25.11.2023 | 17:24
Meinsemdir opinbers rekstrar
Opinber starfsemi virðist hafa tilhneigingu til að fara úr böndunum, og hún ber þess víða merki í samfélaginu, að um hana gildi Lögmál Parkinsons, sem segir, að viðfangsefni aukist að umfangi í sama mæli og tíminn, sem ætlaður er til að leysa þau af hendi. Þessa óstjórn má greina víða, þar sem opinberar stofnanir eiga í samskiptum við einkarekið atvinnulíf. Þetta á t.d. við um stofnanir, sem sjá um leyfisveitingar og eftirlit með atvinnulífinu. Þar virðist lítið fara fyrir tímaskyni starfsmanna, þótt lög kveði á um annað.
Kostnaður skattborgaranna af hinu opinbera er of mikill og óþarflega mikill. Einkaaðilar geta leyst betur af hendi margt það, sem hið opinbera er að vasast í. Nú er ljóst, að eitt öflugasta útgerðarpláss landsins hefur orðið fyrir alvarlegu tjóni af völdum náttúruhamfara. Við þessar aðstæður er það siðferðisleg skylda samfélagsins að hlaupa undir bagga með Grindvíkingum, kaupa af þeim verðlausar eignir, e.t.v. á brunabótamatsverði, ef Náttúruhamfaratryggingar bæta aðeins sýnilegt tjón. Þetta er þess vegna tjón alls samfélagsins, sem væntanlega verður fjármagnað með blöndu af skattahækkunum og lántökum ríkissjóðs, en til viðbótar þarf að leita allra leiða til sparnaðar í opinberum rekstri og koma böndum á hömlulausan vöxt. Þegar í stað á að skrúfa fyrir allar fjárveitingar ríkisins til vanhugsaðra gæluverkefna á borð við borgarlínu og Hvassahraunsflugvallar, sem bæði eru eftirlæti Samfylkingar. Þá er rétt að hætta akstri strætisvagna hringinn í kringum landið. Önnur fyrirtæki sjá um rekstur langferðabifreiða.
Örlagadaginn 10. nóvember 2023 birti Morgunblaðið viðtal við Gunnar Úlfarsson, hagfræðing Viðskiptaráðs. Þar er umræðuefnið Stuðningsstuðull Viðskiptaráðs Íslands. Hann sýnir, hversu margir einstaklingar njóta opinbers fjárhagslegs stuðnings eða fá millifærslur reiknað á hvern vinnandi einstakling á almenna vinnumarkaðinum. Hann gefur góða mynd af byrði hins opinbera fyrir verðmætasköpunina. Þessi stuðull var orðinn ískyggilega hár árið 2022 eða 1,3. Þetta merkir t.d., að fyrir hverja 10, sem störfuðu í einkageiranum, voru 13, sem gerðu það ekki, og eru þó þeir, sem störfuðu í sjálfstæðum opinberum fyrirtækjum, t.d. í Landsvirkjun eða Landsbankanum, taldir til einkageirans. Þessi hái stuðull er sjúkdómseinkenni á íslenzku hagkerfi.
""Að mati Viðskiptaráðs ætti að vera keppikefli stjórnvalda að ná stuðlinum enn frekar niður [eftir Kófið-innsk. BJo], enda er einkageirinn drifkraftur verðmætasköpunar og þar með bættra lífskjara.""
Með öldrun þjóðarinnar hækkar stuðullinn, nema mótvægisaðgerðum sé beitt, og þar þarf að berjast við vinstri græna, sem reka ósjálfbæra og verðbólguhvetjandi efnahagsstefnu. Með þá við stýrið verður torsótt að skapa heilbrigt jafnvægi í hagkerfinu, sem skapar aðstæður fyrir vaxtalækkun, enda mátti skilja Peningastefnunefnd Seðlabankans svo 22.11.2023, að hún hefði hækkað stýrivexti bankans þá, ef hinir ófyrirséðu atburðir 10.11.2023 í Grindavík, sem leiddu til allsherjar rýmingar bæjarins, hefðu ekki orðið. Spennan á húsnæðismarkaði, sem Samfylkingin ber töluverða ábyrgð á vegna lóðaskortsstefnu og þéttingarstefnu sinnar í höfuðborginni, vex í kjölfar Grindavíkurhörmunganna, þar sem 1200 íbúðir hverfa af markaðinum, a.m.k. um sinn. Vextir í hæstu hæðum eru líka teknir að hamlega byggingarstarfsemi. Þetta ástand kallast vítahringur.
Starfsmenn hins opinbera eru í 28 % af heildarstörfum á vinnumarkaði. Sjúklingum fjölgar og öryrkjum fjölgar miklu örar en á hinum Norðurlöndunum. Þeim hefur fjölgað um 30 % frá 2012 á Íslandi, um 15 % í Noregi, fækkað um 16 % í Danmörku og 23 % í Finnlandi og 30 % í Svíþjóð. Hvað er það við lífernið hér, sem fjölgar öryrkjum svona ótæpilega ? Þáttur í sparnaðarviðleitni er að rannsaka það. Er VG á móti því ?
""Í fyrra [2022] fjölgaði starfandi í einkageiranum um 7 %, en starfandi hjá hinu opinbera fjölgaði um 6,5 %. Þá fækkaði atvinnulausum um 35 %, og dróst fjöldi utan vinnumarkaðar saman um 1 %", segir Gunnar og bætir við, að hlutfall opinberra starfsmanna sé enn fremur hátt, en á meðan starfandi fjölgaði um 6 % á almennum vinnumarkaði, fjölgaði stöðugildum hjá hinu opinbera um 15 % á árunum 2019-2022 [Kófið-innsk. BJo].
""Fjöldi starfandi hefur aukizt mikið í opinberri stjórnsýslu, en það vekur athygli, að sú þróun endurspeglist ekki í aukinni skilvirkni hins opinbera . Lögbundnir tímafrestir leyfisveitinga standast ekki, reglubyrði mælist há, og skilvirkni hins opinbera er lág í alþjóðlegum samanburði."
Af þessu má ráða, að Parkinson gamli grasseri hjá hinu opinbera, og stjórnmálamenn þyrftu að láta fara fram faglega rýni á störfum, þar sem þensla í starfsmannahaldi hefur orðið og láti fara fram hagkvæmnimat á úthýsingu á starfsemi. Virðingarleysi fyrir lögboðnum tímafrestum er plága fyrir þá, sem þurfa að sækja til opinberra stofnana með umsóknir, t.d. um leyfisveitingar. Þetta sýnir virðingarleysi gagnvart viðskiptavinum stofnananna og embættishroka.
"Gunnar segir, að miklar áhyggjur vakni, ef þróun á fjölda þeirra, sem þiggja örorkulífeyri, er sett í alþjóðlegt samhengi, þar sem á sama tíma og kerfið hér á landi verður dýrara og örorkulífeyrisþegum fjölgar, hefur þeim fækkað á [hinum] Norðurlöndunum um 2 % að jafnaði árlega og útgjöldin til kerfanna dregizt saman um 0,4 % að raunvirði. Á sama tíma sé staðan sú á Íslandi, að fólki, sem fær örorkulífeyri, hafi fjölgað um tæp 3 %/ár árin 2012-2020, en útgjöldin hafi vaxið mun hraðar eða um 6 %/ár að raunvirði.
Gunnar bendir jafnframt á, að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hafi lengi bent á, að ekki aðeins sé hægt að ná fram hagræðingu í tilfærslukerfum, og þ.á.m. í örorkukerfinu, heldur sé það einnig nauðsynlegt.
"Helztu tillögurnar snúa að því, að kerfin [verði] endurskipulögð og að aukin áherzla [verði] lögð á stuðning til aukinnar virkni, en einnig að ráðizt verði í fyrirbyggjandi aðgerðir, sérstaklega á meðal ungmenna. Við eigum að vera stolt af stuðningskerfunum okkar, en við þurfum líka að tryggja, að þau séu skilvirk. Það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar allra að draga úr brotthvarfi [af] vinnumarkaði."
Það þarf að læra af t.d. Svíum við endurskoðun á örorkumatsaðferðum og að rótargreina ástæðurnar fyrir öfugþróun í fjölda öryrkja á Íslandi m.v. hin Norðurlöndin. Tengist hún samfélagsmeinum á borð við mikla lyfjaneyzlu hérlendis ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)