Grunnskólakerfið: keisarinn er ekki í neinu

Heildarniðurstöður PISA-prófa 2022 leiða í ljós, að grunnskólakerfi landsmanna, sem kostar 200 mrdISK/ár, eru umbúðir án innihalds.  Hver voru fyrstu viðbrögð æðsta strumps menntamálanna við þessum grafalvarlegu tíðindum ?  Að nú þyrfti að koma á laggirnar stofnun með nýju nafni í stað Menntamálastofnunar, sem verið er að leggja niður.  Æðsti strumpur er ófær um að setja sig inn í ógöngurnar, sem ríkisvaldið hefur átt dágóðan þátt í að valda menntakerfinu.  Honum væri nær að kalla saman fólk, sem nú hefur tjáð sig af viti um þessar ógöngur, t.d. Jón Pétur Zimsen og Meyvant Þórólfsson, til að semja leikskólastiginu og grunnskólastiginu gagnlega námsskrá, en sú núverandi er frá dögum Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra 2013 og er hvorki fugl né fiskur, eins og eftirfarandi krúsidúlla þaðan ber með sér: "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska." [Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.]  Á grundvelli þvaðurs af þessu tagi verja skólarnir drjúgum tíma í umbúðir án innihalds, sem mörgum nemendum finnst skemmtilegt, en er hrein tímasóun og gagnast hvorki á PISA-prófi né í skóla lífsins.  Þarna liggur hundurinn grafinn (einn af þeim).

Einkennandi fyrir skólakerfið hérlendis er, hversu einsleitt rekstrarformið er.  Í samanburði við önnur Evrópulönd vantar hér önnur eignarform en opinbera eign á skólum.  Þessi einsleitni dregur úr samkeppni í kerfinu.  Strax mætti þó örva samkeppnina með öðru móti. Það er algerlega sjálfsagt að nota PISA-prófniðurstöðurnar og tölfræðilega úrvinnslu þeirra til að gefa hverjum þátttökuskóla kost á að skipuleggja starf sitt með því að afhenda honum tiltækan tölfræðilegan samanburð.  Ekki nóg með það, heldur ætti tölfræðileg samantekt fyrir hvern skóla að vera aðgengileg foreldrum og nemendum og raunar að vera opinber gögn, þar sem skólakerfið er á framfæri hins opinbera.

  Þetta er sjálfsögð þjónusta við nemendur og getur ýtt undir metnað í skólastarfi.  Það er eftir öðru hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, að undirstofnun þess, Menntamálastofnun, kemst upp með það að sitja á þessum gögnum og neitar að afhenda þau.  Viðbáran er tilbúningur einn, þ.e. að prófið sé bara mælikvarði á kerfið.  Það er alrangt, því að þá væru allir skólar eins, sem eðlilega er ekki raunin.  Það verður að reyna að nýta prófniðurstöðurnar til hins ýtrasta, en ekki að stinga hausnum í sandinn og gera ekki neitt, nema kannski hrinda af stokkunum einhverju vanhugsuðu lestrarátaki.  

Vert er að gefa gaum að því, að það er sama tilhneiging á öllum Norðurlöndunum, þ.e. til lakari árangurs á PISA-prófum, en sýnu verst er hún á Íslandi.  Þetta bendir til sameiginlegs þáttar, sem gæti verið síma- og tölvunotkun nemenda, sem leiðir til minni bóklestrar og minni ástundunar náms.  Hérlendis bætist svo umbúðakennsla ofan á í stað staðreyndafræðslu (stagls), sem tölvutæknin úreldir ekki, þótt einhverjir ímyndi sér það. Að láta sér detta í hug, að staðreyndaöflun sé þarflaus, af því að nú er hægt "að fletta öllu upp á netinu", er grundvallar misskilningur á sígildu eðli náms.  

Nefna má fleiri blóraböggla.  Árangri íslenzkra nemenda á PISA-prófum tók að hraka, eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, aflagði samræmd lokapróf árið 2008, og núverandi aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur er gjörsamlega haldlaust plagg og sennilega stórskaðlegt vegna algers metnaðarleysis fyrir hönd kennara og nemenda. Aðalnámskrá ætti að tilgreina nokkur samræmd próf, og hvaða þekkingu nemendur þurfi þá að geta staðið skil á.  Skyndipróf ættu að vera framlag skólanna til að þjálfa nemendur í próftöku og gefa þeim til kynna stöðu þeirra í hverri grein og hjálpa kennaranum við mat á kunnáttu nemandans í lok annar. 

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, var ómyrkur í máli í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist 06.12.2023 undir hinni skuggalegu fyrirsögn:

 "Rúmlega heilt ár farið í súginn"

"Niðurstöðurnar koma mér bara akkúrat ekkert á óvart - ekki neitt.  Þetta er algjörlega það, sem ég bjóst við.  Þetta var í farvatninu og verður áfram."

Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir menn á borð við Jón Pétur að starfa við skilyrði, þar sem hann horfir upp á árangursleysi síns fólks í starfi án þess að geta spyrnt við fótum, því að þá fara alls kyns þokulúðrar í gang, varðhundar stöðnunar, sem eru ekki hrifnir af því, að neinn skari fram úr.  

"Þú hefur sem sagt orðið var við, að færni nemenda hafi hrakað svona mikið og á svona skömmum tíma ?

"Já, þessu er búið að hraka frá aldamótum.  Árin 2009  og 2018 komu smá uppsveiflur, en þessu er búið að hraka frá aldamótum, og það er ekkert, sem bendir til þess, að þetta sé að fara að batna.  Það er ekkert í spilunum með það.  Það er bara sama stefna, sem er búin að vera nokkurn veginn frá aldamótum eða síðan sveitarfélögin tóku við grunnskólunum.""

Það er athyglisvert, að þessi skólamaður tengir hrakfallabálk grunnskólanna við eignarhald sveitarfélaganna.  Þegar lélegt taumhald er úr mennta- og barnamálaráðuneytinu og aðalnámskrá einkennist af fullmomnu metnaðarleysi, er jarðvegur fyrir ringulreið í grunnskólum landsins. 

""Það er náttúrulega í raun brot á grunnskólalögum [léleg kennsla - innsk. BJo].  Þar stendur, að við eigum að búa nemendur undir að taka þátt í lýðræðissamfélagi.  Og þegar við erum með rétt rúmlega 50 % drengja, sem geta skilið það, sem fer fram í fjölmiðlum, í töluðu máli og í rituðu máli, þá er það bara ávísun á, að nemendur geti ekki tekið þátt í lýðræðissamfélagi.  Ekki þegar þeir skilja ekki, hvað er í gangi í kringum þá", segir Jón Pétur."

Það er mjög loðið og teygjanlegt, hvað þarf til að geta skammlaust tekið þátt í lýðræðissamfélagi, og þess vegna er ekkert hald í lagatexta af þessu tagi.  Þetta er angi af þeirri tilraunastarfsemi, sem hefur tröllriðið grunnskólum landsins með þeim afleiðingum, að þeir eru að lenda á botninum í Evrópu.  Ef að er gáð, blasir við metnaðarleysið og útjöfnun (andskotans) niður á við, sem endar með því, að íslenzka grunnskólakerfið verður Júmbó Evrópu, og framhaldsskólakerfið dregur dám af því, sem frá grunnskólanum kemur. 

""Þetta er alveg grafalvarlegt."  Spurður um orsakir þessa nefnir hann, að umbúðanám, eins og hann kýs að kalla það, hafi færzt í aukana.  

"Það er nám, sem lítur vel út á pappírunum, en innihaldið er ekkert.  Það er ríkjandi allt of víða og hjálpar ekki til.  En það bitnar síðan mest á þeim, sem standa höllustum fæti.  Bitnar mest á þeim, sem hafa slakasta félagslega, fjárhagslega bakgrunninn, þeim, sem fá minnstu hjálpina heima.  Þar sem skólinn á að vera jöfnunartæki - þar bregst skólinn algjörlega.""

Þetta er harðari gagnrýni starfandi skólamanns á skólakerfið en höfund rekur minni til að hafa barið augum.  Hún passar við það, sem höfundur hefur séð nýlega til skólakerfisins (sem afi).  Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur á drjúgan þátt í metnaðarleysinu, sem hrjáir skólakerfið, eða hvað segja menn um eftirfarandi holtaþokuvæl í aðalnámskrá leik- og grunnskóla frá 2011, þar sem læsi á að heita  skilgreint á eftirfarandi hátt, en textinn uppfyllir ekkert skilyrða fyrir skilgreiningu, heldur er algerlega út og suður og fjarri því að vera leiðbeinandi sem færnimælikvarði á læsi:

"Meginmarkmið læsis er, að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því, sem þeir lesa, með hjálp þeirra miðla og tækni, sem völ er á."

Þarna er sullað saman fjölmörgum óskyldum atriðum, sem eru gagnslausir við mat á læsi nemandans. Hvernig væri eftirfarandi viðmiðun ?:  Lesfærni spannar bæði leshraða og lesskilning.  Lesfærni nemanda telst ágæt (hæsta ágætiseinkunn), ef hann getur lesið rétt a.m.k. n orð á 3 mínútum og endursagt textann merkingarlega án vantana í töluðu eða rituðu máli á 6 mínútum.  Síðan má kvarða endurgjöf niður á við, eftir því sem fleiru er áfátt. 

"Tæknin er orðin þannig, að þú getur púslað saman verkefni, sem lítur út fyrir að vera gott, þó að þú vitir eiginlega ekki neitt."

Þarna er hættan, og hún steðjar að öllum þjóðum, þar sem tölvu- og símanotkun er orðin útbreidd.  Ef marka má niðurstöðu PISA, hafa aðrar þjóðir haft meiri vara á sér en Íslendingar og ekki hundsað grundvallar þekkingaröflun.  Þegar nám er orðin sýndarmennska eða umbúðir utan um loftið eitt, þá er ekki seinna vænna að staldra við. Lélegar leiðbeiningar til kennara á borð við þokukennd plögg frá menntamálaráðuneytinu, vöntun á prófum og metnaðarleysi í skólakerfinu, leggjast á eitt og úr verður handónýtt grunnskólakerfi. 

 "Á sama tíma séu grunnatriði námsins og sterkari grundvöllur frekara náms virt að vettugi í kennslu.  

"Þessi grunnhugsun um hvað nám gengur út á, orðaforða og hugtakaskilning, það þykir bara ekkert fínt.  En orðaforði er algjör grunnur að öllum greinum.""

Kennara virðist vanta skýr viðmið, og þeir hafa ekki hugmynd um, hvar þeir eru staddir með nemendur sína í samanburði við aðra skóla. Úr þessu má bæta með almennilegri námskrá, fleiri samræmdum prófum, og það á að birta skólum og nemendum alla þá tölfræði, sem unnt er að vinna úr niðurstöðunum, þótt eitthvað annað sé ríkjandi viðhorf innan OECD.

Í lokin gaf aðstoðarskólastjórinn til kynna, að eftir þessa útreið þyrfti einhver, sem ábyrgð ber á þessu meingallaða menntakerfi, að axla sín skinn.  Í þessu kerfi kunna viðkomandi þó ekki að skammast sín.

"Ef eitthvert fyrirtæki sýndi þennan árangur, þá væri einfaldlega búið að láta alla fara.  Þetta er bara ekki boðlegt.  Að bjóða börnum upp á þetta í 10 ára skyldunámi."

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 15. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband