíði um starfsemi, sem vargurinn ber ekkert skynbragð á ?  Þannig hagar sér sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir. 

Hún hefur verið sett yfir landbúnaðinn.  Ráðuneyti hennar tregðast við að gera upp skelfilegt tjón bænda, sem allt sauðfé hefur verið skorið niður hjá á grundvelli sýnatöku úr örfáum ám, sem riða greindist í.  Þetta eru óviðunandi og úrelt vinnubrögð, og loksins núna er yfirdýralæknir búinn að óska heimildar til að taka vægilegar á bændum, sem riða greinist hjá, vegna erfðaræktunar á ónæmi, sem fyrir dyrum stendur. Ráðuneytið er komið langt yfir lögboðna fresti og er með ótilhlýðilegan nánasarhátt við bændur í stað þess að greiða þeim fullt framleiðslutjón og endurstofnverð. Ætli væri annað hljóð í strokkinum, ef um samyrkjubú væri að ræða ? 

Í fersku minni er vorið 2023, þegar þessi ólánsráðherra skrifaði undir svo stífa reglugerð um hvalveiðar, að þar mátti greina vilja ráðherrans til að kodda þessari atvinnustarfsemi með snúinni reglugerð, en útgerðin, sem í hlut átti, lét ekki bugast þá. 

Morgunblaðið hefur haldið úti fréttum af skeldýrarækt, sem hefur lognazt út af í landinu vegna íþyngjandi reglufárs, sem er starfseminni mun meira fjárhagslega íþyngjandi hérlendis en annars staðar á EES-svæðinu, og ráðherrann lætur sér vel líka, því að lokatakmarki embættisvargs og sósíalista hefur verið náð. Er téð hegðun ráðherrans í embætti ekki sönnun þess, að það er ekkert vit í að leiða sósíalista til valda á Íslandi ? 

Sviðsljósgrein Önnu Rúnar Frímannsdóttur í Morgunblaðinu 13. nóvember 2023 bar fyrirsögnina:

"Snýst eingöngu um, að stjórnvöld vakni". 

Það er mikil bjartsýni að halda, að þessi stjórnvöld muni sjá að sér og slaka á klónni.  Þvert á móti telja þau sósíalisma sínum náð á þessu sviði, með því að skeldýrarækt var drepin í dróma með reglusetningu.  Þetta er sósíalistísk dýrð.  Enginn græðir hérlendis á skeldýrarækt, og enginn fær við hana vinnu. Fullkomin jöfnun niður á við, nema sum svín eru, eins og alltaf, jafnari en önnur.   

Anna Rún hefur eftirfarandi eftir Sævari Inga Reynissyni, formanni stjórnar Skelræktar:

""Þeim [ráðuneytisstjórum] fannst áhugaverðara að skoða möguleikana í þörungarækt heldur en skeldýrarækt, sem eru náttúrulega á gjörólíkum stað í þjóðfélaginu í dag. Það eru miklu, miklu meiri möguleikar í skeldýrarækt, og vinnan í kringum hana er miklu lengra komin heldur en nokkrn tíma í þörungaræktinni", segir hann.

Skelrækt eru samtök skelræktenda, og er tilgangur þeirra að vinna að hagsmunum skelræktenda, kynna greinina og stuðla að vexti skelrækrar á Íslandi.  

"Félagar í Skelrækt eru ýmist þeir, sem hafa verið í skeldýrarækt eða eru að vonast til þess að geta byrjað í skeldýrarækt", segir Sævar."

Framkoma yfirvalda, ráðuneytis Svandísar og undirstofnana, við skelræktendur hefur verið til háborinnar skammar, og nú hefur þessu fyrirbrigði tekizt að ganga af greininni dauðri.  Leyfisveitingafarganið er svo yfirgengilegt og kostnaður við sýnatökur og rannsóknir á þeim svo fjárhagslega íþyngjandi, að menn gáfust upp.  Það vantar rannsóknarbúnað inn í landið, og skelræktendur þurftu að borga kostnaðinn sjálfir af efnagreiningu á rannsóknarstofu erlendis.  Það er annað en samkeppnisaðilarnir á hinum Norðurlöndunum. 

Þetta er dæmi um skilningsleysi íslenzkra þingmanna og embættismanna á því hlutverki ESB-reglugerða og tilskipana að jafna samkeppnisstöðu á milli aðildarlandanna (hér:EES). Þegar ríkið borgar þessar efnagreiningar á hinum Norðurlöndunum, samkvæmt téðum Sævari Inga, þá mega íslenzk stjórnvöld ekki íþyngja greininni hérlendis með því að láta hana greiða, sízt af öllu, þegar senda þarf sýnin utan.  Þetta er dæmi um hættulega blýhúðun ESB-ákvæða hérlendis.  Ráðherranum dettur auðvitað ekki í hug að leiðrétta óréttlætið.  Hún er ekki í starfi fyrir atvinnugreinina, heldur snýst stefnumörkunarárátta hennar um að auka reglugerðafarganið og skattheimtuna af atvinnugreinunum, sem hún fær tangarhald á. Þessi ráðherra er til algerrar óþurftar.    

"Matvælaráðuneytið birti nýlega stefnu um lagareldi í samráðsgátt stjórnvalda, og er hún sett til ársins 2040.  Stefnan tekur á öllu lagareldi og byggist á úttekt, sem Boston Consulting Group gerði fyrr á þessu ári, en hvorki í henni né í stefnunni er minnzt á skeldýrarækt.  Gerði Matvælastofnun m.a. athugasemdir við bæði þessi skjöl í sínum umsögnum.  Líkt og áður hefur komið fram, er staðan sú, að enginn ræktar krækling til sölu á markaði lengur hér á landi. Þegar Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, var innt eftir því á dögunum, hvort til greina kæmi að  endurskoða lögin um skeldýrarækt frá árinu 2011, svo [að] greinin gæti lifnað við á nýjan leik hér á landi, svaraði hún því til, að engin ákvörðun hefði verið tekin um að endurskoða þá löggjöf, en hún teldi tækifæri vera í skeldýrarækt á Íslandi."

 Svandís Svavarsdóttir hefur hvorki áhuga á né hefur hún vit á skeldýrarækt, og þess vegna er sú skoðun hennar, að tækifæri séu hér í skeldýrarækt, markleysa.  Vera hennar í ráðuneytinu snýst ekki um annað en að þrengja á allan hátt að atvinnulífinu, þótt það brauðfæði hana jafnt sem aðrar afætur, og þess vegna þykir henni toppurinn á reglusetningum vera þær, sem beinlínis kyrkja viðkomandi atvinnugrein til ólífis, enda var þessi sett á dögum hinnar alræmdu "fyrstu tæru vinstri stjórnar".  

Spyrja má, hvort meiri og raunhæfari þekking á lagareldi sé hjá Boston Consulting Group en hjá innlendum ráðgjöfum, eða treystir sósíalistinn hinum síðar nefndu ekki ?

""Það þarf náttúrulega að byrja á viðhorfinu.  Það er látið eins og við [skeldýraræktendur] séum ekki til, og á meðan matvælaráðuneytið svarar ekki fyrirspurnum, vill ekki taka okkur með í rannsóknir, þá breytist ekkert.  Mér [Sævari Inga] hefur verið sagt, að þessi skýrsla frá Boston Consulting Group hafi kostað um MISK 90, og þeir láta eins og við séum ekki til.  Þessi skýrsla snýst eingöngu um laxeldi, en ég þori að fullyrða, að ef áhugi væri fyrir hendi, þá gætu á fáum árum orðið ekki minni atvinnumöguleikar í kringum kræklingarækt hér á landi en í laxeldinu.""

Sú framganga matvælaráðuneytisins, sem (óhæfur) sósíalisti stjórnar, að útiloka (slaufa) eina undirgrein lagareldis, sem gæti blómstrað hér með skynsamlegri lagasetningu og heiðarlegri framkomu stjórnvalda, er forkastanleg og með ólíkindum.  Ráðuneytið hefur gefið rándýrum ráðgjafa þá forskrift að fjalla ekki um skeldýrarækt, e.t.v. svo að vandi greinarinnar yrði ekki krufinn, því að þá kæmi í ljós mjög íþyngjandi lagasetning og framkvæmd yfirvalda, sem er ekki í samræmi við framkvæmdina annars staðar í EES.  Ráðherrann stendur vörð um óbrúkleg lög og viðamikið og dýrt eftirlitskerfi.  Reynslan vítt og breitt um heiminn sýnir, að það eru engin verðmæti svo mikil, að sósíalistum takist ekki með skrifræði, óréttlæti og yfirgangi (í nafni alþýðu) að drepa þau í dróma.   

 

   


Bloggfærslur 19. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband