3.11.2023 | 13:32
Stjórnun orkumála í lamasessi
Í Noregi hefur Fellesforbundet, sem eru stór verkalýðssamtök með marga starfsmenn iðnaðarins innanborðs, fengið "kalda fætur", því að starfsmenn óttast um sinn hag vegna versnandi samkeppnisstöðu norsks iðnaðar á erlendum mörkuðum, sem leiða mun af raforkuverðhækkunum, sem starfsmenn óttast í vetur. . Hagur norsks útflutningsiðnaðar varðar í raun hag nánast allra norskra launþega, því að launabreytingar í kjarasamningum taka mið af stöðu hans og svigrúms til aukins launakostnaðar.
Hver er þá ástæðan fyrir núverandi áhyggjum norskra launþega út af vinnumarkaðnum ? Ástæðan er sú, raforkuverð í Noregi fylgir raforkuverði á evrópska raforkumarkaðinum vegna öflugra tenginga norska raforkukerfisins við Evrópu og aukaaðildar Noregs við ACER, Orkustofnun Evrópusambandsins. Frá september 2022 til september 2023 lækkaði raforkuverðið sunnan Dofrafjalla almennt um 90 %. Nú er gasverð tekið að hækka og miklar áhyggjur út af aðdráttum jarðefnaeldsneytis til Evrópu, ef ófriðarbál blossar upp fyrir botni Miðjarðarhafs.
Ekki má gleyma mestu styrjaldarátökum í Evrópu síðan 1945, sem nú geisa í Úkraínu vegna skefjalausrar útþenslustefnu Kremlar, sem með vanburðugum, en grimmúðlegum hætti, reynir að leggja undir sig önnur lönd að hætti zaranna og aðalritara sovézka kommunistaflokksins, Jósefs Stalín.
Norðmenn hafa mjög slæma reynslu af því að vera rækilega tengdir við raforkukerfi Bretlands og meginlands Evrópu, og þess vegna ályktaði Fellesforbundet um, að Norðmenn ættu að taka stjórnun norskra raforkumála í eigin hendur, sem þýðir í raun, að Stórþingið mundi ógilda Orkupakka #3 í Noregi, sem mundi vera einsdæmi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Fellesforbundet er áhrifaríkasta einingin innan LO-Landsorganisasjonen, sem er Alþýðusamband Noregs. Ef LO snýst gegn ACER og þar með Orkupakka #3, gæti í kjölfarið dregið til tíðinda innan Verkamannaflokksins, leiðandi stjórnarflokks Noregs, um aukaaðildina að ACER, sem hann studdi árið 2018 á Stórþinginu, þegar OP#3 var innleiddur.
Íslendingar hafa líka innleitt Orkupakka 3 í sína löggjöf, en gerðu það reyndar með fyrirvara um samþykki Alþingis á hugsanlegri umsókn um tengingu Íslands við raforkukerfi EES. Ekki verður séð, að þessi innleiðing evrópskrar orkulöggjafar á Íslandi hafi bætt skilvirknina við stjórnun orkumála hérlendis. Þvert á móti hefur óvissan um þróun þessara mála ekki verið meiri á Íslandi í háa herrans tíð, og yfirstjórnin er eins og lömuð fluga, því að flotið er að feigðarósi orku- og aflskorts með algeru aðgerðarleysi. Það hefur þegar reynzt dýrt og mun verða gríðarlega kostnaðarsamt fyrir allt samfélagið, því að þessi skortur mun draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi. Raforkuverðshækkanir verða fyrir vikið tilfinnanlegar hér, þegar dótturfyrirtæki Landsnets innleiðir hér raforkumarkað að hætti Evrópusambandsins í boði Orkupakka #3. Hvers vegna æmtir íslenzk verkalýðshreyfing hvorki né skræmtir út af þessu hagsmunamáli, þótt hún þykist þess umkomin að taka að sér stjórnun peningamála landsins ?
Í Morgunblaðinu 19. október 2023 fór Ólafur E. Jóhannsson yfir stöðuna í frétt undir fyrirsögninni:
"Orkuskiptin sögð vera í uppnámi".
Í lok fréttarinnar stóð þetta:
"Í minnisblaði ráðherrans [orkuráðherra til ríkisstjórnarinnar - innsk. BJo] kemur fram, að meginástæður þess, að staða orkuskipta er í óvissu, séu 3: andstaða sveitarfélaga, veikburða flutningskerfi á milli Norður- og Suðurlands, en einnig eru virkjunarkostir í jarðvarma í óvissu, vegna þess að þá kosti þurfi að skoða og meta í samhengi við rekstur þeirra jarðvarmavirkjana, sem fyrir eru, þar sem nýjar virkjanir kunni að hafa áhrif á þær.
Því sé ekki hægt að fullyrða, að þeir virkjunarkostir, sem eru í 3. áfanga rammaáætlunar, séu fullnægjandi, svo [að] hægt sé að framkvæma 3. orkuskiptin hér á landi."
Þessi greining orkuráðherrans fyrir ríkisstjórnina á orsökum aðgerðaleysis við orkuöflun í einn áratug er hálfkák eitt, eins og allt, sem frá þessum verklitla og sjálfhælna ráðherra kemur. Eftir innleiðingu evrópskrar samkeppnislöggjafar um orkumál er enginn aðili í landinu ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma sé til næg raforka, nema í þurrkaárum, fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. Aflskortur, eins og nú hrjáir raforkukerfið, á aðeins að koma upp í alvarlegum bilunartilvikum.
Landsvirkjun hafði áður þetta tryggingarhlutverk á raforkusviðinu og í nafni þjóðaröryggis þarf að setja sérlög um það, sem trompa orkupakka ESB, hvað sem bókun 35 líður, enda er Landsvirkjun alfarið í eigu ríkisins.
Það er lítilmannlegt af þessum ráðherra að gera orkusveitarfélög að blóraböggli þess, að orkuöflun undir hans stjórn er í skötulíki. Hvers vegna hefur hann ekki beitt sér fyrir samningaviðræðum á milli ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga og orkufyrirtækja ? Er Landsreglarinn að skipta sér af því ? Nú síðast 27.10.2023 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi framkvæmdaleyfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir Hvammsvirkjun. Fíflagangur þessarar úrskurðarnefndar ríður ekki við einteyming. Nú er mælirinn fullur. Ráðherrann verður að reka af sér slyðruorðið og færa úrskurðarvald um þessa bráðnauðsynlegu virkjun til þjóðkjörinna fulltrúa á Alþingi. Hann þarf að láta smíða í snatri eins konar neyðarlög um, að Alþingi staðfesti áður útgefið virkjunarleyfi Orkustofnunar, framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags vestan Þjórsár, og að viðkomandi sveitarfélag austan Þjórsár taki útgáfu framkvæmdaleyfis strax til efnislegrar meðferðar. Það verður að höggva á hnútinn. Hefur ráðherrann bein í nefinu til þess, eða fær hann ekki leyfi til að leggja slíkt frumvarp fyrir þingið ? Kjósendur eiga heimtingu á hreinum línum í þessu máli.
Hverrs vegna hefur orkuráðherrann ekki beitt sér fyrir að flýta lagningu 220 kV Byggðalínu frá Akureyri og til Hvalfjarðar ? Laugardaginn 28. október 2023 birti Morgunblaðið frétt af því, að öll miðlunarlón hafi fyllzt í haust, nema Þórisvatn, sem boðar ekki gott fyrir veturinn, sem gekk í garð þann sama dag. Það vantar þar 300 GWh upp á hámarksforða. Með 220 kV línu frá Fljótsdalsstöð að Klafa í Hvalfirði væri auðvelt að flytja þessar 300 GWh suður á 2 mánuðum, en með 132 kV línunni tæki slíkt 8 mánuði, sem er allt of langur tími til að gagnast álaginu hér syðra, nema að litlu leyti.
Nú ætlar Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður sjálfstæðismanna í NA-kjördæmi, að flytja þingsályktunartillögu um einmitt það. Doði þessa ráðherra gagnvart framfaramálum landsins er óskiljanlegur. Ágóði af þessari framkvæmd er í báðar áttir, því að Norðurlandið fengi þá aðgang að öllu afli Blönduvirkjunar og viðskiptaleið opnast fyrir Landsvirkjun að stækka virkjunina og/eða setja þar upp vindknúna rafala, ef hugur hennar og viðkomandi sveitarfélaga stendur til þess.
Morgunblaðið er algerlega með fingurinn á púlsi þjóðmálanna. Það birti 27. október 2023 forystugrein undir fyrirsögninni:
"Alvarleg staða orkumála".
Þar var vitnað í greinargerð með ofangreindri þingsályktunartillögu:
""Í fyrravor [2022] kom upp sú staða, að orkuskerðing varð vegna slæmrar vatnsstöðu í uppistöðulónum, og því var þúsundum lítra af olíu brennt til að anna eftirspurn, t.d. í fiskimjölsverksmiðjum [sem hafa fjárfest í rafmagnskötlum - innsk. BJo].
Á hverju ári tapast raforka, sem nemur rafmagnsnotkun 100.000 heimila [með jarðhitaveitu og án rafmagnsbíls - innsk. BJo], þar sem flutningskerfi raforku er fullnýtt, og ekkert svigrúm er til að bregðast við sveiflum. Með öflugra flutningskerfi raforku minnkar flutningstap, dregið er úr sóun og bætt afhendingaröryggi er tryggt. Það kemur einnig í veg fyrir, að fyrirtæki keyri á dísilvaraaflstöðvum, sér í lagi, þegar rafmagn fer af í vondum veðrum."
Eru þetta ekki nægilega sterk rök fyrir orkuráðherrann til að beita sér fyrir þeirri flýtingu framkvæmda, sem Njáll Trausti og félagar telja brýna, eða getur ráðherrann í hvoruga löppina stigið ? Er hann þá stunginn líkþorni í vinstri löppina ?
Það er þó alveg sama, hversu öflugt flutningskerfið er á milli landshluta; það getur ekki komið í veg fyrir orkuskort, sem leiðir til raforkuvinnslu með bruna jarðefnaeldsneytis. Nú hafa pexararnir í Landvernd hafið orðhengilshátt með spurningunni, hvað sé orkuskortur ? Orkuskortur er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða, að virkjanir vantar til að fullnægja aflþörf núverandi álags og álags næstu 5 ára samkvæmt raforkuspá. Hins vegar getur vantað jarðgufu eða vatn til að knýja núverandi virkjanir, og það hillir undir, að svo verði í vetur, því að 7 % vantar upp á hámarksforðann. Ef t.d. Hvammsvirkjun væri komin í gagnið núna, þá mundi hvorki vanta afl né orku inn á raforkukerfið, því að með henni bætast 95 MW við aflgetuna, og hún notar sama vatnið og nú er nýtt í Efri-Þjórsá og rennur til sjávar sem Neðri-Þjórsá til að framleiða 720 GWh/ár.
Vegna hagvaxtar eykst orkuþörfin ár frá ári. Það þarf auðvitað að virkja til mæta þeirri þörf, ef ekki er ætlunin að kyrkja hagvöxtinn með því að koma í veg fyrir allar nýjar virkjanir stærri en 10 MW. Fyrirtækin þurfa meiri orku ár frá ári og landsmönnum fjölgar. Það er nóg samt, þótt afturhaldið bjóði nú landsmönnum ekki upp á orðhengilshátt um orkuskort.
Næsta umfjöllunarefni téðrar forystugreinar var einmitt vöntun virkjana:
"Annar vandi í orkumálum og ekki minni [en ófullnægjandi flutningskerfi - innsk. BJo] er þó einmitt, að ekki er framleidd næg orka í landinu um þessar mundir m.v. þá þörf, sem er uppi. Rætt er fjálglega um orkuskipti, og á Íslandi háttar vissulega þannig til, að hér ætti að vera hægt að færa orkunotkun að stærri hluta úr jarðefnaeldsneyti yfir í raforku, þó að villtustu draumar í þeim efnum verði líklega seint eða aldrei að veruleika. En áður en hægt er að ræða af skynsemi og raunsæi um orkuskipti er nauðsynlegt, að landsmenn búi við orkuöryggi, en því er ekki að heilsa um þessar mundir."
Þetta er hárrétt hjá Morgunblaðinu, og vandamálið hafa stjórnmálamenn búið til í hugsunarleysi. Þeir innleiddu hér óskilvirkt og bosmamikið norskt kerfi, sem kallast Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda. Norðmenn lögðu þetta stjórnkerfi af fyrir nokkrum árum. Ef það virkar ekki hjá þeim, þá virkar það örugglega ekki hjá okkur.
Kæruferli virkjunarleyfa og framkvæmdaleyfa er misnotað af óprúttnum sérhagsmunaaðilum, sem eiga ekki að hafa aðgang að þessu ferli. Það er misnotað í þágu pólitískrar hugmyndafræði um skaðsemi hagvaxtar. Breyta verður lögum þannig, að eingöngu þeir, sem sannanlega eru þolendur stjórnvaldsákvörðunar í þröngum skilningi, séu réttmætir kærendur í þessu ferli, en aðrir geta þá farið dómstólaleiðina strax, ef þeir kæra sig um það. Það er ekki bara þjóðarhagur í veði, heldur er þjóðaröryggi í húfi, eins og málum er nú komið.
Að lokum er dregin sú ályktun í þessari forystugrein af stöðnun orkumálanna, að forystu stjórnvalda (ráðherra) skorti. Vitað er, forsætisráðherra dregur lappirnar og setur skít í tannhjólin, komi hún því við, en frammistaða orkumálaráðherrans er fullkomlega óboðleg:
"Af þessum sökum kemur á óvart, hve viðbrögð stjórnvalda í þessum efnum eru misvísandi og máttlaus. Þar ættu allir að taka höndum saman, bretta upp ermar og forða þjóðinni ekki aðeins frá tekjutapi vegna glataðra tækifæra, heldur [aðallega] frá orkuskorti og þeim óþægindum og þeirri hættu, sem slíku ástandi fylgir. Þetta ætti að vera [á] meðal forgangsmála stjórnmálanna, en landsmenn fá ekki þá tilfinningu, að svo sé, þegar þeir hlusta á forystumenn þjóðarinnar."
Sjálfstæðismenn á Alþingi ættu að íhuga þessi orð Morgunblaðsins rækilega og róa að því öllum árum að rjúfa kyrrstöðuna. Eitt er víst, að núverandi doði og drungi yfir orkumálunum er ekki í anda Sjálfstæðisflokksins, sem haft hefur forystu um framfarir í orkumálum borgarinnar og landsins alls frá stofnun sinni 1929, þegar hann hefur verið í aðstöðu til. Núverandi doði er stílbrot.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)