"Þetta frumvarp boðar ekki lausn neins vanda"

Málsgreinina í fyrirsögn þessa pistils hefur Morgunblaðið (Ólafur E. Jóhannsson) eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).  Á hún við frumvarp matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um opinber afskipti af sjávarútveginum, sem enginn hefur beðið hana um, en það er árátta hennar sem ráðherra að reyna að setja klóför sín og hins óstjórntæka flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, á þá málaflokka, sem henni hefur illu heilli hverju sinni verið falin ráðsmennska yfir í ráðuneyti. 

Þessi sósíalistíski stjórnmálamaður hefur um árabil baknagað þessa atvinnugrein og með aumkvunarverðum hætti reynt að níða skóinn ofan af þessari myndarlegu grundvallar atvinnugrein landsmanna, og nú heldur hún því ranglega fram, að óánægja landsmanna sé orðin svo mikil með sjávarútveginn, að hún sem ráðherra sjái sig knúna í nafni þjóðarinnar til að hefjast handa gegn honum.  Þetta er dæmigert fleipur sósíalistísks loddara.  Stjórnlyndir stjórnmálamenn nota þessa sjúklegu aðferð, þegar réttlæta þarf skemmdarverk ríkisvaldsins á atveinnugreinum, innviðum og jafnvel lýðræðislegum grunnstoðum samfélagsins.

Loddarinn Svandís Svavarsdóttir hóf þessa vegferð sína með því að beita Samkeppniseftirlitinu fyrir vagn ráðuneytisins við umfangsmikla upplýsingasöfnun um hluthafa sjávarútvegsfyrirtækja, samþykktir hluthafafunda, og hvernig hluthafar vörðu atkvæði sínu á hluthafafundum.  Þetta var fáheyrð hnýsni ríkisvaldsins í málefni, sem því kemur ekki við, enda var þessi dæmalausa yfirtroðsla kærð og sósíalistinn gerð afturreka með ólögmætan gjörning sinn.  Þessi ráðherra virðir ekki sjálfsögð valdmörk sín og opinberar sig þannig sem dómgeindarlausa.

Ráðherrann skipaði fjölmennar nefndir til undirbúnings frumvarpssmíði og þóttist vera að efna til víðtæks samráðs, en þetta var hrein sýndarmennska af hálfu sósíalistans til að ljá óþörfum og skaðlegum fyrirætlunum sínum réttmætisstimpil.  Frumvarpinu má líkja við ljótar umbúðir utan um skattahækkanir, sem hvergi sér stað í stjórnarsáttmálanum.  Óheilindi þessa sósíalista eru legíó.

Ólafur E. Jóhannsson setti þetta ógæfuspor ríkisvaldsins í sviðsljós Morgunblaðsins 5. desember 2023 undir fyrirsögninni:

"Treystir hvorki sátt né samkeppnishæfni".

Umfjöllunin hófst þannig:

""Ef markmið ráðherra og stjórnvalda var það að teysta samkeppnishæfni sjávarútvegs og stuðla að aukinni sátt um atvinnugreinina, þá held ég, að það frumvarp, sem nú er fram komið, treysti hvorugt".

Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við Morgunblaðið, en hún var spurð álits á fram komnu frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveg.  Þar er safnað saman í einn bálk þeim lögum, sem gilda um sjávarútveg og ýmsar breytingar lagðar til frá gildandi regluverki." 

Þetta er einn af fjölmörgum göllum við að hleypa forræðishyggjufólki inn í stjórnarráðið.  Það vill stöðugt vera að fikta í atvinnuvegunum, þótt það hafi ekki gripsvit á því, sem þar fer fram.  Sósíalistar líta reyndar á atvinnuvegi sem mjólkurkýr fyrir hið opinbera.  Aðgerðir þeirra draga óhjákvæmilega kraftinn úr atvinnulífinu til fjárfestinga, til að laða til sín fjármagn,  til að borga laun og til að stunda markaðssetningu.  Undantekningarlaust leitast Svandís Svavarsdóttir við að kasta sandi í tannhjólin í algjörum skorti á yfirsýn um afleiðingarnar. Það er hið versta mál fyrir þjóðina, sem vonandi hleypir þingmannsefnum VG ekki oftar inn á þing. 

 "Ástæður þess eru fyrst og síðast þær, að fæstar þeirra tillagna, sem gerðar eru til breytinga á lagaumhverfi sjávarútvegs, eru til þess fallnar að treysta samkeppnishæfni eða ná fram varanlegum útflutningsvexti, sem hlýtur að vera grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta til ábata fyrir alla landsmenn.  Frumvarpið leggur fátt til þar, og síðan liggur nú þegar fyrir, að öll samtök hagsmunaaðila í sjávarútvegi ásamt öllum stéttarfélögum félagsmanna, sem starfa í greininni, hafa lýst yfir vonbrigðum með þá vinnu, sem unnin var í aðdraganda þessa frumvarps. Því vænti ég þess, að allir þeir aðilar hafi efasemdir um þær tillögur, sem fram eru komnar", segir Heiðrún Lind."

  Brambolt matvælaráðherra er ekki í þágu lands og þjóðar, og útgerðirnar lenda í ofsköttunarkrumlu sósíalismans, jafnvel tvísköttun, ef frumvarp giftusnauðs sósíalistans verður að lögum.  Hún siglir undir fölsku flaggi, eins og eru ær og kýr þessa öfgahóps.  Það á að heita, að efnt sé til víðtæks samráðs, en á endanum er bara um að ræða atlögu sósíalistans að vel rekinni atvinnugrein, sem gengið hefur vel, síðan hún losnaði úr klóm ríkisins.  Sósíalistinn ætlar að koma henni á kné.  Það má heita hneyksli, ef þetta er ríkisstjórnarfrumvarp.  

""Það var farið af stað með mikið og stórt verkefni og miklar yfirlýsingar gefnar um að leggja af stað í mikla vinnu, mikið samráð og samtal í aðdraganda þess að smíða heildarfrumvarp um sjávarútveg, og allir þessir aðilar eru sammála um, að þar hafi ekki vel tekizt til, því [að] samráðið var lítið sem ekkert", segir Heiðrún Lind.

Spurð um, hvaða atriði það séu í frumvarpinu, sem samtökin finni helzt að, segir hún, að mestu efasemdirnar lúti að 4 þáttum:

Þannig hafi verið niðurstaða vinnuhópsins, sem starfaði undir formerkjunum "Auðlindin okkar", að aflamarkskerfið væri það kerfi, sem styðjast ætti við, enda hefði almennt farnazt vel í því kerfi.  Eigi að síður sé í frumvarpinu farin sú leið að leggja ýmsar lykkjur í því kerfi undir yfirskini einhvers konar umhverfisverndarsjónarmiða." .... 

Það er alvarlegt mál, að við völd á Íslandi skuli vera ráðherra með slíka persónuleikabresti, að hún ástundar fullkomin óheilindi og blekkingahjúp í störfum sínum og er að róta í lagaumgjörð atvinnugreinar, sem stendur sig vel á heimsmælikvarða og hún þekkir hvorki haus né sporð á. 

Að beita fyrir sig umhverfissjónarmiðum til að valda tjóni á grein, sem er þekkt af góðri umgengni við fiskveiðiauðlindina (með fáum undantekningum) sýnir svikult eðlið, þegar efla á sósíalismann í sessi. 

""Sjálfbær nýting auðlindarinnar er því ekki lengur í forgrunni, en verið að þvæla inn í frumvarpið meiri verndarsjónarmiðum, sem hafa má áhyggjur af.  Það er ekki útskýrt, hvaða efnislegu þýðingu það hefur, og hvort það hafi einhver áhrif á sjávarútveginn, eins og hann er í dag", segir Heiðrún Lind."  

Þetta er alveg dæmigerð lýsing á afleitum og óskynsamlegum vinnubrögðum stjórnlyndra stjórnmálamanna við lagasetningu.  Að þvæla inn einhverjum hugðarefnum þekkingarlauss fólks á viðkomandi atvinnugrein, sem eru aðeins til þess fallin að flækja lögin og gera þeim, sem við greinina  starfa, lífið leitt.  Það er engin vitglóra í vinnubrögðum Svandísar Svavarsdóttur og hafa aldrei verið.  Áfram heldur hún þó við að draga lífskjörin í landinu niður.  

 

                                     

 

    

 


Bloggfærslur 24. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband