18.12.2023 | 17:44
Hvernig var hægt að eyðileggja grunnskólann - og hvers vegna ?
Þegar höfundur gekk í grunnskóla, var öldin önnur. Námið hófst í sjálfseignarstofnuninni Skóla Ísaks Jónssonar í Hlíðunum í Reykjavík, enda bjó fjölskylda höfundar þá í Eskihlíðinni. Lestrarkennsluaðferðin þótti foreldrum nýstárleg og framandi. Hún var nefnd hljóðlestur og var kveðið að og hafði hver bókstafur sitt hljóð. Af þessum sökum var aðstoð við lestrarnámið heima við takmörkuð, en það kom ekki að sök, því að mjög góður kennari í skólanum sá vel um nemendur, sem þó voru af misjöfnu sauðahúsi.
Strax var líka hafizt handa við að kenna skrift, reikning og teikningu. Fyrir alla vinnu var veitt umbun, hálf stjarna, heilstjarna eða 2 stjörnur, og einkunn var gefin fyrir frammistöðuna strax á fyrsta ári. Allt var þetta örvandi og efldi vilja til að standa sig vel í samanburðinum og veitti foreldrum yfirsýn.
Íslenzka skólakerfið hefur síðan orðið fórnarlamb ábyrgðarlausrar tilraunastarfsemi, sem eftir á að hyggja virðist hafa verið hreinræktað fúsk, því að afraksturinn er miklu ófróðari nemendur en áður og nemendur, sem engan veginn standast jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum og víðar snúning í færni á mikilvægum sviðum. Öðru vísi mér áður brá. Það er auðvitað eftir öðru, að ríkisvaldið, sem þessu stjórnar, stendur hvumsa og hefur engin raunhæf umbótaáform á takteinum. Hvernig væri hreinlega að játa mistökin, stokka upp og leita faglegrar ráðgjafar, hvar sem hana er að finna á meðal þeirra, sem vel hafa staðið sig á PISA ?
Auðvitað verður að gæta þess, að menningarheimar eru ólíkir, og sinn er siður í hverju landi. Það er þó klárt, að meiri kröfur verður að gera til nemenda um þekkingaröflun og hana verður að mæla reglubundið, bæði innan skóla og á samræmdum prófum á landsvísu. Svara verður þeirri spurningu, hvernig blöndun nemenda með ólíka frammistöðu í deildir hefur tekizt, hver er árangur hennar, og hverjar eru afleiðingarnar fyrir kennara og nemendur m.t.t. álags í starfi og námsárangurs nemenda.
Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur skrifað af viti um íslenzka skólakerfið og PISA. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 02.12.2023, áður en niðurstaða PISA 2022 var birt, undir fyrirsögninni:
"OECD PISA - Vísindalegt læsi".
Hún hófst þannig:
"Fátt bendir til, að viðsnúningur muni sjást í árangri íslenzkra unglinga, þegar niðurstöður OECD PISA munu birtast okkur hinn 5. desember n.k. Íslenzkum þátttakendum á síðasta ári skyldunáms hefur hrakað jafnt og þétt frá upphafi PISA-mælinganna árið 2000, einkum í náttúruvísindum og almennum lesskilningi. Árið 2018 mældist Ísland neðst á Norðurlöndum og undir meðaltali OECD. Að auki hefur íslenzkum nemum farið fjölgandi, sem lenda undir hæfniþrepi 2, og þeim fækkar, sem ná afburðahæfni á þrepum 5 eða 6. Viðvörunarbjöllurnar hafa því ómað um nokkurt skeið, sbr skýrslur OECD (PISA og TALIS) síðustu ára, Eurodice og fleiri gögn."
Skólakerfið íslenzka er ein rjúkandi rúst, eftir að illa gefnir sósíalistar hafa farið um það höndum, drepið þar niður allan metnað og gert foreldrum og öðrum örðugt um vik að fylgjast með námsárangri barnanna, því að próf má helzt ekki nefna lengur, og þess vegna skortir íslenzka PISA-þátttakendur það, sem kalla má próftækni, sem kemur sér vel síðar á lífsleiðinni í atvinnuviðtölum, og þegar skila þarf af sér tilteknu verkefni innan ákveðins tíma. Sósíalistarnir halda því fram, að prófin trufli skólastarfið, en þau, þ.m.t. skyndiprófin, eru eðlilegur þáttur í náminu. Það segir sína sögu um gæðarýrnunina, sem átt hefur sér stað í skólakerfinu, að afburðanemendum hefur fækkað hlutfallslega mest. Þeir komu vanalega úr öllum stéttum þjóðfélagsins, og skólakerfið hefur nú svikið þá um tækifæri til að njóta sín og svikið um leið samfélagið um að njóta krafta þeirra, sem dregið geta verðmætasköpunina áfram. Án þeirra mun einfaldlega kakan aldrei geta orðið jafnstór og ella, sem til skiptanna er.
"Því miður verður ekki sagt, að stefnumótun í menntamálum hérlendis hafi byggzt á langtíma sjónarmiðum. Sífelldar skyndibreytingar á námsskrám, námsefni og námsmati hafa líkzt öfgahreyfingum pendúls í takti við ólíkar stefnur pólitískt kjörinna ráðherra."
Þarna lýsir Meyvant fúski og ábyrgðarleysi yfirstjórnar menntamála í tímans rás. Þetta hringl með menntastefnuna er skaðlegt, enda eru ábyggilega ýmsar ástæður fyrir hinni hrikalegu útreið, og ekki virðist núverandi yfirstjórn líkleg til að sigla skútunni gegnum skerjagarðinn klakklaust.
""Síðasta menntastefnubreytingin kom í kjölfar efnahagshrunsins með tilkomu svo nefndra grunnþátta og andstöðu við hefðbundnar námsgreinar. "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska." (Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.)"
Þarna var Katrín Jakobsdóttir að verki, alger fúskari með miklar hugmyndir um sjálfa sig, sem snýr einfaldlega öllu á haus í aðalnámskrá með þeim afleiðingum, að skólinn hætti að vera menntastofnun og varð geymslustaður ungviðis. Ef það varð ekki lengur hlutverk kennaranna að kenna nemendum námsgreinar, þá var náttúrulega fokið í flest skjól og afleiðingin fyrirsjáanleg.
"Undirritaður [Meyvant] telur menntun reyndar óhugsandi án námsgreina á borð við náttúruvísindi, sem eru reyndar án nokkurs vafa lykilnámsgrein til að mennta nemendur, koma þeim til þroska og búa þá undir líf og starf í nútímaþjóðfélagi. Þetta hafa fjölmargir sérfræðingar bent á með gildum rökum. Þrátt fyrir það hafa náttúruvísindi átt undir högg að sækja í íslenzku skólakerfi alla síðustu öld og fram á okkar daga í samanburði við húmanískar greinar. Samkvæmt úttekt OECD fyrir tæpum 40 árum þótti íslenzka námskráin skera sig úr vegna mikils tíma, sem hér væri varið í kennslu móðurmáls á kostnað náttúruvísinda (OECD, 1987, bls. 23). Sú staða hefur ekki breytzt."
Það sýnir, hversu lítið aðhald er að mistækum ráðherrum, að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, skyldi komast upp með að snúa öllu á haus í aðalnámskrá grunnskóla án þess að hafa hugmynd um, hvað hún var að gera, og eyðileggja þar með þetta skólastig. Ríkisvald lýðveldisins er því hættulegt. Það er rétt hjá Meyvant, að steingelt húmanistískt stagl tók of langan tíma á kostnað t.d. eðlisfræði og efnafræði í grunnskóla í gamla daga.
"Í nýlegum gögnum OECD (2018) og Eurydice (2022) kemur fram, að hlutfall náttúruvísinda á unglingastigi er lægst hér [á] meðal Evrópulanda. Menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 fylgdi tillaga um að auka þetta hlutfall á unglingastigi úr 8 % í 11 %, og færa þannig vægi þessa mikilvæga námssviðs nær því, sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. Viðvarandi slakt gengi í PISA var jafnframt nefnt sem rök með breytingunni. Þegar tillagan birtist í samráðsgátt, reyndust mótbárur svo ákafar, að tillagan missti óðara flugið; síðan hefur ekki til hennar spurzt."
Þarna sést, hvað við er að eiga. Sósíalistar og jafnaðarmenn eru búnir að draga námsgæðin niður fyrir það, sem þekkist í nágrannalöndunum, og þegar á að reyna einhverjar mótvægisaðgerðir, er því borið við, að ekki sé til nóg af menntuðum kennurum á raungreinasviði. Það er nóg til af raunvísindamönnum, sem geta hlaupið undir bagga, á meðan kennarar afla sér nauðsynlegrar menntunar. Nú dugir enginn bútasaumur, heldur róttækar endurbætur í átt að fyrirkomulagi hinna Norðurlandanna, en ekki róttækni út í loftið, eins og hjá tækifærissinnanum Katrínu Jakobsdóttur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)