6.11.2023 | 11:23
Staðnað og svifaseint menntakerfi
Mjög lítið er um einkaskóla á Íslandi og mun minna en í öðrum vestrænum löndum. Hið opinbera, sveitarfélög og ríkisvald, rekur sjálft flesta skólana og árangurinn er eftir því dapurlegur í fjölþjóðlegum samanburði og m.t.t. þarfa atvinnulífsins. Hið opinbera er afleitlega fallið til að tryggja gæði (góðan framleiðsluárangur) og að fara á sama tíma vel með opinbert fé. Allt of margt, sem hið opinbera kemur nálægt, er í skötulíki. Í menntakerfinu má nefna hátt brottfall, litla færni samkvæmt PISA, allt of marga án viðunandi lágmarksfærni í lykilgreinum á borð við lestur, réttritun og reikning, og hversu Háskóla Íslands gengur hægt að feta sig upp að markmiði sínu um að komast í hóp hinna beztu. Kannski er sú markmiðasetning ekki aðeins óraunhæf, heldur óskynsamleg.
Afleiðingin af þessu er, að það vantar fólk í lykilgreinar atvinnulífsins, iðngreinarnar, og hefur svo verið svo lengi, að skólakerfið hefði fyrir löngu átt að aðlaga sig að þörfinni, en í staðinn vísar það nú frá um 600 áhugasömum nemendum, sem sækja um iðnnám árlega. Þetta er falleinkunn fyrir stjórnun menntamála í landinu. Hvers vegna er ekki reynt að fitja upp á nýjungum, t.d. með virku samstarfi við fyrirtækin í landinu ?
Morgunblaðið vakti rækilega athygli á þessu með viðtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, SI, 2. nóvember 2023, undir fyrirsögninni:
"Skortur á vinnuafli hamlar vexti".
Fréttin hófst þannig:
"Menntakerfi landsins hefur mistekizt að sinna þeirri mannauðsþörf, sem hlotizt hefur af vexti iðnaðarins á síðustu árum að mati Samtaka iðnaðarins, SI. Hafi stórum hluta þarfarinnar verið mætt með innfluttu vinnuafli, en meira þurfi til. Ljóst er, að skortur á vinnuafli hafi verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar greinarinnar hafi verið fórnað vegna skorts á vinnuafli með rétta færni.
"Krafa iðnaðarins er alveg skýr", segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. Það er óviðunandi, að á sama tíma og metfjöldi, eða nærri 1200 manns, hafi útskrifazt úr iðnnámi á síðasta skólaári, hafi þurft að hafna nærri 600 nemendum, sem sóttu um iðnnám í haust, vegna skorts á fagmenntuðum kennurum og viðeigandi húsnæði eða tækjabúnaði. Úr þessu verði að bæta."
Almenningur kannast vel við grafalvarlegan skort á iðnaðarmönnum um árabil og virðist bara fara versnandi. Það er þess vegna dæmalaust getu- og forystuleysi af hálfu menntamálaráðuneytisins, að ekki skuli hafa tekizt betur en raun ber vitni um að fullnægja eftirspurn. Þegar fátið í kringum frumhlaup menntamálaráðherrans haustið 2023 við að reyna að sameina 2 grónar og ólíkar skólastofnanir á Akureyri, menntaskólann og verkmenntaskólann, er haft í huga, er ekki kyn, þótt keraldið leki.
Það hefur vantað hæfileika og forystu af hálfu ríkisvaldsins til að stjórna menntamálum þjóðarinnar af skynsamlegu viti. Þess vegna eru þau í ólestri og í viðjum mistækra embættismanna og stjórnmálamanna, sem fá fyrirtæki mundu vilja hafa í vinnu til lengdar.
Í lok téðrar fréttar stóð þetta:
"Samtökin [SI] segja, að stíga þurfi strax inn í og byrja á því að tryggja verk- og starfsmenntaskólum fjármagn og auka áherzlu á iðnnám um allt land. "Fólk sækir í það nám, sem er í boði í sinni heimabyggð. Skólar gætu nýtt fyrirtæki meira í kennslu, þar sem þau eru í flestum tilvikum miklu betur tækjum búin en skólarnir sjálfir. Einnig mætti huga að auknu samstarfi [á] milli skóla og tækifærum til að innleiða nýja menntatækni og nýta fjarkennslu eða dreifnám til að gera nemendum kleift að stunda nám í heimabyggð."
Þá segjast SI telja mikilvægt, að iðnnám standi áhugasömum nemendum til boða óháð aldri. Í því skyni mætti skoða fleiri möguleika eins og kvöldnám."
Iðnnámið má aldrei verða endastöð og er það reyndar ekki lengur. Það má ekki aftra nemendum frá að sækjast eftir iðnnámi, að þá sé braut frekari tæknimenntunar í tæknifræði og verkfræði, síður greið en um menntaskólana. Það er ótrúlega léleg frammistaða menntayfirvalda, sem staða menntamálanna ber vitni um. Þarna reytir SI af sér nokkrar hugmyndir í snatri til að bæta úr skák. Munu embættismenn og ráðherra stökkva á þær eða bara velta sér á hina hliðina ?
Bloggar | Breytt 12.11.2023 kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)